Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2012

Biðraðir í búðum - úti og inni

Í morgun opnaði enn ein matvöruverslunin á Reykjavíkursvæðinu og eins og við var að búast, þegar ný verslun opnast, myndaðist talsverð biðröð utan við verslunina áður en hún var opnuð.

Það virðist vera orðið nánast undantekningalaust að þegar ný búð opnar á suðvesturhorni landsins grípi einhvers konar kaupæði um sig hjá stórum hópi fólks og er þá alveg sama hvort um leikfanga-, fata-, byggingavöru-, tölvvöru- eða matvöruverslun er að ræða. Kaupæðið virðist ekki fara í neitt vörugreiningarálit.

Á sama tíma kvartar almenningur um hve allt sé dýrt og kaupmáttur lélegur um þessar mundir, en a.m.k. virðist peningaleysi alls ekki hrjá þá kaupóðustu, sem alltaf eru tilbúnir til þess að leggja á sig mislanga bið í mislöngum biðröðum þegar ný kauptækifæri gefast.

Vonandi verður þetta kaupæði til þess að biðraðamenning nái að skjóta rótum á Íslandi, en til skamms tíma þoldu Íslendingar alls ekki að standa í biðröðum eftir einu eða neinu, heldur reyndu að troðast fram fyrir hvern annan til að ljúka sínum erindum á sem allra skemstum tíma.

Ekkert er svo með öllu illt að ekki boði nokkuð gott.


mbl.is Margmenni við opnun Iceland
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þar sem eru fréttamenn - þar er ÓRG

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti vor, er sérfræðingur í að koma sjálfum sér á framfæri við fjölmiðla og má hvergi vita af fjölmiðlamönnum án þess að mæta á staðinn.

Nú eru Ólimpíuleikar að hefjast í London og þó ÓRG hafi ekki náð Ólimpíulágmarki í nokkurri einustu íþróttagrein er Ólafur mættur á svæðið og byrjaður að koma sér á framfæri við fjölmiðlaliðið og þá alveg sérstaklega ljósmyndarana íslensku og fréttamenn sem að venju falla í áróðursgryfjuna og hefja hann á hærri stall en íþróttamennina sem þó eru tilnefndir fulltrúar landsins á leikunum.

Það eina sem kemur í veg fyrir að ÓRG geti baðað sig í sviðsljósinu í London næstu daga er að hann "neyðist" til að eyða tíma í að láta setja sig í forsetaembættið, enn einu sinni, um mánaðamótin en vonir standa þó til að fjölmiðlarnir verði viðstaddir athöfnina, birti af honum myndir þaðan og birti eitt eða tvö viðtöl við hann í tilefni dagsins.

Vonir standa þó til að ÓRG geti brugðið sér til London að innsetningunni lokinni þannig að hann geti áfram baðað sig í sviðsljósinu á kostnað íþróttafólksins, sem unnið hefur sér rétt til keppni á leikunum með mikilli fyrirhöfn og eljusemi.


mbl.is Einstæð reynsla í Peking
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stórkostleg gleðitíðindi frá Norður Kóreu

Þau hjartnæmu og gríðarlega miklu tíðindi hafa borist frá Norður-Kóreu að hinn ástkæri og stórkostlegi leiðtogi Kim Jong-un hafi kvænst nýlega ungri og glæsilegri söngkonu.

Enginn veit nákvæmlega hve gamall leiðtoginn ástsæli er, en talið er að hann sé á þrítugsaldri og því von til þess að hann geti leitt þjóð sína í a.m.k. fjörutíu til fimmtíu ár á jafn farsælan og glæsilegan hátt og faðir hans gerði og afi þar áður.

Vonandi mun barnalán leika við hjónakornin ungu, þannig að stjórn Norður-Kóreu þurfi ekki að færast út úr þessari ótrúlega vinsælu, ástríku stjórnlistarfjölskyldu næstu árhundruðin.

Ekki er að efa að norðurkóreska þjóðn fagnar þessu hjónabandi heilshugar, hafi hún þá frétt af því. Hafi hún ekki heyrt af þessum stórviðburði ennþá, mun hún a.m.k. fá fréttirnar þegar næsti arftaki tekur við völdum af hinum stórfenglega Kim Jong-un.


mbl.is Óska norðurkóreska leiðtoganum til hamingju
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kínverjarnir koma, kínverjarnir koma

Fyrir nokkuð margt löngu gekk í bíóhúsunum vinsæl gamanmynd sem hét "Rússarnir koma, rússarnir koma" og lýsti á skemmtilegan hátt samskiptum bandarískra borgara við það sem þeir héldu að væri "innrás" Rússa í samfélag sitt.

Nú geta Íslendingar og aðrir vesturlandabúar snúið þessum frasa upp á annað ríki og farið að segja "Kínverjarnir koma, kínverjarnir koma", enda er kínversk "innrás" í raun hafin á fjárhagslegum, efnahagslegum og pólitískum vettvangi.

Kínverjar leggja mikla áherslu á að efla áhrif sín og völd um allan hinn vestræna heim og er litla Ísland þar ekki undanskilið, sem best sést á ótrúlegum áformum um lúxusuppbyggingu ferðaþjónustu nánast uppi á öræfum landsins, ásamt miklum áhuga Kínverja á hafnaraðstöðu hérlendis vegna væntanlegrar auðlindanýtingar á norðurslóðum og siglinga um "Norðurleiðina".

Svo halda einhverjir að "innrás" fyrrverandi lágt setts embættismanns í kínverska áróðursmálaráðuneytinu, sem skyndilega varð einn auðugasti maður Kína, sé einhver tilviljun og sé alls ekki skipulögð af kínverskum yfirvöldum með framtíðarhagsmuni kínverska heimsveldisins í huga.

Íslendingar hafa oft verið trúgjarnir, sérstaklega þegar útlendingar eiga hlut að máli, en hafa ber í huga að þegar eitthvað lítur út fyrir að vera of gott til að vera satt, þá er það nánast undantekningalaust alls ekki satt.


mbl.is Skoða hafnir á Íslandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Munu Íslendingar taka þátt í refsiaðgerðum gegn Færeyjum?

Framkvæmdastjórn ESB virðist telja að lítið mál verði að þvinga Íslendinga til uppgjafar í makríldeilunni, enda Samfylkingunni og nokkrum nytsömum sakleysingjum mikið í mun að koma í veg fyrir að nokkuð geti tafið innlimunina í bandalagið.

Þrátt fyrir að reiknað sé með að Íslendingar verði leiðitamir í málinu er álitið að Færeyingar muni ekki láta kúga sig, enda alls ekki á þeim buxunum að láta ESB stjórna sínum fiskveiðum.

Fréttin hefst á þessari málsgrein, sem segir í raun það sem segja þarf um málið: "Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins er ekki bjartsýn á að það takist að semja við Færeyinga vegna makríldeilunnar en er hins vegar aðeins bjartsýnni í tilfelli Íslands vegna umsóknar landsins um inngöngu í sambandið. Þetta kemur fram hjá fréttaveitunni Agence Europe í gær."

Ætli Jóhanna og Steingrímur J. muni í framhaldinu samþykkja að taka þátt í refsi- og efnahagsaðgerðum gegn færeyingunum? 


mbl.is Bjartsýnni á samninga við Ísland
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kínverjar í Evrópuinnrás

Í kjölfar evrukreppunnar hafa Kínverjar stóraukið sókn sína inn í Evrópu á fjármálasviði og kaupa upp og stofna hvert fyrirtækið á eftir öðru í þeim löndum sem verst hafa orðið úti og nægir þar að nefna Grikkland og Spán. Ekki má heldur gleyma stóraukinni innrás Kínverjanna á íslenskan markað og er Nubo og Grímsstaðir nýjasta dæmið um það.

Á Spáni er innrásin hafin að fullu og í fréttinni kemur vel fram í lokin hver áhrif Kínverjarnir eru að kaupa sér með þessari athafnasemi sinni, en þar segir: "Fram kemur í fréttaskýringunni að vegna aukinna tengsla landanna á viðskiptasviðinu stuggi spænsk stjórnvöld ekki við Kínverjum með inngripum í viðkvæm málefni. Eru innanríkismál í Tíbet líklega á þeim lista."

Á þessu bloggi hefur margoft verið bent á þessa innrás Kínverjanna í hinn vestræna heim, en baráttan er ekki háð með vopnum að þessu sinni, heldur peningum, og sagt bæði í gríni og alvöru að tímabært sé að taka kínversku upp sem skyldufag í grunnskólum landsins til að undirbúa komandi kynslóðir til þess að geta að minnsta kosti gert sig skiljanlegar við þessa væntanlegu herraþjóð.

Í þessu efni, sem öðrum, er ekki ráð nema í tíma sé tekið. 

 


mbl.is Kínverjar leika á spænsku kreppuna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ótrúlegt vanþakklæti

Dönskum glæpaforingja, líklega af marókóskum ættum, tókst að flýja úr fangelsi í danmörku með því einfalda ráði að segjast vera að fara í helgarfrí og að sjálfsögðu trúði fangavörður því eins og nýju neti, enda varla þótt ástæða til að rengja slíkan öðlingsmann. Auðvitað datt fangaverðinum ekki í hug að biðja þennan öðlingspilt um staðfestingu á helgarfríinu og hvað þá að athuga pappíra þar að lútandi.

Samkvæmt fréttinni er "Fangelsið sem um ræðir er á Austur-Jótlandi og á að vera það öruggasta og nútímalegasta í Danmörku. Þar starfa 260 manns en fangarnir eru 228."  Eins og sjá má af þessu eru starfsmennirnir fleiri en fangarnir, þannig að líklega hefur hver fangi sinn eigin einkaþjón enda er þetta nútímalegasta fangelsi Danmerkur, eins og áður sagði, og þar að auki það öruggasta.

Það verður að líta á það sem ótrúlegt vanþakklæti af þessum glæpaforingja að afþakka þá þjónustu sem danska ríkið býðst til að veita honum og velja lífsmáta glæpona í Marokkó í staðinn, en þangað halda Danir að gæðapilturinn hafi farið, enda sjálfsagt eins vandalaust fyrir hann að ferðast á milli landa eins og það var auðvelt að labba út úr fangelsinu.

Ef að líkum lætur mun glæponinn snúa fljótlega aftur til Danmerkur og fangelsisins þegar hann sér mismuninn á þeim lúxus sem fangalífið þar býður á móti barningnum sem reikna má með að hann þurfi að glíma við í Marokkó. 


mbl.is Gekk út úr fangelsi í Danmörku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hæstiréttur dæmdur af Mannréttindadómstóli Evrópu

Mannréttindadómstóll Evrópu hefur í raun ómerkt tvo dóma Hæstaréttar vegna meiðyrða sem kveðnir höfðu verið upp gegn blaðamönnum sem fjallað höfðu um tvo nektarstaði, vændisstarfsemi og aðra ólöglega iðju sem hugsanlega tengdust starfsemi þeirra.

Þetta verður að teljast mikill áfellisdómur yfir Hæstarétti, ekki síst í því ljósi að dómana kváðu upp nokkrir af elstu og virtustu dómurum réttarins. Í máli Erlu voru það þau Ingibjörg Benediktsdóttir, Garðar Gíslason og Markús Sigurbjörnsson og í máli Bjarkar þau Árni Kolbeinsson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Hæstiréttur á að vera útvörður laga og réttar í landinu og gæta til hins ítrasta að mannréttindum og tjáningarfrelsi borgaranna og í því ljósi hlýtur hann að þurfa að endurskoða vinnubrögð sín og viðhorf vegna meiðyrðamála og jafnvel verður í framhaldi af þessum úrskurði að endurskoða öll lög um mannréttindi og tjáningarfrelsi í landinu.

Mannréttindi og tjáningarfrelsi eru dýrmætustu réttindi fólks í lýðræðisríkjum og um þann rétt á ekki að ríkja nokkur ágreiningur.


mbl.is Unnu mál gegn ríkinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Villimennska í Afganistan

Um síðast liðna helgi var ung kona skotin til bana í Afganistan að viðstöddu fjölmenni sem fagnaði ógurlega eftir að skotin riðu af og konan lá í valnum.

Henni var gefið að sök að hafa haldið fram hjá eiginmanni sínum og var því dæmd til opinberrar aftöku fyrir athæfið, en ekkert hefur komið fram um hvort og þá hvaða dóm karlmaðurinn, sem að málinu hlýtur að hafa komið, hefur fengið.

Líklega hefur hann ekki fengið neinn dóm, enda karlmaður, og í karla- og ferðraveldi margra múslimaríkja fá karlmenn enga, eða a.m.k. afar væga, dóma fyrir það sem kallað er siðferðisbrot, en konunum er hins vegar refsað grimmilega fyrir allt slíkt.

Þetta er ótrúlega grimmúðleg afstaða og spurning hvort hún samrýmist kóraninum á nokkurn hátt, en hins vegar tekst trúarofstækismönnum ævinlega að túlka kenningarnar eftir sínu eigin höfði og í eigin þágu og þá ekki síður til að viðhalda völdum sínum yfir ættinni, héraðinu og landinu.

Það mun sjálfsagt taka a.m.k. fimm hundruð ár að koma þessum þjóðfélögum á þann stall sem vesturlönd eru stödd á á þessu sviði. Ef það er þá endilega eftirsóknarverður stallur að vera á.


mbl.is Leitað að þeim sem tóku Najiba af lífi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Flóttamönnum haldið nauðugum í landinu?

Tveir ungir menn sem segjast vera flóttamenn og komu nýlega til landsins og lugu við það tækifæri til um aldur sinn og þóttust vera undir lögaldri svo þeir fengju frekar undanþágur frá lögum og reglum smygluðu sér um borð í flugvél frá Icelandair síðastliðna nótt og reyndu þannig að komast frá landinu.

Svo mikið lá við að engu máli skipti þá félaga hvert flugvélin myndi fara, bara að þeir kæmust til einhvers annars lands því hér á landi vilja þeir greinilega ekki vera. Þetta er ekki í fyrsta og örugglega ekki í síðasta sinn, sem "flóttamenn" reyna að smygla sér um borð í skip eða flugvélar til þess að komast eitthvert annað, því Ísland er greinilega aðeins áfangastaður á leið margra þessara manna um heiminn.

Í þessu tiltekna tilfelli virðist vera um unga ævintýramenn að ræða, sem flækjast um heiminn undir því yfirskini að þeir séu "flóttamenn", án þess að geta sýnt á sannfærandi hátt hvað þeir eru að flýja, og geta með því móti látið sjá sér fyrir húsaskjóli, vasapeningum og fæði í viðkomulandinu, hvert sem það er hverju sinni.

Þessa ævintýramenn á auðvitað að senda umsvifalaust til þess lands sem þeir komu frá, án nokkurra tafa, enda ástæðulaust að halda þeim hér á landi gegn sínum eigin vilja.


mbl.is Lokuðu sig inni á salerni flugvélar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband