Bloggfærslur mánaðarins, október 2015

Sjálfstæðisflokkurinn og unga fólkið eiga samleið

Á yfirstandandi landsfundi Sjálfstæðisflokksins hefur unga fólkið verið afar áberandi, enda mætti það vel undirbúið og hafði greinilega lagt mikla vinnu í málefnavinnu og yfirferð tillagna málefnanefnda flokksins sem lagðar höfðu verið fram.

Tilllögur ungra sjálfstæðismanna voru vel rökstuddar og var þeim almennt vel tekið af eldri hluta landsfundarfulltrúa og voru samþykktar í flestum tilfellum inn í endanlegar ályktanir landsfundarins.

Þetta er enn eitt dæmi þess hve Sjálfstæðisflokkurinn er lýðræðislegur flokkur þar sem fólk á öllum aldri tekur höndum saman í vinnu fyrir umbótum í landinu með allra hag í forgrunni, enda gamla góða kjörorðið ennþá í fullu gildi, þ.e. "Stétt með stétt".

Vinstri grænir hafa haldið sinn landsfund á sama tíma á Selfossi, en þaðan berast afar litlar fréttir af nýju fólki í forystu, eða merkilegum málefnaályktunum.  

Það vekur líka athygli að fjöldi fundarmanna samtals hjá VG er nokkurn veginn á pari við þann fjölda fólks sem bauð sig fram til starfa í málefnanefndum Sjálfstæðisflokksins milli landsfunda.


mbl.is „Ég er bara orðlaus“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Of mikið gert úr vanda ungra fasteignakaupenda?

Samkvæmt upplýsingum Þjóðskrár Íslands voru 22% fasteignakaupenda í Reykjavík á þriðja ársfjórðungi 2015 að kaupa sína fyrstu fasteign og er það hlutfall meðaltal í fasteignaviðskiptum á landinu.

Vekur þetta nokkra undrun miðað við þær umræður sem fram hafa farið undanfarið í þjóðfélaginu um að ungt fólk geti ekki með nokkru móti keypt fasteingir um þessar mundir vegna verðs og vandræða við fjármögnun.

Getur verið að sú háværa umræða sem fram hefur farið um erfiðleikana á fasteignamarkaði sé orðum aukin, eins og á svo oft við um ýmis umræðuefni í fjölmiðlum og á samskiptamiðlum internetsins?

 


mbl.is 22% að kaupa fyrstu eign
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þingmenn sýni þjóðinni þá virðingu að hætta fíflagangi í þingsal

Það er ótrúlegt að fylgjast með því hvernig þingmenn á Alþingi óvirða þjóðina sem kaus þá til þingsetunnar og þingið sjálft með fíflagangi og þvargi þingfund eftir þingfund, undir liðnum "Störf þingsins".

Oftast virðast þetta vera sömu þingmennirnir sem stunda þennan ljóta og ómerkilega leik til að tefja og trufla eðlileg þingstörf og getur varla nokkuð annað en athyglissýki ráðið för, nema um sé að ræða hreina skemmdarfýsn og tilraun til að skaða sjálft lýðræðið í landinu.

Málþóf er hægt að fyrirgefa í einstaka undantekningartilfellum þegar stór deilumál eru til umfjöllunar í þinginu, en að stunda svona vinnubrögð dag eftir dag, viku eftir viku og mánuð eftir mánuð, er algerlega siðlaust og þeim sem þau ástunda til skammar sama hvaða stjórnmálaflokki viðkomandi tilheyrir.

Eina vörn þeirra þingmanna sem skömm hafa á þessum vinnubrögðum er að yfirgefa þingsalinn á meðan á vitleysunni stendur og sýna smámennunum í þingmannahópnum með því fyrirlitningu og koma þeim á þann hátt í skilning um að slíkt háttarlag verði ekki þolað lengur.

Þjóðin á skilið að þingmenn sýni henni lágmarksvirðingu í þakkarskyni fyrir atkvæðin.


mbl.is „Er hann að éta köku“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óseðjandi gróðafíkn alþjóðarisafyrirtækja

Rio Tinto Alcan er dæmigert fyrir þau alþjóðafyrirtæki (og önnur) sem stjórnað er af siðblindingjum sem skammta sjálfum sér þvílík ofurlaun að þeim sjálum og ætt þeirra allri tækist ekki að eyða árslaunum þeirra á æviskeiði a.m.k. þriggja ættliða.

Siðblindingjar þessir sjá hins vegar ofsjónum yfir þeim launum sem óbreyttir starfsmenn þeirra fyrirtækja sem þeir stjórna strita fyrir og þurfa yfirleitt að horfa í hvern eyri til að sjá sér og fjölskyldum sínum farborða frá degi til dags.

Alltaf þykjast þetta siðblinda lið vera að "hagræða" í rekstrinum þrátt fyrir óheyrilegan hagnað fyrirtækjanna flest árin, þó inn á milli komi eitt og eitt ár þar sem gróðinn er minni en venjulega vegna einhverra markaðsaðstæðna.  Þær aðstæður hafa hins vegar aldrei náð yfir nema skamman tíma og jafnvel á þeim árum komast fyrirtækin ágætlega af vegna þeirra digru sjóða sem safnað er upp með svívirðilegri græðginni flest ár.

Rio Tinto Alcan er nú í alheimsbaráttu gegn starfsfólki sínu með það að markmiði að brjóta niður samstöðu þess og eins og venjulega til að auka gróða sinn, sem þó er ævintýralegur fyrir. Starfsfólk álversins í Straumsvík þurfa að standa í þessu stríði, eins og aðrir starfsmenn Rio Tinto annarsstaðar í heiminum, og beitir fyrirtækið því lúalagi að neita að gagna frá kjarasamningi nema verkalýðsfélögin samþykki að heimila verksmiðjunni að ráða stóran hóp fólks á smánarlaunum í svokallaðri undirverktöku.  Enginn er svo skyni skroppinn að skilja ekki til hvers siðleysingjarnir setja fram þessa úrslitakosti við kjarasamningagerðina.

Vonandi standa verkalýðsfélögin í lappirnar gegn þessum yfirgangi, en því miður hefur verkalýðshreyfingin ekki staðið sig sem skyldi í varðstöðunni um réttindi félaga sinna fram að þessu.


mbl.is Mótmæltu í Straumsvík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Matvælastofnun hefur vald til að leyfa dýraníð í allt að tíu ár

Matvælastofnun hefur virðist hafa vald, samkvæmt lögum, til að hylma yfir glæpi dýraníðinga og ætlar meira að segja að gefa sumum þeirra frest til að hætta níðinu í allt að tíu ár.

Aum er sú afsökun svínaníðinganna að í lögum hafi verið heimild til að hafa búr og stíur dýranna svo lítil að skepnurnar gætu ekki hreyft sig, hvorki snúið sér né staðið upp og hvað þá gengið um.

Hafi dýrahaldari ekki ekki meiri innsýn í líðan býstofns síns en raunin sýnir, sérstaklega varðandi stóru svínaverksmiðjubúin, eiga slíkir níðingar hvergi nærri dýrum að koma og ættu að snúa sér að einhverjum öðrum störfum þar sem mannlegar tilfinningar koma ekki við sögu.

Það er ótrúlegt að menn skuli fela sig á bak við lög frá Alþingi sem kveða á um að ekki megi kvelja dýr nema að takmörkuðu leyti og níðingar sem jafnvel vilja kalla sig bændur sjái ekki sóma sinn í að búa betur að bústofni sínum en slíkar lágmarkskröfur gera og að það skuli ekki snerta tilfinningar þeirra á nokkurn hátt að skepnurnar líði helvítiskvalir alla sína ævidaga.

Í raun er skelfilegt til þess að hugsa að Matvælastofnun skuli ekki eingöngu hylma yfir með níðingunum, heldur ætli að heimila viðbjóðinn í allt að tíu ár ennþá.

 


mbl.is Aðlögunarfrestur svínabænda liðinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband