Einkavæðing er ekki sama og glæpavæðing

Þegar Landsbanki og Búnaðarbanki voru seldir á sínum tíma mynduðust engar biðraðir fyrir utan ráðuneytin af áhugasömum aðilum, sem ólmir vildu kaupa bankana.  Leitað var með logandi ljósi að erlendum bönkum sem hægt væri að fá til að kaupa þó ekki væri nema annan bankann, en ekki einn einasti hafði á því nokkurn áhuga.

Að endingu var tekin "pólitísk" ákvörðun um að selja bankana til Samsonar og S-hópsins, en þó ákvörðunin hafi verið tekin af pólitíkusum, er það ekki það sama og ákvörðunin hafi ekki verið eftir öllum lögum og heimildum, enda kemur fram í fréttinni:  "Steingrímur Ari sagðist ekki vera að halda því fram að lög hefðu verið brotin í tengslum við söluna. Ríkisendurskoðun hefði staðfest að ráðherrunum hefði verið heimilt lögum samkvæmt að víkja reglum til hliðar."

Í ljósi reynslunnar má auðvitað segja að það hafi verið mistök að selja þessum aðilum bankana, en það gat enginn séð fyrirfram, að þessir nýju eigendur myndu reka bankana eins og einkaspaibauka sjálfra sín og sinna og stunda að því er virðist hreina glæpastarfsemi í tengslum við rekstur þeirra og annarra fyrirtækja sinna.

Sala á einhverju til óheiðarlegra manna gerir seljandann ekki samsekan um glæp, sem kaupandinn kann að nota hið selda til að fremja.


mbl.is „Þetta var pólitísk ákvörðun“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Leynibankar

Eignarhald Arion banka og Íslandsbanka er að verða ein af stærri ráðgátunum núna á tímum opinnar og gegnsærrar stjórnsýslu, þar sem allt er uppi á borðum, en hverjir eigendurnir eru er svo mikið leyndarmál, að enginn í stjórnsýslunni virðist hafa hugmynd um hverjir þeir séu, eða hvaðan þeir koma.

Ábyrgð á rekstri þessara banka virðist hvergi vera, því bæði fjármála- og viðskiptaráðherra segjast ekki geta haft nein afskipti af rekstri þeirra og Fjármálaeftirlitið, sem skipaði skilanefndirnar, telur sig ekki hafa neinar heimildir til að skipta sér af málum þessara banka umfram aðra. 

Nú segist Gylfi Magnússon, lausráðinn starfsmaður Viðskiptaráðuneytisins, vera að kanna hvort einhver geti upplýst um þetta eignarhald, en hann sé bara ekki viss um að nokkur viti það.  Eftir reynsluna af eignarhaldi og rekstri gömlu bankanna, hefði mátt ætla að yfirvöld hefðu lært eitthvað af því dýra námi, að eignarhald bankanna og hvernig með það er farið, skiptir höfuðmáli.

Að því er virðist eru það skilanefndirnar sem öllu ráða um þessa tvo banka, rekstur þeirra og skuldaniðurfellingar til útrásarglæpona og síðast en ekki síst um launagreiðslur til sjálfra sín.

Allt ýtir þetta undir þá kröfu, að ný rannsóknarnefnd verði skipuð, sem hafi það hlutverk að fara ofan í saumana á verkum skilanefndanna og starfsemi nýju bankanna.


mbl.is Kanna hvort hægt sé að birta nöfn eigenda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bjarni Ben. er flekklaus og farsæll stjórnmálamaður

Undanfarið hafa hinir ýmsu mannorðsmorðingjar reynt að draga nafn og persónu Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins, niður í svaðið án þess að fram hafi komið nokkrar ávirðingar á hann í tengslum við bankahrunið, hvorki í rannsóknarskýrslunni eða annarsstaðar.  Þrátt fyrir það djöflast óvandað fólk á Bjarna og lætur sig engu skipta þó hann sé vandaður og stálheiðarlegur maður, sem hefur átt farsælan þingferil og staðið sig með ágætum í formannsstóli Sjálfstæðisflokksins.

Reynt er að gera Bjarna tortryggilegan vegna stjórnarsetu um tíma í N1 og einhverra viðskipta tengdum Milstone, en þó kom hann í raun hvergi nærri viðskiptum Wernerbræðra eða annarra hrunbaróna.  Langt er seilst, ef það á að vera ástæða fyrir fólk að hætta allri þátttöku í þjóðmálaumræðunni einungis vegna þess að viðkomandi hafi einhvern tíma átt einhver viðskipti við hrunbarónana og ef svo langt ætti að ganga, ættu viðskiptavini í Bónusi undanfarin ár að fara að hugsa sinn gang og einnig mættu þeir þá líta í eigin barm, sem keypt hafa sér farmiða með Iceland Express undanfarin ár.

Vel má vera að Bjarni Ben. telji sér ekki sætt í formannsstólnum á þessum ótrúlega viðkvæmu tímum, þar sem allt er reynt til að drepa mannorð saklausra manna, enda ekki eftirsóknarvert að búa við slíkt til lengdar. 

Fari svo að Bjarni ákveði að víkja, án nokkurra ávirðinga, sem miðað við aðstæður í þjóðfélaginu væri líklega rétt niðurstaða hjá honum, þá þurfa ýmsir, sem nær voru atburðarásinni á árunum 2007 og 2008 að fara að hugsa sinn gang, t.d. Jóhanna Sigurðardóttir, Össur Skarphéðinsson, Árni Sigurðsson o.fl.


mbl.is Boða til aukalandsfundar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rannsaka þarf skilanefndirnar og nýju bankana

Nú þegar skýrsla Rannsóknarnefndar Alþingis liggur fyrir þar sem skýrt kemur fram hvernig skipulögð glæpastarfsemi var stunduð og bankarnir rændir og með því settir í þrot að eigendum þeirra og stjórnendum, sem rökuðu fé til eigin fyrirtækja og ekki síður í eigin persónulegu vasa og vandamanna sinna.

Eigendur allra bankanna voru stórtækir í þessum glæpum, en stórtækastir af þeim öllum var Baugsfjölskyldan, þar sem Jón Ásgeir virðist meira að segja hafa notað nafn móður sinnar til að fela lántökur til sjálfs sín, en hún var skráð fyrir rúmlega 62 milljarða skuldum til viðbótar við skuldir feðganna og Ingibjargar Pálmadóttur.  Það hlýtur að vera samviskulaus maður, sem nýtir nafn móður sinnar með þessum hætti.

Hrunkóngurinn sjálfur, Jón Ásgeir í Bónus, er launaður stjórnarformaður í tveim erlendum félögum, sem skilanendir hafa yfirtekið úr þrotabúum hans, þrátt fyrir dóm, sem gerir það að verkum að hann má ekki einu sinni sitja sem varamaður í stjórn nokkurs íslensks hlutafélags.  Arion banki ætlar að gefa Bónusfjölskyldunni og meðreiðarsveinum hennar forkaupsrétt á allt að 15% hlut í Högum hf., eftir að hafa afskrifað 70 milljarða króna vegna eignarhaldsfélags þeirra feðga, 1988 ehf., en með klækjum var það félag gert að eiganda Haga fyrir gjaldþrot Baugs.

Nú þarf að setja á stofn rannsóknarnefnd, sem hefði það hlutverk að rannsaka störf skilanefnda gömlu bankanna og starfsemi nýju bankanna, sérstaklega hvað varðar viðskipti við þá glæpamenn, sem settu gömlu bankana á hausinn og ollu öllu þjóðfélaginu ómældu tjóni, sem taka mun mörg ár að ná sér upp úr.

Fjármála- og viðskiptaráðherra hljóta að gera eitthvað í þessum málum strax, enda bera þeir ábyrgð á þessum málaflokkum innan ríkisstjórnarinnar, ásamt forsætisráðherranum.


mbl.is Allra stærsti skuldarinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hver á nýju bankana?

Þrátt fyrir margar fyrirspurnir til ráherra virðist ekki vera nokkur leið að fá upplýst hverjir eigi nýju bankana, þ.e. Arion banka og Íslandsbanka.  Steingrímur J. var spurður að þessu á blaðamannafundi eftir ríkisstjórnarfund í  síðustu viku og svaraði því til að það læti ljóst fyrir, það væru lánadrottnar gömlu bankanna.

Lilja Mósesdóttir, formaður Viðskiptanefndar Alþingis, sendi í framhaldinu bréf til Gylfa Magnússonar, lausráðins starfsmanns í Viðskiptaráðuneytinu, og bað um nánari skýringar á því hverjir þessir dularfullu eigendur eru og sagði m.a. í bréfinu:  „Þessi eltingaleikur við að ná fram upplýsingum um eignarhald nýju bankanna er orðinn fáránlegur.“

Gylfi svarar um hæl og segir að það liggi ljóst fyrir hverjir eigendurnir séu, það séu kröfuhafar gömlu bankanna.  Svarið er sem sagt alltaf það sama, eingöngu að það séu kröfuhafar, en ekkert um það hverjir þessir kröfuhafar séu, hvað þá hverjir séu þeirra stærstir og þar með áhrifamestir um rekstur þessara banka í framtíðinni.

Vita ráðerrarnir ekki meira um málið en þetta?  Ef svo er, eiga þeir að segja það því staðlaða svar þeirra um kröfuhafana svarar ekki spurningunni, en vekur upp spurningu um hvað sé verið að fela í sambandi við eignarhaldið.  Eru einhverjir kröfuhafanna ef til vill eignarhaldsfélög í eigu íslenskra útrásarvíkinga eða fyrrum bankamanna?

Við þessu verða að fara að fást skýr svör, enda ætlast ríkisstjórnin til þess að íslenskir skattgreiðendur séu í ábyrgðum fyrir þessa banka.


mbl.is Vill nánari upplýsingar um eignarhald á bönkunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Móðursýki eða móðusýki

Norskur flugmaður, sem hefur flogið fyrir SAS í 35 ár segir að flugbannið vegna eldgossins í Eyjafjallajökli sé meðsta móðursýki aldarinnar og telur að það sé einungis reykur frá eldfjallinu, sem berst suður um Evrópu og flugbannið sé því á algerum misskilningi byggt.  Þó hafa fregnir borist af því að tvær finnskar herþotur hafi lent i "reyknum" með þeim afleiðingum, að hreyflar þeirra eyðilögðust.

Búast mátti við því, að eftir því sem gosið stæði lengur og tjón af þess völdum á ferða- og flugiðnaðinn yrði meira, þá færu svona raddir að heyrast og slakað yrði á öryggiskröfum og einmitt notaðar þær röksemdir að hættan af öskufallinu væri ofmetin.  Ef slakað verður á ýtrustu varúðarkröfum og það myndi leiða til þess að ein einasta farþegaþota myndi farast, þá yrði það dýrkeypt tilraun til að kanna áhrif "reyksins" á farþegaflugvélar. 

Frekar en að slaka á örygginu, ættu flugfélög og ferðaþjónustuaðilar að nota þetta tækifæri til að gera áætlanir um viðbrögð við "alvöru" eldgosi, svo sem Kötlugos, að ekki sé minnst á Lakagíga, sem ollu móðuharðindunum hérlendis og höfðu áhrif á loftslag alls heimsins í langan tíma.

Sú varúð sem nú er sýnd í þessu efni getur hvorki fallið undir að kallsat móðursýki né móðusýki.

Til þess eru mannsífin allt of dýrmæt að enga óþarfa áhættu má taka svo þeim verði stefnt í tvísínu.


mbl.is Segir flugbannið vera móðursýki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mótsagnir Jóhönnu

Eins og fram kemur í þessari frétt sagði Jóhanna Sigurðardóttir á flokstjórnarfundi Samfylkingarinnar, að afdráttarlaus krafa væri að þeir sem hefðu rænt bankana innanfrá, yrðu færðir fyrir dómstóla og hlytu þar makleg málagjöld fyrir græðgi sína og óheiðarleika.  Þetta er auðvitað svo sjálfsagt, að varla hefði verið til að nefna það, enda eru mál þessara glæpamanna nú til rannsóknar hjá Sérstökum saksóknara með aðstoð frá rannsóknaraðilim í Englandi og Luxemburg ásamt fleiri erlendum sérfræðingum undir forystu Evu Joly, sem hefur raunar bent á að enn þurfi að fjölga starfsmönnum embættisins og auka til þess fjárframlög.

Síðar i ræðunni féll Jóhanna í þá gryfju, að reyna að koma sök á bankahruninu á þá sem hafa gengt ráðherrastörfum undanfarin ár, aðrir en flokksfélagar hennar úr Samfylkingunni, með því að gefa í skyn að þeir hefðu átt að bjarga bönkunum á árinu 2006.  Það er afar furðulegt að forsætisráðherra taki þátt í þeim ljóta leik, að gefa í skyn að hægt hefði verið að bjarga bönkunum undan þeirri skipulögðu og staðföstu glæpastarfsemi sem stunduð var af eigendum bankanna, sem í flestum tilfellum notuðu þúsundir fyrirtækja í sinni eigu, til að sjúga fé út úr bönkunum og koma því með krókaleiðum í eigin vasa og inn á bankareikninga í banka- og skattaparadísum erlendis.

Það var á ábyrgð eigendanna sem bankarnir voru reknir og ef einhver hefði átt að bjarga bönkunum, þá voru það þeir sjálfir, en ekki stjórnmálamenn og eftirlitsaðilar, sem í flestum tilfellum þurftu að reiða sig á upplýsingar frá bönkumum sjálfum, endurskoðendum þeirra og lögfræðingum.

Enginn gat vitað, nema glæpamennirnir sjálfir, að bankarán stæði yfir og ekki var í mannlegum mætti að koma í veg fyrir það.  Eftir að glæpirnir urðu opinberir á hins vegar ekki að láta neins ófreistað, til að koma þessum skúrkum bak við lás og slá.

Það er Jóhönnu til minnkunar, að fara með þessum hætti niður á plan dómstóls götunnar, sem ekki skirrist við að hengja mann og annan, sem engin ráð höfðu til að afstýra glæpnum.


mbl.is Draga á þá sem tæmdu bankana fyrir dóm
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þorgerður Katrín yfirgefur sviðið sem hetja

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir hefur tilkynnt að hún muni láta af embætti varaformanns Sjálfstæðisflokksins og gera hlé á þingstörfum sínum, án þess að hafa fengið á sig aðrar ákúrur en þær, að vera gift manni sem dansaði með banka- og útrásarvíkingum fyrir bankahrun og var þáði þær arfavitlausu og gríðarháu launauppbætur, sem áttu að felast í hlutabréfakaupum í Kaupþingi, gegn láni sem einungis var með veði í bréfunum sjálfum.

Þessar syndir eiginmannsins verður Þorgerður Katrín nú að axla og fórnar sér þar með í þágu þeirrar vonar, að afsögn hennar megi verða til þess að slá á spillingarumræðuna og skapa frið í þjóðfélaginu.  Þorgerður Katrín hefur átt farsælan stjórnmálaferil, sem ekkert hefur skyggt á, annað en athafnir eiginmanns hennar og verður hennar sárt saknað úr stjórnmálunum.

 Í ræðu sinni á trúnaðarmannafundi Sjálfstæðisflokksins sagði hún m.a:  "Það er sárt að kveðja varaformannsembættið, en ég get ekki horft fram hjá minni ábyrgð, minni samvisku og mínum trúverðugleika. Ég vil ekki að persóna mín í embætti varaformanns skyggi á það endurreisnarstarf sem vinna þarf innan flokksins, eða þær gríðarlegu mikilvægu kosningar sem framundan eru núna á vormánuðum.“

Þetta eru drengileg ummæli og trúnaður hennar við þjóðina og flokkinn verður ekki dreginn í efa, en eins og ástatt er, er þetta hárrétt ákvörðun hjá henni og vonandi verður þessi aðgerð hennar til þess, að Sjálfstæðisflokkurinn verði enn sterkari, en nokkru sinni fyrr og tvíeflist eftir það endurreisnarstarf sem hann hefur gengið í gegnum undanfarið.


mbl.is Þorgerður stígur til hliðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skelfilegar afleiðingar eldgossins

Afleiðingar eldgossins í Eyjafjallajökli eru nú þegar orðnar viðbjóðslegar, eins og Páll Eggert Ólafsson, bóndi á Þorvaldseyri, orðaði það eftir að hafa horft upp á kolsvartan öskumökkinn leggjast yfir bæ sinn.

Strax á fyrstu dögum þessa goss eru afleiðingar þess orðnar skelfilegar, bæir og búpeningur er í stórhættu, fuglar á svæðinu hrynja niður og beitilönd og tún gætu orðið ónýtanleg um langan tíma.  Vegir eru stórskemmdir og brýr í hættu, þannig að fjárhagslegt tjón er þegar orðið gríðarlegt.

Þetta eldgos, ekki þó stærra en það er, hefur raskað allri flugumferð um veröld alla og samkvæmt fréttum tapa flugfélögin í heiminum a.m.k. 25 milljörðum króna á dag vegna þessa og allar áætlanir ferðamanna eru að engu orðnar og ekki hefur verið hægt að nota sjúkraflugvélar, t.d. í Noregi, þar sem flytja þurfti veikan mann af borpalli sjóleiðis, en það tók 10 klukkutíma, þar sem ekki var hægt að nota sjúkraþyrlu.

Svona gríðarlegar og skelfilegar afleiðingar eldgossins kippir okkur harkalega aftur niður á jörðina, eftir "gleðina og skemmtunina" af gosinu á Fimmvörðuhálsi, sem umgengist var eins og áramótabrenna og það lofað og prísað sem lyftistöng fyrir ferðaiðnaðinn.  Nú er hann algerlega lamaður, enda forsvarsmenn hans strax byrjaðir að kvarta hástöfum yfir afleiðingunum núna.

Allt þetta sýnir að hve náttúruöflin geta verið skelfileg í hrikaleik sínum og hvað mannskepnan er bjargarlaus gagnvart þeim.


mbl.is „Þetta er viðbjóður“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fáráðlegar árásir á Bjarna Benediktsson

Þingmenn Hreyfingarinnar voru með ótrúlegt uppistand á Alþingi í dag, þar sem þeir kröfðust þess að fjöldi samþingmanna þeirra segði af sig frá þingstörfum vegna þess að þeir hefðu lesið á blogginu, að þar héldu einhverjir furðufuglar slíkum kröfum á lofti.

Það er furðuleg framkoma þingmanna sem virðast vilja láta taka sig alvarlega, að hlaupa í ræðustól með órökstuddar kröfur um afsögn félaga sinna á þinginu, eingöngu af því að þeir halda að það geti aflað þeim einhverra stundarvinsælda á þessum tímum nornaveiða gegn hverjum þeim sem fólk lítur á pólitíska andstæðinga sína. 

Sá sem einna mest verður fyrir þessum ofsóknum þessa dagana er Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, sem ekki er bendlaður við neitt misjafnt í aðdraganda bankahrunsins og ekki fékk á sig neinar ávirðingar í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis.  Þrátt fyrir það leyfir fók sér að ráðast á hann með óhróðri og ásökunum um hvers konar glæpamennsku, þó vitað sé að ekkert sé á bak við þessar siðlausu árásir á pólitískan andstæðing.

Það er algerlega eðlilegt að hafa mismunandi sýn á stjórnmálin, flokkana og fulltrúa þeirra í sveitarstjórnum og á Alþingi, en það er algerlega óþolandi að ata auri á andstæðingana persónulega í stað þess að gagnrýna skoðanir þeirra.

Þeir sem stunda svona auðvirðilegan málflutning lýsa með því sínum eigin vesæla innri manni.


mbl.is Illugi færði fram sterk rök
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband