Aldrei á að beita viðskiptaþvingunum eða styðja slíkar aðgerðir.

Rússar hafa verið ein helsta viðskiptaþjóð Íslendinga í áratugi og hafa þau viðskipti stundum skipt sköpum þegar næstu nágrannalönd hafa staðið að viðskiptaþvingunum og öðrum yfirgangi gagnvart Íslandi.

Nú bregður hins vegar svo við að Rússar hafa sett innflutningsbann á flestar vörur frá Íslandi og mun það hafa tugmilljarða tap í för með sér fyrir fyrirtæki hér á landi, starfsmenn þeirra og þjóðarbúið í heild sinni, bæði vegna tapaðra tekna og aukins atvinnuleysis.

Það ótrúlega við þetta er að aðgerðir Rússa eru svar við viðskiptabanni ESB og Bandaríkjamanna sem Íslendingar hafa lýst fullum stuðningi við, að því er virðist án þess að hafa haft hugmynd um hvað þeir væru að samþykkja og hvað þá hvaða afleiðingar slíkur stuðningur myndi hafa í för með sér.

Viðskiptabannið sem ESB og Bandaríkjamenn hafa sett á Rússa nær að því er virðist ekki til nema afar takmarkaðra viðskipta og t.d. virðast ESB ríkin halda m.a. áfram að flytja inn olíu og gas frá Rússum og selja þeim alls kyns vél- og tæknibúnað eins og ekkert hafi í skorist.  Að því leyti er þetta viðskiptabann sem sett var á Rússa vegna framferðis þeirra á Krímskaga, austurhéruðum Úkraínu og víðar hálfgerð sýndarmennska að því er best verður séð.

Viðskiptabönn hafa sjaldan eða nokkurn tíma haft áhrif á stjórnvöld ríkja, né skaðað stjórnendur þeirra og herforingja því þegar slíkum bönnum er beitt hafa slíkir aðilar alla möguleika til að halda áfram lúxuslífi sínu, en almenningur þjáist hins vegar og líður skort á öllum sviðum.

Því er borið við að Ísland hafi samþykkt stuðning við efnahagsþvinganirnar vegna aðildarinnar að EES, sem er furðuleg yfirlýsing þar sem EES-samningurinn snýst um viðskipti milli aðildarríkjanna en utanríkismál koma þar ekkert við sögu.

Viðskiptabönnum á aldrei að beita í milliríkjaviðskiptum og enn síður ætti Ísland nokkurn tíma að lýsa stuðningi við slík óhappaverk.


mbl.is Mikið misræmi í áhrifum refsiaðgerða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

það er nú komin skýring á þessu. Forsætisráðherra sagði að þetta hefði verið á aoto bara. Föttuðu ekkert hvað var í gangi ef ég skil hann rétt. EU samþykti eh og við sögðum bara já því við vissum ekki betur en við ættum að seigja já ;o)

ólafur (IP-tala skráð) 14.8.2015 kl. 21:35

2 identicon

* auto átti það að vera.

ólafur (IP-tala skráð) 14.8.2015 kl. 21:36

3 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Þetta er a.m.k. algerlega vanhugsuð aðgerð, a.m.k. samþykki Íslands.  Hvað á þessi samþykkt að gilda í langan tíma?  Dettur einhverjum í hug að Rússar skili Krímskaga til Úkraínu, sem reyndar fékk hann á silfurfati frá Rússunum?  

Bann hefur verið við viðskiptum vesturlanda við Kúbu í fimmtíu ár og ekki hefur það orðið til að breyta stjórnarfari þar, en almenningur hefur hins vegar þurft að lifa við þröngan kost vegna þess á meðan Castrobræður og aðrir tilheyrandi elítunni hafa lifað eins og blóm í eggi og látið sig viðskiptabannið litlu skipta.

Á viðskiptabannið á Rússa að gilda næstu fimmtíu ár, eða til eilífðar?  Enginn hefur útskýrt það ennþá.

Axel Jóhann Axelsson, 14.8.2015 kl. 23:26

4 identicon

Ísland styður viðskiptabann gegn mörgum ríkjum. Sjá: http://www.utanrikisraduneyti.is/malefni/lagamal/thvingunaradgerdir

Á að þínu mati að eyða þessum lista? og leyfa td. viðskipti við Sýrland?

Jónas Kr (IP-tala skráð) 15.8.2015 kl. 08:09

5 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Það ætti að vera meginregla að setja aldrei almennt viðskiptabann á sjálfstæðar þjóðir.  Hins vegar getur verið réttlætanlegt að setja vopnasölubann á einstaka harðstjóra.  Slíkt bann hefur áfrif á stjórn og herafla viðkomandi, en almennt viðskiptabann eykur einungis eymd íbúanna og þjáningu.

Viðskiptabannið á Írak varð til þess að almenningur fékk ekki einu sinni viðunandi læknishjálp, lyf og hjúkrunargögn, hvað þá nægar aðrar nauðþurftir, en Saddam Hussein, fjölskylda hans, herforingjar og aðrir honum þóknanlegir höfðu allt til alls, enda allt flutt inn hömlulaust sem það lið langaði í og þarfnaðist.

Axel Jóhann Axelsson, 15.8.2015 kl. 08:44

6 Smámynd: Sigurður M Grétarsson

Þetta viðskiptabann er reyndar á vettvangi NATO en ekki ESB. Hins vegar eru flest ESB ríki í NATO og því eru þau með. Aðeins Tyrkland skoraðist úr af NATO ríkjum. 

 

Ef við setjum Tékkóslóvakíu í stað Krímskaga, Austurríki í stað austurhluta Úkraínu og Þýskaland í stað Rússlands og hugsum til fjórða áratugar síðustu aldar í stað nútímans þá sjáum við hvaða hagsmunir lyggja undir.

Staðreyndin er sú að Pútín mun ekki stoppa með útþennslustefnu sína fyrr en hann er stoppaður af. Hann hefur sjálfur sagt að fall Sovétríkjanna hafi verið „mestu pólitísku hamfarir síðustu aldar“ og er að reyna að endurreisa Sovétríkin. Í því felst að innlima fyrrum ríki Sovétríkjanna undir Rússland.

 

Ef Rússar verða ekki stoppaðir af núna þá munu þeir taka yfir einhvert annað ríki næst og svo koll af kolli þangað til þeir verða stoppaðir af það er ef þá er unnt að stoppa þá af. Þá mun fara fyrir lítið stuðningur okkar við frelsisbaráttu Eystrarsaltsríkjanna því þau munu missa það frelsi sitt aftur.

 

Þessi deila er ekki til komin vegna einhverrar útþennlustefnu ESB eða NATO. Hún er komin til vegna útþennslustefnu Rússlands sem var að seilast til áhrifa í austur Evrópu þar með talið Úkraínu með bæði hótunum og mútum til fyrrum forseta landsins. Þjóðirnar næst Rússum í Evrópu hafa leitast við að komast í ESB og NATO í viðleytni sinni til að verjast útþennslustefnu Rússa því þau vita að það minnkar lýkur á innrás þeirra í lönd sín ef þau eru aðilar að þessum bandalögum.

 

Það er einnir rangt sem komið hefur fram að löglega kjörin forseti í Úkraínu hafi verið settur af í byltingu. Staðreyndin er sú að það margir af þingmönnum stjórnarflokkanna blöskraði framganga hans sem setti fullveldi landsins í hættu og hættu því að styðja stjórn hans. Stjórnin missti því þingmeirihluta sinn og því þurfti hún að fara frá. Slíkt gerist í öllum lýðræðisríkjum og er einfaldlega hluti af leikreglum lýðræðisins.

Við skulum ekki gera sömu mistökin og Chamberlain og hans skoðanabræður frá fjórða áratug síðustu aldar. Það verður að stoppa Rússa af og það strax í Úkraínu. Við skulum ekki vera svo barnaleg að halda að þeir láti staðar numið þar ef við einfaldlega látum þá komast upp með það.

 

Ef við spyrnum ekki strax  við fótunum þá erum við að setja í hættu það prinsipp að þjóðir hafi ekki rétt á að hernema aðrar þjóður að hluta til eða öllu leyti. Fyrir vopnlausa þjóð eins og okkur er þetta prinsipp mjög mikilvægt. Fullveldi okkar og sjálfstæði er í hættu ef það prinsipp brestur. Það eru því fáar þjóðir sem eiga eins mikið undir því að það prinsipp haldi eins og við. 

Það er þess vegna sem við eigum að taka fullan þátt í þessum viðskiptaþvíngunum gegn Rússum en ekki skorast undan og láta aðrar þjóðir bera kostnaðinn af þessari baráttu sem skiptir okkur svo miklu. Það að skorast unda er að fórna meiri hagsmunum fyrir minni til lengri tíma litið.

Sigurður M Grétarsson, 15.8.2015 kl. 09:19

7 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

 Ef það er rétt hjá þér, Sigurður, að viðskiptabannið á Rússa sé á vegum Nato sem er hernaðarbandalag en ekki viðskiptablokk, þá sýnir það bara hvað ráðherrar ríkisstjórnarinnar eru fáfróðir um þetta mál.  Þeir hafa nefninlega sagt að við séum hluti af viðskiptabanninu í gegnum veru okkar í EES (Evrópska efnahagssvæðinu).

Ísland er herlaus örþjóð og ekki vopnaframleiðandi eða -sali og getur því ekki haft nokkur einustu áhrif á stjórnir erlendra ríkja í krafti ógnarjafnvægis.  Við getum hins vegar mótmælt öllu ofríki og ofbeldi harðstjóra heimsins, en ættum aldrei undir neinum kringumstæðum að lýsa yfir stuðningi við hermdaraðgerðir gegn almennum borgurum, en viðskiptabann á nánast allt annað en hergögn er bein ávísun á hörmungar á öllum sviðum fyrir óbreytta borgara viðkomandi landa.

Axel Jóhann Axelsson, 15.8.2015 kl. 09:54

8 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Reyndar er það algert bull að NATO standi að þessu viðskiptabanni á Rússana og það vita auðvitað allir nema Sigurður M. Grétarsson.

Einnig er það alger afbökun á málinu þegar fjölmiðlar tala sífellt um að Rússar hafi sett viðskiptabann á Ísland og önnur ríki. Málinu er þveröfugt farið, þar sem ESB og Bandaríkin settu upphaflega viðskiptabann á Rússa sem þegar svöruðu fyrir sig og herða sínar gagnaðgerðir núna í kjölfar framlengingar viðskiptabannsins á þá.

Sigurði til upprifjunar má benda á þennan hlekk:  http://evropan.is/evropa/russar-svara-evropusambandinu-i-somu-mynt/

Axel Jóhann Axelsson, 15.8.2015 kl. 10:11

9 Smámynd: Sigurður M Grétarsson

Upphaf málsins er reyndar hernaðarbrölt Rússa sem hafa verð að taka sneið úr nágrannaríkjum sínum og ógna þeim. 

Það má taka dæmisögu um þetta. Ef á skólalóðinni er hrotti sem er sterkur og er alltaf að lemja minnimáttar krakka og ræna af þeim eigum þeirra þá mun hann halda áfram að gera það meðan engin stoppar hann. Ein besta leiðin til að stoppa hann er að hinir krakkarnir á skólalóðinni standi saman gegn honum til dæmis með því að útkúfa hann meðan hann lætur sér ekki segjast. Til að það gangi upp þurfa allir að standa saman, líka þeir litlu sem hafa ekkert í hrottann að segja. Og það eru einmitt þeir litlu sem hafa ekkert í hrottann að segja sem hafa mesta hagsmuni af því að samstaðan haldi. Það vitlausasta sem þeir gerðu væri því að kljúfa sig út úr þeirri samstöðu vegna stundarhagsmuna. 

Það sem Rússar eru núna að gera er að láta viðskiptaþvinganir sínar nún bitna hart á fjórum smáþjóðum í tilraun til að láta þær kljúfa sig út úr samstööðunni. Við það munu öfgahægrimenn í öðrum og stærri Evrópuríkjum gera kröfu um að þeirra ríki geri slíkt hið sama og benda á fordæmin og munu hugsanlega hafa sitt fram. Við það mun samstaðan gegn Rússum bresta og þeir geta þá haldið áfram að taka sneið úr nágrannaríkjumn sínum án afleiðingar og látð nágrannaríki sín sitja og standa eins og þeir boða annars hafi þau verra 

Við Íslendingar eigum sjálfstæði okkar undir því að alþjóðalög haldi því við getum ekki varið okkur sjálfir. Reyndar eigum við fiskiauðlindir okkar líka undir slíku. Þess vegna er mikilvægt að við stöndum í lappirnar gagnvart þeim hrottum sem Rússar eru í þessu máli og látum þá ekki komst upp með yfirgang sinn í skjóli stærðar sinnar.

Sigurður M Grétarsson, 15.8.2015 kl. 12:15

10 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Ekkert af þessum nýju rökfærslum duga til að fá mig til að falla frá þeirri skoðun að viðskiptabönn séu aldrei réttlætanleg og bitni harðast á þeim sem síst skyldi.

Axel Jóhann Axelsson, 15.8.2015 kl. 14:06

11 Smámynd: Sigurður M Grétarsson

Telur þú betra að beita hervaldi heldur en viðskiptaþvingunum? Eru viðskiptaþvínganir ekki friðsælli leið? Höfum í huga að viðskiptaþvínganir leiddu til endaloka Aparheid stefnunnra í Suður Afríku þannig að það er ljóst að þær ná árandir ef þær eru nógu víðtækar. Í því efni má líka nefna Íran sem hefur nú loksins látið undan í deilunni um kjarnorkustefnu þeirra.

Sigurður M Grétarsson, 15.8.2015 kl. 17:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband