Gömul lumma og mygluð

Þegar nóg ætti að vera til að fjalla um í fréttum, er dregin upp tveggja ára göámul kjaftasaga og birt í fjölmiðlum, ein og um einhvern sannleika sé að ræða, en auðvitað eru engar sannanir fyrir þeim ásökunum sem fram koma í kjaftasögunni.

Að fjölmiðlar, sem vilja' ð láta taka sig alvarlega, skuli birta aðra eins vitleysu og þetta, er þeim til háborinnar skammar og að mbl.is skuli taka upp þetta ómerkilega kjaftæði, sem DV hefur ekki séð ástæðu til að blása út, er alveg með ólíkindum.

Nóg ætti að vera til af raunverulegu efni um banka- og útrásarmógúla, þótt ekki séu eltar uppi hvaða  kjafta- og rógsögur, sem fólki dettur í hug að spinna upp um þessa menn.

Ef til vill koma sögur um eitthvað sem einhver taldi líklegt að einhver hefði gert einhverntíma.


mbl.is Anna Kristine var þjófkennd
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Færeyingar eru vinir í raun

Högni Hoydal, Færeyjar og allir færeyingar  lengi lifi, húrra, húrra, húrrrrrrraaaaaaaaa.
mbl.is Høgni Hoydal gagnrýnir Norðurlöndin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hver greiði fyrir sig

Tóbaksvarnarþing Læknafélags Íslands hefur reiknað það út að pakkinn af sígarettum þyrfti að fara í þrjúþúsund krónur, til þess að reykingamenn greiddu sjálfir allan samfélagslegan kostnað, sem af reykingunum leiða.  Ekki skal þessi útreikningur dreginn í efa, þótt ekkert komi fram um það, hvernig þetta sé reiknað út, en væntanlega eru laun lækna og annarra heilbrigðisstétta stór liður í þessum kostnaði.

Með sömu rökum ættu bílstjórar að greiða sjálfir fyrir allan kostnað sem samfélagið hefur af akstri þeirra og þeim slysum, sem þeir valda með gáleysislegum akstri.  Allir sem drekka áfengi eiga þá auðvitað að greiða allan "samfélagslegan kosnað" sem þeir valda með fíkn sinni og drykkju, en allir vita að meirihluti allra manndrápa og annarra líkamsmeiðinga, eru af völdum fólks, sem er undir áhrifum áfengis, eða annarra vímuefna.  Hver sá, sem veldur einhverjum "samfélagslegum kostnaði" á samkvæmt þessari kenningu, að bera persónulega ábyrgð á þeim kostnaði og greiða hann úr eigin vasa.

Fréttinni lýkur svona: "Á Tóbaksvarnarþingi kom fram það sjónarmið að eðlilegt væri að þeir sem reyktu sæju sjálfir um að greiða þann kostnað sem væri af fíkn þeirra."

Á þennan veg álykta hámenntaðir læknar, sem hafa stundað langt og strangt háskólanám, sem hefur í för með sér mikinn "samfélagslegan kostnað".

Skyldu þeir hafa greitt þann kostnað allan úr eigin vasa?


mbl.is Pakkinn þyrfti að fara í 3000 kr.
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Frábær frétt

Nú hefur Norðurál gengið frá samningum við erlenda banka um umsjón með fjármögnun á byggingu álversins í Helguvík.  Þetta er stórfrétt, á þessum síðustu og verstu tímum, og nánast sú fyrsta jákvæða, síðan hrunið mikla varð fyrir ellefu mánuðum.

Í stöðugleikasáttmálanum lofaði ríkisstjórnin að flækjast ekki fyrir slíkri uppbyggingu eftir 1. nóvember næstkomandi og er það afar athyglisvert, að aðilar atvinnulífsins skuli þurfa að pína slíkt skriflegt loforð út úr nokkurri ríkisstjórn.

Nú þarf að setja virkjanamál á fulla ferð til þess að anna orkuþörfinni fyrir álverið í Helguvík og síðan þarf að leggja áherslu á að ná samningum um nýtt álver á Bakka við Húsavík.  Verður að gera þá lágmarkskröfu til ríkisstjórnarinnar, að hún hætti að flækjast fyrir því máli.

Þjóðin þarf að fá meira af svona fréttum, því ekki munu koma neinar sérstakar gleðifréttir um framkvæmdagleði ríkisstjórninni á næstu mánuðum.

Þaðan munu aðeins berast fréttir af frekari skattpíningu einstaklinga og atvinnulífs.


mbl.is Samið um fjármögnun álvers í Helguvík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fram, fram, fylking

Ellefu mánuðum eftir bankahrunið er loksins farið að funda með erlendum rannsóknaraðilum um samstarf vegna rannsókna á þeim lögbrotum, sem framin voru af banka- og útrásarmógúlunum, líklega allan þann tíma, sem þessir menn stunduðu sín "viðskipti".

Það sérkennilega er, a.m.k. í þessu tilfelli, að það er erlendi aðilinn, sem óskar eftir samstarfinu, eða eins og segir í fréttinni:  "Tilgangur fundarins er m.a. að kanna grundvöll fyrir gagnkvæma aðstoð milli embættanna við rannsókn á efnahagsbrotum, en það var SFO sem óskaði eftir samstarfi við embætti sérstaks saksóknara.

Serious Fraud Office er sjálfstæð ríkisstofnun sem rannskar aðeins meiriháttar efnahagsbrot þar sem tugir milljóna punda eru í húfi. Stofnunin hefur haft föllnu bankana þrjá, Landsbankann, Kaupþing og Glitni til athugunar frá því í haust, en þeir voru allir með starfsemi í Bretlandi."

Í báðum löndum virðist samskiptaleysið algert, því fram kemur að SFO hefur verið með bankana þrjá til skoðunar síðan s.l. haust og sérstakur saksóknari tók til starfa 1. febrúar og embættin eru fyrst núna að ná saman um rannsóknirnar.

Vonandi verður þetta samstarf til að herða á rannsóknunum og flýta þeim, því almenningur er orðinn óþreyjufullur að fara að sjá einhverjar ákærur í þessum málum.


mbl.is Sérstakur saksóknari og Joly funda með SFO
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eðlileg endurskipulagning

Þegar kreppir að í þjóðfélaginu er eðlilegt að endurskoða og endurskipuleggja allan rekstur með aukinn sparnað og hagkvæmni í huga.

Þetta á jafnt við í rekstri fyrirtækja, sem í rekstri félaga og stjórnmálasamtaka.  Endurskipulagning á skrifstofu Sjálfstæðisflokksins er því ofur eðlileg á þessum tímum og sé hægt að spara í mannahaldi er það eingöngu af hinu góða.

Alltaf eru einhverjir sem þurfa að reyna að gera slíkt tortryggilegt og skálda upp hinar ótrúlegustu samsæriskenningar um ástæðurnar, sem auðvitað eru eingöngu í hagræðingarskyni.

 

Einn bloggarinn reyndi að gefa í skyn að þetta væri hið grunsamlegasta mál, þar sem það hefði ekki verið rætt í þaula í stofnunum flokksins og á landsfundi.  Þetta er eins vitlaust og hugsast getur, því rekstur flokksskrifstofunnar er ekki svo þunglamalegur, að hann jafnist á við rekstur ríkisstofnana, þar sem enginn getur tekið ákvarðanir, eða hefur líklega ekki heldur áhuga á að taka ákvarðanir, allra síst ef þær snúast um sparnað í rekstri.

Framkvæmdastjóri flokksins rekur skrifstofuna á eins hagkvæman hátt og honum er unnt, án þess að þurfa að bera sínar ákvarðanir undir aðra, þó hann vinni auðvitað náið með formanni flokksins.


mbl.is Starfsmönnum í Valhöll sagt upp
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fín auglýsing fyrir landið

Mikið hefur verið skammast út í þá framsýnu ákvörðun Hönnu Birnu, borgarstjóra, og Katrínar, menntamálaráðherra, að lokið skuli við Tónlistar- og ráðstefnuhúsið við höfnina og hafa menn talið því allt til foráttu, að ljúka húsinu í þeirri kreppu, sem nú ríkir í landinu.  Bygging hússins skapar mikla atvinnu og það er það, sem skiptir mestu máli núna, að skapa störf á öllum sviðum, en þar er ríkisstjórnin ekkert að gera, annað en að draga lappirnar, eins og forystumenn verkalýðsfélaga eru óþreyttir að benda á, þessa dagana.

Því er afar gleðilegt, að útlendir ferðaþjóðnustusérfræðingar skuli benda Íslendingum á möguleikana, sem munu felast í húsinu, þegar það verður fullbyggt, eða eins og fram kemur í fréttinni:  "Þeir Paul og Patrick telji nokkuð ljóst að nýja Ráðstefnu- og tónlistarhúsið verði táknmynd Reykjavíkurborgar, á svipaðan hátt og óperuhúsið í Sydney og Eiffelturninn í París. Þeir segja að með svo sterka táknmynd verði mun auðveldara að gera sig gildandi á ráðstefnumarkaðnum. En til að ná árangri þyrfti mikið markaðs- og sölustarf að fara fram. Þeir sögðu að reynslan erlendis frá væri sú að nýjar ráðstefnumiðstöðvar fengju mikla athygli og að viðskipti í kringum þær væru jafnan mjög mikil strax frá byrjun, segir frétt SAF."

Þetta glæsilega hús á eftir að verða stolt Íslendinga, þegar fram líða stundir, á svipaðan hátt og Perlan hefur verið og á eftir að draga miklar gjaldeyristekjur inn í landið um marga áratugi.

Íslendingar treysta engu, sem frá íslendingum kemur nú um stundir, en taka öllu, sem útlendingar segja, sem stóra sannleika. 

Því ættu þessir ferðasérfræðingar á ráðstefnu Samtaka ferðaþjónustunnar að opna einhver íslensk augu með þessu áliti sínu.


mbl.is Ísland í 50. sæti á fundamarkaðinum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Brýnt að fá niðurstöðu sem fyrst

Hjón í Kópavogi hafa kært Nýja og Gamla Kaupþing til efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra fyrir stórfelld fjársvik gegn almenningi.  Ekki kemur alveg greinilega fram í fréttinni hvort bönkunum er einungis stefnt vegna markaðsmisnotkunar í gjaldeyrisviðskiptum, eða hvort einnig er kært vegna þess að gengistryggð lán séu hugsanlega ólögleg.

það væri afar brýnt, að fá úr því skorið sem allra fyrst, hvort þessi gengistryggðu lán séu í raun ólögleg, því ef svo væri, yrðu þau væntanlega færð yfir í verðtryggð lán í íslenskum krónum frá útgáfudegi og allar afborganir leiðréttar í samræmi við það.  Ef þetta yrði niðurstaðan myndu margir sleppa úr þeirri snöru, sem þeir hanga í vegna gengistryggðra húsnæðis- og bílalána.

Einnig væri öll umræða um skuldastöðu heimilanna miklu raunsærri og einfaldari, ef eingöngu yrði um verðtryggð lán að ræða og allir skuldarar sætu þá við sama borð, varðandi hugsanlegar björgunaraðgerðir og niðurfellingu skulda.

Það þarf að fá niðurstöðu í þessum gengistryggingarmálum frá dómstólunum hið allra, allra, fyrsta.


mbl.is Kaupþing kært fyrir stórfelld fjársvik
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Minnisvarði vitleysunnar

Samfylkingin er alltaf söm við sig.  Nú þegar ótrúlegur fjöldi fólks, sem vissi varla hver Helgi Hóseasson var, hvað þá að þetta fólk hefði nokkurn tíma talað við manninn, eða tekið undir eina einustu af þeim kröfum, sem hann var vanur að skammstafa skemmtilega á kröfuspjöld sín, hefur skráð sig á Facebook síðu, með áskorun á einhvern að reisa styttu af furðufuglinum, þá hleypur Samfylkingin upp til handa og fóta, eða eins og segir í fréttinni: 

"Fulltrúar Samfylkingarinnar í borgarráði leggja til á fundi ráðsins í dag að borgarráð samþykki að skipulags- og byggingarsviði verði í samráði við menningar- og ferðamálaráð falið að gera tillögu að staðsetningu minnisvarða um Helga Hóseasson á horni Langholtsvegar og Holtavegar."

Hvernig Helgi Hóseasson kom inn á svið menningar- og ferðamálaráð er ekki útskýrt, enda ekki vitað til að rútum ferðamanna hafi verið ekið sérstaklega eftir Langholtsveginum til þess að ferðamennirnir gætu skoðað og rætt við Helga.

Tilvalið væri að reistur yrði minnisvarði um furðufígúrnar í Samfylkingunni einhversstaðar, helst sem fjærst mannabyggðum.


mbl.is Borgin geri tillögu um stað fyrir minnisvarða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ráðdeildarsamir útrásarmógúlar

Nú eru að berast fréttir af því að í raun og veru hafi allir helstu útrásarmógúlarnir verið afar sparsamir menn og farið með peninga sína af mikilli ráðdeild og útsjónarsemi.  Líklega væri réttara að kalla þá útsjónarmógúla, fremur en útrásarmógúla eða glæframenn eða glæpamenn, eins og stundum hefur verið gert, m.a. á þessu bloggi.

Þetta sést best á eftirfarandi klausu úr fréttinni:  "Beinar fjármunaeignir Íslendinga í þekktum skattaskjólum jukust um 27,2 milljarða króna í fyrra og námu í árslok 72,5 milljörðum króna."  Það hljóta allir að sjá, að menn sem geta safnað 45,3 milljörðum króna inn á sparisjóðsbækur sínar á einu ári, þurfa að hafa allar klær úti við að spara og nurla og velta fyrir sér hverri krónu áður en eytt er í einhvern óþarfann.

Þó margir dáist að þessari sparsemi, er sem betur ekki öll sagan sögð, því ennfremur kemur fram:  "Vert er að taka fram að ekki er um að ræða tæmandi eignir Íslendinga sem eru skráðar á þessum stöðum, heldur einungis beina eign. Óbein eign í skattaskjólsfélögum var einnig mjög algeng á meðal íslenskra kaupsýslumanna í gegnum önnur aflandsfélög, sem voru helst skráð í Hollandi eða Lúxemborg."

 Auðvitað verður að fyrirgefa þessum mönnum, að á meðan þeir voru uppteknir við eigin sparnað og ráðdeildarsemi, hrundu öll þeirra fyrirtæki og bankar, sem leiddi til mestu kreppu sem yfir Ísland hefur gengið, en vegna dugnaðar þjóðarinnar, mun hún sennilega einhverntíma vinna sig út úr henni.

Á meðan þjóðin vinnur sig út úr kreppunni, er gott til þess að vita, að til eru menn á meðal hennar, sem höfðu vit á að leggja fyrir til mögru áranna.


mbl.is Eignir Íslendinga í skattaskjólum jukust um 40%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband