Opin og gagnsæ stjórnsýsla

Ríkisstjórnin, sem lýsti því yfir við valdatöku sína, að framvegis yrði stjórnsýslan opin og gagnsæ, hefur haldið fréttamannafundi vikulega á þriðjudögum, án þess að segja frá nokkru markverðu, sem stjórnin hyggst gera í efnahagsmálunum, hvað þá að nokkrar upplýsingar hafi verið gefnar um Icesave viðræður. 

Reyndar sagði fjármálajarðfræðingurinn fyrir nokkuð löngu síðan að búast mætti við glæsilegum niðurstöðum í Icesave málinu fljótlega.  Hann dró það svo til baka viku síðar og ekkert hefur frést af málinu, fyrr en farið er að ræða um það í breska þinginu og þá kemur þetta fram: 

„Það er forgangsmál að íslensk stjórnvöld borgi. Þess vegna eigum við í samningum við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn  og önnur stjórnvöld um hversu hratt Ísland geti endurgreitt það tap, sem landið ber ábyrgð á," sagði Brown.

Eru Bretar að semja við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn um skuldir Íslendinga?  Við hvaða önnur stjórnvöld eru Bretar að semja um þessar sömu skuldir?

Það er kominn tími til að þessi dáðlausa ríkisstjórn fari að upplýsa þjóðina um þessi mál og önnur.

NÚNA. 

 


mbl.is Forgangsmál að Íslendingar borgi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nýjir tímar - aftur?

"Nýir tímar boða til mótmæla við Alþingishúsið klukkan 13 á morgun vegna aðgerðarleysis íslenskra stjórnvalda gagnvart stöðu heimilanna í landinu, að því er segir í tilkynningu."

Þetta eru sömu samtökin og efndu til sigurhátíðar þann 30. janúar s.l., þar sem þau töldu markmiðum sínum náð, þ.e. að hræða Smáflokkafylkinguna úr þáverandi ríkisstjórn og ganga til nýrrar með vinstri grænum, eins og sjá má á heimasíðu samtakanna hér

Á milli útifunda voru kröfuspjöld og annað mótmæladót geymt á skrifstofu vinstri grænna, enda stóðu þeir á bak við mótmælin (ásamt fleirum), eins og öllum er kunnugt.  Borgarahreyfingin var hluti þessara mótmælenda, þrátt fyrir að á heimasíðunni megi finna þessa setningu:  "Hjá „Nýjum tímum“ göngum við þvert á allar pólitískar flokkslínur og neitum að vera grundvöllur fyrir pólitískt framapot."

Vonandi verður skrifstofa vinstri grænna opin á morgun, svo mótmælendur geti endurnýtt gamla mótmæladótið, enda er það í takti við vistvæna stefnu vinstri grænna í umhverfismálum.


mbl.is Boðað til mótmæla á morgun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dómínóáhrif

Spá seðlabankans um lækkun íbúðaverðs getur haft víðtæk dómínóáhrif, því enginn mun vilja kaupa íbúð næstu tvö ár, en mjög margir munu reyna að selja sem fyrst, þ.e. áður en verðið lækkar meira.  Þeir, sem búa í yfirveðsettum íbúðum, munu auðvitað ekki geta selt og búa því í þeim áfram, en aðrir, sem t.d. vildu minnka við sig munu reyna að selja, leigja svo um tíma og kaupa aftur þegar verð lækkar.

Þannig getur skapast ákveðinn vítahringur á fasteignamarkaði, sem slíkir spádómar ýta undir.  Hitt er auðvitað rétt, að fasteignaverð var komið langt út fyrir öll vitræn mörk, því á tímabili hækkaði íbúðaverð um 40% á sama tíma og byggingavísitala hækkaði um 4%.  Á því tímabili yfirbuðu fasteignakaupendur hvorn annan eins og verið væri að bjóða í síðustu fölu fasteignina í landinu. 

Nú er sú bóla sprungin og þeir sem hæst spenntu bogann sitja í súpunni um tíma, en allt mun þetta jafna sig aftur eftir nokkur ár, þegar eðlilegt ástand kemst á aftur.

Framundan gæti verið verðhjöðnun og þá munu verðtryggðu lánin fara að lækkandi, sem kemur aðeins upp á móti lækkandi verði.


mbl.is 46% raunlækkun fasteigna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þumalskrúfa á ríkisstjórnina

Samkvæmt Peningamálum seðlabankans eru stýrivextir aðeins lækkaðir um 2,5% núna til að setja þrýsting á ríkisstjórnina um verulegan niðurskurð ríkisútgjalda núna strax og ekki síður á næstu þrem árum.  Þó það sé ekki nefnt beinum orðum, þarf þessi niðurskurður að vera "blóðugur" og nema a.m.k. 60 milljörðum króna á ári, fram til 2013.

Í Peningamálum kemur fram að:  "Peningastefnunefndin gerir einnig ráð fyrir að aðhald í ríkisfjármálum verði aukið í sumar. Gert er ráð fyrir verulegum niðurskurði útgjalda hins opinbera og að skattar verði hækkaðir, auk annarra tekjuaukandi aðgerða sem kæmu til framkvæmda í áföngum fram til ársins 2011. Gert er ráð fyrir að jöfnuður náist í rekstri ríkisins árið 2012 og að þannig skapist forsendur fyrir hægfara lækkun skulda ríkissjóðs."

Til að gulltryggja, að ríkisstjórnin skilji hvað bankinn (og AGS) eru að meina, er hnykkt á með því, sem bæði getur hljómað sem loforð og hótun:  "Verði gengisþróun krónunnar og aðgerðir í fjármálum hins opinbera eins og nú er gert ráð fyrir, væntir peningastefnunefndin þess að stýrivextir verði lækkaðir umtalsvert til viðbótar eftir fund nefndarinnar í júní, enda verði þá komin til framkvæmda fleiri skref í efnahagsáætluninni. Eftir það gerir nefndin ráð fyrir hægari lækkun stýrivaxta."

Í stjórnarmyndunarviðræðunum hefur fólk verið látið halda að ESB málið hefði verið að vefjast fyrir, en það er eingöngu blekking.  Tíminn hefur farið í að uppfylla skilyrði AGS og það hefur staðið í flokkunum.

Þegar stjórnarsáttmálinn verður kynntur um helgina, mun þetta koma í ljós.


mbl.is Umtalsverð vaxtalækkun í júní
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Væskislegt

Ekki var við að búast, að Peningastefnunefnd og norski förusveinninn í seðlabankanum, hefðu dug og þor til að lækka stýrivextina jafn mikið og þurft hefði.  Miðað við 13% stýrivexti eru raunvextir ennþá 11,6%, því verðbólgan er ekki nema 1,4% núna.  Áður en Alþjóðagjaldeyrisstjóðurinn, sem stjórnvöld fela sig á bak við í þessu efni, kom hér að málum voru stýrivextir komnir niður í 12% og þótti mönnum þá nóg um.

Eftir hrunið voru stýrivextir hækkaðir upp í 18%, þegar engin rök voru fyrir slíku, því eðlileg viðbrögð við kreppunni hefðu átt að vera skörp lækkun stýrivaxta, en ekki hækkun.  Allir seðlabankar, annarsstaðar en hér, hafa verið að lækka sína vexti, sem viðbrögð við kreppunni og eru stýrivextir annarra seðlabanka á bilinu 0,5-2%. 

Furðulegt er, ef menn álíta að hér á landi gildi einhver önnur hagfræðilögmál en annarsstaðar í heiminum.  Með þessari stefnu í vaxtamálum og vinstri stjórn í landinu, mun kreppan verða lengri og dýpri, en hún annars hefði orðið.

Allt útlit er fyrir að í haust muni seðlabankinn þurfa að grípa til seðlaprentunar til þess að reyna að koma efnahagslífinu upp úr þeirri verðhjöðnun, sem nú er útlit fyrir að taki við og er enn bölvaðri en verðbólgan.

Það er eins og allt sé reynt til að gera ástandið verra.

 


mbl.is Stýrivextir lækka í 13%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 7. maí 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband