Afnám verðbólgunnar fyrst

Flokksráðsfundur VG samþykkti um síðustu helgi ályktun um að verðtrygging lána verði afnumin hið fyrsta.  Lilja Mósesdóttir, þingmaður VG og hagfræðingur segir að ekki sé hægt að afnema gjaldeyrishöftin, nema verðtrygging innlendra lána verði afnumin fyrst.  Þetta segir hún auðvitað vegna þess að hún reiknar með að krónan falli ennþá meira, a.m.k. tímabundið, verði gjaldeyrishöftin afnumin.

Við slíkar aðstæður myndi verðbólga stíga talsvert og þar með myndu verðtryggð lán hækka samsvarandi.  Lilja veit sem er, að það eina sem kyndir undir verðbólgu nú, eru skattahækkanir ríkisstjórnarinnar, bæði þær sem komnar eru til framkvæmda og ekki síður þær sem fyrirhugaðar eru á næstu vikum og mánuðum.

Lilja segir að festa verði vexti í fimm ár á húsnæðislánum á meðan þessi breyting gengur yfir og segir:  "Ég tók húsnæðislán í Svíþjóð upp úr 2000. Þar voru vextir fastir í fimm ár. Gert var ráð fyrir verðbólgu á tímabilinu og samkomulag var gert um hvaða nafnvextir væru ásættanlegir. Þá er áhættunni deilt meira milli lánveitanda og lántakanda."

Þetta er hægt að gera ef efnahagshorfur gera ráð fyrir lítilli verðbólgu til langs tíma.  Hvað heldur Lilja að vextir yrðu á óverðtryggðum lánum í núverandi efnahagsástandi, með þá verðbólgu sem útlit er fyrir að hér verði á næstu mánuðum og árum?  Skyldu þeir verða 15%, 20% eða 25%?

Vinstri grænum væri nær að ráðast að rótum vandans, sem er verðbólgan, en ekki verðtryggingin.


mbl.is Flokksráð VG vill afnám verðtryggingar sem fyrst
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Magma virðist happafengur

Á suðurnesjum er eitthvert mesta atvinnuleysi á landinu og þar, eins og annarsstaðar, þarf verulega innspýtingu í atvinnulífið á næstu mánuðum.  Skilningur ríkisstjórnarinnar á því er vægast sagt afar takmarkaður, enda eru ekki í augsýn nokkrar einustu ráðstafanir til þess að efla atvinnulífið, auka atvinnu og þar með auka skatttekjur. 

Einu ráð ríkisstjórnarinnar eru að hækka skatta á þann síminnkandi hluta landsmanna sem ennþá hafa vinnu og reyndar eru óbeinir skattar hækkaði einnig, sem lenda á atvinnulausum, öryrkjum og ellilífeyrisþegum eins og hinum vinnandi.

Í þessu ástandi er ekki annað að sjá, en að Magma Energy sé happafengur fyrir suðurnesin, en aðkoma félagsins að HS orku og væntanleg atvinnuuppbygging í tengslum við hana, er eina lífsmarkið í atvinnumálum, sem sést hefur eftir hrunið í fyrrahaust.

Ríkisforsjár- og skattaforkólfar vinstri grænna og a.m.k. hluti Samfylkingar setja sig auðvitað upp á móti þessu framtaki, eins og flestu öðru, sem til heilla horfir fyrir þjóðina nú um stundir.


mbl.is Velgengni Magma vekur athygli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Allt dregst saman - nema samneyslan

Samkvæmt nýjustu upplýsingum Hagstofunnar er samdráttur á öllum sviðum þjóðlífsins, nema einu, en það eru umsvif ríkissjóðs, öðru nafi samneyslan.

Samkvæmt fréttinni frá Hagstofunni, líta tölurnar svona út:  "Landsframleiðsla er talin hafa dregist saman um 2% að raungildi frá 1. ársfjórðungi 2009 til 2. ársfjórðungs 2009. Á sama tíma drógust þjóðarútgjöld saman um 4,3%. Samneysla jókst um 0,5% en einkaneysla dróst saman um 1,2% og fjárfesting um 2,2%."

Ríkisstjórnin hefur aukið skatta mikið á þessu ári og var réttlætingin sú, að stoppa þyrfti upp í fjárlagagatið, því ekki væri hægt að ná árangri með niðurskurði ríkisútgjalda einum saman.

Nú kemur í ljós, að sparnaður ríkissjóðs hefur ekki verið neinn, heldur þvert á móti.

Ríkið tekur til sín stærri sneið af kökunni en áður, en sparar ekki neitt í rekstrinum.


mbl.is 2% samdráttur á 2. fjórðungi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skilanefndir að eignast bankana

Fréttin um að skilanefnd Kaupþings sé að kaupa 87% hlut í Nýja Kaupþingi er vægast sagt einkennileg, því fram kemur að enginn erlendur kröfuhafi sé búinn að samþykkja að ganga inn í þessi kaup, enda er ekki vitað hverjir allir kröfuhafarnir eru.  Skilanefndirnar eru ekki lögaðilar, þannig að ekki verður séð í fljótu bragði hvernig þetta kemur heim og saman.

Í fréttinni segir:  "Erlendir kröfuhafar Kaupþings, sem margir hverjir eru stórir alþjóðlegir bankar eins og Deutsche Bank, hafa frest til 31. október á þessu ári til að taka afstöðu til þess hvort þeir vilji eignast hlut í Nýja Kaupþingi. Skilanefnd Kaupþings mun fara með eignarhlutinn fyrir þeirra hönd."  Þessir erlendu bankar hafa sem sagt frest til 31. október til að taka afstöðu í málinu og ef þeir vilja taka þátt í kaupunum, er þá alveg víst að þeir vilji láta skilanefndina fara með eignarhlutinn fyrir sína hönd?

Einnig kemur fram í fréttinni að:  "Mikil óvissa ríkir um marga stóra kröfuhafa sem eru eigendur skuldabréfa þar sem bréfin hafa gengið kaupum og sölum með afföllum frá því bankinn var tekinn yfir af Fjármálaeftirlitinu hinn 8. október á síðasta ári. Þessir skuldabréfaeigendur hafa frest til 31. október til að lýsa kröfum."  Ekki er ljóst af þessu, hvort þessir kröfuhafar eigi að fá að ganga inn í kaupin einnig, en þeir eiga ekki að lýsa kröfum, fyrr en 31. október, eða sama dag og þekktu kröfuhafarnir eiga að tilkynna hvort þeir vilji taka þátt í að kaupa bankann, eða réttara sagt hirða hann upp í kröfur sínar.

Ef nýjir eigendur bankans fara í útrás og opna útibú í Evrópu er búið að viðurkenna ríkisábyrgð á öllum innlánum í þeim útibúum með þrælasamningi Steingríms J. og félaga hans, Svavars Gestssonar og Indriða H. Þorlákssonar, sem Alþingi hefur blessað með ríkisábyrgð.

Vonandi verður ekki aftur bankakreppa, fyrr en íslenskir skattgreiðendur eru búnir að afplána þrælkunarvinnuna fyrir Breta og Hollendinga. 


mbl.is Kröfuhafar gætu eignast Kaupþing
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

VG að einkavæða bílastæði

Eftir dauðaleit, hefur VG dottið niður á nokkrar eignir Reykjavíkurborgar, sem upplagt væri að selja á "brunaútsölu" núna á þessum síðustu og verstu tímum, þegar enginn hefur áhuga á að fjárfesta í einu eða neinu, vegna hávaxtastefnu fjármálaráðherra og Seðlabanka. 

Þessar fasteignir, sem VG vill láta selja einkaaðilum eru bílastæðahús borgarinnar og vill VG að einkaaðilar reki þessi hús í ágóðaskyni.  Ekki kemur fram, hvers vegna boðberar opinbers rekstrar treysta ekki sjálfum sér til að reka bílastæðahúsin réttu megin við núllið, fyrst þeir treysta einkaframtakinu til þess. 

Eini gallinn á þessu, fyrir væntanlega kaupendur bílastæðahúsanna, er að borgin mun væntanlega fara í samkeppni við þá, með útleigu bílastæða allt í kringum þessi hús og væntanlega á miklu lægra gjaldi, en hægt verður að bjóða uppá inni í húsunum, ef á að reka þau með hagnaði. 

Sú spurning vaknar, hvort það sé í raun eðlilegra að einkaaðilar reki bílastæði innandyra, frekar en utandyra.  Ef hugmyndin er sú, að borgin niðurgreiði stæði utandyra í samkeppni við bílastæði innandyra, þá er hugmyndin dauðadæmd frá upphafi.

En það er skemmtilegt, að VG sé farið að hafa áhuga á einkavæðingunni.


mbl.is Kanna möguleika á sölu bílastæðahúsa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kann Steingrímur J. ekki að segja satt?

Þann 3. júní s.l. sagði Steingrímur J. í ræðustóli á Alþingi, að engar formlegar viðræður væru í gangi við Breta og Hollendinga vegna Icesave skulda Landsbankans, aðeins væri um könnunarviðræður að ræða og engin undirskrift undir samninga væri framundan.  Einnig sagði hann að engin skref yrðu stigin í málinu, nema í fullu samráði við Fjárlaganefnd Alþingis.  Eins og allir vita, var samningurinn síðan undirritaður tveim dögum síðar, án samráðs við Fjárlaganefnd, enda lýsti Svavar Gestsson, formaður samninganefndarinnar, því yfir í viðtali, að hann hefði ekki nennt að hafa þetta mál hangandi yfir sér lengur.

Í gær sagði Steingrímur J. að óformlegar þreifingar væru í gangi milli Íslendinga, Breta og Hollendinga um þá fyrirvara, sem Alþingi samþykkti við ríkisábyrgðina og málinu yrði haldið utan kastljóss fjölmiðla á næstunni, þ.e. á meðan þessar könnunarviðræður ættu sér stað.´

Nú líður einungis einn dagur frá því að Steingrímur J. lýsir því yfir að ekkert merkilegt sé að gerast í málinu, þar til Fjárlaganefnd er kölluð saman, nánast án fyrirvara, til þess að kynna henni viðbrögð Breta og Hollendinga við fyrirvörunum.

Getur verið að Steingrímur J. viti ekkert hvað er að gerast í þeim málum, sem eru á forræði fjármálaráðuneytisins?

Ef til vill kann hann ekki að segja satt.


mbl.is Fundur um Icesave-viðbrögð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ólafur Ragnar kemur ekki á óvart

Um leið og Ólafi Ragnari voru afhentar undirskriftir tíu þúsund Íslendinga, sem skoruðu á hann að staðfesta ekki lögin um ríkisábyrgð á skuldum Landsbankans, tók hann upp pennann og staðfesti lögin. 

Þetta kemur reyndar engum á óvart, því í fyrsta lagi er hann mesti stuðningsmaður útrásarvíkinga og guðfaðir ríkisstjórnarinnar og því hvarflaði aldrei að honum að vísa málinu til þjóðarinnar.  Ríkisstjórnin hefur frá upphafi talað um að hún ætli að breyta lögum til að gera þjóðaratkvæðagreiðslur að ríkjandi venju í landinu, en ekki datt henni heldur í hug að vísa þessu stærsta hagsmunamáli þjóðarinnar frá lýðveldisstofnun til afgreiðslu hennar í atkvæðagreiðslu.

Ein aðalröksemd Ólafs Ragnars fyrir staðfestingu laganna er svohljóðandi:  "Fyrirvararnir sem Alþingi smíðaði og samþykkti taka mið af sanngjörnum rétti þjóðarinnar, hagsmunum Íslendinga á komandi árum og alþjóðlegri samábyrgð." 

Forseti Íslands telur það til mikilla kosta, að Íslendingar taki á sig alþjóðlega samábyrgð, sem er gott og blessað, en hvaða aðrar þjóðir munu taka sameiginlega alþjóðaábyrgð á þessu máli með Íslendingum?

Því hlýtur forsetinn að svara í næstu yfirlýsingu sinni.


mbl.is Forsetinn staðfestir Icesave-lög
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hegðun sumra Íslendinga ekki sæmandi

Síðustu daga hefur hver greinin eftir aðra birst í erlendum fjölmiðlum til varnar málstað Íslands í Icesave deilunni við Breta og Hollendinga.  Nánast allar eru þessar greinar skrifaðar af erlendum fræðimönnum og blaðamönnum viðskiptablaða og eru skrifaðar til stuðnings íslenskum málstað og á móti fáráðlegum þvingunum Breta og Hollendinga gegn smáþjóð.  Allir eru þessir erlendu aðilar sammála um það, að kröfur Breta og Hollendinga séu, vægast sagt, byggðar á veikum grunni og að greiðsluskylda Íslands sé algerlega ósönnuð.

Clemens Bomsdorf,  fréttaritari þýska blaðsins Die Zeit á Norðurlöndum, segir í grein sinni í blaðinu, m.a:  "Ísland hafi skort hæfni, tíma og kraft í samningaviðræðum um lánin og það sé enn óljóst hvort ríkjum á borð við Ísland séu í raun skylt að ábyrgjast tapaðan sparnað. Evrópureglur á þessu sviði hafi ekki verið samdar fyrir sérstök tilfelli eins og það íslenska."  Glöggt er gests augað, segir máltækið og hefði verið betur, að Steingrímur J. hefði verið nógu skynsamur til þess að setja alvöru samninganefnd í málið, en ekki lærimeistara sinn í vinstri fræðum, Svavar Gestsson, sem klúðraði málum svo, að þjóðin er nú nánast seld í þrældóm til áratuga.

Það er íslenskum hagsmunum til stórtjóns, að sumir Íslendingar skuli tala máli kúgunarþjóðanna og í raun styðja þeirra málstað, gegn sinni eigin þjóð og framtíð hennar.

Lokaorð Bomsdorfs eru hér tekin upp sem ráðlegging til ríkisstjórnarinnar:  " Bretar, Hollendingar og Íslendingar ættu að setjast að samningaborðinu að nýju og gera nýja lánasamninga frá grunni." 

 


mbl.is Hegðun Breta og Hollendinga ekki sæmandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Forsetinn brúi dal milli þings og þjóðar

Forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, sendi frá sér yfirlýsingu í tólf liðum, sem endaði svo:

"10. Það verður best gert með því að þjóðin fái í hendur þann rétt sem henni er veittur í stjórnarskrá lýðveldisins og meti lagafrumvarpið í þjóðaratkvæðagreiðslu.

11. Ég hef því ákveðið í samræmi við 26. grein stjórnarskrárinnar að staðfesta ekki lagafrumvarp um breytingu á útvarpslögum og samkeppnislögum og vísa því á þann hátt í dóm þjóðarinnar. Samkvæmt stjórnarskránni skal sú þjóðaratkvæðagreiðsla fara fram „svo fljótt sem kostur er."

12. Í ákvörðun minni felst hvorki gagnrýni á Alþingi né á ríkisstjórn og ekki heldur efnisleg afstaða til laganna sjálfra. Eingöngu sú niðurstaða að farsælast sé fyrir okkur Íslendinga að þjóðin fái tækifæri til að kveða upp sinn dóm. Við búum að stjórnskipan, þar sem forseti Íslands og aðrir kjörnir fulltrúar sækja vald sitt og umboð til hennar. Þjóðin hefur samkvæmt stjórnarskránni síðasta orðið."

Við fyrstu sýn, gæti þetta verið yfirlýsing vegna laganna um ríkisábyrgð á Icesaveskuldum Landsbankans, en svo er ekki, því þessi einstaka ákvörðun hans er frá 2. júní 2004 og var gefin út í tilefni af samþykkt fjölmiðlalaga, og má sjá ritsmíðina í heild sinni, hérna

Miðað við ríkisábyrgðina, nýsamþykktu, vegna skulda Landsbankans, voru fjölmiðlalögin smámál, en vegna vináttu sinnar við Bónusveldið, framkvæmdi Ólafur Ragnar þann einstaka gjörning, að neita lögum frá Alþingi staðfestingar.  Hafi honum fundist að gjá væri milli þings og þjóðar í því smámáli, hlýtur hann að meta það svo, að heill dalur sé til að brúa milli þings og þjóðar nú.

Ólafur Ragnar getur notað textann frá 2004 lítið breyttan, við höfnun sína vegna ríkisábyrgðarinnar.


mbl.is Hvattur til að synja Icesave
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Erfið staða Íbúðalánasjóðs

Útlit er fyrir að Íbúðalánasjóður tapi 3,5 milljörðum króna á gjaldþrotum Spron og Straums og kemur þá þetta tap til viðbótar við útlánatöp sjóðsins sjálfs, sem hljóta að vera töluverð, án þess að það komi sérstaklega fram í fréttinni.

Eigið fé Íbúðalánasjóðs var í júnílok að upphæð 13.748 milljarðar króna, en við þetta lækkar það í 10.248 milljarða, eða lækkar úr 4,3% í 3,2%, sem verður að teljast stórhættulega lítið hlutfall.  Markmið Íbúðalánasjóðs er að þetta hlutfall sé yfir 5%, þannig að eftir þessa afskrift vegna þessara banka, vantar tæpa sex milljarða króna til að ná því markmiði.  Miðað við bókfærðan hagnað á fyrstu sex mánuðum ársins 2009 og engin frekari útlánatöp, mun það taka sjóðinn meira en sex ár, að ná 5% markinu.

Nýendurreistu bankarnir miða við að eiginfjárhlutfall verði að minnsta kosti 12%, þannig að 3,2% eiginfjárhlutfall Íbúðalánasjóðs hlýtur að vera hreint skelfilega lágt í því ástandi, sem nú ríkir í fjármálum heimila landsins og þeirri tapáhættu, sem sjóðurinn er í vegna útlána.

Þetta er vandamál, sem ríkisstjórnin ætti að hafa meiri áhyggjur af, en sölu á minnihluta hlutafjár í HS Orku.


mbl.is Íbúðalánasjóður tapar á gjaldþrotum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband