Færsluflokkur: Bloggar
4.6.2011 | 15:06
Pólitísk réttarhöld
Það, að saksóknari Alþingis hyggist reka mál Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. á hendur Geir H. Haarde á vefsíðu embættisins, gengur fram af flestum, enda nýnæmi að reka mál bæði í réttarsal og fyrir dómstóli götunnar.
Að Geir H. Haarde skuli einum vera stefnt fyrir Landsdóm og ákærður fyrir óljósar og matskenndar sakir, er hneyksli út af fyrir sig og líklega ekki við öðru að búast en að málareksturinn verði í samræmi við það.
Landsdómur hefur aldrei verið kallaður saman fyrr til þess að dæma um "glæpi" ráðherra og því alveg með ólíkindum að þegar það er svo gert, skuli það vera vegna pólitísks hefndarþorsta eintakra ofstækismanna, sem reyna þannig að ná sér niðri á pólitískum andstæðingi.
Fordæmið hefur verið gefið og strax við næstu stjórnarskipti hlýtur að mega gera ráð fyrir að a.m.k. Jóhönnu Sigurðardóttur og alveg sérstaklega Steingrími J. verði stefnt fyrir Landsdóm vegna þeirra svika og óhæfuverka, sem þau hafa unnið gegn þjóðinni á þessu kjörtímabili.
Nægir að nefna Icesave og vogunarsjóðavæðingu bankanna á kostnað skuldugra heimila sem ástæðu til stefnu fyrir Landsdóm.
![]() |
Saksóknari tapað áttum? |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
4.6.2011 | 07:47
Ómarktækur seðlabanki
Seðlabankinn er sú stofnun sem á að halda utan um ýmsar tölulegar upplýsingar um stöðu þjóðarbúsins og gefur jafnframt út spár um fjárhagslega framtíð þjóðarbúsins og afkomu þess.
Á undanförnum misserum hefur seðlabankinn sagt að erlendar skuldir þjóðarbúsins væru ekki hærri en svo, að jafnvel þó ríkissjóður tæki á sig stórkostlegar skuldbindingar vegna Icesave, þá væri staðan vel viðráðanleg og myndi ekki setja peningalega stöðu þjóðarinnar í neina hættu.
Reiknimeistarar seðlabankans eru þó ekki nákvæmari í útreikningum sínum en það, að þeir hafa vanmetið erlendu skuldastöðuna um tæplega 100%, eða eins og segir í fréttinni: "..að hreinar erlendar skuldir þjóðarbúsins, að gömlu bönkunum undanskildum, voru til að mynda um 827 milljarðar á fjórða ársfjórðungi 2010 í stað þeirra 434 milljarða sem áður hafði verið gert ráð fyrir."
Svona skandall í útreikningum á lykiltölum í þjóðarbúskapnum myndi í öllum siðmenntuðum löndum leiða til afsagnar seðlabankastjórans og annarra lykilmanna bankans sem eiga að bera ábyrgð á trúverðugleika hans.
Héðan í frá verður að taka allt sem frá seðlabankanum kemur með mikilli varúð, enda ekki hægt að treysta neinu sem þaðan kemur, miðað við þetta hneyksli sem upp er komið vegna vitleysunnar um erlendu skuldirnar.
![]() |
Skuldir þjóðarbúsins mun hærri |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
3.6.2011 | 16:32
Ótrúleg handarbakavinna í kvótamálunum
Mánuðum og misserum saman hafa frumvörp um fiskveiðistjórnun og veiðiheimildir velkst á milli stjórnarflokkanna, án þess að nokkurt raunverulegt samkomulag hafi náðst um útfærslur þessara mála.
Í algerri örvæntingu vegna komandi þingloka samþykkti stjórnin svo að sjávarútvegsráðherra skyldi leggja frumvörpin fyrir þingið, en með fylgdu yfirlýsingar ýmissa stjórnarþingmanna um að þau væru aðeins lögð fram til umræðu og umfjöllunar í þinginu og nefndum þess og þar yrði þau lagfærð og þeim breytt í viðunandi og nothæft form.
Málin eru lögð fram án þess að nokkur úttekt hafi verið gerð á áhrifum þeirra á sjávarútveginn sjálfan og hvað þá þjóðarhag, en fyrstu viðbrögð bæði samtaka útgerðarmanna og sjómanna sýna svart á hvítu efasemdirnar um hagkvæmnina og greinilega verður engin sátt í þjóðfélaginu um þær útfærslur, sem frumvörpin gera ráð fyrir.
Í fréttinni segir m.a: "Jón mælti fyrir frumvarpinu án þess að hagfræðinganefnd, skipuð af ráðherranum vegna málsins, hafi verið búin að skila af sér áliti nefndarinnar."
Burtséð frá áliti fólks á núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi hljóta allir að viðurkenna að svona vinnubrögð séu algerlega forkastanleg og óboðleg.
![]() |
Álit nefndar í næstu viku |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.6.2011 | 13:57
Bíræfnir hvalaskoðunarmenn
Það verður að teljast ótrúleg ósvífni af samtökum hvalaskoðunarfyrirtækja að taka upp formlegt samband við Alþjóðlega dýraverndunarsjóðinn (IFAW) í því skini að berjast gegn annarri atvinnugrein í landinu.
Í fréttinni segir þetta m.a: "IFAW mun taka höndum saman með Hvalaskoðunarsamtökum Íslands, Icewhale, og hvetja ferðamenn til að fara í hvalaskoðunarferðir en sleppa því að leggja sér hvalkjöt til munns á veitingastöðum."
Að ein atvinnugrein skuli taka höndum saman við erlend samtök um að berjast gegn bæði hvalveiðum og neyslu hvalaafurða á veitingastöðum landsins, er svo yfirgengilegt að íslenskur almenningur verður að berjast gegn slíkum yfirgangi og öfgum.
Hvalveiðar, hvalaskoðun og neysla hvalkjöts getur vel farið saman og hefur það sannast t.d. við Reykjavíkurhöfn, þar sem veitingahús bjóða upp á hvalkjöt við bryggjusporðinn þar sem hvalaskoðunarfyrirtækin stunda sína starfsemi. Ferðamönnum þykir forvitnilegt að sjá hvalina úti á rúmsjó og smakka síðan afurðirnar þegar í land er komið.
Nóg er um öfgarnar í þessu þjóðfélagi, þó einstakar atvinnugreinar taki ekki upp samstarf við erlenda aðila og lýsi yfir stríði við aðrar greinar atvinnulífsins, þar á meðal þau fyrirtæki sem þjónusta viðskiptavini hvalaskoðunarfyrirtækjanna.
![]() |
Ferðamenn skoði hvali en borði þá ekki |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
2.6.2011 | 13:33
Árás "Velferðarstjórnarinnar" á lífeyrisþega
Nýjasta afurð hugmyndabanka Jóhönnu og Steingríms J. í skattageggjuninni er að leggja aukaskatta á lífeyrisþega, með því að skerða greiðslur til þeirra með aukaskatti á lífeyrissjóðina til að fjármagna "sérstaka niðurgreiðslu vaxta" vegna húsnæðisskulda.
Stjórn Landssambands eldri borgara bendir á það, í ályktun sinni, að lífeyrissjóðirnir "eiga" engar peninga, heldur eru þeir í raun aðeins tæki til að halda utan um réttindi sjóðfélaga, sjá um að ávaxta iðgjöld þeirra og greiða út lífeyri í hlutfalli við áunnin réttindi hvers og eins.
Við útgreiðslu er lífeyrir skattlagður eins og aðrar tekjur og því liggur í augum uppi, allra annarra en ráðherranna skattaóðu, að þessi nýjasta skattaáþján þeirra er ekkert annað en ódulbúinn aukaskattur á elli- og örorkulífeyrisþega og verður ekki til neins annars en að rýra tekjur þeirra í framtíðinni.
"Velferðarstjórnin" stendur sannarlega ekki undir nafni í þessu máli, frekar en öðrum.
Hvers eiga lífeyrisþegar að gjalda, til viðbótar við aðrar árásir þessarar stjórnar á kjör þeirra?
![]() |
Eldri borgarar mótmæla lífeyrisskatti |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
2.6.2011 | 11:18
Skattahækkanabrjálæðið í hnotskurn
Félag íslenskra bifreiðaeigenda hefur marg bent á skattahækkanabrjálæðið sem yfir bifreiðaeigendur, sem auðvitað eru flestir fullorðnir Íslendingar, hefur dunið undanfarin tvö ár og forsvarsmenn félagsins ítrekað farið fram á að einhverjar þessara hækkana verði dregnar til baka.
Steingrímur J. hefur svarað þeirri beiðni með útúrsnúningum og t.d. sagt að hann ráði ekki heimsmarkaðsverði á olíu og ekkert muni um nokkurra krónu lækkun olíu- og bensínskatta vegna hins háa innkaupsverð. Ríkissjóður hirðir nú um 115-120 krónur í skatta af hverjum bensínlítra, en ekki er langt síðan útsöluverðið á hverjum lítra fór upp fyrir 100 krónur á lítrann. Þá voru skattarnir u.þ.b. 40 krónur á líterinn, þannig að skattahækkunin í krónum talið er langt á annað hundrað prósentið síðan þar var. Þó skattarnir væru lækkaðir um allt að 50 krónum á hvern líter, væru skatttekjur ríkissjóðs samt sem áður umtalsvert meiri en þær voru fyrir t.d. tveim árum.
Skattabrjálæðið lýsir sér vel í eftirfarandi tölfræði frá Vegagerðinni: "Gífurlegur samdráttur er í umferð á þjóðveginum á Hellisheiði milli ára. Þetta kemur fram í nýjum tölum Vegagerðarinnar en samkvæmt þeim fóru 22% færri bílar um veginn í maí en í sama mánuði í fyrra.Sé litið á þróunina eftir landshlutum kemur í ljós að samdrátturinn milli mánaða er mestur á Suðurlandi eða 19,9%, 15,1% á Vesturlandi, 13,4% á Norðurlandi, 12,7% á Austurlandi og 4,5% á höfuðborgarsvæðinu."
Samkvæmt spá Vegagerðarinnar verður metsamdráttur í umferðinni á þessu ári og auðvitað er skýringin engin önnur en skattahækkanabrjálæðið og sá minnkandi kaupmáttur sem því fylgir.
Ofan á þetta bætist svo allt annað brjálæði í skattheimtu sem yfir landslýð hefur dunið á undanförnum tveim árum og boðað er áframhaldandi, með tilheyrandi áhrifum á kaupmátt almennings og koðnun atvinnulífsins, sem aftur speglast í litlum sem engum efnahagsbata og framlengingu kreppunnar.
![]() |
Gífurlegur samdráttur í umferð |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
1.6.2011 | 19:54
Andrés hefur unnið þrekvirki með Skólahreysti
Þegar Andrés Guðmundsson, fyrrv. kraftakarl, stofnaði til íþróttakeppni með nýstárlegu sniði, undir nafninu Skólahreysti, á milli efstu bekkja grunnskólanna tóku aðeins nokkrir skólar þátt og fáir reiknuðu með að hugmyndin og framkvæmdin yrðu langlíf.
Á þeim tiltölulega fáu árum sem keppnin hefur verið haldin, hefur henni vaxið fiskur um hrygg ár frá ári og nú er svo komið að flestir grunnskólar landsins taka þátt í henni og áhugi krakkanna er gríðarlega mikill, eins og sést hefur í útsendingum sjónvarpsins undanfarna vetur.
Skólahreysti hefur nú vakið athygli erlendis og var haldið kynningarmót í Finnlandi, þar sem sigurvegar síðast liðins vetrar, lið Holtaskóla, tók þátt og vann glæsilegan sigur, þó það sé í raun ekki aðalatriði málsins, heldur sú landkynning sem í þessu framtaki felst.
Andrés Guðmundsson og eiginkona hans hafa unnið algert þrekvirki með uppbyggingu þessarar keppni og greinilega eflt íþróttaáhuga grunnskólanema til mikilla muna.
Þetta er ein af fáum góðum og jákvæðum fréttum á þessum síðustu og verstu tímum.
![]() |
Holtaskóli sigraði í skólahreysti í Finnlandi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
31.5.2011 | 19:37
Alltaf jafn snöggir, þingmennirnir
Þann 12. apríl 2010 skilaði Rannsóknarnefnd Alþingis skýrslu sinni um aðdraganda falls bankanna og hverjir bæru þar mesta sök, en niðurstaða nefndarinnar var að ótvírætt bæru eigendur og stjórnendur bankanna aðalábyrgðina, enda eru þeir flestir eða allir með stöðu sakborninga hjá embætti sérstaks saksóknara.
Nú hefur Allsherjarnefnd Alþingis lagt fram tillögu um að sambærileg rannsókn skuli fara fram vegna hruns sparisjóðakerfisins í landinu, eða eins og segir í greinargerð nefndarinnar með tillögunni: "Þrátt fyrir þessi miklu áföll innan sparisjóðakeðjunnar á síðustu árum er ekki fjallað sérstaklega um málefni sparisjóðanna í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um aðdraganda og orsök falls íslensku bankanna 2008. Þar er þó bent á að það verðskuldi slíka rannsókn. Undir það tók síðan Alþingi með samþykkt framangreindrar þingsályktunartillögu þingmannanefndar sem fjallaði um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis."
Þingmannanefnd Atla Gíslasonar, sem vitnað er til í lokasetningunni hér að framan, skilaði sínum niðurstöðum í fyrrasumar, þannig að það hefur tekið Alsherjarnefnd Alþingis ótrúlega langan tíma að sjóða saman tillögu um rannsókn á falli sparisjóðanna og er illskiljanlegt í hverju sú töf liggur. Líklega er skýringin þó ekki flóknari en það, að allt sem stjórnarmeirihlutinn á Alþingi tekur sér fyrir hendur tekur ótrúlega langan tíma og niðurstöður oftast ófullnægjandi og stundum algerlega út í hött.
Rannsóknarnefnd sparisjóðanna á síðan ekki að skila niðurstöðum sínum fyrr en 1. september 2012, en þá verða liðin tæp fjögur ár frá bankahruninu og líklega allar hugsanlegar sakir fyrndar, þannig að ekki verði hægt að draga nokkurn mann fyrir dómstóla, jafnvel þó ásæða þætti til.
Röggsemi hefur aldrei verið aðalsmerki núverandi stjórnarmeirihluta á Alþingi. Þetta er aðeins eitt dæmi af mörgum eins og skuldarar þessa þjóðfélags geta t.d. borið vitni.
![]() |
Fall sparisjóðanna rannsakað |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
31.5.2011 | 14:13
Hafa ríkisstjórnin og erlendir fjárfestar gleymt Icesave?
Fyrir örfáum vikum margítrekuðu Steingrímur J., Jóhanna Sig. og aðrir ráðherrar þá skelfingu sem ríða myndi yfir þjóðarbúið ef þrælasamningurinn um Icesave yrði ekki samþykktur í þjóðaratkvæðagreiðslu.
Ráðherrarnir, með seðlabankastjóra sér til fulltingis, sögðu kreppuna dýpka til muna, efnahagsbati yrði enginn á næstu árum og algerlega yrði útilokað fyrir ríkissjóð, ríkisfyrirtæki og aðra að fá erlend lán og engir erlendir fjárfestar myndu fást til að millilenda á Keflavíkurflugvelli, hvað þá að leggja fjármagn til atvinnuskapandi verkefna hérlendis.
Núna, þessum fáu vikum síðar, keppist Iðnaðarráðherra við að lýsa því hve mikið sé framundan í orku- og stóriðjuuppbyggingu og í raun bíði erlendir fjárfestar í röðum á biðstofunni eftir að fá að taka þátt í hinum ýmsu stórverkefnum. Á flokksstjórnarfundi Samfylkingarinnar sagði Jóhanna að kreppan væri búin og þvílík birta í efnahagslífinu, að helst þyrfti þjóðin að ganga með sólgleraugu til að fá ekki ofbirtu í augun af allri þeirri hagsæld, sem framundan væri.
Nú er Steingrímur J., í samstarfi við erlendar fjármálastofnanir, að undirbúa útgáfu ríkisskuldabréfa í erlendri mynt, sem reiknað er með að peningafurstar erlendis muni gleypa við, enda sé ríkissjóður Íslands með allra traustustu skuldurum, ekki síst í samanburði við evruríkin, sem mörg hver eru á barmi gjaldþrots, þrátt fyrir að hafa "traustan" gjaldmiðil, sem ráðherrarnir keppast við að segja umheiminum að Ísland hafi alls ekki, heldur þvert á móti "handónýta krónu", eins og Árni Páll segir, en líkir sér að vísu við "fábjána", varandi skilning á fjármálum.
Alveg er það stórmerkilegt hvað Ísland býr við gleymið ráðherralið, eða ef til vill ósannsögult og ómerkilegt, þegar að samskiptum við almenning kemur.
![]() |
Undirbýr útgáfu erlendra skuldabréfa |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
31.5.2011 | 00:08
Samræma sjúkra- og lyfjaskrár
Umfjöllun Kastljóss undanfarið um læknadópið hefur verið sláandi og varpað skýru ljósi á hversu útbreitt vandamálið er. Að þeir fimm læknar, sem mest ávísa á lyf úr þeim lyfjaflokkum sem helst eru misnotaðir, skuli á árinu 2009 hafa gefið út lyfseðla fyrir slíkum lyfjum fyrir 160 milljónir króna, eru ótrúlegar og enn ótrúlegra að sá sem stórtækastur er skuli vera nálægt helmingi þeirrar upphæðar.
Miðað við upplýsingarnar sem fram komu í Kastljósinu um verð á þessum lyfjum á götunum, þá er augljóst að veltan á þessu læknadópi nemur einhverjum milljörðum króna. Ekki má gleyma því að þetta læknadóp er stórlega niðurgreitt úr ríkissjóði og auðvitað alger óhæfa að nokkur læknir skuli misnota aðstöðu sína á þennan hátt, ekki síst í því ljósi að þeir vinna eið að því að vernda og bjarga mannslífum, en ekki steypa þeim í helvíti eiturlyfjafíknar.
Á tækni- og tölvuöld er auðvelt að koma á samræmdum sjúkra- og lyfjaskrám, þar sem allir læknar hafi aðgang að allri sjúkrasögu sjúklinga, allri læknismeðferð þeirra um ævina og alla lyfjanotkun. Svo sjálfsagt ætti að vera að koma slíkum skrám í gagnið, að ekki ætti einu sinni að þurfa að ræða málið meira.
Slíkur sameiginlegur aðgangur lækna að sjúkrasögu sjúklinga væri ekki eingöngu til þess að koma í veg fyrir misnotkun sjúklinga á kerfinu og óhóflegar ávísanir einstakra lækna á ávanabindandi lyf, heldur ekkert síður vegna hagsmuna "venjulegra" sjúklinga, sem oft þurfa að leita til lækna með mismunandi sérfræðinám og ekki síður vegna þess mikla fjölda, sem ekki hefur fastan heimilislækni og hittir því einn lækni í dag, en annan næst og þarf þá að endurtaka alla sína sjúkrasögu og viðkomandi læknir hefur engin tök á að sannreyna söguna, eða samhæfa þá meðferð sem hann teldi nauðsynlega.
Það er allra hagur að samræma sjúkra- og lyfjaskrár strax og þó fyrr hefði verið.
![]() |
Ávísuðu lyfjum fyrir 160 milljónir |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)