Króna, Drakma, Evra

Allir helstu efnahagssérfræðingar og Árni Páll, viðskiptaráðherra, að auki, viðurkenna að sjálfstæður gjaldmiðill hafi bjargað því sem bjargað varð við bankahrunið í október 2008 og hafi í raun bjargað því að ekki varð algert efnahagslegt hrun hér á landi í framhaldinu, en nægir eru þó erfiðleikarnir samt.

Einstaka Samfylkingarmaður hefur þó reynt að halda því fram, að afleiðingar hrunsins hefðu orðið minni hefðu Íslendingar haft evruna sem gjaldmiðil, en sú röksemd varð þó að engu þegar fjárhagserfiðleikar hvers evruríkisins á fætur öðru urðu óyfirstíganlegir og ESB, Seðlabanki Evrópu og AGS þurftu að ausa stjarnfræðilegum upphæðum til björgunarstarfa í þessum ríkjum.  Nægir að nefna Grikkland, Írland, Spán og Portúgal í þessu sambandi, en fleiri evruríki eiga eftir að bætast í þennan hóp innan tíðar.

Fram að þessu hafa forystumenn ESB algerlega hafnað því, að björgunaraðgerðir einstakra ríkja gætu falist í því að ríkin segðu sig frá evrunni og tækju upp sinn eigin gjaldmiðil til þess að eiga möguleika á að bjarga efnahag sínum frá endanlegu hruni.

Maria Damanaki, sjávarútvegsstjóri Evrópusambandsins, hefur séð sig knúna til að tjá sig opinberlega um gjaldmiðil Grikklands vegna fjárhagserfiðleika landsins og sagði m.a:  "Sá möguleiki að Grikkland yfirgefi evruna er núna á borðinu sem og leiðir til þess að framkvæma það. Annað hvort náum við samkomulagi við skuldunauta okkar um áætlun sem fela mun í sér erfiðar fórnir eða við tökum aftur um drökmuna."

Að sjálfögðu þýðir þetta á mannamáli, að annaðhvort afskrifi lánadrottnar skuldir gríska ríkisins svo um muni, að öðrum kosti neyðist Grikkir til að taka upp sinn gamla gjaldmiðil, sem þeir geti sjálfir gengisfellt að þörfum eigin hagsmuna, en ekki eftir hagsmunum Þýskalands og Frakklands.

Hvenær ætli íslenskir ESB og evrusinnar sjái ljósið? 


mbl.is Grikkir gætu þurft að hætta með evruna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Þetta er ekkert minna en hótun um að sprengja evrópska myntbandalagið, og mögulega ESB líka eða allavega skilja það eftir stórlaskað.

Guðmundur Ásgeirsson, 26.5.2011 kl. 18:06

2 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Evran mun ekki lifa nema myndað verði formlegt Sambandsríki Evrópu, með einni fjármálstjórn og jafnvel einni ríkisstjórn í Brussel fyrir öll löndin.

Hugsanlega fengju löndin þá svipaða stöðu og fylkin, eða ríkin, í Bandaríkjunum, með einhverja takmarkaða heimastjórn, en a.m.k. mun hvorki ESB eða evran lifa lengi enn í óbreyttri mynd.

Axel Jóhann Axelsson, 26.5.2011 kl. 18:18

3 identicon

Voðaleg dramatík er í ykkur strákar. Grikkland svindlaði sér inní ESB-klúbbinn á fölskum forsendum, þ.e. fölsuðu ríkisbókhaldið. Í löndum eins og Írlandi og Spáni átti sér stað alveg ótrúleg bóla, m.a. á fasteignamarkaði. Hún sprakk, eins og oft vill gerast.

Í Þýskalandi og Frakklandi bólgnaði ekkert út, og því sprakk ekki neitt. Sú staðreynd að þessi tvö lönd standi núna vel að vígi er mjög jákvætt.

Ísland gæti orðið fyrst landa til að afreka að fara á hausinn með 1) krónu 2) dollar eða evru. Vandamálið er ekki gjaldmiðillinn, heldur óstjórn og eftirlitsleysi. Sem betur fer fylgir upptöku evru ákveðið regluverk sem þvingar þáttakendur til að fara eftir settum reglum.

Valgeir (IP-tala skráð) 26.5.2011 kl. 18:45

4 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Í ljósi evrukrísunnar, sem heldur vöku fyrir öllum helstu stjórnendum Evrópu, er þessi setning nánast eins og hver annar brandari:

"Sem betur fer fylgir upptöku evru ákveðið regluverk sem þvingar þáttakendur til að fara eftir settum reglum."

Axel Jóhann Axelsson, 26.5.2011 kl. 19:42

5 identicon

Hárrétt! Betra væri "leiðbeinir" í stað "þvingar".

Íslendingar láta nefnilega ekki þvinga sig af regluverkum til eins né neins, og því mun evran ekki hindra næstu hrun. Ekki frekar en dollarinn. Ekki á Íslandi.

Upptaka evru er fyrst möguleg þegar Ísland er komið í ESB OG stjórn er komin á fjármál ríkisins. Það kæmi mér ekki á óvart að Ísland myndi fara grísku leiðina, þ.e. að falska bókhaldið til að komast inn. Og þegar svikin komast upp, verður næsta hrun. Og þá munt þú eflaust halda því fram að krónan hefði verið betri kostur.

Valgeir (IP-tala skráð) 26.5.2011 kl. 20:00

6 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Lugu og sviku Írar, Spánverjar og Portúgalir sig líka inn í ESB?

Það sem er rétt hjá þér er, að það er efnahagsstjórnunin sem skiptir máli, en ekki gjaldmiðillinn. Með efnahagsstjórnun geta Íslendingar lifað góðu lífi með krónuna ekki síður en með evru.

Eins og þú segir sjálfur er evran engin trygging fyrir einu eða neinu.

Axel Jóhann Axelsson, 26.5.2011 kl. 20:06

7 identicon

Ekki er mér kunnugt um svik við inngöngu Íra, Spánverja og Portúgala í ESB. En í þessum löndum fór bóla af stað sem ekki var stöðvuð. Þegar bóla fer af stað eru nefnilega svo margir að græða mikið, gleðin er rosaleg. Í "ungum og óreyndum" löndum minnkar eftirlit eftir því sem bólan stækkar.

Þýskaland þekkir tímana tvenna og veit hvar og hvenær á að segja stopp. Vona ég allavega :)

Kostir evru - umfram krónu - fyrir Ísland eru að kostnaður við að halda uppi eigin mynt falla í burtu, og að öll peningasamskipti / samningar við erlend fyrirtæki verða áhættuminni og auðveldari. Evrópa er að vaxa saman, og Ísland er útúr, eins og staðan er í dag.

Valgeir (IP-tala skráð) 26.5.2011 kl. 21:30

8 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Bólur blásast upp í hvaða hagkerfi sem er, stórum og smáum, hvaða gjaldmiðill sem notaður er og nægir að benda á Bandaríkin því til staðfestingar. Það sýnir líka að ekki þarf að vera "ungur og óreyndur" til þess.

Evra hefði ekki komið í veg fyrir íslensku bóluna og afleiðingarnar hefðu orðið enn verri, því með krónunni og falli hennar mun reynast auðveldara að rétta efnahaginn af, þar sem útflutningstekjur hækka mikið í krónum talið og innflutningur dregst saman vegna hækkunar erlends gjaldeyris. Með þessu móti verður viðskiptajöfnuður hagstæður og möguleiki skapast til að niðurgreiða skuldir. Algerlega er óvíst að það hefði tekist með evruna sem gjaldmiðil.

Axel Jóhann Axelsson, 26.5.2011 kl. 21:43

9 Smámynd: Gunnar Skúli Ármannsson

Sæll Axel,

ég er sammála þér en síðan geta stórfyrirtæki keypt upp Grikkland fyrir skid og ingenting þegar drakman er orðin verðlaus.

Gunnar Skúli Ármannsson, 26.5.2011 kl. 22:47

10 identicon

Gott að þú hafir nefnt Bandaríkin. Í rauninni eru Bandaríkin enn "ungt og óreynt" land, sem er að mörgu leiti snarvitlaust þar fyrir utan.

Taktu þér frekar Kína sem dæmi. Þar er stór bóla í gangi, en stjórnvöld berjast við að stoppa hana. Taktu þér BMW sem dæmi (BMW er mikið stærra en allt íslenska hagkerfið). Á þeim tímum sem dollarinn var sterkari en evran (= BMW ódýrir í USA) byggði BMW margar verksmiðjur í USA. Margir höfðu engan skilning á þessum gerningi, betra væri að bara að sitja heima og græða, græða, græða. Núna, þegar evran er mikið sterkari en dollarinn (= BMW frá Þýskalandi allt of dýr í USA) getur BMW boðið uppá rétt verð á ameríkumarkaði.

Gott rekið fyrirtæki, hvort sem er í út- eða innflutningi, mun alltaf hafa það erfitt á Íslandi. Gengi krónunnar ræður því hvort fyrirtækinu gangi vel eða fari á hausinn. Núna hlæja útflutningsfyrirtækin og innflutningsfyrirtækin væla, næst verður það akkúrat öfugt.

Hvernig væri að búa til þjóðfélag þar sem vel rekin fyrirtæki hafi það gott og þau illa reknu fari á hausinn? Ég myndi kalla það eðlilegt þjóðfélag. En ekki á Íslandi. Það er ekki hægt. Ekki á Íslandi með krónuna og hið alræmda stjórn- og eftirlitsleysi.

Annars eru þín þjóðhagfræðilegu sjónarmið rétt. Útflutningur eykst þegar gengi krónunnar býður uppá það.

Valgeir (IP-tala skráð) 26.5.2011 kl. 22:55

11 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Gunnar, ríkiseigur Grikklands verða seldar fyrir "skid og ingenting" hvort sem þeir halda evrunni eða ekki. Ríkið er gjaldþrota og ESB ætlar að knýja Grikki til að selja allar þær ríkiseigur, sem mögulegt er að selja. Slík þvinguð sala mun ekki leiða til neins annars en verðhruns, þannig að aldrei mun fást nema brot af raunverulegu verðmæti þeirra.

Axel Jóhann Axelsson, 26.5.2011 kl. 23:03

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband