Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2015
30.8.2015 | 18:52
50 - 500 - 5.000 - 50.000 flóttamenn til landsins?
Eftir "arabíska vorið" hefur flótti fólks frá Líbýu, Sýrlandi, Írak og fleiri löndum orðið svo gríðarlegur til Evrópu að ekki verður neitt við ráðið og hvorki vilji né geta í Evrópu til að taka við öllu þessu hrjáða fólki.
Glæpamenn ýta undir vandamálið með því að ljúga því að stríðshrjáðu fólkinu að gull og grænir skógar bíði þess í Evrópu og hafa af því óheyrilegar upphæðir, jafnvel aleiguna, fyrir fargjaldinu yfir hafið. Fólkinu er troðið í nánast hvaða hriplekt skipshræ sem fyrirfinnst og því miður hefur þessi glæpalýður orðið þúsundum þessa örvæntingafulla fólks að bana með þessum óhæfu og handónýtu sjóförum.
Hér á landi virðist vera skollin á samkeppni um að stinga upp á sem mestum fjölda flóttamanna sem Íslendingar ættu að taka á móti og eru þar nefndar tölur frá fimmtíu og upp í þúsundir. Yfirleitt fylgir ekki með nein áætlun um hvernig eigi að standa að móttöku þeirra þúsunda sem talað er um og jafnvel gefið í skyn að hægt væri að koma upp búðum í iðnaðarhúsnæði, íþróttahúsum, ýmsu hálfbyggðu húsnæði og yfirleitt hverri þerri kompu sem auð er af einhverjum ástæðum.
Íslendingum hættir nokkuð oft til að tala og jafnvel framkvæma áður en þeir hugsa og verður ekki annað séð en að margur sé að fara órtúlega langt fram úr allri almennri skynssemi í þessu efni og flóttafólkinu yrði takmarkaður greiði gerður með því að koma því fyrir í "gettóum" á Íslandi.
Fyrst ber að finna húsnæði í íbúðahverfum innan um almenna borgara og eftir að það er fundið er hægt að byrja að skipuleggja annað sem tilheyrir stórkostlegum fólksflutningum milli landa. Geta til tungumálakennslu í stórum stíl verður að vera fyrir hendi, ásamt annarri getu til almennrar kennslu aðkomubarnanna í skólum landsins og vinnu þarf að finna fyrir þá fullorðnu, bæði karla og konur.
Þegar búið verður að hugsa málið til enda rennur upp tími framkvæmda. Fyrr ekki.
Gætum tekið við 1500-2000 manns | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
28.8.2015 | 13:34
Reykjavík gerir allt sem mögulegt er til að hækka húsnæðiskostnað
Mikið hefur verið rætt undanfarið um háan húsnæðiskostnað, sem gerir að verkum að ungt fólk á í erfiðleikum með að eignast sína fyrstu íbúð og húsaleiga er orðin svo há að fyrir utan að glíma við leiguna sjálfa getur unga fólkið engan vegin sparað fyrir þeirri útborgun sem nauðsynleg er til að festa sér íbúð til eignar.
Ýmsar leiðir hafa verið ræddar til að lækka þennan kostnað, m.a. að létta þær kröfur sem sífellt hafa verið að aukast í byggingareglugerðum og orðið hafa til að hækka byggingakostnað. Einnig hafa verið viðraðar hugmyndir um að lækka eða fella niður fjármagnstekjuskatt af einstaklingum sem leigja eina íbúð til lengri tíma, þ.e. ekki til ferðamanna sem einungis leigja íbúðir til nokkurra daga eða vikna.
Borgarstjórnarmeirihlutinn í Reykjavík hefur lengi þóst hafa áhuga á fjölgun leiguíbúða í borginni og lofaði m.a. að fjölga leiguíbúðum á sínum snærum um að minnsta kosti þrjúþúsund á kjörtímabilinu sem nú er að líða. Engar efndir eru sjáanlegar á þeim loforðum, en nú er eingöngu bent á að Búseti og byggingafélög stúdenta séu að fjölga íbúðum á sínum snærum verulega, en Reykjavíkurborg kemur þar hvergi nærri að öðru leyti en því að úthluta lóðum til þessara aðila eins og annarra sem byggja húsnæði í borginni.
Nú leggja Dagur borgarstjóri og hans lið algerlega nýjar tillögur fram varðandi húsnæðiskostnað í borginni og ganga þær algerlega þvert á allt sem rætt hefur verið í þessu sambandi fram til þessa. Nýju tillögurnar gera nefninlega ráð fyrir að hækka byggingakostnað á svonefndum "þéttingarsvæðum" með algerlega nýjum viðbótarskatti á íbúðakaupendur, eða eins og segir í viðhangandi frétt: "Gjaldið er 14.300 krónur á fermetra vegna nýs íbúðarhúsnæðis, eða sem svarar 1,43 milljónum á 100 fermetra íbúð. Kemur gjaldið til viðbótar gatnagerðargjaldi fyrir fjölbýli, sem er 10.400 kr. á fermetra í Reykjavík."
Dagur, borgarstjóri, talar greinilega tungum tveim og sitt hvort málið með hvorri.
Aukagjald á íbúðir | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
27.8.2015 | 16:46
Hroki og valdníðsla ESB afhjúpuð enn og aftur
ESB sveik gerða samninga um svokallaða IPA-styrki á haustdögum árið 2013 þegar stjórnendur stórríkisins væntanlega skelltu öllu í lás varðandi þau verkefni sem samið hafði verið um að unnin yrðu af ýmsum stofnunum og félagssamtökum hér á landi með styrkjum frá ESB.
Samningarnir voru gerði í framhaldi af umsókn Össurar og Steingríms J. um inngöngu ESB (í nafni Íslands) og þóttist ESB í framhaldi af því vera bæði göfuglynt og örlátt með því að bjóða fram styrki til hinna og þessara verkefna, sem pótintátar sambandsins og "þeirrar norrænu" héldu að yrðu til að kaupa aukinn stuðning íslensks almennings við innlimunarferlið.
Hvergi við samningsgerðina var sagt eða skrifað að samningarnir um þessi verkefni væru háð innlimunarferlinu sem slíku og þó upp úr því trosnaði myndi þessi samvinna aðila halda áfram eins og ekkert hefði í skorist. Auðvitað kom svo annað á daginn þegar á reyndi.
Ekki þarf að taka mark á andstæðingum innlimunarinnar í ESB þegar sagt er að engu sé að treysta sem frá því apparati kemur, enda yfirgangurinn og valdhrokinn alkunnur. Meira að segja Umboðsmaður ESB er harðorður í garð húsbænda sinna þegar hann skammar þá eins og hunda fyrir svikin og segir m.a. í umsögn sinni um háttarlagið, eða eins og fram kemur í viðhangandi frétt: "Fer umboðsmaðurinn hörðum orðum um framgöngu framkvæmdastjórnarinnar í málinu. Um óásættanlega stjórnsýslu sé að ræða sem hafi grafið undan orðspori hennar og Evrópusambandinu í heild."
Bragð er að þá barnið finnur, segir í gömlum íslenskum málshætti og á hann vel við í þessu sambandi.
ESB braut gegn samningnum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.8.2015 | 15:49
Þarf ekki þak á Píratahúmorinn?
Birgitta Jónsdóttir, Píratasjóliðsforingi, segist ætla að flytja tillögu á Alþingi í haust um að sett verði þak á öll lán, þ.e. hve mikið þau megi hækka á lánstímanum vegna verðbóta og vaxta, en er þó ekki búin að "hanna" þakhæðina endanlega og segist ætla að setja sérfræðinga í málið til þess að koma einhverju viti í tillöguna.
Pírataforinginn hefði átt að tala við sérfræðingana áður en hún varpaði fram þessari undarlegu tillögu, því þeir hefðu kannski getað velt upp við hana þeirri spurningu hvort hún ætlaði þá líka að flytja frumvarp til laga um hámarkshækkun þeirra eigna sem veðsettar eru fyrir "þaklánunum", því í verðbólgu hafa t.d. fasteignir tilhneigingu til þess að hækka álíka mikið og lánin sem á þeim hvíla.
Á líftíma langtímalána hafa stéttarfélög margsinnis krafist og náð fram launahækkunum fyrir hönd sinna félagsmanna og þegar til langs tíma hefur verið litið hafa launin jafnvel hækkað meira hlutfallslega en verðtryggðu lánin sem launþegarnir hafa verið að greiða niður.
Sérfræðingum Pírataleiðtogans hefði jafnvel getað dottið í hug að koma því á framfæri að líklega væri einfaldara að bera fram frumvarp til laga um afnám verðtryggingar lána og heimila einungis óverðtryggð lán eftirleiðis, en óvíst er að "þak" á slík lán stæðist eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar eða alþjóðlega mannréttindasáttmála. Að minnsta kosti er ekki ólíklegt að sérfræðingarnir myndu benda á að frelsi varðandi fjármagnsflutninga milli landa gæti þvælst talsvert fyrir slíkri lagasetningu.
Jafnvel er líklegt að sérfræðingar Pírataflokksforingjans hefðu bent á þá staðreynd að langbest væri að beita sér fyrir því að framvegis myndu þingmenn, ráðherrar og aðrir sem að máli koma, berjast gegn verðbólgunni með öllum ráðum og koma á meiri stöðugleika í efnahagsmálum þjóðarinnar en verið hefur lengstum frá lýðveldisstofnun.
Ynnist baráttan við verðbólguna þyrfti ekki að eyða tíma í allskonar óraunhæfar þakbyggingar.
Vill þak á hækkun lána | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
19.8.2015 | 19:54
Íslenskir okrarar afhjúpaðir einu sinni enn
Íslenskir kaupmenn hafa lengi haldið því fram að vöruverð á Íslandi væri hærra en í nágrannalöndunum vegna gríðarlegra tolla á innfluttar vörur, hærri virðisaukaskatts en annarsstaðar tíðkaðist að ekki sé minnst á útspilið um flutningskostnaðinn vegna fjarlægðarinnar frá öllum siðmenntuðum löndum.
Af og til er flett ofan af hreinu okri íslenskra verslana og sýnt fram á slíkt með órækum sönnunargögnum en jafnharðan bera okrararnir af sér sakir, fara með sömu rulluna og að ofan greinir og innan örfárra daga lognast umræðan útaf og okrararnir halda ótrauðir áfram sínu framferði.
Nú hafa Neytendasamtökin flett rækilega ofan af svívirðilegu okri sjónvarpstækjasala með beinum samanburði á útsöluverðunum hér á landi og í Danmörku og kemur þá í ljós allt að rúmlega hundrað prósenta verðmunur íslenskum kaupendum í óhag.
Ekki dugar fyrir okrarana að kyrja sönginn um háar opinberar álögur, því í skýrslu samtakanna kemur m.a. þetta fram: "Sá mikli verðmunur sem fram kemur í allt of mörgum tilvikum er ekki hægt að afsaka með opinberum álögum. Hér er lagður á 7,5% tollur á sjónvarpstæki en 14% í Danmörku. Virðisaukaskattur hér er 24% á sjónvarpstæki en 25% í Danmörku. Opinberar álögur á sjónvarpstækjum eru þannig lægri hér en í Danmörku."
Íslendingar hafa löngum látið þetta svívirðilega okur yfir sig ganga og ættu að hætta að láta bjóða sér þetta svínarí. Geti einstakir kaupmenn ekki rekið verslanir sínar án svona svívirðilegs okurs, sem nánast má líkja við þjófnað, eiga þeir að snúa sér að annarri starfsemi sem þeir réðu hugsanlega betur við.
Sjónvarp tvöfalt dýrara hér en í Danmörku | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
17.8.2015 | 19:34
Skaðinn er væntanlega skeður - Rússlandsmarkaður vinnst tæplega aftur
Ísland lýsti illu heilli yfir þáttöku sinni í viðskiptaþvingunum gagnvart Rússlandi með þeim fyrirséðu afleiðingum að íslenskar fiskafurðir og ýmislegt fleira verður ekki á boðstólum í rússneskum verslunum á næstunni og kannski aldrei aftur.
Fram hefur komið í fréttum að almenningur í Rússlandi veit af þessum þvingunum ýmissa ríkja á vesturlöndum, en finnur hins vegar ekkert fyrir þeim þar sem matvæli eru nú flutt inn frá öðrum ríkjum en áður, í sama magni, svipuðum gæðum og á ásættanlegu verði. Enginn matvælaskortur er því í landinu og hinn almenni borgari kippir sér ekkert upp við þetta, enda áhrifin lítil sem engin.
Rússar eru nógu snjallir til að halda viðskiptum með tækninýjungar og fleira sem þeir geta ekki, né vilja, vera án og má t.d. nefna áttahundruðmilljóna króna fjárfestingu, frá Skaganum hf., Marel hf. og fleiri fyrirtækjum, til þess að byggja eina fullkomnunstu fiskvinnslustöð í heimi í Múrmansk með það að markmiði að framleiða sjálfir þær sjávarafurðir sem innanlandsmarkaður þeirra þarfnast í framtíðinni.
Því hefur verið haldið mjög á lofti að Íslendingar hefðu ekki getað staðið utan viðskiptabannsins á Rússa þar sem ekki hefði verið hjá því komist að standa með vinaþjóðum okkar í Evrópu og ekki síður félögum og vinum í NATO, sem þó á enga aðkomu að þessum viðskiptaþvingunum þar sem um hernaðarbandalag er að ræða en ekki viðskiptasamsteypu.
Athygli vekur því að eitt þeirra landa sem tekið hefur að sér að sjá Rússum fyrir ávöxtum og öðrum matvælum sem hægt er að útvega er NATO-landið Tyrkland. Tyrkir hljóta því að teljast vera svikarar við "vinaþjóðir" sínar og þá ekki síður Íslendinga en aðrar NATO-þjóðir.
Reyndar er stórundarlegt að ESB, Bandaríkin og NATO skuli ekki hafa fyrir löngu lýst yfir viðskiptabanni á Tyrkland vegna áratuga kúgunar og níðs þeirra á Kúrdum og ekki síður vegna viðskipta þeirra við ISIS í Sýrlandi, bæði með vopn og olíu.
Úr því sem komið er, er ekki hægt að snúa Ísland út úr viðskiptabanninu með góðu móti án þess að gera þjóðina að ómerkingi, en þess í stað verður að viðurkenna afleiðingar þeirra mistaka sem gerð voru með þátttökunni og snúa sér að því að finna aðra markaði en þann rússneska fyrir fiskafurðir landsins og taka þeim skelli sem lægra útflutningsverð mun valda þjóðinni í framtíðinni.
Ef til vill verður dreginn sá lærdómur af málinu að betra sé að hugsa áður en framkvæmt er.
Markmiðið að samræma aðgerðir | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
16.8.2015 | 14:06
Af hverju er skattaskjólunum ekki lokað?
Alþjóðleg stórfyrirtæki gera allt sem í valdi þeirra stendur til að komast hjá því að taka eðlilegan þátt í uppbyggingu og rekstri þeirra þjóðfélaga sem þau starfa í og skjóta hagnaði á milli landa með alls kyns bókhaldskúnstum.
Að lokum lendir gróðinn inni í málamyndafyrirtæki sem skráð er í einu af fjölmörgum skattaskjólum heimsins, þar sem jafnvel þúsundir fyrirtækja eru skráð í einu og sama húsinu sem stundum er þó lítið annað en samsafn af póstkössum.
Ríkisstjórnir og stjórnmálamenn hneykslast oft í orði á þessari sniðgöngu eðlilegra skattgreiðslna, sem eru í flestum tilfellum löglegar en siðlausar, en ef raunverulegur vilji væri fyrir hendi væri tiltölulega auðvelt að koma í veg fyrir þessi skattaundanskot með lagabreytingum heima fyrir og samningum milli landa sem kæmu í veg fyrir flutning hagnaðar út í himinblámann.
Skattaskjólin eru mörg á landsvæðum og eyjum sem eru undir stjórn vesturlanda og nægir þar að nefna Guernsey og Tortola að ekki sé talað um þau lönd í Evrópu sem taka fullan þátt í skattaundanskotunum með sérsamningum við risafyrirtækin og þar fer Lúxemborg fremst í flokki.
Það er í raun algerlega ótrúlegt að ekki skuli fyrir löngu vera búið að gera alþjóðasamninga til að koma skattamálum þessara brallara í eðlilegt horf þar sem málið snýst um stjarnfræðilegar upphæðir og allir ríkissjóðir eru í sífelldri þörf fyrir auknar tekjur.
Kæmust skattskil þessara gróðaflakkara í eðlilegt horf væri hægt að lækka byrði skattpínds almennings svo um munaði.
Vill uppljóstra um skattleysi fyrirtækja | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
14.8.2015 | 20:17
Aldrei á að beita viðskiptaþvingunum eða styðja slíkar aðgerðir.
Rússar hafa verið ein helsta viðskiptaþjóð Íslendinga í áratugi og hafa þau viðskipti stundum skipt sköpum þegar næstu nágrannalönd hafa staðið að viðskiptaþvingunum og öðrum yfirgangi gagnvart Íslandi.
Nú bregður hins vegar svo við að Rússar hafa sett innflutningsbann á flestar vörur frá Íslandi og mun það hafa tugmilljarða tap í för með sér fyrir fyrirtæki hér á landi, starfsmenn þeirra og þjóðarbúið í heild sinni, bæði vegna tapaðra tekna og aukins atvinnuleysis.
Það ótrúlega við þetta er að aðgerðir Rússa eru svar við viðskiptabanni ESB og Bandaríkjamanna sem Íslendingar hafa lýst fullum stuðningi við, að því er virðist án þess að hafa haft hugmynd um hvað þeir væru að samþykkja og hvað þá hvaða afleiðingar slíkur stuðningur myndi hafa í för með sér.
Viðskiptabannið sem ESB og Bandaríkjamenn hafa sett á Rússa nær að því er virðist ekki til nema afar takmarkaðra viðskipta og t.d. virðast ESB ríkin halda m.a. áfram að flytja inn olíu og gas frá Rússum og selja þeim alls kyns vél- og tæknibúnað eins og ekkert hafi í skorist. Að því leyti er þetta viðskiptabann sem sett var á Rússa vegna framferðis þeirra á Krímskaga, austurhéruðum Úkraínu og víðar hálfgerð sýndarmennska að því er best verður séð.
Viðskiptabönn hafa sjaldan eða nokkurn tíma haft áhrif á stjórnvöld ríkja, né skaðað stjórnendur þeirra og herforingja því þegar slíkum bönnum er beitt hafa slíkir aðilar alla möguleika til að halda áfram lúxuslífi sínu, en almenningur þjáist hins vegar og líður skort á öllum sviðum.
Því er borið við að Ísland hafi samþykkt stuðning við efnahagsþvinganirnar vegna aðildarinnar að EES, sem er furðuleg yfirlýsing þar sem EES-samningurinn snýst um viðskipti milli aðildarríkjanna en utanríkismál koma þar ekkert við sögu.
Viðskiptabönnum á aldrei að beita í milliríkjaviðskiptum og enn síður ætti Ísland nokkurn tíma að lýsa stuðningi við slík óhappaverk.
Mikið misræmi í áhrifum refsiaðgerða | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
12.8.2015 | 17:40
Konur ráði líkama sínum sjálfar
Það hefur lengi verið krafa ýmissa kvennasamtaka að konur eigi að fá að ráða líkama sínum alfarið sjálfar. Innifalið í þessum rétti er að hafa fullt ákvörðunarvald um fóstureyðingar, enda er það talið falla undir stjórn eigin líkama þrátt fyrir að ekki séu allir sammála um þá afstöðu.
Bæði kvennasamtök og nánast allt heiðarlegt fólk hefur barist gegn mansali, nauðgunum og barnaníði með ráðum og dáð, en allt framangreint er mikið vandamál í heiminum og þá ekki síður á vesturlöndum en annarsstaðar.
Nú hefur Amnesty International samþykkt tillögu um afglæpavæðingu vændis og vilja samtökin að kaup og sala vændis, ásamt rekstri vændishúsa, verði gerð lögleg, ekki síst í þeim tilgangi að vernda vændissalana gegn mansali og nauðung, en fram til þessa er það glæpalýðurinn sem hagnast hefur mest á þessari starfsemi og þá ekki síst með mansali og annarri nauðung þeirra sem neyddir hafa verið til vændis gegn vilja sínum.
Í ljósi þeirrar miklu baráttu fyrir jafrétti kynjanna og ekki síður kröfunni um að konur ráði líkama sínum skilyrðislaust er það að mörgu leyti undarlegt að kvennasamtök skuli snúast algerlega öndverð við tillögu Amnesty International og ekki síður í ljósi þess hve öll kynlífsumræða er mikil og að frelsi til iðkunar kynlífs á allan hugsanlegan máta er ekkert feimnismál lengur.
Kannski eru það bara alls ekki allar konur sem eiga að ráða líkama sínum sjálfar, heldur séu það bara sumar konur sem vilja ráða líkömum allra kvenna.
Leggja til afglæpavæðingu vændis | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
7.8.2015 | 15:40
Nú virðist vera því betra sem reynslan er minni í stjórnmálunum
Píratar, sem mælast með allt að 35% fylgi í skoðanakönnunum, virðast strax vera farnir að þrasa sín á milli um frambjóðendur til Alþingis eftir tvö ár og a.m.k. einhverjir þeirra vilja algerlega skipta um fólk á framboðslistum og þar með losa sig við Birgittu Jónsdóttur og Helga Hrafn Gunnarsson, núverandi þingmenn flokksins.
Þriðji þingmaðurinn sem kosinn var fyrir tveim árum er þegar stokkinn fyrir borð og varamaður mun taka hans sæti við þingsetningu í haust. Ekki liggur fyrir ennþá hvort sá eigi að fá að sitja lengur er þau tvö ár sem eftir er af kjörtímabilinu.
Samkvæmt áliti ýmissa byggist þetta mikla fylgi Pírata í skoðanakönnunum fyrst og fremst á unga fólkinu, sem aldre les dagblöð, hlustar aldrei á útvarp og horfir ekki á sjónvarp, a.m.k. ekki hefðbundnar sjónvarpsstöðvar. Þessu unga fólki finnst hefðbundin stjórnmál gamaldags og "púkó" og trúa ruglinu í þeim sem sífellt tala um "fjórflokkinn" og láta með því eins og allir gömlu flokkarnir séu með nánast sömu stefnuna og störf þeirra hugsjónir snúist eingöngu um hagsmunagæslu og klíkuskap.
Fróðlegt verður að fylgjast með stjórnarmyndun eftir næstu kosningar, sem miðað við niðurstöður skoðanakannana undanfarið hlýtur að verða á hendi Pírata og þá líklega eintómra nýliða á þinginu.
Skiptar skoðanir meðal pírata | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)