Læknaskorturinn er orðinn verulegt vandamál

Niðurskurðurinn í heilbrigðiskerfinu er farinn að valda verulegum læknaskorti í landinu, því læknar eins og margar aðrar starfsstéttir leita nú fyrir sér um vinnu erlendis, þar sem launakjör og vinnuaðbúnaður er langtum betri en er hér á landi, sérstaklega eftir banka- og efnahagshruinið haustið 2008.

Sveinn Kjartansson, formaður samninganefndar lækna, segir að nýgerður kjarasamningur við ríkið verði ekki til þess að laða þá lækna, sem þegar starfa erlendis, heim aftur, en geti orðið til þess að fækka eitthvað í þeim hópi sem annars hefði flúið land vegna launa og aðbúnaðar á vinnustöðum, eða eins og haft er eftir honum í fréttinni:  "Þetta mun ekki breyta því að ungir læknar hraði sér út í sérnám og borin von að kjörin muni lokka unga öfluga sérfræðilækna heim, eins og við þurfum á að halda. Þetta gæti hugsanlega orðið til þess að sá hópur lækna sem starfað hefur á Íslandi dragi við sig að segja upp og fara alfarið til vinnu erlendis. Það er kannski helsti ávinningurinn."

Læknaskortur er þó ekki alveg nýr af nálinni hér á landi, því a.m.k. hefur skort heimilislækna í mörg ár og ekki verið skilningur í kerfinu á því að fjöldi fólks hefur ekki aðgang að föstum heimilislækni og þarf að fara á milli lækna með sjúkrasögu sína, nánast í hvert skipti sem eitthvað það bjátar á, sem kallar á lækisheimsókn.

Sem dæmi má nefna að fólk hefur þurft að bíða árum saman eftir föstum heimilislækni í Grafarvogi og hjá sumum a.m.k. fer biðin að slaga í áratuginn. 


mbl.is Föst yfirvinna til að halda í lækna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gnarrið í borgarstjórn

Löngu er komið í ljós að Jón Gnarr ræður engan veginn við borgarstjórastarfið, enda sáu flestir það fyrir og þeir sem þó kusu hann og flokk hans fyrir ári síðan sjá nú mikið eftir því, eins og skoðanakannanir undanfarið hafa leitt í ljós.

Í fyrra var embætti borgarritara lagt niður og stofnað nýtt embætti skrifstofustjóra borgarinnar og skyldi sá sem því embætti gengdi vera staðgengill borgarstjóra og reyndar taka að sér flest þau verk sem borgarstjóri hafði sinnt fram að því.

Nú er embætti borgarritara endurvakið og m.a. á sá sem í það starf verður ráðinn að hafa aðsetur á skrifstofu borgarstjóra og virðist eiga að vera staðgengill borgarstjóra og vinna þau verk sem borgarstjóraembættinu tilheyra. Ekki hefur ennþá komið fram hvaða breytingar eigi að gera á embætti skrifstofustjóra borgarinnar, né hvort hann og borgarritari eigi að skipta með sér störfum borgarstjóra eða annast þau í sameiningu.

Jón Gnarr, borgarstjóri, á greinilega að hafa frjálsar hendur til að gera allt sem honum dettur í hug, annað en að vinna borgarstjórastörfin.


mbl.is Óskýrt hlutverk borgarstjóra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ólaf Ragnar ei meir

Ólafur Ragnar Grímsson verður búinn að sitja á forsetastóli í sextán ár næsta vor, þegar næstu forsetakosningar munu fara fram. Enginn forseti hefur setið lengur en þrjú kjörtímabil fram til þessa, en Ólafur Ragnar væri vís til að vilja brjóta þá hefð eins og flestar aðrar varðandi forsetaembættið.

Ólafi Ragnari hefur tekist að spila með þjóðina á undraverðan hátt í tíð sinni sem forseti og hefur alltaf heppnast að spila út einhverju trompi til að snúa almenningsálitinu sér í vil, þegar glitt hefur í þann mann sem hann hefur raunverulega að geyma.

Nú er nóg komið af Ólafi Ragnari í forsetaembættinu og vonandi sameinast þjóðin um að skipta um þá persónu sem embættinu muni gegna næstu árin.


mbl.is Forsetinn á allra vörum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Niðurlæging ríkisstjórnarinnar

Ríkisstjórnin nýtur stuðnings 26% þjóðarinnar en 74% eru henni andvíg. Ekki þurfa þessar niðurstöður að koma nokkrum á óvart, því að sjálfsögðu uppsker stjórnin eins og hún sáir.

Almenningur finnur á sjálfum sér og heimilisbuddunni að ástandið fer síst skánandi því lengra sem líður frá hruninu, þvert á það sem hefði átt að gerast og allir reiknuðu með.

Hagvöxtur er enginn, atvinnuleysi mikið, fólksflóttinn heldur áfram, heimilin að kikna undan skuldavanda og sjá ekki fram á að atvinnuástand batni á næstu misserum og þar með lítil von um tekjuaukningu og ríkisstjórnin hreinlega berst með kjafti og klóm gegn hvers konar atvinnuuppbyggingu og vinnur þar með að því að dýpka og lengja kreppuna.

Ríkisstjórnin nýtur álíka lítils fylgis meðal þjóðarinnar og skrípaborgarstjórinn Jón Gnarr nýtur meðal Reykvíkinga.

Það ætti hverri ríkisstjórn að þykja hámark niðurlægingar sinnar.


mbl.is Ríkisstjórnin með 26% fylgi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samfylkingin á engin foringjaefni

Jóhönnu Sigurðardóttur var sett í formannsstól Samfylkingarinnar þegar Ingibjörg Sólrún varð að láta af formennsku í flokknum af heilsufarsástæðum, enda fannst enginn annar í flokknum, sem talist gat hæfur í embættið.

Flokkurinn stríðir ennþá við þetta vandamál og því líklegt að Jóhanna verði endurkjörinn formaður flokksins á landsfundi flokksins í októbermánuði. Enginn þeirra sem nú gegna ráðherrastörfum, eða öðrum trúnaðarstörfum, í nafni flokksins hefur traust flokksmanna til að gegna embættinu og traust utanflokksmanna til þeirra er algerlega á núllpunkti.

Þetta atgerfisvandamál hlýtur að vera afar sárt fyrir Samfylkingarfólk, ekki síst í samanburðinum við það mannval sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur á að skipa í sinni forystusveit, þar sem margir bæði gætu og hefðu traust til að taka að sér formennsku í flokknum.

Því miður fyrir þjóðina bendir allt til þess að Samfylkingin og þar með blásaklaus almenningur, sitji uppi með Jóhönnu enn um sinn.


mbl.is Enginn krafðist kosninga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kreppan dýpkuð og lengd

Hagstofa Íslands hefur sent frá sér nýjar upplýsingar um landsframleiðsluna og í þeim staðfestist það sem sagt hefur verið, þ.e. að ríkisstjórninni sé að takast að dýpka og lengja kreppuna um fjöldamörg ár, umfram það sem hrunið árið 2008 gaf tilefni til.

Í fréttinni af skýrslu Hagstofunnar segir m.a:  "Þar kemur einnig fram að samkvæmt endurskoðuðum tölum Hagstofunnar yfir þjóðhagsreikninga á árinu 2010 dróst landsframleiðslan á því ári saman um 4% en áður var talið að samdrátturinn hefði numið 3,5%. Árið 2009 dróst landsframleiðslan saman um 6,7%. Hagstofan segir, að samdráttur landsframleiðslu á árinu 2010 sé að árinu 2009 undanskildu sá mesti sem mælst hefur frá árinu 1968, en þá nam hann 5,5%. Landsframleiðsla á liðnu ári varð svipuð að raungildi og landsframleiðsla ársins 2005."

Ríkisstjórnin hefur barist með kjafti og klóm gegn hvers konar atvinnuuppbyggingu í landinu og þrátt fyrir fagrar yfirlýsingar og loforð um að greiða götu allrar mögulegrar fjárfestingar, þá hefur allt slíkt verið svikið jafnóðum og þar að auki hafa nú komið fram upplýsingar um að fjármálaráðherrann hafi unnið bak við tjöldin að því að eyðileggja allar áætlanir sem iðnaðarráðherrann hefði þó viljað koma í framkvæmd.

Sem betur fer styttist starfstími ríkisstjórnarinnar með hverjum deginum sem líður og miklar vonir standa til þess að hún falli um sjálfa sig á næstu vikum. 

 


mbl.is Landsframleiðsla dróst saman
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hanna Birna er glæsilegur forystumaður

Hanna Birna Kristjánsdóttir hugleiðir áskoranir um að hún gefi kost á sér í embætti formanns Sjálfstæðisflokksins, en kosningar til æðstu embætta flokksins fara fram á Landsfundi í nóvember.

Bjarni Benediktsson hefur lýst því yfir að hann hafi áhuga á að gegna embættinu áfram og gefur því að sjálfsögðu kost á sér til endurkjörs. Bjarni hefur verið vaxandi í starfi sínu sem formaður þann stutta tíma sem hann hefur gengt embættinu. Hann hefur mátt þola talsverða gagnrýni fyrir að vera ekki nógu stefnufastur, en eflist við hverja raun.

Hanna Birna er glæsilegt foringjaefni og myndi sóma sér vel í formannsembættinu og enginn annar stjórnmálaflokkur í landinu getur státað af öðru eins mannvali í forystu sinni og Sjálfstæðisflokkurinn.

Hvort sem Hanna Birna eða Bjarni verður formaður Sjálfstæðisflokksins að afloknum Landsfundi verður fundurinn upphaf stórsóknar flokksins á landsvísu, enda sá flokkur sem best er treystandi til að koma þjóðfélaginu á skrið á nýjan leik, eftir hrunið 2008 og skelfilega óstjórn "Norrænu velferðarstjórnarinnar" síðan.


mbl.is Útilokar ekki neitt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki einn um að fyrirverða sig

Richard Quest spurði Geir H. Haarde, í þætti sínum á sjónvarpsstöðinni CNN, hvað það segði um lýðræðið á Íslandi að stjórnmálamanni væri stefnt fyrir dómstóla vegna pólitískra starfa sinna.

Geir svaraði því til, að slíkt segði ekkert um lýðræðið en því meira um þá stjórnmálamenn sem beittu slíkum brögðum gegn pólitískum andstæðingum sínum. Jafnframt sagðist hann fyrirverða sig fyrir þá niðurlægingu Alþingis sem kristallast í þessari atlögu að honum.

Það eru fleiri en Geir H. Haarde sem skammast sín fyrir þessar pólitísku ofsóknir, sem óprúttnir stjórnmálamenn misnotuðu þingið til að koma fram.

Samkvæmt skoðanakönnunum er mikill meirihluti þjóðarinnar á sama máli.


mbl.is Fyrirverður sig fyrir Alþingi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Banna siðareglur samkeppni?

Kostulegar kvartanir eru til umfjöllunar hjá Lögmannafélagi Íslands, en þær snúast um þann hræðilega grun nokkurra lögmanna, að ákveðin lögmannsstofa reyni að útvega sér viðskiptavini, sem jafnvel hafa áður þurft á lögfræðiþjónustu að halda.

Ef það telst til brota á siðareglum lögmanna að reyna að afla sér viðskipta, þá eru siðareglurnar einfaldlega eitthvað meira en lítið undarlegar. Í landi, þar sem frjáls samkeppni ríkir á flestum sviðum, hlýtur það að vera eðlilegasti hlutur í heimi að keppst sé um viðskitin, bæði með því að bjóða betri verð og þjónustu en keppinauturinn.

Ef lögmenn hafa leitt einhverskonar einokunartilburði inn í sínar siðareglur þarf að breyta þeim í takt við það sem almennt tíðkast í nútímaþjóðfélagi.

Lögfræðingar eru sú stétt manna í þjóðfélaginu, sem síst ætti að stunda verðsamráð og samkeppnishamlandi bellibrögðum.


mbl.is Reyni að ná viðskiptum annarra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Enn einn toppur á ruglinu frá ríkisstjórninni

Ruglið og vitleysan í stjórnun landsins hefur verið nánast takmarkalaus í tíð núverandi ríkisstjónrar og í hvert sinn sem talið er að nú hafi toppnum verið náð, þá er skellt fram einhverju nýju rugli sem toppar það sem áður er komið.

Nýjasta nýtt í dellumálunum er að finna í væntanlegu frumvarpi um stjórnarráðið, þar sem það verðu lagt í hendur forsætisráðherra hverju sinni að ákveða fjölda ráðuneyta og þar með ráðherra og til viðbótar eiga ráðherrar að fá heimild til að ráða sér tvo pólitíska aðstoðarmenn og jafnvel allt að þrem til viðbótar, þannig að þeir verði alls fimm.

Stjórnarmeirihlutinn í Allsherjarnefnd Alþingis þykir ekki nóg að gert í upphaflegu frumvarpi, eða eins og segir í fréttinni: "Í nefndaráliti meirihluta nefndarinnar kemur fram að ákvæði frumvarpsins um aðstoðarmenn og ráðgjafa ráðherra séu ekki fullnægjandi. Telur meirihlutinn brýnt „að skapað verði aukið svigrúm fyrir ráðherra til að ráða til sín pólitíska aðstoðarmenn þannig að þeir fái með eðlilegum hætti sinnt pólitískri stefnumótun innan ráðuneyta sinna,“ segir í nefndarálitinu."

Hér á landi er þingbundin ríkisstjórn, sem þýðir að það er meirihluti Alþingis sem á að leggja hinar pólitísku línur hverju sinni, en ekki ráðherrarnir.  Ráðherrarnir eiga í raun að framfylgja samþykktum og lögum, sem samþykkt eru á þinginu, þar sem hin pólitíska umræða og stefnumótun fer fram.

Að ætla sér að koma upp sérstökum pólitískum skrifstofum innan hvers ráðuneytis fyrir sig með allt að fimm pólitískum aðstoðarmönnum ráðherra á launum frá almenningi við að "sinna pólitískri stefnumótun innan ráðuneyta" er gjörsamlega galin hugmynd, svo vægt sé til orða tekið.

Hitt er annað mál, að enginn er lengur hissa neinu sem frá "Norrænu velferðarstjórninni" og þingmeirihluta hennar kemur. 


mbl.is Heimilt að fjölga aðstoðarmönnum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband