Færsluflokkur: Bloggar
4.7.2011 | 21:59
Öfgar eyða ekki tóbaksnotkuninni
Fáránlegt frumvarp Sivjar Friðleifsdóttur og fleiri furðufugla á Alþingi um að sala á tóbaki verði einungis leyfð í apótekum og þá eingöngu gegn framvísun "lyfseðils" frá lækni, hefur að vonum vakið athygli erlendis og er ekki að efa að lesendur Guardian hafi legið í hláturkrampa í dag, eftir að hafa lesið umfjöllun blaðsins um þennan brandara.
Furðulegt má þó heita að blaðið skuli fjalla um málið núna, enda var það hlegið út af borðinu hér á landi strax og það var lagt fram, en að vísu segir margur brandarakallinn ennþá frá frumvarpinu, þegar hann vill vera verulega fyndinn.
Öfgar og vitleysa, eins og kemur fram í þessu svokallaða frumvarpi, leysa aldrei nokkurn vanda, en skapa hins vegar fjölda vandamála í stað þeirra sem þeim er ætlað að lækna, fyrir utan að upphaflega vandamálið helst yfirleitt óleyst.
Fram kemur í umfjöllun Guardian að fyrir tuttugu árum hafi 30% Íslendinga reykt daglega, en nú noti aðeins 15% landsmanna tóbak dags daglega. Þessi minnkun sýnir að fræðsla og áróður, á jákvæðum nótum, skilar sér í stórminnkaðri notkun tóbaks og því gjörsamlega glórulaust að láta sér detta aðra eins vitleysu í hug og Siv Friðleifsdóttir og ruglfélagar hennar létu sér sæma að bera fram á Alþingi og gera það með þeim formerkjum að mark yrði tekið á.
Alþingi ætti að sjá sóma sinn í að sinna nauðsynjamálunum almennilega og láta allan fíflagang lönd og leið.
![]() |
Guardian fjallar um tóbaksfrumvarp |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
3.7.2011 | 15:17
Er Össur algerlega að tapa sér í ESBörvæntingunni?
Alla tíð hefur verið talið að erfiðustu málin í viðræðunum um innlimun Íslands, sem útkjálkahrepps í væntanlegt stórríki ESB yrðu landbúnaðar - og sjávarútvegsmál, enda voru fyrirvarar í samþykki Alþingis um að yfirráðarétturinn yfir tvöhundruðmílna fiskveiðilögsögunni yrði alfarið í höndum Íslendinga og allar ákvaranir um veiðar innan hennar teknar af íslenskum ráðamönnum.
Í viðtali við Euronews leyfir Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, sér að gefa út þá yfirlýsingu að Íslendingar þurfi nánast ekkert að ræða fiskveiðistjórnun við ESB, enda séu slík smámál bara hluti af sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar og því úrelt. Það er nokkuð rétt hjá ráðherranum að baráttan um yfirráð fiskveiðiauðlindarinnar var lokaáfanginn í baráttunni fyrir fullu sjálfstæði þjóðarinnar og það má Össur vita, og kommisarafélagar hans innan ESB, að þjóðin er hreint ekki tilbúin til að gefa nokkuð eftir af sjálfstæði sínu og fullveldi, til að uppfylla drauma Össurar og fleiri slíkra um kommisaraembætti í Brussel.
Á meðan innlimunarviðræðum verður ekki hætt, er algerlega forkastanlegt að æðsti maður utanríkismála á Íslandi skuli gefa viðmælendum sínum önnur eins vopn í hendur og Össur gerir í þessu viðtali. Annar eins afleikur hefur varla sést í nokkrum "samningaviðræðum" í háa herrans tíð og á sér líklega ekki samsvörun í neinu öðru en fyrri ummælum Össurar sjálfs um þessi mál.
Björn Bjarnason, fyrrverandi ráðherra, gerir þessum ótrúlega afleik Össurar góð skil í pisli í dag og er ástæða til að benda öllum á að lesa hann. Pistil Björns má sjá Hérna
![]() |
Þurfum ekki sérstaka undanþágu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
3.7.2011 | 13:22
Erlendar skuldir óreiðumanna
Ríkisstjórn Geirs H. Haarde bjargaði því sem bjargað varð í íslensku efnahagslífi við bankahrunið og með því að láta gömlu bankana fara sína leið, voru óábyrgar erlendar fjármálastofnanir látnar taka á sig yfir sjöþúsundmilljarða króna tap, í stað þess að velta þeirri upphæð yfir á skattgreiðendur, eins og Írar gerðu og ESB er nú að neyða Grikki til að gera.
Núverandi ríkisstjórn hefur hins vegar gert þrjár tilraunir til þess að koma erlendum skuldum óreiðumanna í gamla Landsbankanum yfir á íslenskan almenning, sem í tvígang harðneitaði í þjóðaratkvæðagreiðslum að taka á sig slíkar óreiðuskuldir fjárglæframanna. Steingrímur J. hefur þó lýst því yfir að hann sé ekki ennþá búinn að gefast upp í því máli og hefur einsett sér að koma a.m.k. einhverjum milljarðatugum yfir á herðar kjósendanna, sem hann hefur hugsað þegjandi þörfina frá því þeir niðurlægðu hann á þennan hátt í tvígang.
Í hefndaræði sínu gagnvart pólitískum andstæðingum, beittu Vinstri grænir sér fyrir því að stefna Geir H. Haarde fyrir Landsdóm vegna bankahrunsins, en reyndar eru tvær grímur farnar að renna á þá ólánsþingmenn sem greiddu atkvæði með þeim ótrúlega gjörningi. Meira að segja Steingrímur J. virðist vera kominn með einhvern vott af samviskubiti, því nú lætur hann hafa það eftir sér á AFP fréttaveitunni að enginn haldi því fram að Geir hafi getað komið í veg fyrir bankahrunið. Hins vegar hafi hann getað brugðist betur við til að draga úr áhrifum þess. Aldrei hefur Steingrímur þó bent á hvernig hefði átt að bregðast við á annan hátt en gert var.
Í viðtali við fréttaveitu AFP er t.d. eftirfarandi haft eftir Geir H. Haarde: "Bankahrun varð víða um allan heim. En af hverju var enginn annar stjórnmálaleiðtogi dreginn fyrir dóm?" "Svarið er að engum hefur svo mikið sem dottið slíkt í hug því bankahrunið var ekki verk einstakra pólitískra leiðtoga."
Á þetta sama hefur verið bent margoft undanfarin ár á þessu bloggi. Alls staðar annarsstaðar en á Íslandi er viðurkennt að bankahrunið í heiminum hafi verið á ábyrgð fjárglæframanna og hér á landi varð hrunið meira en sums staðar annarsstaðar vegna þess að fjárglæframennirnir íslensku voru stórtækari í gerðum sínum en flestir aðrir og rökuðu nánast öllu eingin fé þeirra fyrirtækja, sem þeir komust yfir, í eigin vasa.
Á þetta benti Rannsóknarnefnd Alþingis og væntanlega mun það staðfestast enn frekar, þegar rannsóknum Sérstaks saksóknara lýkur.
![]() |
Þetta er pólitískur farsi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
2.7.2011 | 15:08
Ráðherrar á ágætum launum
Íslenskir ráðherrar eru á svo góðum launum að núverandi ríkisstjórn hefur gefið það út, að enginn í landinu megi hafa hærri laun en forsætisráðherrann, enda sé Jóhanna Sigurðardóttir tákngerfingur alls þess besta, kraftmesta og menntaðasta, sem í þjóðinni búi.
Þessir ráherrar ná sínum háu launum án krafna um sérstaka menntun, reynslu eða annarra sýnilegra hæfileika, en t.d. sérfræðilæknar þurfa ára- og áratugalangt nám og störf til að komast í "ráðherralaunin", en samt sem áður hljóta allir að sjá að forsætisráðherra sem t.d. hefur sótt flugfreyjunámskeið, á að sjálfsögðu að vera launahæsti einstaklingur þjóðar sinnar.
Þessi launastefna ríkisstjórnarinnar hefur reyndar valdið því að nú er þriðji hver íslenskur læknir við störf erlendis, þar sem engum dettur í hug að miða laun þeirra við launagreiðslur til misviturra stjórnmálamanna og allt bendir til að landflótti lækna muni frekar færast í aukana á næstunni.
Reyndar hefur fólksflótti úr landinu verið mikill á síðustu tveim árum og fer vaxandi, þannig að reikna má með að flestir sjúklingar íslenskra lækna verði fluttir úr landi innan fárra ára, þannig að skortur á læknum verði enginn hérlendis í framtíðinni.
Íslenskir sjúklingar munu þá auðveldlega geta hitt lækna sína í sínu næsta nágrenni í erlendum borgum.
![]() |
Læknar á ágætum launum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
1.7.2011 | 23:40
Guðmundur aflétti leyndinni sjálfur
Í fréttum RÚV í kvöld var því haldið fram að Landsbankinn væri búinn að afskrifa um tuttugu milljarða króna af skuldum Guðmundar Kristjánssonar, útgerðarmanns í Brimi, og fyrirtækjum sem honum tengjast.
Landsbankinn hefur sent frá sér athugasemd vegna fréttarinnar og segir hana ranga og villandi og þar að auki sé óskildum hlutum ruglað saman, en hins vegar geti bankinn ekkert upplýst um raunveruleika málsins vegna bankaleyndar.
Guðmundur sjálfur er ekki bundinn af neinni slíkri leyndarkröfu og ætti því í anda opinnar umræðu, þar sem allt er uppi á borðum og almenningi aðgengilegt, að upplýsa málið og skýra allar fjármálatilfærslur sem fram hafa farið frá hruni vegna hans sjálfs og allra fyrirtækja sem honum tengjast.
Það á engin "bankaleynd" að hvíla yfir því hvernig "skuldaaðlögun" fer fram hjá þeim sem mest mjólkuðu af lánum út úr bankakerfinu á árunum fyrir bankahrunið, sem einmitt varð vegna slíkra "viðskipta".
Þó Landsbankinn geti ekki leiðrétt frétt RÚV getur Guðmundur sjálfur gert það mjög auðveldlega.
![]() |
Alvarlegar athugasemdir |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
1.7.2011 | 19:19
Innlimunarferlið að ESB er á ábyrgð Ögmundar
Ögmundur Jónasson, Innanríkisráðherra, fór mikinn í ræðu á 50 ára afmælisráðstefnu embættis ríkissaksóknara í dag og gagnrýndi afskipti ESA af ýmsum málum hérlendis harðlega.
Ástæða gagnrýninnar var ekki síst afskipti og fyrirspurn ESA af lánveitingu Reykjavíkurborgar til OR og sagði Ögmundur m.a. um þau afskipti: "Lýðræðið vilji almennings er þannig dreginn í efa. Ég spyr: Hvert erum við eiginlega að halda?"
Ögmundur veit auðvitað svarið við eigin spurningu, um hvert við séum eiginlega að halda. Hann þykist vera að vara við inngögnu í ESB, enda sé vilji almennings fótum troðinn af því bákni.
Ögmundur samþykkti sjálfur stjórnarsáttmála við Samfylkinguna, sem innihélt sameiginlegan vilja beggja stjórnarflokkanna til innlimunar Íslands, sem afdalahrepps, í væntanlegt stórríki ESB.
Það sem Ögmundur þykist vera að gagnrýna er á hans eigin ábyrgð og undan því getur hann ekki vikist.
![]() |
Lýðræðið dregið í efa |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
1.7.2011 | 14:11
Til hvers að byggja nýjan spítala?
Í undirbúningi er að byggja nýtt sjúkrahús upp á tugimilljarða króna, sem ríkisstjóður getur ekki fjármagnað, en ætlar að láta lífeyrissjóðina reisa og leigja það síðan af þeim aftur. Að sjálfsögðu munu árlegar leigugreiðslur nema hundruðum milljóna króna, sem ríkissjóður mun eiga í erfiðleikum með að greiða.
Ekki er hægt að reka núverandi sjúkrahús eða heilbrigðiskerfi skammlaust, enda niðurskurður viðvarandi á öllum sviðum, endurnýjun tækja engin nema fyrir gjafafé og ekki hægt að greiða læknum og hjúkrunarfólki samkeppnishæf laun.
Í viðtali við Moggann segir Birna Jónsdóttir, formaður læknafélagsins, m.a: "Íslenskir læknar gera þá kröfu að ríkisstjórn og velferðarráðherra komi fram með skýra áætlun um hvernig þessari þróun skal snúið við, það er á ábyrgð framkvæmdavaldsins að sjá til þess að gera samninga og ráða í vinnu lækna til að sinna sjúkratryggðum Íslendingum."
Á meðan ekki er einu sinni hægt að útvega fólki heimilslækni, þrátt fyir sex ára bið, ekki hægt að reka heilbrigðiskerfið í núverandi mynd og sjúkrahús og heilbrigðisstofnanir fá ekki eðlilegt viðhald, hvorki á húsnæði eða tækjum, er fáránlegt að láta sér detta í hug að ráðast í byggingarframkvæmdir við nýtt risahúsnæði.
Þó húsið rísi innan fárra ára munu líða áratugir áður en búið verður að búa það þeim tækjum sem til þarf og þá mun það líklega verða orðið úrelt og líklegast að ráðast þurfi í meiriháttar breytingar til þess að taka það í notkun.
![]() |
Þriðji hver læknir erlendis |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
30.6.2011 | 18:38
Allir sekir, nema stjórnendur BYRs?
Fyrrverandi framkvæmdastjóri á rekstrarsviði Landsbankans var í dag dæmdur af Héraðsdómi í tveggja ára fangelsi fyrir fjárdrátt í bankahruninu, en að eigin sögn var millifærsla af erlendum reikningi bankans upp á 118 milljónir gerð til að bjarga bankanum frá því að tapa peningunum. Dómurinn féllst ekki á þessa skýringu og dæmdi því framkvæmdastjórann fyrrverandi sekan um fjárdrátt.
Ekki er langt síðan fyrrverandi ráðuneytisstjóri var dæmdur til svipaðrar refsingar fyrir að hafa nýtt sér innherjaupplýsingar um stöðu Landsbankans og því selt hlutabréf sín í bankanum mánuði fyrir gjaldþrot hans. Ekki félls dómstóllinn á þær skýringar að ráðuneytisstjórinn hefði einungis búið yfir almennum upplýsingum um stöðu bankanna og dæmdi því ráðuneytisstjórann hart, ekki síst vegna þess að um opinberan starfsmann var að ræða.
Fyrir nokkrum dögum voru hins vegar nokkrir stjórnendur Byrs sparisjóðs sýknaðir af ákærum um að hafa misnotað aðstöðu sína til að fría sjálfa sig áhættu af hlutabréfaeign í sparisjóðnum, með því að selja bréfin og koma áhættunni yfir á fyrirtækið sjálft, sem enda tapaði 800 milljónum króna, að minnsta kosti, á þessu braski.
Þetta verður að teljast merkilegt misræmi í dómsniðurstöðum.
![]() |
Fundinn sekur um fjárdrátt |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
30.6.2011 | 14:10
Ótrúleg misnotkun launakerfis ríkisins
Hvað eftir annað er Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, staðin að verki við brot á lögum, lagasniðgöngu, ósannsögli og hylmingu gagna þegar fyrirspurnum er beint til hennar á Alþingi.
Nú síðast gagnrýnir Ríkisendurskoðun hana harðlega fyrir að leyna upplýsingum um greiðslur fyrir "verktakastarfsemi" starfsmanna Félagsvísindadeildar HÍ í þágu ríkisstjórnarinnar, en Guðlaugur Þór Þórðarson hafði ítrekað reynt að pína þessar upplýsingar upp úr Jóhönnu, sem sífellt þverskallaðist við að veita þær.
Afar athyglisvert er að lesa eftirfarandi úr athugasemdum Ríkisendurskoðunar: "Ríkisendurskoðun segir jafnframt að bæta þurfi yfirsýn ráðuneyta um aðkeypta þjónustu og segir að notkun ráðuneyta á launakerfi ríkisins til greiðslu fyrir sérfræðiþjónustu orki tvímælis. Núverandi formleysi geri það að verkum að ekki sé hægt að veita fullnægjandi upplýsingar um óreglubundnar heildargreiðslur til sérfræðinga, þar sem þeir flokkist sem launþegar í bókhaldi ráðuneyta og á grundvelli upplýsingalaga sé ekki hægt að veita upplýsingar um launagreiðslur ráðuneyta til einstakra starfsmanna."
Svona vinnubrögð við að reyna að fela raunverulegar verktakagreiðslur sem launagreiðslur í launakerfi ríkisins gera meira en að orka tvímælis, þær hljóta nánast að flokkast undir bókhalds- og skjalafals í þeim eina tilgangi að fela upplýsingar um greiðslur til verktaka innan um upplýsingar um laun starfsmanna og gera þar með erfiðara að hafa nokkra heildaryfirsýn yfir greiðslurnar, hvorki launagreiðslur né verktakagreiðslur.
Þetta er algerlega óásættanlegar bókhaldsbrellur og tregða Jóhönnu til upplýsingargjafar um þessi mál og önnur aðeins enn ein fjöður í lagabrota- og leyndarhjúpsferil hennar.
Sá ferill ætti fyrir löngu að hafa leitt til afsagnar hennar og reyndar ríkisstjórnarinnar allrar.
![]() |
Vinnubrögð gagnrýnd harkalega |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
29.6.2011 | 19:23
Dómstóll götunnar og fjölmiðla dæmir án nokkurra málsgagna
Dómstóll götunnar og fjölmiðla var ekki lengi að dæma sýslumanninn á Selfossi til opinberrar hýðingar, embættis- og ærumissis, ásamt ævilangrar útskúfunar úr samfélagi manna, fyrir að úrskurða barnaníðing ekki í gæsluvarðhald á meðan að á rannsókn misgjörða hans fór fram. Sýslumaðurinn lét þetta yfir sig ganga þangað til í dag, enda skipta málsbætur, eða málsástæður yfirleitt, dómstól götunnar og fjölmiðla aldrei nokkru einasta máli.
Loksins í dag, eftir að Héraðsdómur og Hæstiréttur hafa fjallað um málið, sendi sýslumannsembættið frá sér skýringar á málinu og segir í þeim m.a: "Settur saksóknari kaus að lýsa því, við flutning kröfunnar fyrir Héraðsdómi Suðurlands, sem mistökum Lögreglustjórans á Selfossi að hafa ekki gert kröfu um gæslu yfir meintum geranda. Þetta gerir saksóknarinn vitandi vits að óformleg samskipti höfðu farið fram milli embættanna um mögulega gæsluvarðhaldskröfu bæði við upphaf máls, þegar upplýsingar um myndefnið lágu fyrir og við ábendingar barnaverndarnefndar Vestmanneyja í mars s.l. Niðurstaða þeirra samskipta var samdóma álit um að ekki skyldi krefjast gæsluvarðhalds. Ábyrgðin á þeirri ákvörðun er hinsvegar lögreglustjórans."
Þessar og aðrar skýringar og athugasemdir sýslumannsembættisins munu auðvitað engu máli skipta héðan af, því dómstóll götunnar og fjölmiðla hefur þegar kveðið upp sinn dóm og honum er ekki hægt að áfrýðja til neins æðra dómstigs og sama hve vitlausir og fljótfærnislegir dómar eru kveðnir upp af þessum aðilum, þá viðurkenna þeir aldrei nein mistök og þeir sem nánast líflátsdóma hljóta frá þeim eiga sér því yfirleitt engrar uppreisnar von.
Réttlát málsmeðferð er óþekkt hugtak hjá dómstóli götunnar og fjölmiðla.
![]() |
Fagnar staðfestingu Hæstaréttar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)