Hvað á fjárkúgunin að ganga langt?

Bretar og Hollendingar greiddu innistæðueigendum á Icesave reikningum miklu hærri upphæðir en lágmarkstrygginguna, sem þeir áttu rétt á, samkvæmt tilskipun ESB og íslenskum lögum um Tryggingasjóð innistæðueigenda og fjárfesta og píndu svo Svavar Gestsson og Indriða H. Þorláksson til að samþykkja, að þessi umframgreiðsla væri rétthá kröfu tryggingasjóðsins í þrotabú Landsbankans.  Það þýðir að tryggingasjóðurinn verður helmingi lengur að fá upp í sína kröfu, en íslenskir skattgreiðendur eiga að borga 5,55% vexti af tryggingasjóðshlutanum í helmingi lengri tíma, en annars hefði orðið.  Raunar kemur þetta mál íslenskum skattgreiðendum akkúrat ekkert við, enda er hér um hreina fjárkúgun að ræða af hendi Breta og Hollendinga.

Svo bíta Bretar höfuðið af skömminni með því að leggja allt sem innheimtist af eignum Landsbankans í Bretlandi inn á vaxtalausan reikning í Englandsbanka og neita að afhenda peningana inn í þrotabú Landsbankans.

Í auðmýkt hins kúgaða, hafa íslensk stjórnvöld farið þess vinsamlega á leit við Breta, að upphæðin verði flutt á reikninga sem myndu bera einhverja vexti, en eins og fjárkúgara er siður, hlusta Bretar ekki á neitt slíkt væl.

Bretar liggja nú þegar með 200 milljarða króna á þessum vaxtalausa reikningi, en á sama tíma eru vextirnir, sem Bretar ætla skattgreiðendum hér á landi að borga komnir upp í a.m.k. 60 milljarða króna.

Hvað á að láta þessa fjárkúgara ganga langt og á aumingjaskapur íslenskra ráðamanna sér engin takmörk?


mbl.is Afborganir í Bretlandi enn á vaxtalausum reikningi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Draumur um að verða (glæpa-) menn með (glæpa-) mönnum

Nokkrir íslenskir smákrimmar hafa lengi unnið að því hörðum höndum, að verða að alvöruglæpamönnum, sem mark yrði tekið á, heima og erlendis.  Þeir þrá það heitast að fá fullgildingu sem fullgildir Vítisenglar, en þau samtök eru hvarvetna í fararbroddi glæpagengja og eru hörð í horn að taka.

Vítisenglar eru þekktir fyrir mikla hörku í bardögum við aðarar ámóta glæpaklíkur eins og Bandidos og fleiri slíkar, sem stunda eiturlyfjasölu, þjófnaði, svik, mansal og annað ámóta uppbyggilegt.

Það er alveg furðulegt, að það skuli vera draumur ungra manna að fá að gerast félagar í svona klúbbum, að því er virðist í þeim eina tilgangi að verða gjaldgengir í alþjóðlegu samstarfi glæpamanna.

Yfirvöld gera það eina rétta með því að berjast af hörku gegn þessum tilburðum smákrimmanna til að breyta mótorhjólaklúbbnum sínum í alþjóðlega glæpaklíku.


mbl.is Norski vítisengillinn hefur komið hingað áður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gífurlega mikilvægt fyrir efnahag landsins

Útflutningur hins nýja álvers á Reyðarfirði var að verðmæti 74 milljarða króna og sýnir sú upphæð vel, hve drjúg búbót þetta fyrirtæki er fyrir íslenskt efnahagslíf.

Á síðasta ári nam verðmæti útfluttra iðnaðarvara, aðallega áls, í fyrsta skipti hærri upphæð en sjávarútvegur skilaði, því veðmæti iðnaðarvaranna var um 240 milljarðar króna, eða um 48% alls útflutnings, en sjávarafurðanna um 209 milljarar króna, eða um 42% alls útflutnings.

Þetta sýnir vel, hvað stóriðjan er farin að skipta gífurlega miklu máli fyrir íslenskan efnahag og hverslags skemmdarverk á honum þingmenn og ráðherrar VG eru að vinna, með því að spilla fyrir og tefja alla atvinnuuppbyggingu í landinu, ekki síst í orkufrekum iðnaði.

Það þyrfti að stefna Svandísi Svavarsdóttur fyrir rétt, til að fá endanlega úr því skorið hvort hún hafi ekki brotið gegn lögum og eðlilegum stjórnsýsluháttum með síðasta úrskurði sínum um skipulag vegna virkjana í neðri hluta Þjórsár.

Einnig gæti Alþingi borið fram vantraust á hana og ef eitthvað væri að marka þingmenn Samfylkingarinnar, myndu þeir greiða atkvæði með því. 

Það gæti verið leið til að koma einhverjum málum til að snúast, því þjóðfélagið þolir ekki þessa stöðnun lengur.


mbl.is Fluttu út vörur fyrir 74 milljarða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skýrslunni hlýtur að seinka ennþá meira

Rannsóknarnefnd Alþingis sendi í gær út bréf til þeirra, sem fá á sig ávirðingar í væntanlegri skýrslu nefndarinnar, þar sem þeim er gefið tækifæri til andmæla.  Andmælafrestur mun vera tíu dagar, en lílegt verður að telja, að margir muni sækja um viðbótartíma, til þess að semja varnarræðurnar, þannig að ekki munu þær allar skila sér í hús, fyrr en um, eða eftir, mánaðamótin febrúar/mars.

Upphaflega átti skýrsla rannsóknarnefndarinnar að koma út þann 1. nóvember s.l., en var síðan frestað til 1. mars n.k., en nú virðist útséð um að hún verði ekki tilbúin fyrr en í fyrsta lagi um miðjan mars.  Einhvern tíma mun taka nefndina að fara yfir andmælin og vinna úr þeim, sjálfsagt þarf að taka tillit til einhverra þeirra, en annarra ekki.

Steingrímur J., hafði áhyggjur af því, að ekki væri gott að fá skýrsluna stuttu fyrir þjóðaratkvæðagreiðsluna um Icesave þrælalögin, þó þetta tvennt séu aðskildir hlutir, en nú virðast þær áhyggjur hans vera úr sögunni, þar sem ólíklegt er, að skýrslan verði tilbúin fyrr en eftir atkvæðagreiðsluna.

Líklega hefur verið ákveðið að bíða með að ljúka skýrslunni með tilliti til dagsetningar þjóðaratkvæðagreiðslunnar.


mbl.is Senda út athugasemdabréf
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tamdi sér lífsstíl útrásarvíkinga

Micahael Carrol, sorphirðumaður, vann stóra pottinn í breska lottóinu fyrir átta árum, en potturinn nam um tveim milljörðum króna.  Hann er nú kominn á atvinnuleysisbætur, því hann sólundaði öllum peningunum í lúxus, íbúðir, veislur, skartgripi, gjafir til góðgerðarfélaga og ættingja og í gleðikonur.

Þessi skjótfengni gróði, virkaði á Michael á nákvæmlega sama hátt og nýrýka íslenska banka- og útrásarskúrka, en þeir kepptu hver við annan í gjálífinu, með kaupum á lúxusíbúðum, snekkjum, flugvélum, þyrlum og bílum.  Þeir héldu dýrustu veislur, sem um getur og voru örlátir á styrki til góðgerðar- og menningarmála og ýmsar sögur fara af svalli og gleði í veiðiferðum þeirra í dýrustu laxveiðiám landsins.

Þó er einn meginmunur á Michael og sukkkollegum hans íslenskum, þ.e. hann sukkaði fyrir sína eigin peninga, en banka- og útrásarskúrkarnir fyrir lánsfé, sem þeir ætluðu sér aldrei að borga til baka, enda hafa þeir ekki gert það og lánadrottnar þeirra sitja eftir með þúsundir milljarða sárt enni.

Annar munur er sá, að Michael er kominn á atvinnuleysisbætur, en íslensku skúrkunum er haldið uppi af þjóðinni og nýju bönkunum og þeir halda flestum sínum eignum, eins og ekkert hafi í skorist.

Þetta er sem sagt dæmisaga um það, að það er miklu farsælla að sukka fyrir annarra manna fé, en sitt eigið.


mbl.is Vann tvo milljarða í lottói en er kominn aftur á bætur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lífeyrissjóðirnir ekki búnir að fá nóg af Jóni Ásgeiri í Bónus

Ágúst Einarsson, formaður stjórnar Framtakssjóðs, segir að vel komi til greina að kaupa verulegan hlut í Högum hf., en sjóðurinn var stofnaður af 16 lífeyrissjóðum til að taka þátt í endurreisn atvinnulífsins.

Nú hefur komið fram, að Hagar hf. sé ekki í neinni gjaldþrotahættu og skili þokkalegum arði, þannig að óskiljanlegt er með öllu, að aðstandendum Framtakssjóðs skuli yfirleitt láta sér detta í hug, að eyða stórfé til kaupa á hlutabréfum í því fyrirtæki.  Skuldavandi Baugsfeðga liggur ekki inni í Högum hf., heldur í 1988 ehf., en af því félagi mun Avion banki þurfa að afskrifa tugi milljarða króna, eins og hefur þurft að gera vegna allra fyrirtækja Baugsmanna, annarra en Haga, og nemur tap lánadrottna feðganna að minnsta kosti 700 milljörðum króna.

Stjórn Framtakssjóðs væri nær að halda sig við upphaflegan tilgang og fjárfesta í lífvænlegum fyrirtækjum, sem eiga í skuldavanda, en geta skapað mikla vinnu og helst gjaldeyristekjur.

Lífeyrissjóðirnir, eins og aðrir lánadrottnar, hafa tapað óheyrilegum upphæðum á viðskiptum sínum við Bónusliðið og því ættu þeir að beina sjónum sínum annað í þetta sinn.  Samstarf með þessum aðilum ætti að vera fullreynt.

Ef til vill á hér við, sem oft áður, að þangað leitar klárinn, sem hann er kvaldastur.


mbl.is Hagar vafalítið skoðaðir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

ESB valtar yfir Dani

Danir eru mikil útflutningsþjóð matvæla, bæði mjólkur- og kjötafurða.  Nú er komið fram á sjónarsviðið einhverskonar "kjötlím" sem kallast Þrombín og er notað til að líma saman kjötflísar, til þess að þær líti út eins og ekta kjötbiti.

Danir hafa barist hart gegn því, að farið verði að líma saman kjötafganga og vilja halda sig við framleiðslu á "ekta" kjöti, enda ekki skemmtileg tilhugsun að borða samanlímda steik, sem enginn veit hvar eða hvaðan hráefninu er sópað saman.

Þrátt fyrir hetjulega baráttu Dana fyrir þessu hagsmunamáli sínu, hefur ESB samþykkt þessa "límnotkun" við kjötframleiðslu innan sambandsins og þar með hunsað Dani algerlega og þeirra hagsmuni.  Meira að segja þeirra "norrænu vinir", Svíar og Finnar greiddu atkvæði gegn Dönum og er þó alltaf verið að mikla það fyrir Íslendingum, hve mikilvægt sé að njóta "samstöðu" norðurlandanna innan ESB.

Hvernig halda menn, að farið verði með hagsmuni Íslands í sjávarútvegsmálum innan ESB, ef svo ólíklega skyldi vilja til, að þjóðin samþykkti inngöngu í stórríkið.

Ekki verður að minnsta kosti hægt að treysta á "vores nordiske venner" í þeim efnum, frekar en í aðstoðinni við efnahagsáætlun Íslands og AGS.


mbl.is ESB leyfir kjötklístur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Allt þarf að gera til að kveða þennan "sið" niður

Svokölluð "heiðursmorð" eru ennþá algeng í múslimskum löndum og þekkjast reyndar einnig í samfélögum múslima í Evrópu og eru aðallega framin á stúlkum og konum, sem stórfjölskyldan telur að hafi vanvirt heiður ættingjanna, oftast með því að gefa karlmönnum hýrt auga.

Þetta er aldagömul "hefð" í þeim löndum, sem feðraveldið er sterkt og þar eru konur látnar ganga með blæjur eða í búrkum og yfirleitt ekki látnar ganga í skóla.  Þær eru eign feðranna, þangað til hann velur handa þeim brúðguma og eftir það eru þær réttmæt eign eiginmannsins.

Í mörgum múslimaríkjum eru viðurlög við "heiðursmorðum" ekki ströng, ef til vill nokkurra ára fangelsi, ef einhver viðurlög eru við þeim á annað borð.

Þessu verður ekki breytt, nema með fræðslu og aftur fræðslu, en bestur árangur myndi nást með því að stuðla að menntun kvennanna, þó oft sé menntun karlanna litlu meiri, a.m.k. í fátækum héruðum og löndum múslimaheimsins.

Blæjan, búrkan, umskurður kvenna og heiðursmorð eru atriði, sem berjast verður gegn, með öllum ráðum og byrjunin gæti verið að banna allt þetta í lögum vesturlanda, því stöðugt eykst straumur múslimskra innflytjenda vestur á bóginn.

Slík bönn á vesturlöndum gætu að endingu smitast inn í lagabálka þeirra landa, þar sem þessi ómennska viðgengst ennþá.


mbl.is Eiga lífstíðarfangelsi yfir höfði sér fyrir að grafa stúlku lifandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vill VG nýjan Icesave samning?

Ríkisstjórnin lætur í veðri vaka, að beðið sé tillagna íslenskra sérfræðinga um erlenda sérfræðinga, sem yrðu til aðstoðar við nýja samningagerð um Icesave, ef Bretar og Hollendingar muni fallast á að setjast að samningaborði að nýju og dregur stjórnarandstöðuna á fund eftir fund, til þess að ræða um daginn og veginn, því ekki kemur neitt nýtt fram í því máli, sem menn þykjast vera að ræða um.

Ekki er víst, að málið snúist eingöngu um, hvort Bretar og Hollendingar vilji setjast að samningaborði að nýju, eða ekki.  Stærsta spurningin er nefninlega hvort VG vilji yfirleitt, að samningarnir verði teknir upp, því með því væri viðurkennt, að Svavars- og Steingrímssamningurinn væri versti samningur fjármálasögunnar, enda var um hreinan uppgjafarsamning að ræða, sem ríkisstjórnin hefur barist fyrir með kjaft og klóm, fram að þessu.

Hver mun gæta hagsmuna Breta og Hollendinga við nýja samningsgerð, ef Svavar Gestsson kemur þar hvergi nærri og jafnvel ekki einu sinni Indriði H.?


mbl.is Flokksleiðtogar á fundi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvert starf er gulls ígildi

Þær fáu fréttir sem berast af fjölgun starfa hjá fyrirtækjum landsins eru mikil gleðitíðindi, því aldrei verður komist upp úr kreppunni, nema með því eina móti, að renna styrkum stoðum undir atvinnulífið og fjölga störfum, þ.e. í framleiðslustörfum en ekki opinberri þjónustu.

Stækkun lyfjaverksmiðju Actavis í Hafnarfirði og framleiðsluaukning um a.m.k. 50% er virkilega ánægjuleg, enda meirihluti framleiðslunnar fluttur út og skapar því gjaldeyristekjur fyrir þjóðarbúið.

þessi lífsneisti í atvinnuuppbyggingu verður að veruleika, þrátt fyrir að ríkisstjórnin geri allt sem í hennar valdi stendur til þess að koma í veg fyrir fjölgun starfa í landinu og allar tilraunir til að byggja upp ný atvinnufyrirtæki.

Vonandi fer einhver skilningur að vakna í höfðum stjórnarflokkanna, á því hvað til þarf til að koma þjóðfélaginu af stað upp úr kreppunni.  Það er ekki líðandi að ríkisstjórn landsins stuðli að dýpkun og lengingu kreppunnar frá því sem þyrfti að vera.

Atvinnulífið er undirstaða heimilanna í landinu og heimilin undirstaða samfélagsins. 

Þessar undirstöður þrífast ekki án hvorrar annarrar.

 


mbl.is 50 ný störf hjá Actavis
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband