Össur verður að standa fyrir máli sínu

Össur Skarphéðinsson, grínari og utanríkisráðherralíki, hélt því blákalt fram á Alþingi í gær, að hann hefði ekki setið neinn fund með lögmönnum frá Mishcon de Reya, þann 31 mars s.l. og þar af leiðandi ekki fengið nein gögn frá stofunni, hvað þá kynningu á þeim.

Nú er komin ný yfirlýsing frá Mishcon de Reya, þar sem birtur er nafnalisti þeirra, sem sátu þennan fund að morgni þess 31. mars til að undirbúa Össur undir fund með Milliband utanríkisráðherra Breta.  Steingrímur J. sagði á sama þingfundi í gær, að hann tryði Össuri betur en hinni virtu bresku lögmannsstofu, sem annara er um heiður sinn, en íslenskum grínurum og ráðherranefnum.

Lögmannsstofan býðst til að leggja fram eiðsvarna vitnisburði um hvað fram fór á fundum með sendimönnum Steingríms J. á þessum tíma, því þeir sem vilja láta taka sig alvarlega, eru tilbúnir til a leggja heiður sinn að veði.

Össur verður að útskýra og afsaka lygasögu sína, ef hann ætlar að sitja áfram í embætti.

Götusagan heldur því fram að Össur muni taka við af Jóhönnu á næsta ári.

Kærir þjóðin sig um mann, sem staðinn hefur verið að lygi á Alþingi, í það embætti?


mbl.is Bjóða eiðsvarinn vitnisburð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Meirihluta þjóðarinnar er misboðið

Fólki hefur oft ofboðið framganga Guðbjarts Hannessonar, formanns Fjárlaganefndar Alþingis, þegar hann hefur oftar en einu sinni tekið mál nánast órædd út úr nefndinni í algerri andstöðu við minnihlutann, sem viljað hefur skoða og ræða mál betur og afla frekari gagna.

Almenningi er algerlega ofboðið, vegna þess pukurs, ósanninda og þjösnagangs, sem ríkisstjórnarnefnan hefur beitt, við að reyna að keyra mál í gegnum þingið, fyrst átti að láta samþykkja ríkisábyrgðina á skuldum landsbankans án kynningar og umræðu, loks var málið samþykkt með fyrirvörum, sem áttu að verja þjóðina gegn verstu agnúum "samningsins" og nú á að keyra breytingarfrumvarp, sem afturkallar fyrirvarana, í gegn um þingið með fólsku og þjösnaskap.

Skattgreiðendum er nóg boðið, þegar bæta á hundraða milljarða þrælaskatti til Breta og Hollendinga ofan á allt skattahækkanabrjálæðið sem búið er að skella á, til að rétta af halla ríkissjóðs.  Ekkert af þeim skattahækkunum, sem taka eiga gildi um áramótin eru vegna Icesave þrælaklafans, þó sumir virðist halda að svo sé.

Stjórnarmeirihlutinn á þingi ætti að skammast sín, fyrir að láta draga sig á asnaeyrunum til að samþykkja, að selja þjóðina í þrældóm til áratuga.  Íslandssagan mun geyma nöfn þeirra, svo lengi sem land byggist, vegna þeirra skítverka, sem þeir eru nú að vinna.

Meirihluta þjóðarinnar er misboðið, ofboðið og nóg boðið.


mbl.is Guðbjarti misboðið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Betra að fresta fram yfir áramót

Þingstörf eru öll í uppnámi vegna ótrúlegra vinnubragða ríkisstjórnarnefnunnar á lokaspretti umræðunnar um breytingu á lögum um ríkisábyrgð á skuldum Landsbankans.

Samningurinn sjálfur er sá allra lélegasti, sem sjálfstætt ríki hefur gert við önnur ríki, án þess að um uppgjafarskilmála hafi verið að ræða eftir styrjaldir.  Samninganefndin var enda samansett af embættismönnum, sem vafi leikur á að hafi kunnað almennilega ensku og alls ekki flókið enskt lagamál, enda textinn allur einhliða í hag hinna erlendu "samningsaðila".

Formaður samninganefndarinnar sagðist ekki hafa nennt að hafa þetta mál hangandi yfir sér lengur og því bara skrifað undir og svo þegar hann er boðaður á fund Fjárlaganefndar Alþingis, til að útskýra ýmsa þætti í aðdraganda undirskriftarinnar, þá nennir hann ekki að mæta og nennir ekki heldur að útskýra málið skriflega.

Enn er beðið eftir nýjum gögnum frá Mishcon de Reya, ensku lögmannsstofunni, sem reyndi að ráðleggja Svavari og félögum heilt í aðdraganda samningsins, þó Svavar hafi hunsað þær ráðleggingar, enda hefur hann varla nennt að hlusta á þær.

Úr því sem komið er, er viturlegast að fresta málinu fram yfir áramót, því ef þingið ætlar að fara að fjalla um málið í dag og greiða síðan atkvæði um það í nótt, er mikil hætta á óeirðum í miðbænum, sem ekki er gott að spá um, hvert kunna að leiða.

Það er ekki fyrst og fremst vegna þess að andstæðingar ríkisábyrgðarinnar muni fjölmenna í miðbæinn, heldur er mikil hætta á að talsverð ölvun verði í bænum í kvöld og nótt og fólk sem ekki verði alveg með sjálfu sér, leiðist út í skrílslæti og jafnvel óeirðir við slíkar aðstæður.

Þingmönnum veitir ekki af nokkrum dögum í viðbót til að safna saman þeim gögnum, sem enn er reynt að leyna fyir þeim.


mbl.is Þingfundi nú frestað til 15
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þingið nánast óstarhæft vegna hroka embættismanns og ráðherra

Svavar Gestsson og Steingrímur J. eru báðir miklir hrokagikkir og kjaftaskar, en nú er mikillætið og lítilsvirðingin gagnvart Alþingi gengin svo fram úr hófi, að þingið er orðið nánast stjórnlaust og óstarfhæft.

Ósannsögli, leynd og mikilmennska þessara félaga úr Alþýðubandalaginu sáluga, gagnvart þingi og þjóð, er orðin svo yfirgengileg, að jafnvel samflokksmönnum þeirra, mörgum hverjum, ofbíður.

Að opinber embættismaður skuli neita að mæta fyrir þingnefnd og útskýra störf sín, sem eiga að heita í nafni þjóðarinnar, lýsir slíkum hroka og yfirlæti, að engu tali tekur.

Enn meiri lítilsvirðing fyrir þinginu felst í því, að formaður Fjárlaganefndar og ráðherranefnurnar skuli sætta sig við þessa framkomu og láta hana átölulausa.

Það er grátlegt að horfa upp á niðurlægingu löggjafarsamkundu þjóðarinnar.


mbl.is Þingfundi frestað til 12
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Allir trúa öllum, en samt veit enginn hvað er satt.

Alveg frá upphafi, hefur dularfull leynd hvílt yfir öllu, sem viðkemur Icesave þrælasamningnum sem Svavar Gestsson og Indriði H. Þorláksson meðtóku frá Bretum og Hollendingum í umboði og með samþykki Jóhönnu og Steingríms J. 

Þingmenn hafa, smátt og smátt, í tæpa sjö mánuði togað nýjar og nýjar upplýsingar og leyniskjöl fram í dagsljósið og er þessi ánauðarsala þjóðarinnar nú orðið eitthvert lengsta og strangasta mál, sem fyrir þingið hefur komið frá lýðveldisstofnun, enda mun samþykkt þess hafa áhrif á afkomu heimilanna í landinu um áratugaskeið.

Nú virðist vera að koma í ljós, að Svavar og Indriði hafi vísvitandi haldið leyndum og stungið undir stól, upplýsingum sem hefðu komið málstað þjóðarinnar vel í strögglinu við þrælapískarana bresku og hollensku og ef rétt er, er það auðvitað stóralvarlegt mál og hlýtur að valda embættismissi.

Breska lögmannsstofan, Mishcon de Reya, sem vann fyrir stjórnvöld á þessum tíma, segist hafa kynnt Össuri, ríkisgrínara, ýmis gögn í London þann 31. mars s.l., án upplýsinga sem Svavar vildi ekki að hann sæi, en Össur segist aldrei hafa séð.  Auðvelt hlýtur að vera, að finna út hvar grínráðherrann var staddur 31. mars og hafi hann verið í London, verður að upplýsa hvers vegna hann sá ekki né heyrði það sem fyrir hann var lagt.

Össur segist ekki trúa því, að Svavar og Indriði hafi verið að plata sig og er sennilega einn fárra um þá skoðun.

Steingrímur J. segist trúa Össuri og er örugglega einn örfárra, sem það gerir. 


mbl.is Vilja að Svavar verði kallaður fyrir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

HNEYKSLI

Svavar Gestsson og Indriði H. skrifuðu undir Icesave samning við Breta og Hollendinga þann 5. júní s.l., í umboði og með samþykki Steingríms J., og síðan ætlaði Steingrímur að keyra ríkisábyrgð á samninginn í gegnum þingið á mettíma, án þess að þingmenn fengju að sjá sjálfan samninginn.

Síðan hefur þetta mál verið að velkjast í Alþingi, var afgreitt sem lög, með fyrirvörum við ríkisábyrgðina, þann 28. ágúst s.l. og eftir að Indriði H. hafði klúðrað kynnigunni á fyrirvörunum og sendur heim með drög að frumvarpi til laga um að þingið félli frá fyrirvörunum, hefur verið tekist á um málið meðal þingmanna og almennings, sem að stórum hluta er algerlega andvígur þessari þrælkun, sem Steingrímur J., Jóhanna og félagar vilja selja þjóðina í.

Allan tímann hefur stjórnarandstaðan staðið vaktina og reynt að fá að sjá þau fylgigögn, sem þessari svokölluðu samningsgerð fylgdu og smátt og smátt hefur verið hægt að toga nýjar og nýjar upplýsingar fram í dagsljósið, sem allar sýna hversu fáráðlegur og einhliða þessi "samningur" er.

Nú, kvöldið sem umræðum um málið á að ljúka í annað sinn á Alþingi, kemur í ljós að Svavar Gestsson og Össur Skarphéðinsson hafa viljandi haldið leyndum mikilvægum gögnum varðandi málið í marga mánuði og er þetta fyrst að komast upp núna, á síðustu mínútum umræðunnar.

Össur og jafnvel stjórnin öll hlýtur að segja af sér strax í kvöld, eða í síðasta lagi á morgun.

Málsmeðferðin öll er REGINHNEYKSLI.


mbl.is Uppnám á þingi vegna skjala
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hagnaðinn vantaði aldrei

Þær tillögur sem lagðar hafa verið fram til að efla og bæta starfsemi fjármálastofnana eru flestar til bóta, en veita þó takmarkaða tryggingu fyrir því, að nýtt banka- og útrásarrugl geti ekki skollið á landinu í framtíðinni, þegar fyrnast fer yfir síðasta hrun.

Skilyrðið um þriggja ára hagnað fjármálastofnunar, til þess að heimilt verði að gera starfslokasamninga við yfirmenn, er meira til að sýnast, en að það hafi einhverja þýðingu.

Á árum banka- og útrásardellunnar sýndu allir bankarni tugmilljarða gróða á hverju ári og ekki voru rekstrarreikningar gerfifyrirtækjanna síðri.

Það var einmitt þessi óhemju hagnaður sem var notaður til að réttlæta risabónusa og aðrar sposlur til yfirmanna þessara fyrirtækja.  Þá voru mönnum ýmist greiddar hudruð milljóna króna fyrir að hætta í vinnunni, eða fyrir að mæta í vinnuna.

Hagnaðurinn var allur fenginn með froðufærslum í bókhaldi og engin örugg trygging fyrir því að slíkt verði ekki gert aftur.


mbl.is Hagnaður skilyrði starfslokasamninga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eðlileg niðurstaða

Þegar Útlendingastofnun vísar erlendum ríkisborgurum úr landi,  sérstaklega flóttamönnum, brýst nánast alltaf út mótmælaalda og er þess þá krafist, að viðkomandi útlendingur fái hér dvalarrétt og ríkisborgararétt í framhaldi.

Nýjasta málið af þessum toga, er afturköllun stofnunarinnar á dvalarleyfi 10 ára stúlku frá Filippseyjum og hefur Héraðsdómur staðfest þá niðurstöðu.  Þetta verður að teljast afar eðlileg málsmeðferð, eins og málið er í pottinn búið, en hingað átti að lauma stúlkunni með lygum og fölsuðum pappírum.

Saga konunnar, sem sagðist vera móðir barnsins, var hreinn uppspuni og pappírarnir sem framvísað var, stóðust enga skoðun.  Réttast væri að kæra konuna fyrir þetta fals og ekki síður illa framkomu gagnvart barninu, en þessi svik hefðu getað komið sér illa fyrir stúlkuna í framtíðinni.

Svona framkoma hlýtur að flokkast undir illa meðferð á börnum, þ.e. að flytja stúlkuna heimshorna á milli og reyna að koma henni til dvalar í nýju landi, með fölsunum og lygi.

Stúlkan sjálf á alla samúð skilda, enda er hún þolandi í málinu, en ekki gerandi. 


mbl.is Svipting dvalarleyfis staðfest
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það er búið að samþykkja ríkisábyrgð á Icesave

Sá misskilningur virðist útbreiddur, að lokaslagurinn sem nú er að hefjast vegna ríkisábyrgðar á skuldum Landsbankans, snúist um það, hvort íslenskir skattgreiðendur verði látnir borga fyrir einkabankann eða ekki.

Svo er alls ekki, því Alþingi samþykkti í lok Ágústmánaðar s.l. að selja þjóðina í þrældóm til Breta og Hollendinga og þar með að íslenskir skattgreiðendur skyldu greiða þetta í sveita síns andlitis á næstu áratugum.  Að vísu samþykkti þingið fyrirvara við ríkisábyrgðina, sem áttu að tryggja það, að íslensku þrælarnir kiknuðu ekki algerlega undan þrælabyrðinni, en þræla eftir sem áður a.m.k. til ársins 2024.

Málið núna snýst um, að Alþingi éti ofnan í sig fyrirvarana sem samþykktir voru í sumar, þannig að engar takmarkanir verði á þeirri byrði, sem íslensku þrælarnir skuli bera til næstu áratuga.  Þannig að þó að þingið felldi það frumvarp, sem nú kemur senn til atkvæðagreiðslu, gerist ekki annað en það, að lögin frá í sumar halda gildi sínu og þar með fyrirvararnir, sem þá voru settir við ríkisábyrgðinni.  Það er sem sagt, illu heilli, búið að samþykkja að hérlendir skattgreiðendur borgi brúsann og ekki verður aftur snúið með það.

Samkvæmt þessari frétt vinna breskir vísindamenn að því að þróa timburmannalaust áfengislíki.

Það ríkisstjórnarlíki, sem nú stjórnar landinu, mun skilja eftir sig þvílíka timburmenn, að taka mun þjóðina áratugi, að jafna sig svo vel, að hún geti haldið höfðinu uppréttu, kvalalaust.


mbl.is Lokaumræða um Icesave
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dæmigerð lánærissaga

Á lánæristímanum frá 2005 - 2007 misstu margir sig í lántökum vegna þess hve auðvelt var að fá lán.  Ekki voru það allt banka- og útrásarruglarar, sem misstu allt vit og rænu á þessum tíma, þó þeir yrðu svo stórtækir á endanum, að þeir settu ekki sjálfa sig á hausinn, heldur þjóðarbúið.

Sagan af öryrkjanum, sem hefur tæpar þrjúhundruð þúsund krónur í mánaðartekjur, en skuldar 117 milljónir króna vegna íbúðar- og bílakaupa er nokkuð sláandi og lýsandi fyrir lánæðið sem greip margan manninn á þessum árum.

Í fyrsta lagi er undarlegt, að maður með þessar tekjur skuli hafa látið sér detta í hug að steypa sér í svo miklar skuldir, bæði hefur íbúðin verið í ríflegri kantinum, miðað við tekjur og ekki síður bílinn, sem einnig var keyptur fyrir erlent lán, eins og íbúðin.

Í öðru lagi er alveg stórundarlegt, að nokkur lánastofnun skuli hafa lánað manni með þessar tekjur svona mikil lán, því ótrúlegt er að hann hefði nokkurn tíma getað staðið undir þeim, jafnvel þó gengishrun hefði ekki komið til, en þó var vitað mál, að krónan væri allt of hátt skráð á þessum tíma.

Þetta verður að teljast nokkuð dæmigerð lánærissaga.


mbl.is 117 milljóna skuld - 296 þúsunda tekjur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband