31.8.2009 | 13:39
Farsæl lausn
Samkeppnisstofnun úrskurðaði að Orkuveita Reykjavíkur mætti ekki eiga stærri hlut en 10% í HS Orku, en áður hafði OR gert samning við Hafnafjarðarkaupstað um kaup á hlut kaupstaðarins í fyrirtækinu. OR vildi losna undan samningnum við Hafnfirðingana, en þeir knúðu söluna til OR í gegn, samt sem áður og settu þar með OR í þá stöðu, að verða að finna kaupanda að eignarhlutnum með öllum ráðum.
Aðeins eitt tilboð barst í eignarhlutinn, þ.e. frá kanadíska fyrirtækinu Magma Energy, og verður því að öllum líkindum tekið, eftir að Steingrímur J. gafst upp á að reyna að ríkisvæða fyrirtækið að nýju, eða réttara sagt, að reyna að ríkisvæða lífeyrissjóðina í þessum tilgangi.
Ríkissjóður á fullt í fangi með þau fyrirtæki, sem hann neyðist til að yfirtaka í því efnahagsástandi, sem nú ríkir, þó ekki sé verið að kaupa upp fyrirtæki fyrir tugi milljarða, sem einkaaðilar hafa áhuga og getu til að reka.
Aldrei hefur verið brýnna, en einmitt nú, að laða erlenda fjárfestingu til landsins og ef þessi viðskipti verða til að vekja athygli einhverra erlendra fjárfesta á landinu og möguleikunum hérlendis, verður þessi sala til mikils góðs.
![]() |
Magma fær hlut Orkuveitunnar í HS Orku |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
31.8.2009 | 10:08
Svíar alltaf til fyrirmyndar
Nú berast þær fréttir frá Svíaríki, að setja eigi nýjar reglur um vinnupásur þar í landi, eða eins og segir í fréttinni: "Frá og með 1. maí næstkomandi mega opinberir starfsmenn hjá Stokkhólmsborg ekki reykja í vinnutímanum. Þeir mega hins vegar reykja í hádegishléinu þar sem það er ekki greiddur vinnutími."
Þar sem alltaf má treysta á Svía í góðu fordæmi, hljóta þeir fljótlega að banna ýmislegt fleira, þar sem það er ekki greiddur vinnutími. Nokkur atriði, sem hljóta að koma fljótlega til skoðunar eru t.d: Klósettferðir, símtöl til mömmu, pabba, eiginkonunnar, eiginmannsins, barnanna og ömmu, allar verslana- og bankaferðir, eða yfirleitt allar persónulegar hugsanir og allt annað, hverju nafni sem nefnist, sem ekki telst til nauðsynja fyrir greiddan vinnutíma.
Hér eftir verður allt, nema vinnan sjálf, framkvæmt í hádegishléinu, þar sem það er ekki greiddur vinnutími. Allir geta séð hvílíkur sparnaður felst í svona ráðstöfunum, enda á fólk auðvitað ekki að vera að slóra neitt í vinnutímanum.
Þetta eru menn búnir að uppgötva víðar en í Svíþjóð, en illar tungur kalla slíkt fyrirkomulag barnaþrælkun, eða öðrum slíkum ónefnum, en Svíar hafa auðvitað ekki áhyggjur af slíku.
Í Svíþjóð ríkir norrænt velferðarkerfi.
![]() |
Reykpásur bannaðar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
29.8.2009 | 14:08
Stjórnin verður varla langlíf
Fyrstu fréttir frá Hollandi eru þær, að þingmenn þarlendir telji fyrirvarana við ríkisábyrgðina óásættanlega og að þeir kalli á nýja samninga. Formleg viðbrögð stjórnvalda í Hollandi og Bretlandi hafa ekki ennþá komið fram. Fari svo, að samningar verði teknir upp aftur, er lágmarkskrafa, að alvöru samninganefn verði sett í málið, með alla helstu sérfræðinga á þessu sviði innanborðs og til aðstoðar. Svavar Gestsson, í umboði Steingríms J., hefur nú þegar sannað óhæfni sína og hefur unnið þjóðinni stórkostlegt ógagn, sem erfitt verður að bakka útúr.
Hvað sem verður um aftsöðu Breta og Hollendinga til ríkisábyrgðarinnar, er ríkisstjórnin svo ósamsæð og sundurlyndið svo mikið í einstökum málum, að vandséð er hvernig hún á að lifa veturinn af. Framundan er frágangur fjárlaga og og þar með svo gríðarlegur niðurskurður í rekstri ríkisins, sem og nýjar skattahækkanir á einstaklinga, að stjórnarflokkarnir munu varla koma sér saman í þeim efnum, ferkar en í öðrum erfiðum málum.
Steingrímur J. á í erfiðleikum með VG arm Ögmundar í öllum málum og engum þarf að detta í hug að formaður BSRB (í leyfi) verði leiðitamur við niðurskurð ríkisfjármálanna og uppsagnir umbjóðenda sinna í BSRB.
Steingrímur J. sagði í útvarpinu í gær, að framundan væri langur og strangur vetur, sem yrði öllum afar erfiður.
Þetta eru þau huggunarorð, sem eiga að telja kjark og þor í þjóðina.
![]() |
Víki verði fyrirvörum hafnað |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.8.2009 | 16:03
Landsliðið til sóma
Landslið Íslands í knattspyrnu kvenna hefur staðið sig með mikilli prýði í undankeppninni að EM og í mótinu sjálfu, þó leikirnir tveir, gegn Frökkum og Norðmönnum, hafi tapast. Í Frakkaleiknum létu stelpurnar dómarann fara í taugarnar á sér og urðu óöruggar vegna þessarar lélegu dómgæslu, sem bitnaði nánast eingöngu á íslenska liðinu. Á köflum léku íslensku stelpurnar stórvel og ekki síður í leiknum gegn Noregi, en sá leikur hefði unnist með smá heppni. Raunar unnu Norðmenn hann með smá heppni, því íslenska liðið spilaði ekkert minni gæðaknattspyrnu en það norska.
Síðasti leikurinn, gegn Þýskalandi á sunnudag, verður vafalaust skemmtilegur og stelpurnar geta mætt afslappaðar til leiks, þar sem vonin um milliriðil er líklega úr sögunni. Þýsku vélmennin hafa sýnt mikinn styrk í keppninni og óraunhæft er, að ætlast til að íslensku stelpurnar vinni þær, enda vantar þær reynslu af svona stórmótum, en Þjóðverjarnir hafa hins vegar mikla reynslu af því að sigra á slíkum mótum og gera það vafalaust einnig nú.
Nú, að þessu móti loknu, er bara að snúa sér að næsta stórmóti, sem er HM og takmarkið verður auðvitað að komast í lokakeppnina. Íslensku stelpurnar hafa sýnt og sannað, að þær eiga fullt erindi á HM og með meiri reynslu af stórmótum, munu þær komast sífellt lengra í slíkum keppnum.
Áfram Ísland.
![]() |
EM: Reynsluleysið varð okkur að falli |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
28.8.2009 | 14:20
"Fyrirvararnir stórbættu þetta mál" segir Ögmundur um þrælalögin
Ögmundur Jónasson, heilbrigðisráðherra, var eindreginn andstæðingur ríkisábyrgðarinnar vegna Icesaveskulda Landsbankans og lá ekki á þeirri skoðun sinni, að um algeran þrælasamning væri að ræða, sem aldrei skyldi samþykkja. Félagi hans í VG og ríkisstjórninni, Steingrímur J., var á allt annarri skoðun og lét ekkert tækifæri ónotað, til þess að dásama samninginn, sem félagar hans, Svavar Gestsson og Indriði H. Þorláksson, gengu frá í flýti á föstudagskvöldi, áður en þeir skáluðu síðan við þrælakaupmennina frá Bretlandi og Hollandi.
Ögmundur beygði sig undir þrælalögin, eftir að Alþingi var búið að reyna í 10 vikur að berja saman fyrirvara við ríkisábyrgðina, til þess að reyna að draga úr áþján íslendinga í þrælahaldinu. Í Tyrkjaráninu var tvö- til þrjúhundruð manns rænt og flutt í "Barbaríið", eins og það var kallað í þá daga, en þar var fólkið selt í þrældóm. Nú er Ísland gert að Barbaríi fyrir Breta og Hollendinga og Íslendingar látnir þræla fyrir þessa nýju húsbændur í sínu eigin heimalandi.
Þó fyrirvararnir hafi stórbætt málið, eins og Ögmundur segir, verður Barbaríið lítið léttbærara fyrir þá sem þar þurfa að þræla næstu áratugi fyrir þrælahaldarana, bresku og hollensku.
![]() |
Ögmundur er ekki vonsvikinn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.8.2009 | 10:45
Jóhanna viðurkennir klúðrið
Jóhanna, meintur forsætisráðherra, og Steingrímur J., hafa fram að þessu varið þrælasamninginn sem skrifað var undir við Breta og Hollendinga, þann sem Svavar Gestsson og Indriði H. Þorláksson gerðu í þeirra umboði. Þau hafa alltaf haldið því fram, að samningurinn væri vel við unandi fyrir Íslendinga og ekki yrði sérstakt vandamál fyrir þjóðina að standa undir honum.
Vegna fyrri framgöngu meints forsætisráðherra í málinu, er rétt að verkja sérstaka athygli á þessum orðum hennar, úr viðtali við mb.is: ""Við förum fram á við Hollendinga og Breta að þeir sýni okkur þann skilning að fallast á þessa umgjörð, sem snýr fyrst og fremst að fullveldi landsins og efnahag þjóðarinnar til framtíðar. Það er ekki síður til hagsbóta fyrir Hollendinga og Breta en fyrir okkur að skuldaþol þjóðarinnar og skuldabyrði verði með þeim hætti að við getum staðið undir þessum skuldbindingum, segir Jóhanna."
Með þessu viðurkennir Jóhanna, að samningurinn, án fyrirvaranna við ríkisábyrgðina, hefði orðið slíkur klafi á þjóðinni, að hún hefði aldrei getað staðið undir honum og jafnvel glatað sjálfstæði sínu. Vonast hún til að Bretar og Hollendingar hafi skilning á því, að það sé þeirra hagur, að blóðmjólka kúna ekki svo, að hún drepist.
Ríkisstjórn hefur aldrei klúðrað nokkru máli, með jafn hrikalegum afleiðingum fyrir þjóð sína, og þessi ríkisstjórn er að gera í þessu máli.
Það er óþekkt í nútímanum, að ríkisstjórn selji þjóð sína í þrældóm til annarra ríkja.
![]() |
Ræða við Breta og Hollendinga |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
28.8.2009 | 09:24
Jóhanna snýr öllu á hvolf
Jóhanna Sigurðardóttir, meintur forsætisráðherra, sneri öllu á hvolf í ræðu sinni um ríkisábyrgðina á Icesave skuldum Landsbankans. Í fyrsta lagi sagði hún að allt of mikið hefði verið gert út göllum samningsins, sem hún hefur alltaf sagt, ásamt Steingrími J., að væri sá besti, sem mögulegur væri. Ef samningurinn var svona góður, til hvers var þingið þá að eyða tíu vikum í að reyna að finna leiðir til þess að bjarga klúðrinu?
Einnig sagði Jóhanna, að aldrei í sögu Alþingis hefði nokkurt mál verið kynnt og rætt á jafn opinskáan og gegnsæjan hátt og þetta mál. Það er reyndar ekki ríkisstjórninni að þakka, því hún lagði málið upphaflega þannig fram, að þingið átti að greiða atkvæði um ríkisábyrgðina án þess að fá að sjá samninginn, hvað þá að lesa hann. Bæði samninginn og öll fylgigögn þurfti að toga út úr ríkisstjórninni með töngum og reyndi hún endalaust að fela sig bak við það, að þetta væri allt saman trúnaðarmál.
Vitleysisgangur ríkisstjórnarinnar í þessu máli er með endemum. Fyrst er sett algerlega vanhæf samninganefnd í málið, síðan er reynt að leyna hennar lélegu niðurstöðu og fela öll gögn varðandi málið, þá er hörfað í það vígi, að samningurinn sé vel viðunandi og nú er reynt að blekkja þjóðina með því að ríkisstjórnin hafi beitt sér fyrir fyrirvörunum, sem nú eru settir við þrælasamninginn.
Það sem er rétt í þessu, er að í fyrsta sinn í sögunni tók Alþingi völdin af ríkisstjórninni og reyndi að bjarga því sem bjargað varð. Því miður situr þjóðin í súpunni, eftir sem áður.
![]() |
10 vikna umfjöllun að ljúka |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.8.2009 | 15:38
Bakari hengdur fyrir smið
Það er merkilegt að nokkrir mótmælendur skyldu beina mótmælum sínum að því, að reyna að hindra viðtal blaðamanns mbl.is við Hannes Hólmstein Gissurarson, í stað þess að láta ekkert trufla sig frá aðalatriði málsins, sem var að mótmæla samþykkt Alþingis á ríkisábyrgð vegna Icesave skulda Landsbankans.
Þó Hannes hafi haft umdeildar skoðanir á efnahagsmálum undanfarna áratugi, var hann hvorki banka- eða útrásarvíkingur, en það voru þeir, sem komu þjóðinni í þann efnahagsskít, sem hún er nú djúpt sokkin í. Þó Hannes hafi barist fyrir frelsi á öllum sviðum og ekki síst í viðskiptum, er ekki vitað til þess að hann hafi varið glæpastarfsemi á þeim vettvangi.
Það voru ekki skoðanir Hannesar eða hans hugsjónir, sem réðu ferðinni í efnahagslífinu undanfarin ár, heldur byggðist kerfið fyrst og fremst upp eftir regluverki ESB í gegnum þátttöku Íslands í Evrópska efnahagssvæðinu og eins og allir vita, verða Íslendingar að taka tilskipanir ESB inn í sína löggjöf.
Mótmæli verða að beinast í réttar áttir.
![]() |
Aðsúgur að Hannesi Hólmsteini |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
27.8.2009 | 13:24
Icesave gegn þjóðinni
Nú reynir almenningur (nema kjósendur Samfylkingarinnar) að framleiða eins mikinn hávaða gegn þrælasamningnum um Icesave skuldir Landsbankans, sem því miður virðist samt ekki muni duga til að snúa Alþingi af villu síns vegar.
Icesave er skuld Landsbankans og kemur þjóðinni og ríkissjóði nákvæmlega ekkert við, enda bannar tilskipun ESB um innistæðutryggingasjóði, ríkisábyrgð á slíka tryggingasjóði, vegna þess að ef einstök lönd veita slíkar ríkisábyrgðir, skekkir það samkeppnisgrundvöll banka innan ESB. Þess vegna má Alþingi alls ekki samþykkja slíka ríkisábyrgð.
Það er dapurlegt að hlusta á þingmenn og ráðherra tala frekar máli kúgaranna, heldur en að halda fram málstað sinnar eigin þjóðar og reyna að réttlæta þessar gerðir sínar með því, að þannig skapist á ný traust og trú útlendinga á íslensku efnahagslífi og íslensku krónunni.
Þeir ættu frekar að reyna að efla traust og trú sinna eigin þegna, á því, að þeir séu færir um að leysa úr þeim vanda, sem þjóðin stendur frammi fyrir innanlands.
![]() |
Hávaði gegn Icesave |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
27.8.2009 | 10:40
Greiðslugeta eða greiðsluvilji
Ekki skal gert lítið úr greiðsluvanda íbúðareigenda um þessar mundir, en varla getur það talist dæmigert fyrir erfiðleikana að tiltaka vanda hjóna, sem bæði hafa atvinnu, sem skulda 8,7 milljónir í húsnæðislán. Vafalaust er íbúðin orðin of lítil fyrir fjölskylduna og ekki selst hún núna, frekar en aðrar íbúðir, hvorki í Reykjavík eða annarsstaðar á landinu.
Ef ekki er raunveruleg greiðslugeta til að greiða af 8,7 milljóna húsnæðisláni, hvernig ætti þá að vera hægt að stækka við sig og fara í stærri og dýrari íbúð? Spurningin sem vaknar, er einmitt sú, hvort hér sé um skort á greiðslugetu að ræða, eða skort á greiðsluvilja. Það er tvennt ólíkt.
Fjölmiðlar mega ekki missa sig alveg í umræðunni um greiðsluvanda heimilanna og fara svo langt, að fjalla um greiðsluvilja einstakra skuldara, þegar raunverulegi vandinn er greiðluerfiðleiki margra heimila, sem eru með margfalt meiri greiðslubyrði, en sem nemur 8,7 milljóna húsnæðisláni.
Þessi frétt hlýtur að valda mörgum heilabrotum hjá þeim sem raunverulega berjast í bökkum.
![]() |
Greiðsluviljinn að hverfa |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)