Færsluflokkur: Bloggar

Var hrunið bankamönnum að kenna?

Á Íslandi hafa vinstri menn haldið því stíft að fólki að bankahrunið bæði vestan hafs og austan, að ógleymdu íslenska "bankaráninu" sé alfarið "hrunstjórn" Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar að kenna, þó reyndar sé látið eins og Samfylkingin hafi alls ekki verið í stjórninni og alls ekki haft eitt eða neitt með bankamálin að gera, þrátt fyrir að ráðherra þess flokks hafi verið æðsti yfirmaður bankamálanna og fjármálaeftirlitsins.

Úti í hinum stóra heimi hefur enginn heyrt minnst á íslensku "hrunstjórnina" og þar dettur engum í hug að kenna öðrum en bankamógúlum um hvernig fór.  Ekki einu sinni hefur íslenskum vinstrimönnum dottið í hug að kenna sósilistastjórnum hinna ýmsu Evrópulanda um hrunið á þeim slóðum og taka sem góðri og gildri skýringu að alls staðar annarsstaðar en á Íslandi hafi það í raun verið ævintýra- og glæpamennska innan bankanna sjálfra sem sökina bera.

Nú hefur breskur prófessor bætt um betur og telur að eiturlyfjanotkun bankamanna hafi átt stóran hlut að máli, eða eins og segir í upphafi viðhangandi fréttar:  "David Nutt, fyrrverandi ráðgjafi bresku ríkisstjórnarinnar í vímuefnamálum, segir að bankahrunið hafi orðið vegna þess að of margir bankamenn neyttu kókaíns. Nutt, sem er prófessor, segir að bankamennirnir hafi í kókaínvímu verið fullir sjálfsöryggis og tekið of mikla áhættu."

Ekki dettur honum í hug að bankahrunið í Bretlandi hafi verið Verkamannaflokknum að kenna, sem þó var búinn að sitja í ríkjastjórn um margra ára skeið þegar bankahrunið varð í Bretlandi. 


mbl.is Bankamenn á kókaíni ollu hruninu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kjósið flokkinn - ekki formanninn

Skoðanakönnun MMR fyrir Viðskiptablaðið leiðir í ljós að rúm 40% þeirra sem ætla að kjósa Framsóknarflokkinn í komandi kosningum segjast myndu kjósa Sjálfstæðisflokkinn ef Hanna Birna Krístjánsdóttir væri formaður þess flokks.

Þetta sýnir ótvírætt hve persónulegar árásir, níð og lygar um Bjarna Benediktsson hafa haft gríðarleg áhrif á annars dyggt stuðningsfólk Sjálfstæðisflokksins, sem hefur látið stanslausan áróður vinstri manna í hans garð hafa áhrif á hvað það hyggst fyrir í kosningunum.  Með því að greiða Framsóknarflokknum atkvæði á að neyða Bjarna til að segja af sér formennskunni og þá mun Hanna Birna að sjálfsögðu taka við henni, enda varaformaður og staðgengill formanns.

Sá sem þetta skrifar er einlægur og dyggur stuðningsmaður Hönnu  Birnu og vill gjarnan sjá hana í formannsstólnum sem allra fyrst og reyndar þó fyrr hefði verið, en hefur ekki látið persónusvívirðingarnar í garð Bjarna hafa áhrif á lífsskoðanir sínar og mun að sjálfsögðu kjósa flokkinn í komandi kosningum, enda eini flokkurinn sem boðar þær hugsjónir og stefnu sem að þeim skoðunum falla.

Sannir stuðningsmenn Sjálfstæðisflokksins, sem óánægðir eru með Bjarna sem formann ættu eftir sem áður að standa við lífsskoðanir sínar og kjósa þann flokk sem næst þeim stendur og strika út af kjörseðlinum þá frambjóðendur sem þeir sætta sig ekki við.  Með miklum útstrikunum yrði Bjarna ekki sætt lengi í formannsstólnum, en stuðningsmennirnir myndu þá ekki stórskemma fyrir flokknum sjálfum með því að gera formannsskiptin sársaukafyllri fyrir alla aðila en nauðsynlega þyrfti.

Hugsjónirnar og flokkurinn sem fyrir þeim stendur er miklu mikilvægari en sá sem skipar formannssætið um skamma stund. 


mbl.is Fylgið myndi aukast ef Hanna Birna væri formaður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Allt Sjálfstæðisflokknum að kenna?

Á Íslandi hafa vinstri menn kennt Sjálfstæðisflokknum um bankahrunið á haustdögum árið 2008 og þar með að bera ábyrgð á kreppunni sem það olli með tilheyrandi erfiðleikum fyrir heimilin í landinu.  Þessi ótrúlega kjánalegi áróður virðist hafa gengið ótrúlega vel í almenning eins og skoðanakannanir sýna glögglega um þessar mundir.

Í þessum blekkingaráróðri er látið eins og bankahrun og kreppa hafi verið eitthvert séríslenskt fyrirbrigði og vandlega passað upp á að nefna ekki efnahagshrunið sem gekk yfir þjóðirnar austan hafs og vestan og átti upphaf sitt í Bandaríkjunum, en breiddist þaðan um allan hinn vestræna heim.

Í meðfylgjandi frétt má sjá hvernig kreppan hefur leikið löndin í ESB og almenning þar, sem er að glíma við gríðarlegt atvinnuleysi, hrun fasteignaverðs og ókleifan skuldamúr.

Það verður að teljast með miklum ólíkindum að fólk skuli taka mark á þeim áróðri að Sjálfstæðisflokkurinn  á Íslandi skuli hafa verið svo valda- og áhrifamikill að hann hafi með verkum sínum getað valdið heimskreppu.


mbl.is Sex milljónir starfa urðu kreppunni að bráð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sameinaðir stöndum vér, sundraðir föllum vér

Sjálfstæðisfólk sem af einhverjum ástæðum er ekki ánægt með formann flokksins, eða einstaka áherslur í stefnu hans, segir margt að nú ætli það að kjósa Framsóknarflokkinn vegna þess að næsta öruggt sé að flokkarnir tveir muni mynda ríkisstjórn saman að kosningum loknum í vor.

Rétt væri í því sambandi að hafa í huga að formaður Framsóknarflokksins sagði í Kryddsíldinni á Stöð 2 um síðustu áramót að fyrsta val flokksins að kosningum loknum, yrði hann í aðstöðu til að mynda ríkisstjórn, myndi vera að reyna að mynda stjórn "til vinstri".  Eftir að fylgi fór að færast af Sjálfstæðisflokknum yfir til Framsóknar hefur Sigmundur Davíð hins vegar látið lítið bera á þessum vinstridraumum sínum, enda afar ólíklegt að fylgendur Sjálfstæðisstefnunnar þrái að búa við vinstri stjórn næsta kjörtímabil.

Eina örugga leiðin til að forðast endurlífgun vinstri stjórnar er því að halda sig við að kjósa Sjálfstæðisflokkinn, enda er stefna hans hógvær og laus við loforðaglamur sem ekki verður hægt að standa við, en byggist hins vegar á raunhæfum lausnum til eflingar atvinnulífs, atvinnu og hagsæld heimilanna.

Kosningar eiga að snúast um málefni, en ekki persónulegt skítkast og galdralausnir sem allir vita innst inni að ekki eru annað en innistæðulaust orðagjálfur, sem ekkert er á bak við en lætur hins vegar vel í eyrum og vekur falsvonir hjá almenningi.

Einnig ætti fólk að hafa í huga þetta gamla og góða spakmæli:  "Sannur vinur er sá sem gengur inn þegar aðrir ganga út."


mbl.is Bjarni: Trúi á stefnuna fram í rauðan dauðann
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Trúir þú á galdra?

Frá fornu fari höfum við Íslendingar trúað á álfa og tröll, að ekki sé minnst á drauga og forynjur allskonar og þrátt fyrir tækniframfarir og vísindi nútímans virðist trúnaðurinn við hið yfirskilvitlega haldast með þjóðinni.

Nú boðar Framsóknarflokkurinn að strax að kosningum loknum muni hann galdra stóran hluta skulda landsmanna í burtu með einföldum Hókus Pókus aðferðum og auðvitað trúir stór hópur landsmanna á töfrana, ekki síður en á aðra óútskýranlega hluti.  Þrátt fyrir að allir vildu fegnir losna við skuldabyrði sína algerlega fyrirhafnarlaust, verður að teljast ótrúlegt hve margir láta blekkjast af galdraþulunni.

Góð og gömul ráðlegging hljóðar einhvern veginn á þessa leið:  "Virðist eitthvað vera of gott til að vera satt, er það venjulega of gott til að vera satt".

Þessu ættu menn að velta fyrir sér fram að kjördegi.   


mbl.is Framsókn fengi 40%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aprílgabb "sjálfstæðra sjálfstæðismanna"

Hópur stuðningsmanna innlimunar Íslands í væntanlegt stórríki ESB hefur kallað sig "sjálfstæða sjálfstæðismenn", sem væntanlega á að skírskota á kaldhæðnislegan hátt til þess að aðrir sjálfstæðismenn séu ósjálfstæðir vegna þess að þeir vilja tryggja fullveldi landsins til framtíðar og halda opnum leiðum til sjálfstæðra viðskipta og sambanda við allan þann hluta heimsins sem er utan Evrópu.

Í dag, 1. apríl, sendir "Flokkur heimilanna" frá sér fréttatilkynningu  um framboð til Alþingiskosninganna og segist samanstanda af átta stjórnmálasamtökum og áhugamannahópum og eru "sjálfstæðir sjálfstæðismenn" taldir þar á meðal.

Ekki getur verið um annað að ræða en að hér séu einhverjir spaugarar að gabba fólk i tilefni dagsins, því aðalstefnumál "Flokks heimilanna", fyrir utan að ætla á óútskýrðan hátt að lækka verðtryggðar skuldir, er algerlega eindregin andstaða við innlimun Íslands í Evrópusambandið.

Annað hvort hljóta "sjálfstæðir sjálfstæðismenn" að vera að hæðast að öðrum sem koma að stofnum flokksins, eða stofnendurnir eru að hæðast að þeim "sjálfstæðu" með því að tilgreina þá sem stofnfélaga að þessu baráttutæki gegn ESB. 


mbl.is Átta samtök standa að Flokki heimilanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óvinsæl afstaða til verðtryggingar

Þeir eru ekki margir stjórnmálamennirnir núna, sem þora að tjá sig um verðtrygginguna og ræða hana út frá öðrum forsendum en því slagorðaglarmri gegn henni sem tröllriðið hefur allri umræðu um málefnið undanfarin misseri.

Pétur Blöndal hefur verið trúr sinni skoðun á málinu allan tímann og nú  bætist Vilhjálmur Bjarnason í þann hóp, en eftir honum er m.a. haft í fréttinni:  "Vilhjálmur bendir á að laun hafi hækkað um 235% síðan 1992, en á sama tíma hafi verðbólgan verið 148%. Á þessum tíma hafi því orðið mikil aukning kaupmáttar. Ef horft sé til skemmri tíma, til dæmis 5 ára, sé þessu aðeins öfugt farið, eða 43% verðbólga á móti 34% launahækkun, en á síðustu 3 árum hafa launin hækkað um 19,5% á móti 12,5% verðbólgu. Hann segir því nauðsynlegt fyrir fólk að hafa þolinmæði og að til lengri tíma muni launakjör aukast umfram verðbólguna."

Ekki þarf að efast um að Vilhjálmur mun liggja undir miklum árásum á samskiptavefjum næstu daga vegna þessara ummæla, sem þó eru aðeins staðreyndir málsins. 


mbl.is Óþarfi að setja heilt samfélag á hvolf
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki batnar ástandið í ESB enn

Enn eykst efnahagssamdrátturinn í ESBríkjunum sem eru slæm tíðindi fyrir Íslendinga, eins og aðra, enda um mikilvægan markað að ræða fyrir útflutningsvörur landsins.

Erfiðleikarnir eru miklir og hafa verið langvarandi, þrátt fyrir að Össur Skarphéðinsson noti hvert tækifæri til að lýsa yfir kreppulokum í Evrópu, enda sé evran töframeðalið sem öllu muni bjarga þar.

Hvað sem veldur þessari niðursveiflu innan ESB er a.m.k. ólíklegt að hægt sé að kenna Geir H. Haarde og íslensku krónunni um hana.

Beðið er eftir nánari útskýringu Össurar á töfum efnahagsbatans sem evran átti að sjá um að yrði afar skjótur og mikill. 


mbl.is Efnahagslægðin dýpkar á evru-svæðinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Síðasti naglinn í kistu stjórnarskrárfrumvarpsins?

Undanfarna mánuði hafa sérfræðingar af ýmsum sviðum unnið að smíði líkkistu hins andvana fædda stjórnarskrárfrumvarps, sem sttjórnskipuð nefnd fæddi af sér eftir stutta meðgöngu.

Ríkisstjórnarflokkarnir hafa þó fram til þessa neitað að gefast upp á að endurlífga krógann, en nú hefur Feneyjanefndin rekið síðasta naglann í kistuna og verður ekki annað séð en að ekki verði lengur hægt að fresta útförinni.

Í fréttinni kemur m.a. fram um álit nefndarinnar:  "Feneyjarnefndin segir að verði tillögurnar samþykktar sé hætta á pólitísku þrátefli og óstöðugleika sem geti valdið alvarlegum vandræðum við stjórn landsins."

,Varla getur það hafa verið vilji nokkurs manns að  flækja stjórnkerfi landsins  og valda meira þrátefli og ósöðugleika frá því sem nú er.  Því verður ekki einu sinni trúað upp á Jóhönnu Sigurðardóttur og aðra flækjufætur, sem ásamt henni hafa fram til þessa neitað að kistuleggja líkið.

Hjá því verður þó ekki vikist lengur. 


mbl.is Flókin ákvæði í stjórnarskrá
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

ESB njósnar um skoðanir einstaklinga

ESB boðar nú nýja njósnastofnun á vegum sambandsins, sem fylgjast á með skrifum einstaklinga á samskiptavefjum um ESB og bregðast við neikvæðum skoðunum sem fram koma um stórríkið væntanlega.

Í viðhangandi frétt segir að m.a. komi fram í leyniskjali um málið:  "Þá segir að embættismenn Evrópuþingsins þurfi að geta fylgst með slíkum samskiptum á milli almennings á netinu sem og utan þess með skipulögðum hætti og tekið þátt í þeim og haft áhrif á þau með því að leggja fram staðreyndir og bregðast þannig við goðsögnum um Evrópusambandið. Þjálfun starfsmanna þingsins í þeim efnum hefst síðar í þessum mánuði."

Í Sovétríkjunum og fleiri harðstjórnarríkja, sem virðast vera orðin fyrirmynd ESB, tíðkaðist að njósna á svipaðan hátt um einstaklinga og almenningur var jafnframt látinn fylgjast með nágrönnum sínum og ættingjum og tilkynna til yfirvalda um allt sem hægt væri að túlka á neikvæðan hátt fyrir yfirvöld.

Í Sovétríkjunum voru "neikvæðir" einstaklingar sendir í Gúlagið og í Kína og Norður-Kóreu eru fjölmennustu þrælabúðir veraldar, þar sem fólk er "endurmenntað" í þágu opinberra skoðana og fjölmargir eru umsvifalaust teknir af lífi fyrir óæskilegar skoðanir.

ESB stefnir hraðbyri í starfsemi  í ætt við það sem tíðkaðist og tíðkast í  fyrirmyndarríkjum sínum. 


mbl.is Vill taka á gagnrýni á ESB á netinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband