Færsluflokkur: Bloggar
30.5.2011 | 18:48
Á ekki að banna svona þingmenn?
Þingmennirnir Siv Friðleifsdóttir, Þuríður Backman, Ásta R. Jóhannesdóttir, Árni Johnsen, Margrét Tryggvadóttir, Álfheiður Ingadóttir, Þór Saari, Ólína Þorvarðardóttir og Eygló Harðardóttir hafa lagt fram ótrúlegustu og vitlausustu þingsályktunartillögu sem lögð hefur verið fram á Alþingi og er þá langt til jafnað.
Fyrir utan að banna reykingar nánast alls staðar, leggja þingmennirnir til að tóbak verði einungis selt í apótekum, en þó án lyfseðils frá læknum, að því er virðist. Hvers vegna þeim dettur ekki í hug að nota verslanir ÁTVR ekki til þessara viðskipta, frekar en apótekin, er hulin ráðgáta. Reyndar er tillagan öll svo vitlaus, að tæplega þarf að undra sig á þessum hluta hennar, frekar en öðrum.
Ef banna á reykingar jafnt utan sem innan dyra, liggur beinast við að banna innfluting og sölu tóbaks alfarið og láta svarta markaðinn algerlega um smygl á tóbaki, eins og hassi, amfetamíni, heróíni og öðrum bönnuðum "neysluvörum". Ekki hefur tekist of vel að hefta sölu og dreyfingu eiturlyfja, þrátt fyrir algert innflutnings- og sölubann og engin ástæða til að ætla að betur myndi ganga að stöðva smygl á sígarettum. Líklega myndu nikótínfíklarnir leita í sterkari efni, sem afar auðvelt er að útvega á svarta markaðinum.
Allir vita að tóbak getur verið hættulegt heilsu manna, en samt eru alltaf einhverjir sem ánetjast því og nær væri að bjóða því fólki upp á aðgengileg úrræði til að losna undan tóbaksfíkninni, alveg eins og boðið er upp á meðferðarúrræði fyrir alkóhólista og eiturlyfjafíkla.
Boð og bönn eru ekki lausn allra mála, en líklega ætti þó að banna svona gjörsamlega óboðlega þingmenn á Alþingi Íslendinga.
![]() |
Tóbak verði bara selt í apótekum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
29.5.2011 | 20:05
Alger örvænging Jóhönnu vegna ESB
Sá fáheyrði atburður gerðist á að öðru leyti gamansömum flokkstjórnarfundi Samfylkingarinnar, að formaður flokksins boðaði niðurlagningu flokksins í örvæntingu sinni vegna þess að þjóðin vill alls ekki gera Ísland að útnárahreppi í væntanlegu stórríki Evrópu.
Innan um brandara Hrannars, handritshöfundar uppistands Jóhönnu, um atvinnu- og efnahagsmálin, flutti hún þennan boðskap til þeirra fáu hugsanlegu fullveldisafsalsmenn sem gætu fyrirfundist í öðrum flokkum: "Samfylkingin á að standa öllum þessum hópum opin og við eigum að vera reiðubúin að ganga til móts við þá sem vilja stíga skrefið til fulls og leggja þessum mikilvægu málefnum lið í samstarfi við okkur. Breytt skipulag, nýtt nafn, ný forysta eða annað á ekki að standa í vegi fyrir því að þessi mikilvægu málefni fái kröftugan framgang og jafnaðarmenn í öllum flokkum geti sameinast á öflugum flokksvettvangi. Í þessum efnum má ekki standa á okkur í Samfylkingunni."
Líklega á ekki að taka þetta alvarlega, frekar en ummæli Hrannars/Jóhönnu um lok kreppunnar og efnahagsuppbygginguna, en eftir sem áður lýsir þetta algerri örvæntingu Samfylkingarinnar vegna þess að fyrirséð er að aðild að væntanlegu stórríki mun verða felld með afgerandi hætti í þjóðaratkvæðagreiðlu.
Hugmyndin um að leggja Samfylkinguna niður sem slíka, er hins vegar alls ekki svo vitlaus, þegar allt kemur til alls.
![]() |
Lyktar af örvætningu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
29.5.2011 | 16:07
Gamanþáttur Jóhönnu og Hrannars endurtekinn
Flokksstjórn Samfylkingarinnar heldur um þessa helgi gleði- og skemmtifund, þar sem stjórnarmenn koma saman, fara með gamanmál og gantast hver við annan og er ekki annað að sjá, en allir hafi skemmt sér konunglega.
Jóhanna Sigurðardóttir var með uppistand á fundinum og fórst það nokkuð vel, enda handritið margnotað og endurskrifað af handritshöfundi hennar, Hrannari, og flest sem í þeim grínsögum kom fram verið notað nokkrum sinnum áður, t.d. skrítlurnar um allar væntanlegu orku- og stóriðjuframkvæmdirnar, kreppulokin og björtu framtíðina, sem á að vera rétt handan við hornið.
Allt er þetta í raun endurtekið efni frá síðustu tveim árum, en vegna þess að ekkert hefur gengið eftir af því sem sagt var á sambærilegum skemmtikvöldum síðustu ára, er alltaf hægt að fara með gamansögurnar lítt breyttar og alltaf skemmtir Samfylkingarfólk sér jafn vel við endurtekningu þeirra.
Að flutningi Jóhönnu loknum klappaði flokkstjórnarfólk hennni lof í lófa, eins og venjulega þegar prógrammið hefur verið flutt áður.
Ekki er þó alveg á hreinu hvort fundarmenn klöppuðu vegna þess að þeir tryðu sögunum ennþá, eða hvort þeim fannst orðagjálfrið bara jafn fyndið og venjulega.
Samfylkingarfólk er reyndar ekki þekkt af miklu, eða góðu, skopskyni.
![]() |
Fullt tilefni til að vera bjartsýn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.5.2011 | 21:20
Enski boltinn er annars flokks
Vinsældir enska fótboltans hér á landi er ótrúlegur í því ljósi að þar er leikinn í besta falli annars flokks knattspyrna í samanburði við mörg önnur lönd Evrópu.
Spænski boltinn er a.m.k. heilum styrkleikaflokki ofar en sá enski og á Spáni ber lið Barcelona höfuð og herðar yfir önnur lið þar í landi.
Leikurinn í kvöld sýndi og sannaði hvar besti boltinn er spilaður og hvaða lið er langbest í Evrópu og þó v´ðar væri leitað.
![]() |
Barcelona besta lið Evrópu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
28.5.2011 | 15:27
Góðar álver(ð)sfréttir
Heimsmarkaðsverð á áli hefur hækkað um 25% á síðustu tólf mánuðum, sem leiðir til stórhækkaðra gjaldeyristekna þjóðarbúsins og aukinna tekna orkufyrirtækjanna, enda raforkuverðið til stóriðjunnar að stórum hluta bundið heimsmarkaðsverði á áli.
Í fréttinni kemur m.a. fram að: "Meðalverð Landsvirkjunar til stóriðju á síðasta ári hafi verið 25,7 dalir á megavattsstund, og hafi hækkað um liðlega 30% á milli ára. Álverð nú sé nærri fimmtungi hærra en að meðaltali á síðasta ári. Það samsvari því að meðalverð til stóriðju sé nú um 30 dalir á megavattsstund, miðað við fyrrgreindar tölur Landsvirkjunar."
Þetta eru góðar fréttir mitt í öllum þeim hörmungartíðindum sem yfir þjóðina hafa dunið á undanförnum misserum, bæði vegna náttúruhamfara og ekki síður af dug-, getu- og viljaleysi ríkisstjórnarinnar í glímunni við efnahagsvandann. Þó undarlegt sé, þá er eitt aðalstefnumál stjórnarinnar að berjast gegn hvers konar stóriðjuuppbyggingu í landinu, þrátt fyrir að þau fáu stóriðjuver sem starfa í landinu skili gríðarlegum gjaldeyristekjum í þjóðarbúið, en án þeirra væri glíman við erlendu skuldirnar mun erfiðari og er þó nógu erfitt að glíma við þær samt.
Í því atvinnuástandi, sem nú er í landinu, er alveg ótrúlegt að fylgjast með þeim krafti sem lagður er í baráttuna gegn iðjuverum, því aðaláherslan ætti auðvitað að vera á aukinni verðmætasköpun, ekki síst auknum útflutningi sjávar- og iðnaðarvara, ásamt aukningu ferðaþjónustunnar. Í þeirri viðleitni er fráleitt að berjast gegn aukningu á orkufrekum iðnaði, heldur ætti að leggja áherslu á alla möguleika, sem til aukinnar atvinnu gæti leitt og ekki útiloka neitt í því sambandi.
Kreppan herðir tökin á almenningi frá degi til dags og þrátt fyrir gaspur ríkisstjórnarinnar um annað, er botninum ekki náð ennþá og raunverulegur bati langt undan, haldi stjórnin velli lengi enn.
Hagsmunum þjóðarinnar verður ekki borgið til framtíðar, nema með gjörbreyttri stefnu í atvinnumálum.
![]() |
Hækkandi álverð skilar auknum tekjum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
27.5.2011 | 14:40
Ráð í andstöðu - ráðalaus í stjórn
Steingrímur J., er staddur á Írlandi og lætur þar eins og hann hafi öll ráð í sínum fórum til bjargar efnahagskreppunni í Evrópu, enda hafi hann nánast einn manna séð alla erfiðleikana fyrir og varað við þeim, en enginn hafi á sig hlutstað.
Í sjónvarpsþættinum Prime Time viðurkenndi Steingrímur það, sem hann hefur alltaf þrætt fyrir hér á landi, þ.e. að hann hafi hækkað skatta á öllum, jafnt þeim tekjuháu og -lágu og skert bætur velferðarkerfisins verulega. Til áréttingar þessu er þetta haft eftir honum orðrétt: "Allir leggja sitt af mörkum hvort sem það kemur fram í sköttum eða niðurskurði." Til heimabrúks heldur ráðherrann því stöðugt fram, að skattar hafi ekki verið hækkaðir hjá tekjulágu fólki og alveg sérstök áhersla hafi verðið lögð á að skerða ekki kjör aldraðra og öryrkja. Enginn hefur að vísu tekið mark á þeim fullyrðingum hans, frekar en gert var um annað sem frá honum kom á meðan hann var í stjórnarandstöðu.
Maður, sem hafði ráð við öllum heimsins vandamálum í stjórnarandstöðunni, hefði ekki átt að vera í vandræðum með lausnir þegar í ríkisstjórn var komið, en allir vita að svo hefur sannarlega ekki verið, heldur hafa flestar aðgerðir ríkisstjórnarinnar verið fálmkenndar og illa undirbúnar og margar hverjar orðið til að auka á vandann en ekki til að minnka hann.
Í Prime Time var rætt við Elaine Byrne, dósent við Trinity College í Dublin, en hún hefur fylgst með málum hér á landi eftir hrun. Í fréttinni segir svo um ummæli hennar: "Metur hún stöðuna á Íslandi svo að stjórn Samfylkingar og VG hafi komist til valda á öldum reiðinnar. Nú sé sú skoðun hins vegar farin að verða útbreidd að stjórnina skorti hugmyndir til frekari viðreisnar."
Þetta verður að teljast kurteislegt orðalag hjá dósentinum, þ.e. að sú skoðun sé útbreidd "að stjórnina skorti hugmyndir til FREKARI viðreisnar, því sú skoðun er afar almenn að stjórnin hafi aldrei haft neinar marktækar hugmyndir til viðreisnar efnahagslífsins.
Einmitt vegna þessa hugmynda- og getuleysis ríkisstjórnarinnar nýtur hún einskis trausts, hvorki innanlands né utan.
Þess vegna fer reiði almennings og óþolinmæði sívaxandi og líklega fer að verða tímaspursmál hvenær upp úr sýður.
![]() |
Steingrímur: Varaði við kreppunni |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
26.5.2011 | 20:02
Ríkisstjórnin og Icesavelögin frá 2009
Fjárlaganefnd Alþingis hefur fyrir sitt leyti samþykkt að leggja til að frumvarp Framsóknarflokksins um að lögin frá 2009 þar sem Svavarssamningurinn um þrælasölu íslenskra skattgreiðenda til Breta og Hollendinga var staðfestur.
Sem betur fer fyrir þá sem þrældóminn fyrir erlendu húsbændurnar áttu að þola, neituðu Bretar og Hollendingar að samþykkja þá fyrirvara sem Alþingi setti fyrir þeirri hámarksánauð, sem á bandingjana mætti leggja á afnotatíma hinna erlendu húsbænda á þeim.
Steingrímur J. hefur marg oft undanfarna daga harmað að þessi þrælasamningur skyldi ekki samþykktur fyrirvaralaust, enda ekki líklegt að hann hefði kostað skattgreiðendur "nema 70 milljarða króna". Fáir, ef nokkrir aðrir en Svavar Gestsson og Indriði H. Þorláksson, eru sammála ráðherranum í þessu efni, enda skilja fáir hugsanagang Steingríms J. og má til viðbótar við afstöðuna til þrælahaldsins nefna ummæli hans um að enginn eignabruni hafi orðið eftir hrun hjá "venjulegu fólki".
Þessi undarlega afstaða ráðherrans speglast einnig í þeirri staðreynd að hvorki hann eða ríkisstjórnin hefur látið sér detta í hug að leggja fram frumvarp til laga, sem afnema myndu smánarlögin um Icesave frá 2009.
Það segir mikla sögu að slíkt frumvarp skuli stjórnarandstöðuflokkur þurfa að leggja fram.
![]() |
Icesave-lögin frá 2009 verði felld úr gildi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.5.2011 | 17:06
Króna, Drakma, Evra
Allir helstu efnahagssérfræðingar og Árni Páll, viðskiptaráðherra, að auki, viðurkenna að sjálfstæður gjaldmiðill hafi bjargað því sem bjargað varð við bankahrunið í október 2008 og hafi í raun bjargað því að ekki varð algert efnahagslegt hrun hér á landi í framhaldinu, en nægir eru þó erfiðleikarnir samt.
Einstaka Samfylkingarmaður hefur þó reynt að halda því fram, að afleiðingar hrunsins hefðu orðið minni hefðu Íslendingar haft evruna sem gjaldmiðil, en sú röksemd varð þó að engu þegar fjárhagserfiðleikar hvers evruríkisins á fætur öðru urðu óyfirstíganlegir og ESB, Seðlabanki Evrópu og AGS þurftu að ausa stjarnfræðilegum upphæðum til björgunarstarfa í þessum ríkjum. Nægir að nefna Grikkland, Írland, Spán og Portúgal í þessu sambandi, en fleiri evruríki eiga eftir að bætast í þennan hóp innan tíðar.
Fram að þessu hafa forystumenn ESB algerlega hafnað því, að björgunaraðgerðir einstakra ríkja gætu falist í því að ríkin segðu sig frá evrunni og tækju upp sinn eigin gjaldmiðil til þess að eiga möguleika á að bjarga efnahag sínum frá endanlegu hruni.
Maria Damanaki, sjávarútvegsstjóri Evrópusambandsins, hefur séð sig knúna til að tjá sig opinberlega um gjaldmiðil Grikklands vegna fjárhagserfiðleika landsins og sagði m.a: "Sá möguleiki að Grikkland yfirgefi evruna er núna á borðinu sem og leiðir til þess að framkvæma það. Annað hvort náum við samkomulagi við skuldunauta okkar um áætlun sem fela mun í sér erfiðar fórnir eða við tökum aftur um drökmuna."
Að sjálfögðu þýðir þetta á mannamáli, að annaðhvort afskrifi lánadrottnar skuldir gríska ríkisins svo um muni, að öðrum kosti neyðist Grikkir til að taka upp sinn gamla gjaldmiðil, sem þeir geti sjálfir gengisfellt að þörfum eigin hagsmuna, en ekki eftir hagsmunum Þýskalands og Frakklands.
Hvenær ætli íslenskir ESB og evrusinnar sjái ljósið?
![]() |
Grikkir gætu þurft að hætta með evruna |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
25.5.2011 | 21:57
Sannleikurinn um einkavæðingu bankanna
Hér með tek ég mér Bessaleyfi til að "stela" eftirfarandi tveim svörum sem sett voru inn á bloggsíðu Páls Vilhjálmssonar, blaðamanns, þar sem hann er að fjalla um áhrif og samstarf Baugs við Samfylkinguna.
Þessum athugasemdum er "stolið" og þær settar hér inn fyrst og fremst fyrir sjálfan mig til þess að hafa þær aðgengilegar, enda stórfróðleg samantekt í svari Guðmundar 2 Guðmundssonar við ruglinu í Jónasi, einhverjum.
Hér koma þessar athugasemdir:
"Engin þjóð getur búið við það að einkafyrirtæki vaði uppi einns og Björn lýsir, því hefðu Björn og Davíð á að beita sér fyrir lagasetningu til að taka á samkepni og eignarhaldi á bönkum, En þeir gerðu það ekki, sennilega vegna þess að þá hefðu þeir skaðað vini sína í Sjálfstæðisflokknum. Ef þessar samsæriskenningar standast, þá er Björn að lýsa eigin vanhæfni.
Jonas kr (IP-tala skráð) 25.5.2011 kl. 17:18"
"Jónas, þekkir væntalega ekki söguna eins og hún er rétt hvers vegna hugmyndir Davíðs um max 3 - 8% eignarhlut eins eða tengdra aðila í einkavæðinu bankanna á sínum tíma náði ekki fram að ganga, og snýr því að sið Baugsfylkingarmanna uppá einkavinavæðingu sjalla, án þess að hafa hugmynd um hvern flokk hann aðhyllist. Sannleikurinn er allt annar, þar að segja ef hann má skemma fyrirtaks samsæris og lygatilbúnað hatursmanna Davíðs og Sjálfstæðisflokksins.
En lítum á hvernig Baugsfylkingarframmámenn þess tíma tóku á þessum málum, varðandi hugmyndir ljóta kallsins á að dreifð eignaraðild upp á mest 3 - 8% yrði skilyrt. Hvernig þeir báru fyrir sig og hygluðu einkavinum sínum og báru meðal annars við að EES/ESB heimilaði ekki slík inngrip og skilyrði.:
1. Telur að lög stæðust ekki ákvæði EES-samningsins. Valgerður Sverrisdóttir viðskiptaráðherra telur enga þörf á að sett verði lög sem tryggi dreifða eignaraðild að viðskiptabönkum.:
"Ég tel að þetta sé umræða sem við erum búin að taka. Við leystum það mál með annars konar löggjöf sem varðar eftirlit með virkri eignaraðild og ég tel það vera þá aðferð sem rétt sé að beita í þessum efnum. Þar að auki er ég þeirrar skoðunar að dreifð eignaraðild með einhverjum ströngum takmörkunum standist ekki ákvæði Evrópska efnahagssvæðisins. Það er þess vegna tómt mál að tala um það, segir Valgerður."
2. Föstudagurinn 13. ágúst, 1999 Ritstjórnargrein Morgunblaðið.:
"Nú bregður hins vegar svo við, að Sighvatur Björgvinsson, formaður Alþýðuflokksins og fyrrverandi bankamálaráðherra, kveður upp úr með það í samtali við Dag í gær, að þetta sé ekki hægt. Í viðtalinu segir formaður Alþýðuflokksins m.a.: "Ég hef ekki trú á því, að gerlegt sé að setja lög til að tryggja dreifða eignaraðild, sem halda þegar fram í sækir. Ég er alveg viss um, að Davíð Oddsson, forsætisráðherra, hefði aldrei orðað þessa lagasetningu ef þeir sem eru að kaupa fjórðung í FBA væru honum þóknanlegir. Ég tel, að þetta tal forsætisráðherra um lagasetningu sé sprottið af því að hann vilji setja lög sem banni Jóni Ólafssyni í Skífunni að kaupa hlutabréf.
"Málflutningur sem þessi er formanni Alþýðuflokksins og öðrum helzta forystumanni Samfylkingarinnar ekki sæmandi. Í samtali við Morgunblaðið 8. ágúst árið 1998 eða fyrir u.þ.b. tólf mánuðum sagði Davíð Oddsson m.a.: Sumar þjóðir hafa það reyndar svo, að þær binda það í lög hversu mikil eignarhlutdeild einstakra aðila má vera í bönkunum. Ég hygg að það sé til að mynda þannig í Noregi. Það má vel vera að slíkt gæti verið skynsamlegt að gera einnig hér á landi. A.m.k. er ekki æskilegt að menn hafi á tilfinningunni, að það séu einhver önnur sjónarmið, sem ráði stefnu banka, en almenn arðsemissjónarmið, eins og einhverjir þröngir hagsmunir ráðandi hóps."
Og í sama viðtali segir.: Davíð sagði, að þó nú sé tízka að tala um kjölfestufjárfesta telji hann að í bankastofnun geti alveg dugað að stærstu eignaraðilar, sem komi til með að hafa leiðbeinandi forystu um reksturinn, eigi eignarhluti á bilinu 3% til 8% til dæmis."
"Á að skilja vanhugsaðar yfirlýsingar formanns Alþýðuflokksins svo, að honum sé meira í mun að reyna að koma höggi á Davíð Oddsson en að taka þátt í því að tryggja að bankakerfi landsmanna lendi ekki í höndum örfárra manna? Er það að verða ein helzta hugsjón Alþýðuflokksins?"
3. Í sama tölublaði Dags segir einn af þingmönnum Samfylkingarinnar, Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, aðspurð um dreifða eignaraðild að fjármálafyrirtækjum.: Það held ég að verði mjög erfitt og nánast ekki hægt. Verðbréfamarkaðurinn á Íslandi er frjáls og tilraunir til að tryggja dreifða eignaraðild eða aðrar hömlur í þá veru myndu leiða til þess, að hlutur ríkisins, það er almennings í fjármálafyrirtækjum eins og til dæmis Fjárfestingarbanka atvinnulífsins myndi lækka stórlega í verði. Greinilegt er þó, að Kolkrabbinn er uggandi yfir stöðu þessa máls. Er svo komið fyrir Samfylkingunni, að hún kætist svo mjög ef hún telur að Kolkrabbinn sé uggandi, að hún missi sjónar á því, sem skiptir máli í þessu þjóðfélagi? Eru jafnaðarmenn hættir að hugsa um að skapa jöfnuð meðal þjóðfélagsþegna?
Er það slíkt þjóðfélag, sem Alþýðuflokkurinn og Samfylkingin vilja byggja upp? Er það sá boðskapur, sem þessi stjórnmálahreyfing, sem kennir sig við jafnaðarmennsku, ætlar að halda að þjóðinni á næstu árum? Þau þjóðfélagsátök, sem staðið hafa og standa um kvótakerfið eru hörð en átökin í þjóðfélaginu eiga eftir að harðna mjög, ef einkavæðing ríkisbankanna á að beinast í þann farveg, að menn yppti öxlum og haldi fram þeirri hugsunarlausu klisju, að það sé ekki hægt að tryggja dreifða eignaraðild að bönkum. Ætlar Samfylkingin að heyja stjórnmálabaráttu sína á næstu árum með það í fyrirrúmi að það sé sjálfsagt og ekkert við því að gera að bankarnir færist á fárra manna hendur? Telur Samfylkingin að sú vígstaða sé vænleg í baráttu við Sjálfstæðisflokk undir forystu Davíðs Oddssonar, sem fylgir fram kröfu fólksins í landinu um dreifða eignaraðild?
Stjórnmálamenn í öllum flokkum eiga nú að taka höndum saman um málefnalegan undirbúning að löggjöf, sem tryggir þau markmið að eignaraðild að bönkunum verði dreifð. Afstaða Sjálfstæðisflokksins er skýr og ótvíræð og sú afstaða er sérstakt fagnaðarefni fyrir alla þá, sem vilja byggja upp á Íslandi réttlátt og sanngjarnt þjóðfélag."
4. Sunnudaginn 29. ágúst, 1999 Kaflar úr grein Ellerts B. Schram fyrrum Baugsfylkingarþingamanns í Mbl.:
"Ég verð að játa að ég hef ruglast í hinu pólitíska rími að undanförnu. Það sem snýr upp snýr niður. Og öfugt. Í allri umræðunni um hið dreifða eignarhald á hlutabréfunum í bönkunum hafa jafnaðarmenn fundið það út að jöfnuðurinn sé óframkvæmanlegur. Á sama tíma kemst foringi frjálshyggjuflokksins að þeirri niðurstöðu að þjóðin hafi ekki efni á óheftum markaðslögmálum í hlutabréfaviðskiptum og boðar lög til að takmarka eignarhald. Nú er ég nota bene sammála bæði Davíð og Morgunblaðinu um hættuna sem stafar af sölu ríkisins á sameign þjóðarinnar í stórbönkum og stórfyrirtækjum, ef sú sala leiðir til þess að þessi verðmæti safnist á fárra manna hendur."
5. Pistill eftir Styrmi Gunnarsson.:
"Ekki má gleyma að varðveita á slíkri netsíðu greinar nokkurra helztu andans manna þjóðarinnar, sumra rithöfunda og svonefndra álitsgjafa, sem með einum eða öðrum hætti hafa rekið erindi Samfylkingarinnar og birtzt hafa bæði í Morgunblaðinu og öðrum blöðum á undanförnum árum og eru lærdómsrík áminning um dómgreindarbrest hinna beztu manna.
Og halda ber til haga pólitískri herferð talsmanna Samfylkingar gegn hugmyndum um dreifða eignaraðild að bönkum, sem hófst með sérkennilegum hætti síðla sumars 1999. Af hverju var talsmönnum jafnaðarmanna svo mjög í nöp við þá hugmyndafræði?"
6. Viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (andsvar).:
"Hæstv. forseti. Í sjálfu sér get ég tekið undir ýmislegt sem fram kom í ræðu hv. þm. En ég held að við setjum ekki í lög ákvæði sem koma í veg fyrir að tekist sé á um völd. Ég get í raun tekið undir það með honum að eitt af því sem hér hefur verið um að ræða eru átök um völd.
Þegar hann talar um dreifða eignaraðild og að ræðurnar hafi snúist um það í tengslum við sölu bankanna þá kannast ég ekki við að svo hafi verið, a.m.k. ekki með þá sem hér stendur. Samkvæmt EES-samningnum gátum við ekki sett í lög að einum aðila væri ekki heimilt að eiga nema eitthvað ákveðið, 10% eða hvað það átti að vera. Það var einfaldlega þannig. Við fórum í mjög mikla vinnu í viðskrn. til að átta okkur á hver væri besta aðferðin við að selja banka. Niðurstaða okkar leiddi til þess að sett voru lög um eftirlit með virkum eignarhlutum í fjármálafyrirtækjum. Það er fyrirkomulag sem við búum við í dag."
7. Mbl. Föstudaginn 22. desember, 2000 Viðskiptafréttir.:
"EFTIRLITSSTOFNUN EFTA, ESA, hefur sent norskum stjórnvöldum formlega tilkynningu varðandi hömlur í norskum lögum um eignarhald í fjármálastofnunum, samkvæmt fréttatilkynningu frá ESA í fyrradag. ESA segir að misbrestur sé á því í Noregi að framfylgt sé ákvæðum 11. greinar tilskipunar EES-samningsins um bankastarfsemi og að lög í Noregi stangist á við ákvæði EES-samningsins um frjálst fjármagnsflæði, þ.e. 40. grein samningsins og tilskipun um fjármagnsflæði.
"ESA telur að ákvæðið um bann við meira en 10% eignarhaldi í fjármálastofnun sé andstætt frjálsu flæði fjármagns og að norsk stjórnvöld geti ekki réttlætt að ekki sé þörf á afdráttarlausri innleiðingu 11. greinar tilskipunarinnar um bankastarfsemi með því að vísa til slíkrar reglu. Þess vegna telur Eftirlitsstofnunin að þessar norsku reglur um frjálst flæði fjármagns séu ósamræmanlegar við reglur EES og að Noregur hafi því ekki tekið upp 11. grein tilskipunar um bankastarfsemi."
8. Sama dag og Ingimundur Friðriksson fyrrum Seðlabankastjóri sendi Jóhönnu afsagnarbréfið birtist á vefsíðu seðlabankans íslensk þýðing á erindi, sem hann ætlaði að flytja þennan sama dag fyrir málstofu, sem ráðgerð var í seðlabanka Finnlands. Erindið ber fyrirsögnina: Aðdragandi bankahrunsins í október 2008. Þar segir meðal annars.:
Eftir á að hyggja hefði öruggasta leiðin til þess að koma í veg fyrir hrun bankanna e.t.v. verið sú að setja í upphafi þrengri skorður við starfsemi þeirra en fjármálafyrirtækja í öðrum löndum Evrópska efnahagssvæðisins, þ.e. þeir fengju ekki að njóta þeirra réttinda sem EES-samningurinn fól m.a. í sér fyrir fjármálafyrirtæki. Þar með hefði Ísland ekki orðið fullgildur þátttakandi í innri markaði Evrópusambandsins. Ég læt öðrum eftir að svara hvort stjórnmálalegur stuðningur hefði verið við hamlandi reglur á bankana á sínum tíma. Hins vegar blasir við að bankarnir nýttu kjöraðstæður til þess að vaxa hraða en langtímaforsendur reyndust til eins og mál skipuðust.
Hafa skal það sem sannara reynist...!!!
Guðmundur 2. Gunnarsson (IP-tala skráð) 25.5.2011 kl. 21:12"
Skammtímaminni manna og áróður Baugs- og Samfylkingarfólks hefur nánast tekist að festa lygar og rangtúlkanir í huga þjóðarinnar, þannig að nú orðið eru flestir farnir að halda að ósannindin séu staðreyndir varðandi aðdraganda einkavæðingar bankanna.
Taka ber undir með Guðmundi, að rétt sé að hafa það sem sannara reynist.
http://pallvil.blog.is/blog/pall_vilhjalmsson/entry/1169400/
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
24.5.2011 | 21:17
Aftur til fortíðar með fiskvinnsluna?
Ríkisstjórnin hefur eftir langa yfirlegu, mikið innbyrðis rifrildi jafnt innan stjórnarflokkanna og á milli þeirra, lagt fram frumvarpsbastarð um stjórnun fiskveiða, sem ekki mun einungis skapa mikinn ófrið um málið til framtíðar, heldur stórskaða atvinnugreinina og afkomu fyrirtækja og starfsmanna innan greinarinnar.
Svokallaðir "pottar" sem sjávarútvegsráðherra ætlar að úthluta og segir að verði notaðir í "félagslegum tilgangi" til að styrkja sjávarplássin, er algert afturhvarf til fortíðar, þegar allar helstu útgerðir landsins voru reknar af sveitarfélögum og ríkissjóði sjálfum.
Allir, sem eitthvað þekkja til þeirrar fortíðar, vita hvernig bæjar- og ríkisútgerðir voru reknar og hvernig afkoma sjávarútvegsins á hverjum tíma réð skráningu gengis krónunnar og á stundum voru fleiri en eitt gegni krónunnar í gangi í einu, eftir því til hvers nota átti þann gjaldeyri sem fyrir krónurnar var keyptur.
Á meðan hefta þarf aðganginn að auðlindinni og skammta aflaheimildirnar getur það aldrei orðið til annars en óhagræðis að fjölga vinnslustöðvum, skipum, verkafólki og sjómönnum sem veiða og vinna þann takmarkaða afla, sem heimilt verður að veiða hverju sinni.
Bæjar- og ríkisútgerðir voru algerlega misheppnað rekstrarform og ekki lofar góðu að nú sé hótað að stór hluti aflaheimildanna eigi að notast í "félagslegum tilgangi".
Atvinnureksturinn í kommúnistaríkjunum var og er rekinn í "félagslegum tilgangi".
Það er varla fyrirmynd fyrir atvinnulífið á Íslandi á 21. öldinni.
![]() |
Stærri en norðlenskar útgerðir |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (21)