Bloggfærslur mánaðarins, júní 2013

Þrífst ferðamannaiðnaðurinn á svindli?

Ferðaiðnaðurinn blómstrar um þessar mundir með mikilli fjölgun hótela, gistihúsa allskonar og hreinni sprengingu í veitingageiranum.  Athygli vekur þó að samkvæmt upplýsingum skattstjóra sjást þess lítil merki í auknum skattgreiðslum til ríkisins, hvorki frá rekstraraðilum né í aukinni staðgreiðslu skatta vegna launagreiðslna.

Það hefur lengi loðað við a.m.k. veitingahúsin og skyndibitastaðina að þeir svindluðu á launþegum og þá alveg sérstaklega ungu fólki sem stundar hlutastörf samhliða skólanámi.  Sem dæmi má nefna svokallað "jafnaðarkaup", sem hvergi er til í kjarasamningum, en þá er krökkunum borgaður einhver tilbúinn launataxti, jafnvel lítið sem ekkert hærri en dagvinnulaunin, jafnvel þó öll vinna viðkomandi unglings fari fram á kvöldin og um helgar.

Nú virðist enn vera að bætast í svindlflóruna með því að bjóða unga fólkinu upp á "launalausan prufutíma" innan veitingageirans áður en af hugsanlegri ráðningu verður og þá jafnvel á laun sem ekki eru innan kjarasamninga.   Eftir Hörpu Ólafsdóttur, forstöðumanni kjaramálasviðs Eflingar, er eftirfarandi haft í meðfylgjandi frétt:  „Fjölgun mála er í beinu hlutfalli við mikla fjölgun veitingastaða á síðustu árum.  Í dag eru um 20% félagsmanna stéttarfélagsins starfsmenn veitingahúsa en þetta hlutfall var 10% árið 2007.  Það eru hlutfallslega miklu fleiri sem leita til okkar vegna launamála í þessari stétt en í öðrum starfsgreinum,“ segir Harpa en um 50% þeirra sem leita til stéttarfélagsins vegna launakrafna eru starfsmenn veitingastaða."

Þessi framkoma við starfsfólk er greininni til skammar og er svartur blettur á vaxandi atvinnugrein sem litið er á sem eina þeirra sem halda á uppi lífskjörum í landinu í framtíðinni.  

Varla getur þessi atvinnugrein reiknað með mikilli opinberri fyrirgreiðslu á meðan hún virðist þrífast á starfsmannasvindli og skattaundanskotum. 


mbl.is „Það á enginn að vinna frítt“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er Seðlabankinn að afvegaleiða umræðuna um skuldalækkunina

Framsóknarflokkurinn vann stórsigur í nýafstöðnum kosningum út á loforð sitt um miklar skuldalækkanir til handa þeim sem skulduðu verðtryggð húsnæðislán á árunum 2007-2010.  Afar skiptar skoðanir hafa verið uppi um það, hvort slík skuldalækkun sé raunhæf eða jafnvel réttlætanleg og þá ekki síst vegna afleitrar stöðu ríkissjóðs.  

Það fé sem Framsóknarflokkurinn ætlaði í þessar skuldalækkanir á að koma frá vogunarsjóðum og öðrum eigendum gömlu bankanna sem greiðsla fyrir að fá að flytja fjármuni sína úr landi í erlendum gjaldeyri.  Með því að nota þetta hugsanlega og væntanlega fjármagn til að létta skuldabyrði ríkissjóðs hefði ávinningurinn ekki aðeins komið íbúðaskuldurum til góða, heldur landsmönnum öllum í formi viðráðanlegri skattbyrði en annars er fyrirséð að verði.

Seðlabankinn hefur nú blandað sér í umræðuna um þessar fyrirhuguðu skuldalækkanir og segir m.a:  "Niðurstöður rannsókna sérfræðinga Seðlabanka Íslands sýna að almenn niðurfærsla lána er bæði dýr og óskilvirk aðgerð til að koma til móts við þau heimili sem eiga bæði við greiðslu- og skuldavanda að stríða."  Þetta verður að teljast furðulegt innlegg í umræðuna, þar sem aldrei hefur verið rætt um að þessi aðgerð væri hugsuð til að bjarga heimilum sem eru í greiðsluvanda, heldur einungis til að létta undir með þeim sem skulduðu verðtryggð íbúðalán á ákveðnu árabili. 

Ef Seðlabankinn ætlar sér að taka afstöðu til pólitískra deilumála er lágmart að hann fari rétt með og haldi sér við sannleikann og þær staðreyndir sem liggja að baki hvers máls. 


mbl.is Niðurfærsla lána óskilvirk og dýr
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Netlöggur" Steingríms J. og CIA eiga margt sameiginlegt

Árið 2007 boðaði Steingrímur J. þá draumsýn sína að komið yrði á fót "netlöggu" á Íslandi, sem fylgjast skyldi með því hvort og hvenær landsmenn færu inn á klámsíður á netinu, eða stunduðu þar önnur ósiðleg samskipti.  Til þess að uppgötva klámhundana hefði þurft að fylgjast með allri netnotkun allra landsmanna, allan sólarhringinn, allt árið um kring og sía frá "eðlilegu" notkunina frá þeirri "óeðlilegu".  Varla þarf að taka fram að hugmyndinni var vægast sagt illa tekið af almenningi, enda komst "netlögga" Steingríms J. aldrei á legg, svo vitað sé.

Njósnastofnanir, leyniþjónustur og lögregluyfirvöld flestra landa halda úti víðtæku eftirliti með þegnum sínum (og annarra þegnum), ekki síst í nafni baráttunnar við hryðjuverkahópa og aðra stórglæpamenn.  Til þess að finna þrjótana þarf væntanlega að fylgjast meira og minna með öllum almenningi til þess að geta vinsað "góðu gæjana" frá þeim vondu.  Slíkt eftirlit fer meira og minn fram í gegn um tölvur og myndavélar, sem fylgjast með ferðum fólks og farartækja um líklegar sem ólíklegar slóðir.  Allar ferðir fólks er orðið auðvelt að rekja eftir farsímum, greiðslukortum og alls kyns rafrænum leiðum og óvíða orðið hægt að fara án þess að auðvelt sé að rekja slóðina eftirá, ef ekki jafnóðum.

Upphlaupið um njósnir CIA um tölvusamskipti almennings í leit að hryðjuverkamönnum er að mörgu leyti undarlegt í því ljósi að öllum hefur verið kunnugt um þessar njósnir árum saman og þær eru stundaðar af flestum löndum veraldarinnar, a.m.k. þeim sem eitthvað þykjast eiga undir sér.  Meira að segja er sagt að allar Norðurlandaþjóðirnar standi í njósnum af þessu tagi og teljast þær þó varla með þeim "stóru" í heiminum.

 


mbl.is Á ekki að fá að ferðast áfram
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Útskýringar óskast á áskorun

Fyrri liður áskorunar til Alþingis og forsetans til vara hljóðar svona:  "Við undirrituð hvetjum Alþingi til að samþykkja ekki frumvarp ríkisstjórnarinnar um breytingar á lögum nr. 74/2012 frá 26. júní 2012 þar sem skilgreind eru þau gjöld sem útgerðinni ber að greiða fyrir afnot af sameiginlegri fiskveiðiauðlind okkar."

Textinn vekur upp þá spurningu hvort sá sem undirritar hann sé með því að segja að ALDREI megi breyta lögum nr. 74/2012, eða bara hvort ekki megi breyta þeim NÚNA á þessu sumarþingi.  Ef meiningin er að ALDREI megi breyta umræddum lögum, er það þá skilningur undirritara að í þeim felist hinn eini rétti og eilífi útreikningur á veiðileyfagjöldum og þar með hvorki eigi eða megi Alþingi nokkurn tíma fjalla framar um skatta á fiskveiðar við Íslandsstrendur.

Seinni hluti áskorunarinnar hljóðar á þennan veg:  "Verði Alþingi ekki við þeirri ósk verður þessi undirskriftalisti afhentur hr. Ólafi Ragnari Grímssyni forseta Íslands og hann hvattur til að undirrita ekki lög sem taka til breytinga á lögum nr. 74/2012 frá 26. júní 2012 heldur vísa þeirri ákvörðun í þjóðaratkvæði til eigenda fiskveiðiauðlindarinnar, íslensku þjóðarinnar."

Verði Alþingi ekki við áskoruninni og hafni forsetinn frumvarpinu staðfestingar þannig að kjósendur taki milliliðalausa afstöðu til málsins, ber þá að skilja afstöðu undirritaranna á þann veg að með slíku yrði sett fordæmi fyrir því að skattabreytingahugmyndir ríkisstjórna framtíðarinnar skuli undanbragðalaust, safnist til þess ákveðinn fjöldi undirskrifta, vísað til þjóðarinnar til ákvörðunar, hvort sem um tekjuskatta væri að ræða, virðisaukaskatt, vörugjöld, tolla eða hvern annan skatt eða gjald sem ríkisstjórnum dytti í hug að hækka, eða lækka, í það og það sinnið.

Vonandi sjá sem flestir, sem undir áskorunina hafa skrifað, sér fært að útskýra hvað þeir höfðu nákvæmlega í huga þegar afstaða til málsins var tekin.


mbl.is „Sammála um að vera ósammála“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stórhækka alla skatta

Að sjálfsögðu verður að taka tillit til undirskrifta tíu prósent þjóðarinnar um stórhækkun skatta á alla sem draga björg í þjóðarbúið, hvort sem um er að ræða veiðigjöld, tekjuskatta á greinina sjálfa og svo alla þá sem einhverja hagsmuni hafa af því að útgerð þrífist í landinu.  

Þegar að er gáð er það þjóðin sjálf sem mestra hagsmuna hefur að gæta í málinu, þar sem sjávarútvegur hefur verið aðalundirstöðuatvinnugrein hennar um áratugi og í raun komið henni frá örbirgð til sjálfsbjargar.

Þess vegna er auðvitað rökrétt að um leið og veiðigjöld verða hækkuð verulega frá því sem áður hefur verið verði tekjuskattar þjóðarinnar hækkaðir svo um munar, enda nánast hvert mannsbarn í landinu sem nýtur sjávarútvegsins í lífskjörum sínum.   

Uppbygging atvinnugreina og velgengni þeirra er bara hjóm eitt hjá því sæluríki sem hægt er að byggja upp hér á landi með ofursköttum og vinnuleysi. 


mbl.is Ánægjulegt hve margir hafa skoðun á málinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Einfalt og gegnsætt auðlindagjald

Auðlindagjald á sjávarútveg hefur verið við lýði í mörg ár en ekki þótt nógu hátt til að skila ríkissjóði nægum, eða ásættanlegum, tekjum.

Eftir mikið japl og jaml og fuður setti síðasta ríkisstjórn lög um stórkostlega hækkun veiðigjalds, en tókst ekki betur til en svo að önnur útgáfan af gjaldinu, "sérstakt veiðigjald", var svo flókin og illa útfærð að ekki verður hægt að leggja skattinn á, þar sem enginn virðist vita hvernig á að reikna hana út eða hvar hægt sé að fá tölulegar upplýsingar til að reikna út frá.  

Einfaldast og réttlátast hlýtur að vera að leggja veiðigjaldið á hvert kíló af lönduðum afla og þá fasta krónutölu eftir fisktegundum.  Þannig kæmi gjaldið jafnt niður á alla sem útgerð stunda og ekkert til að flækja útreikninginn, þar sem upphæðin lægi ljós fyrir strax að löndun lokinni og ekki þyrfti að fara í flókna útreikninga sem tækju tillit til hagnaðar og skulda einstakra útgerða og hvað þá greinarinnar í heild.

Kerfið þarf að vera einfalt, gegnsætt, öllum auðskilið og skila sanngjörnu auðlindagjaldi í ríkissjóð. 

 

 


mbl.is Útgerðarmenn vonsviknir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Alþingi biðjist afsökunar

Í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra notaði Katrín Júlíusdóttir, þingmaður Samfylkingar, þau gamalkunnu slagorð að ræðan einkenndist af "nefndum en engum efndum" og þótti brandarinn óheppilegur með tilliti til þess að grínistinn er fyrrverandi ráðherra í efndalausustu ríkisstjórn allra tíma og þeirrar nefndamestu.

Fulltrúar meirihlutans í einni af nefndum síðustu ríkisstjórnar komst að þeirri niðurstöðu að stefna skyldi fjórum ráðherrum úr ríkisstjórn Geirs H. Haarde, þ.e. honum sjálfum, Árna Mathíasen, Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur og Björgvini G. Sigurðsyni og var formaður þeirrar nefndar einn af þingmönnum Vinstri grænna.  Með leikfléttu Samfylkingarþingmanna varð svo niðurstaðn sú að Geir H. Haarde skyldi einn ákærður fyrir Landsdómi, sem að lokum sýknaði hann af öllum ákærum nema að hafa ekki uppfyllt að fullu öll formsatriði um boðun ríkisstjórnarfunda.

Nú hefur Laga- og mannréttindanefnd Evrópuráðsþingsins komist að þeirri niðurstöðu, með 83 atkvæðum gegn atkvæði Þuríðar Backman, eins ákærenda VG, að Landsdómsmálið hafi verið byggt á pólitík en ekki lögfræði og þar með gefið þeim þingmönnum sem að málinu stóðu algera falleinkunn vegna þess haturs og hefndarþorsta sem rak þá áfram við alla meðferð málsins fyrir Alþingi.

Athyglisvert er að enginn þingmaður minntist á þetta réttarfarshneyksli Alþingis við umræðurnar á Alþingi í gærkvöldi, en enn er tími fyrir þingið að taka málið til umræðu enda sumarþing rétt nýhafið.

Einu rökréttu viðbrögð Alþingis eru að biðja Geir H. Haarde afsökunar á þeirri mannvonsku sem hann varð fyrir af hendi naums meirihluta alþingismanna og framkomu Þuríðar Backman við afgreiðslu ályktunar Laga- og mannréttindanefndar Evrópuráðsþingsins.


mbl.is Ekki í samræmi við refsiábyrgð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sjálfsdýrkun smástirnanna

Ef það er rétt sem Pétur Pétursson, fyrrverandi aðstoðarmaður Ólafs Jóhannssonar landsliðsþjálfara í knattspyrnu, segir um kröfur Grétars Rafs Steinssonar, knattspyrnumanns, til Knattspyrnusambandsins í tengslum við þá landsleiki sem hann tekur þátt í, þá er hugsunarhátturinn um eigin verðleika verulega brenglaðir hjá viðkomandi knattsparkara.

Allir hafa heyrt af fáránlegum kröfum ýmissa rokkstjarna um aðbúnað og veitingar í tengslum við tónleikahald og yfirleitt hefur verið hlegið að slíkum uppátækjum og þau talin hluti af þeim "stjörnustælum" sem loðað hafa við ýmsa furðufugla í þeim geira, en lítið hefur heyrst af slíku hjá íþróttafólki og allra síst því íslenska.

Vonandi fer íslenskt íþróttafólk ekki almenn að ofmetnast svo af "snilli" sinni að það fari að haga sér eins og rokkarar með mikilmennskubrjálæði í tengslum við þá íþróttaviðburði sem þeir taka þátt í.   Hógværð og lítillæti hæfir betur, enda eru slíkir eiginleikar ríkjandi hjá sönnum stjörnum og snillingum, en sjálfsdýrkun og eigin upphafning tilheyrir yfirleitt minni spámönnum.


mbl.is Pétur um Grétar Rafn: „Sýnir þvílíka heimsku“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Viðbjóðsleg meðferð á "matarhundum" og fleiri sláturdýrum

Matarvenjur fólks eru afar mismunandi eftir því hvar það býr á jarðarkringlunni og þykir okkur Íslendingum ekki allt girnilegt sem ýmsir aðrir leggja sér til munns og að sama skapi býður mörgum við við einu og öðru sem mörgum hérlendis þykir hnossgæti, t.d. svið, hákarl, kæst skata og hrútspungar svo eitthvað sé nefnt.

Sumstaðar eru rottur hafðar til matar og þá ekki síður hundar og fleiri skepnur sem okkur Íslendingum þykir ótrúlegt að nokkur maður geti lagt sér til munns og oft gengur fram af fólki við að lesa og heyra fréttir af misþyrmingu dýra sem ætluð eru til matar.  Samkvæmt viðhangandi frétt bendir Tuan Benedixsen formaður Samtaka um dýravernd í Asíu á að sú trú ríki almennt að stressaðir og hræddir hundar gefi frá sér hormón sem veldur því að kjötið af hundunum verði betra á bragðið. Þá séu dæmi um að hundarnir séu fláðir lifandi.

Þessi trú veldur hreinum pyntingum á hundum sumsstaðar í Asíu og heimilishundar jafnvel hvergi hultir fyrir glæpalýð sem hagnast vel á ræktun og ráni hunda til sölu t.d. til Víetnam en þar þykja hundar herramansmatur og þá ekki síst eftir þjáningar og hreinar pyntingar ef mark má taka á fréttum.

Við mismunandi matarsmekk er lítið hægt að segja, en með öllum ráðum verður að berjast gegn öllu ofbeldi gegn dýrum, ekki síst þvílíkum viðbjóði og lýst er í viðhangandi frétt um meðferðina á "matarhundum" í Asíu.  Slíkt dýraníð er reyndar ekki bundið við hunda, því oft fréttist af ámóta ógeðslegri meðferða annarra sláturdýra.


mbl.is Smygla heimilishundum og selja
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Árni Páll "gleymir" mestu meinlokunni

Árni Páll, formaður Samfylkingarinnar, viðurkennir að flokkurinn, undir stjórn Jóhönnu Sigurðardóttur, hafi gert hver mistökin öðrum alvarlegri á stjórnarárum sínum og nefnir sérstaklega skuldamál heimilanna, atvinnumálin og Icesave.  

Afstöðu þjóðarinnar til allra þessara mála hafi ríkisstjórnin annaðhvort misskilið eða alls ekki skilið og því hafi afhroð Samfylkingarinnar orðið þannig að Össur Skarphéðinsson líkti því við stórkostlegar náttúruhamfarir. Ræða Árna Páls hefði þótt harðorð í garð ríkisstjórnar Jóhönnu og Steingríms J., sem Árni  Páll sat reyndar í sjálfur um tíma, hefði hún verið flutt af einhverjum fulltrúa stjórnarandstöðunnar á þeim tíma.

Hvort sem það er vegna skilningsleysis eða einhvers annars sleppti Árni Páll þó einu mikilvægasta atriðinu sem olli kosningahamförum Samfylkingarinnar, en það er undirlægjuháttur flokksins við stjórnendur hins væntanlega stórríkis Evrópu, en flokkurinn hefur ekki getað horft á nokkurt einasta mál á undanförnum árum nema í gegn um ESBgleraugun og tekið afstöðu út frá hagsmunum stórríkisins væntanlega, en ekki út frá hagsmunum Íslands eða þess vilja meirihluta þjóðarinnar að innlimast ekki í stórríkið, sem fram hefur komið í hverri skoðanakönnuninni á fætur annarri undanfarin ár.

Árni Páll mun ekki auka fylgi Samfylkingarinnar á meðan skilningur hans og annarra forystumanna flokksins glæðist ekkert á vilja og þörfum þjóðarinnar. 

 


mbl.is Áttuðum okkur ekki á skuldavanda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband