17.11.2009 | 08:48
Svona fór um sjóferð þá
Upphaf Íslenskrar erfðagreiningar var mikið ævintýri á fleiri en einn veg, misgóðan. Gífurlegar vonir voru bundnar við að fyrirtækið myndi verða stórveldi á sviði erfðatækni og lyfjaþróunar og ÍE varð fyrsta fyrirtækið, sem Hannes Smárason, þá fjármálastjóri ÍE, tókst að selja fyrir stjarnfræðilegar upphæðir á "gráa" hlutabréfamarkaðinum. Hann hefur síðan átt skrautlega sögu í öllum fyrirtækjum, sem hann hefur komið nálægt.
Öll árin, frá stofnun, hafa komið reglulegar tilkynningar frá félaginu, um að alveg á næstunni muni "afurðir félagsins" fara að skila gríðarlegum tekjum, en jafnoft hefur lítið, sem ekkert gerst á því sviði. Kári Stefánsson, stofnandi og forstjóri félagsins, hefur verið talsmaður félagsins öll þessi ár og tekist furðu vel að halda því gangandi, þrátt fyrir takmarkaðan sýnilegan árangur af starfseminni.
Nú lýtur út fyrir, að félagið verði keypt, eða yfirtekið, af bandarískum fjárfestum, sem: "Samkvæmt upplýsingum frá Íslenskri erfðagreiningu hyggjst tilboðsgjafar í reksturinn halda starfsemi félagsins í sama horfi og verið hefur," eins og segir í fréttinni.
Auðvitað verður rekstrinum ekki haldið "í sama horfi og verið hefur", enda væri félagið ekki í núverandi stöðu, ef reksturinn hefði staðið undir sér, en það hefur hann aldrei gert, heldur þvert á móti verið geysi mikið tap á honum alla tíð.
Líklegast er, að reksturinn hérlendis leggist niður og verði sameinaður öðrum, líklegast í Bandaríkjunum.
Þrátt fyrir allt, verður mikil eftirsjá af þessum vonarneista íslensks hugvits.
![]() |
Íslensk erfðagreining seld |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
16.11.2009 | 21:41
Reynt að spila á samúðina
Til skamms tíma sáust ekki hrokafyllri menn í fréttaviðtölum, en þeir Jóhannes og Jón Ásgeir í Bónus, eins og þeir vilja gjarnan láta kalla sig. Á þeim tíma höguðu þeir sér eins og mennirnir sem valdið hefðu og gerðu jafnvel tilraun til að fella ríkisstjórn Íslands, með áróðri og auglýsingum í fjölmiðlum sínum.
Í þá daga töldu þeir sig hafa svo mikil völd og áhrif, að þeir töluðu niður til allra og reyndi að niðurlægja alla, sem þeir töldu ekki vera fullkomlega á sínu valdi, þar með talinn forsætisráðherra þjóðarinnar, að ekki sé minnst á minni spámenn. Enga samkeppni þoldu þeir við rekstur sinn og vildu yfir öllu gína og enduðu sem einhverjir mestu skuldakóngar Íslandssögunnar, sem þó greiddu aldrei krónu til baka af lánum sínum og hafa skilið eftir sig sviðna jörð, bæði innanlands og utan.
Í kvöld kom Jóhannes fram í Kastljósi og reyndi að hverfa til þess tíma, er hann hafði sæmilegt álit meðal almennings og reyndi nú að spila á samúð þess fólks, sem þarf að líða fyrir gerðir þeirra feðga og fleiri um mörg ókomin ár. Nú talaði hann nánast eins og beiningamaður sem betlar sér fyrr mat, þóttist vera lítilátt og heiðarlegt góðmenni, en var einungis aumkunnarverður.
Þrátt fyrir langa skólagöngu hjá almannatengslafyrirtækjum við að læra að endurheimta velvild þjóðarinnar, er ýmyndin orðin svo ónýt, að upp á hana verður varla lappað héðan af.
"Jóhannes og Jón Ásgeir í Bónus" er nánast orðið skammaryrði.
![]() |
Munu ekki þurfa að afskrifa neitt |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
16.11.2009 | 16:10
Árni Páll sár á bakinu, en sáttur við svipuna
Árni Páll, félagsmálaráðherralíki, deilir ekki þeirri skoðun með fyrrverandi formanni sínum, að Íslendingar hafi látið Breta og Hollendinga tukta sig eins og sakamenn vegna Icesave skulda Landsbankans.
Ekki er ljóst hvort Árni byggir skoðun sína eingöngu á því, að hann og félagar hans í Samfylkingunni vilji öllu til fórna til þess að koma landinu að, sem hreppi í stórríki ESB, eða hvort hann er orðinn svo sár á afturendanum vegna högga þrælapískaranna í London og Haag.
Hvort heldur sem er, sagði Árni á Alþingi í dag: ,,Við höfum náð viðurkenningu á því að greiðslur á þessum skuldbindingum verði ekki þannig að þær verði okkur sem þjóð um megn að standa undir og við höfum tryggt að nágrannaríkin viðurkenna tilvist vafa um þá skuldbindingu sem að baki liggur."
Hálfkveðnar vísur í þessu máli duga ekki lengur. Árni Páll verður að útskýra hvar mörkin liggja milli þess að Icesaveþrældómur Íslendinga verði þeim viðráðanlegur, eða verði þeim sem þjóð um megn að standa undir.
Er ásættanlegt, að þjóðin sem heild búi við fátækt í tuttugu ár, til þess að greiða þennan þrælatoll og nánast allar útflutningstekjur þjóðarinnar fari til þrælapískaranna á sama tíma?
Hvaða hlutfalli útflutningsteknanna árlega, telur Samfylkingin að sé fórnandi fyrir aðild að ESB?
![]() |
Sáttur við lyktir Icesave |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
16.11.2009 | 13:31
Harkan vex í undirheimunum
Harkan í undirheimunum vex stöðugt og nú virðist aðeins vera tímaspursmál, hvenær til skotbardaga kemur á götum borgarinnar á milli glæpahópa, eða glæpamanna og lögreglu. Nú eru grímuklæddir og vopnaðir menn farnir að banka uppá hjá fólki á nóttunni og skjóta á það sem fyrir verður og í dæmi árásarinnar í Seljahverfi virðist tilviljun ein hafa ráðið því, að húsráðandinn yrði ekki fyrir skotum.
Einnig berast þær fregnir frá Selfossi, að þar hafi verið gengið í skrokk á manni, sem glæpagengi taldi að sagt hefði til sín vegna fjölda afbrota á Suðurlandi. Tengt sama máli er handtaka manns í Þorlákshöfn, sem var að leita að manni til að misþyrma, en sá hafði borið vitni gegn sunnlensku glæpaklíkunni, sem reyndar er af erlendu bergi brotin og nýkomin til landsins.
Þessi aukna harka í undirheimunum kemur einnig fram í framgöngu íslenskrar mótorhjólaklíku, sem á sér þann draum æðstan, að verða fullgildur meðlimur Hells Angels, sem eru skipulögð glæpasamtök, með mikil ítök og yfirráð í fíkniefnamarkaði, t.d. á norðurlöndunum.
Skotbardagar á götum úti eru orðnir nánast daglegt brauð í Kaupmannahöfn, sérstaklega á Norðurbrú, þó þeir teygji anga sína í fleiri hverfi borgarinnar og raunar landsbyggðarinnar.
Verði ekki gripið til ennþá harkalegri aðgerða gegn þessum vágesti, gæti ástandið fljótlega orðið svipað í Reykjavík og það er í Kaupmannahöfn.
![]() |
Barði að dyrum og hóf skothríð |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
16.11.2009 | 11:28
Útrásar- og Nígeríusvindlarar
Guðmundur Baldursson, lögreglufulltrúi á Suðurnesjum, lýsir ákveðinni tegund peningasvika á eftirfarandi hátt: Þeir setja þá í umslag úr álpappír og sprauta töfravökva í það, setja það í frysti og taka svo eftir einhvern tíma út. Þá eru þeir orðnir að peningaseðlum, segir Guðmundur. Er þessari sýningu ætlað að sannfæra mögulega kaupendur. Þarna mun þó ekki vera á ferðinni svarti galdur eða efnafræðiundur heldur er einfaldlega annað umslag í frystinum, fullt af peningum."
Við fyrstu sýn, virðist Guðmundur vera að lýsa vinnubrögðum íslenskra banka- og útrásarsvindlara, en mun vera að lýsa einu afbrigði af svokölluðu Nígeríusvindli.
Nígeríusvindlararnir munu stundum hafa haft milljónir króna út úr fórnarlömbum sínum.
Banka- og útrásarsvindlararnir höfðu þúsundir milljarða út úr sínum fórnarlömbum.
Ekki er vitað hvernig Nígeríusvindlurunum helst á sínum feng, en hinum hefur haldist afar illa á sínum.
Margir þeirra njóta ennþá vinsælda og virðingar meðal landsmanna og spila á það traust við áframhaldand þeirrar iðju, sem svo vel hefur gengið undanfarin ár.
![]() |
Með Nígeríusvindl á prjónunum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.11.2009 | 09:03
Skattlagningarástríða
Ef eitthvað einkennir vinstri menn öðru fremur, er það stjórnsemi og óstjórnleg ástríða í að fá að ráðskast með annarra fé í formi skatta, auðvitað í nafni jöfnuðar og réttlætis. Þetta ótrúlega skattpíningarbrjálæði, sem nú er að birtast frá ríkisstjórninni, í sinni verstu mynd, virðist koma mörgum í opna skjöldu, en ætti auðvitað ekki að gera það, því þetta er nánast eina hugsjón og stefa vinstri manna, sem alls staðar birtist þar sem þeir komast til áhrifa.
Fyrir kosningar í vor, var því spáð á þessu bloggi, að kæmust vinstri flokkarnir til valda eftir kosningarnar, myndu allir skattar, sem nöfnum tjáir að nefna, veða hækkaðir og fundnir yrðu upp nýjir skattar af öllum gerðum, þar sem vinstri menn hafa endalaust hugmyndaflug, þegar að skattheimtu kemur. Engar umræður sköpuðust um þessi mál í vor og er það að hitta menn í bakið núna.
Spáin frá því í apríl s.l. er nú að rætast og reyndar kemur hún fram með miklu meira skattahækkanabrjálæði, en jafnvel þar var séð fyrir.
Það liggur í frjórra hugmyndaflugi vinstri mannanna í skattlagningarmálum, en þess sem bloggið skrifaði.
![]() |
Nýir skattar inni í myndinni |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.11.2009 | 23:39
Samstaða innan ríkisstjórnarinnar
Engin samstaða hefur fram að þessu verið milli ríkisstjórnarflokkanna og innan þeirra um nokkurt efni, sem máli hefur skipt og má þar nefna umsóknina um ESB, Icesavemálið, orku- og stóriðjumál, niðurskurð ríkisútgjalda eða stöðugleikasáttmálann, svo eitthvað sé nefnt.
En nú tilkynnir fjármálajarðfræðingurinn, að "ágæt" samtaða sé innan ríkisstjórnarinnar um skattahækkanir, aðeins sé eftir að útfæra skattahækkanabrjálæðið nánar, svo allir stjórnarliðar verði glaðir.
Þetta þar ekki að koma á óvart, því ef eitthvað getur sameinað vinstri menn, þá eru það skattahækkanir. Það eru þeirra ær og kýr og helsta lífsmottó, að skattleggja allt sem hugsanlega er hægt að skattleggja og skattleggja það mikið.
Engu máli skiptir hvort góðæri eða kreppa ríkir í þjóðfélaginu, þá eru skattahækkanir alltaf helsta baráttumál vinstri manna og þegar þeir komast í aðstöðu til að framkvæma þessa drauma sína, er það fyrir þeim eins og þegar barni er sleppt lausu í leikfangabúð.
Nú verður þessi vinstridraumur að martröð þjóðarinnar.
![]() |
Steingrímur: Ágæt samstaða um skattamál |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.11.2009 | 14:21
Opið og gegnsætt söluferli
Guðmundur Franklin Jónsson segir að mikilvægt sé, að fleiri en núverandi eigendur Haga, fái kost á að kaupa fyrirtækið. Ef hann á við Bónusfeðga, þá eiga þeir ekkert í Högum, því Kaupþing er búið að yfirtaka 1998 ehf., sem var í raun aldrei annað en leppfyrirtæki fyrir bankann, þar sem hann hafði lánað 1998 ehf. fyrir öllu kaupverðinu og gott betur.
Sú krafa hlýtur að verða í heiðri höfð, að salan á Högum verði opin og gegnsæ, þannig að þeim skrípaleik, sem viðgekkst við kaup og sölu fyrirtækja milli útrásarglæframannanna og þegar þeir seldu og keyptu af sjálfum sér, verði hætt og allt verði haft uppi á borðum.
Fyrrverandi eigendum Haga á ekki að líðast að fá erlenda leppa, til að leggja fram sýndarhlutafé, til að auðvelda feluleik með tugmilljarða skuldaniðurfellingu til handa Baugsfeðgum. Nóg er komið af slíku.
Einnig verður að gera þá kröfu, að væntanlegur hluthafalisti "Þjóðarhags" verði öllum aðgengilegur, þannig að ljóst verði frá upphafi, hverjir séu helstu bakhjarlar þess hóps og ekki sé hætta á að einhverjir aðrir útrásarglæframenn ætli að laumast bakdyramegin aftur inn í atvinnulífið í skjóli almenningshlutafélags.
Almenningur vill ekkert pukur og laumuspil lengur.
![]() |
Mikill áhugi á Högum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
13.11.2009 | 15:35
Ósannindi og falsrök
Finnur Árnason, duglegur forstjóri Haga, hefur sent frá sér yfirlýsingu til að mótmæla fréttum Moggans af málefnum Haga, eiganda þess 1998 ehf., og "eigendum" þess félags, sem eru Baugsfeðgar. Flest sem kemur fram í yfirlýsingunni er ónákvæmt, villandi eða beinlínis rangt.
Hvergi hefur komið fram í umfjöllunum undanfarið, að til standi að fella niður skuldir af Högum, en hinsvegar hefur verið fjallað um skuldastöðu 1998 ehf. og hugsanlega skuldaniðurfellingu þess félags. Finnur fullyrðir að "Hagar sé eina þvert á móti eina fyrirtæki landsins sem hafi á s.l. 18 mánuðum greitt upp að fullu með vöxtum skráðan skuldabréfaflokk, sem var meginhluti skulda félagsins. Hagar séu nú vel fjármagnað félag til langs tíma." Það mun vera rétt að félagið greiddi upp skuldabréfaflokk, sem skráður var í Kauphöll, en til þess notaði félagið ekki sitt eigið fé, heldur hefur komið fram, að skuldabréfin voru greidd upp með nýju langtímaláni frá Kaupþingi og Íslandsbanka.
Finnur lætur einnig eins og Mogginn berjist fyrir því, að Bónus verði án Jóhannesar í Bónus, þó ekki sé hægt að muna, hvar það hafi komið fram í blaðinu, en hins vegar hefur enginn barist harðar fyrir því að Bónus verði rekinn án Jóhannesar, en hann sjálfur og Jón Ásgeir, sonur hans. Vörumerkið "Jóhannes í Bónus" er löngu búið að missa alla tiltrú og ekki hægt að sækja á mið þjóðarvorkunnar lengur út á það.
Þeir feðgar eru búnir að tapa hundruðum milljarða króna á brölti sínu, síðan þeir stofnuðu Bónus fyrir tuttugu árum og hefur fáum tekist að skapa aðra eins fjármálaóreiðu á stuttum tíma og þeim feðgum. Sennilega yrði öllum fyrir bestu að ekkert fyrirtæki yrði framar rekið með þá feðga innanborðs.
Þjóðin er nú að súpa seyðið af gjörðum þeirra og annarra útrásarglæframanna.
Þeir sjálfir drekka bara Diet Coce og eru alsælir með það.
![]() |
Engar skuldir Haga afskrifaðar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.11.2009 | 14:51
Sífelld ónákvæmni
Áróðursbragð stjórnarflokkanna endurtekur sig í sífellu, en það felst í því, að boða fyrst afar slæm tíðindi og koma svo fram skömmu síðar og segja, að sem betur fer sé útlitið nú ekki eins slæmt og það hafi litið út áður.
Þessum áróðri er beitt hvað eftir annað, til þess að reyna að sætta fólk betur við þær arfavitlausu skattahækkunarbrjálæðistillögur, sem ríkisstjórnin er að reyna að koma sér saman um, en aðeins hefur náðst samstaða innan flokkanna og milli þeirra um hvað heildarskattheimtan skuli verða há, en ekki hvernig í ósköpunum eigi að vera hægt að leggja slíkar byrðar á þjóðina.
Nú segir Steingrímur J. að halli á rekstri ríkissjóðs verði ekki jafn mikill og talið hafi verið fyrir rúmum mánuði síðan og það séu mikil gleðitíðindi. Þó hefur komið fram að hallinn á ríkisrekstrinum muni verða 500 milljarðar á árunum 2008 - 2011. Sjálfsagt er að taka undir að það yrðu gleðitíðindi, ef ríkisstjórnarnefnunni tækist að halda hallanum innan þessara marka og enn meiri gleðitíðindi, ef henni tækist að spara í ríkisrekstrinum, en það er eitur í beinum vinstri manna.
Skattpíningarleiðin er miklu auðveldari og alltaf hægt að friða almúgann, með því að segja að "byrðunum verði dreift á réttlátan og sanngjarnan hátt", þannig að þeir efnameiri verði látnir borga meira. Þá gleðjast allir, en skilja ekki að "breyðu bökin" eru bök almennings.
Steingrímur sagði keikur í þinginu í dag: "Þá væru atvinnuleysistölur heldur betri en útlit var fyrir sem þýddi að ekki þyrfti að leggja Atvinnuleysistryggingasjóði til jafn mikið fé og áætlað var. Loks væru tekjur ríkisins heldur að styrkjast á nýjan leik og virðisaukaskatturinn að gefa meiri tekjur sem sýndi að umsvifin séu að aukast í þjóðfélaginu á ný."
Allar spár benda til að atvinnuleysi muni aukast á næsta ári og fréttir, sem birtust í dag, sýna að velta í smásöluverslun heldur áfram að dragast saman, mánuð eftir mánuð, og ekkert útlit fyrir annað en að hún muni minnka enn, með sískertum kaupmætti almennings.
Fjármálaráðherra lætur svoleiðis smámuni ekki hafa nokkur áhrif á sig.
![]() |
Dregur úr halla ríkissjóðs |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)