Sameinaðir stöndum vér, sundraðir föllum vér

Sjálfstæðisfólk sem af einhverjum ástæðum er ekki ánægt með formann flokksins, eða einstaka áherslur í stefnu hans, segir margt að nú ætli það að kjósa Framsóknarflokkinn vegna þess að næsta öruggt sé að flokkarnir tveir muni mynda ríkisstjórn saman að kosningum loknum í vor.

Rétt væri í því sambandi að hafa í huga að formaður Framsóknarflokksins sagði í Kryddsíldinni á Stöð 2 um síðustu áramót að fyrsta val flokksins að kosningum loknum, yrði hann í aðstöðu til að mynda ríkisstjórn, myndi vera að reyna að mynda stjórn "til vinstri".  Eftir að fylgi fór að færast af Sjálfstæðisflokknum yfir til Framsóknar hefur Sigmundur Davíð hins vegar látið lítið bera á þessum vinstridraumum sínum, enda afar ólíklegt að fylgendur Sjálfstæðisstefnunnar þrái að búa við vinstri stjórn næsta kjörtímabil.

Eina örugga leiðin til að forðast endurlífgun vinstri stjórnar er því að halda sig við að kjósa Sjálfstæðisflokkinn, enda er stefna hans hógvær og laus við loforðaglamur sem ekki verður hægt að standa við, en byggist hins vegar á raunhæfum lausnum til eflingar atvinnulífs, atvinnu og hagsæld heimilanna.

Kosningar eiga að snúast um málefni, en ekki persónulegt skítkast og galdralausnir sem allir vita innst inni að ekki eru annað en innistæðulaust orðagjálfur, sem ekkert er á bak við en lætur hins vegar vel í eyrum og vekur falsvonir hjá almenningi.

Einnig ætti fólk að hafa í huga þetta gamla og góða spakmæli:  "Sannur vinur er sá sem gengur inn þegar aðrir ganga út."


mbl.is Bjarni: Trúi á stefnuna fram í rauðan dauðann
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: K.H.S.

Haukur er hér trúr ítroðslumeistara Samfylkingarinnar Jóni Ásgeiri og kennir Davíð um afleiðingar atferlis útrásarvíkinga og Bifrastarmenntaðra bankasóða. Frelsið kunnu þeir ekki með að fara og kunna ekki enn. Samanber skilanefndir og ótrúlega launatöku þeirra. Ekkert breist síðustu fjögur ár nema skattpíning almúgans, keyrð í drep. Hrósa sér hver um annan þveran með minnkandi verðbólgu og batnandi vöruskiptajðfnuð í gjaldeyrishöftum og framkvæmdarleysi.

Það hefði verið viturlegast þegar sást í framboðskosningunum hvert stefndi að fá Davíð til starfa aftur. Bjarni og Illugi hvöttu á sínum tíma til inngöngu í ESB og þeim er ekki treystandi. Bjarni klikkaði á Icesave. Bæði Bjarni og Illugi eru með vondan feril á bakinu í peningamálum. Bjarni eyðilagði mótmæli þeirra sem heima sátu í Stjórnarskrárkosningunum.

Hanna Birna fór svo að draga úr ályktunum Landsfundar flokksins í ESB málum og þar með fór það.

K.H.S., 7.4.2013 kl. 18:22

2 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Ekki var annað hægt en að gera Hauki þann greiða að fella athugasemd hans út, enda gerir hann sjálfum sér engan sóma með því orðbragði sem hann temur sér.

Þú, K.H.S. ert nú reyndar alveg á mörkunum.

Axel Jóhann Axelsson, 7.4.2013 kl. 18:38

3 Smámynd: K.H.S.

Fyrst Haukur er farinn máttu mér að meinalausu skera ofnaf þessu hjá mér talið til Hauks og restina líka ef hún vekur óbragð. Svo auðvitað hendirðu þessu líka.

bkv. Kári.

K.H.S., 7.4.2013 kl. 19:21

4 identicon

Sjálfstæðisflokkurinn þarf að berjast við fleiri andstæðinga en önnur framboð þ.e. 365 miðla og DV. Þessi fjölmiðlafyrirtæki minnast lítið á fylgistap Samfylkingar og VG í

skoðunarkönnunum og ekki eitt orð um að Katrín Júlíusdóttir taki við af Árna Páli, sem formaður SF og Björn Valur Gíslason taki við af Katrínu Jakobsdóttur, sem formaður VG.

Hvers vegna?

kv. Sæmundur Gunnarsson

Sæmundur Gunnarsson (IP-tala skráð) 7.4.2013 kl. 21:00

5 Smámynd: K.H.S.

Mátt bæta við RUV Sæmundur eða Óðinsvéum eins og sú stofnun er nefnd eftir að Palli afhenti Óðni völdin. Svo hann færi ekki sömu leið og Markús. Annars var þessi lausn Palla á hans málum bráðsnjöll. Öll gagnrýni á hann og ráðningu Þorgerðar á honum, hvarf eins og dögg fyrir sólu og mesta vesenið við starfið færðist á aðra hendi.

K.H.S., 7.4.2013 kl. 21:19

6 identicon

Sjáðu til Axel, það er ástæða fyrir hruni Sjálfstæðisflokksins, og hún er einföld, fólk hefur ekki trú á honum. Ekki að að stefnuskráin sé vond, eða flokkurinn sé með eða á móti ESB, með eða á móti skuldaniðurfellingum eða einhverju orði.

Sjáðu til, Sjálfstæðisflokkurinn hefur álitið sig eiga atkvæði, að hann móti og ákveði skoðanir kjósenda sinna.

Nú eru breyttir tímar, og fólk hefur ekki lengur þolinmæði með flokki sem augljóslega leggur meiri áherslu á velferð frambjóðenda en velferð kjósenda. Flokkurinn tók ekki nægilega vel til hjá sér. Bjarni Ben, eins ágæt persóna og hann kann að vera, á sér ekki hljómgrunn hjá ansi mörgum kjósendum, þeir bara hreinlega hafa ekki trú á honum, og Hanna Birna, eins og hún lofaði góðu, virðist engar skoðanir hafa.

Sjálfstæðisflokkurinn virkar bara ekki sannfærandi, honum buðust tækifæri til þess að skipta um formann, en lét það tækifæri ganga sér úr greipum. Þetta voru stærstu einstöku mistökin, og þau eru túlkuð þannig að Bjarni Ben skipti meira máli en kjósandinn. Og það er allt í lagi. Sjálfstæðisflokkurinn má ráða sínum málum sjálfur. En hann þarf bara að þola dóm kjósenda, og forystan og tryggir flokksmenn þurfa bara að játa það fyrir sjálfum sér, að sökin liggur alfarið hjá þeim, en ekki kjósandanum.

Hræðsluáróður um hversu vondir hinir eru, og hversu hræðileg örlög okkar bíða ef við sættum okkur ekki við velferð Bjarna Ben virkar ekki. Þessi hræðsluáróður er heldur ekki að gera sig hjá Samfylkingu, og sannarlega ekki Vinstri grænum. Það er líka alveg kýrskýrt að það verður enginn sem axlar ábyrgð hjá Sjálfstæðisflokki, þrátt fyrir yfirvofandi afhroð. Það verður að vísu skipt um formann einhver tíma á næsta kjörtímabili, en það verður ekki á næstunni, enda líkur á að flokkurinn verði aukahjól undir ríkisstjórnarvagni Framsóknar.

Ergó, það ber enginn ábyrgð hjá flokknum, og hefur ekki gert lengi. Við þarna úti skynjum það, þó þið hörðu flokksmenn geri það ekki.

Og að þeim sem tjá sig hér að ofan, miðlunum er sennilega verr við Framsókn en Sjálstæðisflokk, en það skilar sér bara í auknu fylgi flokksins. En það má lengi reyna að finna einhverja þægindaskýringu sem móðgar engan í forystu flokksins.

Hilmar (IP-tala skráð) 8.4.2013 kl. 03:43

7 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Hilmar, Bjarni var kjörinn formaður af meirihluta á landsfundum flokksins og þar er málefnaskráin samþykkt. Þrátt fyrir að ég hafi ekki kosið Bjarna í formannsstólinn, sætti ég mig við niðurstöðu meirihlutans og styð þá forystu sem kosin var. Maður svíkur ekki hugsjónir sínar þó maður lendi í minnihluta í einstökum málum og kosningum um hver situr í formannssætinu hverju sinni.

Sem sannur lýðræðissinni beygi ég mig undir vilja meirihlutans hverju sinni, en fer ekki í fýlu og kasta lífsskoðunum mínum út um gluggann til að kjósa aðra flokka sem ég hef verið ósammála alla ævi. Stefna og hugsjónir flokksins standa fyrir sínu, þó einhver persóna sem aðhyllist sömu skoðanir falli ekki í kramið hjá öllum.

Þessi lífsskoðun breytist ekki fram að kosningum og við niðurstöðuna verður maður að sætta sig þó ekki verði maður sáttur, fari kosningin eins og skoðanakannanir sýna um þessar mundir.

A.m.k. fram að kosningum trúi ég því að kjósendur muni sjá ljósið og taka málefnalega afstöðu. Hins vegar trúi ég orðið hverju sem er eftir útkomu Besta flokksins í síðustu borgarstjórnarkosningum. Kjósendur virðast ekki taka hlutunum af þeirri alvöru sem vera ætti og tilbúnari til alls kyns ævintýramennsku með hagsmuni sína en áður var.

Ef svo er, þá verður bara að bíta á jaxlinn og taka því.

Axel Jóhann Axelsson, 8.4.2013 kl. 09:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband