Bloggfærslur mánaðarins, október 2012

Kringlan skattleggur björgunarsveitirnar sjálfri sér til minnkunar

Að Kringlan skuli, ein verslunarmiðstöðva, skattleggja góðgerðarfélög og þar á meðal björgunarsveitirnar um háar fjárhæðir vegna leyfa til að stunda fjáröflun sína á göngum Kringlunnar er forráðamönnum verslunarmiðstöðvarinnar og nafni hennar til mikillar skammar og háðungar.

Græðgi forráðamanna Kringlunnar veldur því t.d. að Landsbjörg þarf að greiða þrjúhundruðþúsund krónur fyrir að fá náðasamlegast að selja Neyðarkallinn í almenningi hússins, engum til ama en Kringlunni til fjárplógsstarfsemi.

Kraftvélar ehf. hafa nú ákveðið að styrkja Landsbjörgu um upphæð sem nemur hinni óprúttnu upphæð sem forráðamenn Kringlunnar leggjast svo lágt að hirða af velunnurum Landsbjargar vegna bráðnauðsynlegrar fjáröflunar björgunarsveitanna.

Fjöldi fólks á björgunarsveitunum líf sitt að launa og enn fleiri skulda þeim þakkir fyrir aðra aðstoð við líf sitt og eignir og skömm Kringlunnar er því meiri en orð ná yfir vegna þessa athæfis síns.

Vonandi þarf framkvæmdastjóri Kringlunnar aldrei að kalla út aðstoð vegna atvika er tengjast þessu musteri græðginnar.


mbl.is Kraftvélar greiða leigu Landsbjargar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bráðnauðsynleg bankarannsókn

Ein af nefndum Alþingis, með langt og óþjálft nafn eins og vera ber hjá opinberum aðilum, Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, leggur enn og aftur til að einkavæðing bankanna fyrir tíu árum verði rannsökuð ofan í kjölinn, til þess að hægt verði að læra af henni og nýta þann lærdóm við einkavæðingar framtíðarinnar.

Þetta er auðvitað bráðnauðsynlegt, en það eina sem vantar í tillöguna er að í leiðinni verði aðkoma ríkisstjórnarinnar að málum SpKef og einkavæðing bankanna hin síðari verði rannsökuð í framhaldi af eldri einkavæðingunni, enda nýrri aðgerðir og ættu því að vera ennþá lærdómsríkari fyrir ríkisstjórnir framtíðarinnar en sú eldri, enda greinilegt að núverandi ríkisstjórn lærði ekkert af henni hvort sem er.

Að sleppa síðari tíma einkavæðingunni hlýtur að vera vegna smá athugunarleysis nefndarmanna í nefndinni með óþjála nafnið þannig að Alþingi sjálft hlýtur að betrumbæta tillöguna þegar hún kemur til afgreiðslu á þinginu.

Ekki væri verra að bæta yfirtöku ríkisins á Sjóvá og síðar tapsölu þess til einkaaðila við allar hinar einkavæðingarrannsóknirnar.

Vilji Alþingi láta taka sig alvarlega, eins og einhverjir þingmenn gætu viljað ennþá, þá verður þessi tillaga aldrei samþykkt í óbreyttri mynd.


mbl.is Leggja til að rannsókn verði samþykkt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Áreiti" björgunarsveitanna

Framkvæmdastjóri Kringlunnar segir að viðskiptavinir eigi að geta gengið um opin svæði Kringlunnar án þess að vera áreittir í hverju horni hússins af sölufólki.

Væntanlega þykir honum nóg um "áreitið" sem viðskiptavinir verða fyrir frá kaupmönnum í húsinu og að ekki sé ástæða til þess að gefa t.d. góðgerðarfélögum tækifæri til að "áreita" fjárhag viðskiptavinanna áður en þeir komast alla leið inn í búðirnar sjálfar.

Til þess að sporna við slíku "áreiti" góðgerðarfélaga er tekið hátt gjald af þeim til þess að "stýra" því hver áreitir hvern og hvenær.

Flestir viðskiptavina Kringlunnar líta hins vegar ekki á það sem áreiti þegar góðgerðarfélög safna til starfsemi sinnar og þeir sem það geta leggja glaðir fram svolitla styrktarupphæð til þeirra málefna sem áhugi er á annað borð fyrir að leggja lið. Hinir sem ekki treysta sér til að leggja af mörkum í það og það sinnið láta það bara vera, án þess að líta á slíkar beiðnir sem árás á einkalíf sitt.

Það er Kringlunni til minnkunnar að skattleggja slíka starfsemi og framkvæmdastjóranum ætti að vera í lófa lagið að úthluta slíkum fjáröflunarleyfum án þess að taka stóran hluta innkomunnar í hússjóð Kringlunnar.


mbl.is Leigja pláss í Kringlunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Efnahagsþvinganir gegn ESB?

Fiskistofnar undir yfirráðum ESB eru ofveiddir og er svo komið að yfir 90% þeirra er talinn í alvarlegri útrýmingarhættu verði ekki gripið til tafarlausra verndunaraðgerða. Til viðbótar þessari ríkisstyrktu ofveiði kaupir ESB fisk í þeim eina tilgangi að henda honum til þess að halda uppi verði til neytenda í löndunum innan sambandsins.

Evrópuþingmaðurinn Chistofer Fjellner bendir á þessa staðreynd í blaðagrein og segir þar m.a: "Árin 2008-2010 voru eyðilögð meira en 40.000 tonn af ferskum fiski í Evrópu. Í Svíþjóð var það ýsa, makríll, rauðspretta og rækjur. Ekkert bendir til þess að ástandið sé að batna, heldur þvert á móti."

Þetta sama ESB hefur nýlega samþykkt reglur sem beita má til að beita Íslendinga efnahagsþvingunum vegna makrílveiða innan sinnar eigin lögsögu með þeirri röksemd að makrílstofninn sé ofveiddur af Íslendingum og Færeyingum.

Með hliðsjón af framferði ríkjanna innan ESB, bæði hvað varðar ofveiði nánast allra sinna fiskistofna og ekki síður meðferðarinnar á hluta aflans eftir að hann er kominn á land, hlýtur að koma til greina af hálfu allra ríkja utan ESB að setja viðskiptabann á sambandsríkin þangað til þessum málum verði komið í viðunandi horf. 


mbl.is Kaupa fisk til að kasta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að yfirgefa sökkvandi skip

Sagt er að af einskærri eðlisávísun sé ákveðin dýrategund fyrst til að yfirgefa sökkvandi skip.

Þetta flaug í hugann við úrsögn Róberts Marshalls úr Samfylkingunni.

Ekki fara neinar sögur af því að dýrategundin sem þjóðsagan er um, stökkvi strax um borð í annað skip í sjávarháska, en sjálfsagt reynir hún að komast á hvaða brak sem til næst í von um björgun.

Hún er sterk eðlishvötin um að halda sér á floti eins lengi og mögulegt er.


mbl.is Róbert til liðs við Bjarta framtíð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Álfheiður talar af sér og uppljóstrar um leynimakk

Miðstjórn  ASÍ mótmælir harðlega að ríkisstjórnin hafi leynilega gefið embættismönnum og forstöðumönnum ríkisstofnana fyrirskipanir um að halda að sér höndum vegna atvinnuuppbyggingar í landinu og reyndar tefja og svíkja öll fyrirheit sem ríkisstjórnarflokkarnir hafa gefið aðilum atvinnulífsins í þeim efnum á valdatíma sínum.

Þetta komst upp þegar Álfheiður Ingadóttir, þingmaður VG, talaði af sér á Alþingi og uppljóstraði um þessar leynifyrirskipanir, eða eins og ASÍ orðar það:  "Álfheiður sagði að þegjandi samkomulag ríkti um að ríkisfyrirtæki héldu að sér höndum í virkjanamálum, á meðan rammaáætlun hefði ekki verið afgreidd á Alþingi."

Auðvitað þarf þessi uppljóstrun ekki að koma neinum á óvart vegna margítrekaðra svika ríkisstjórnarinnar á munnlegum og skriflegum loforðum og samningum um að greiða fyrir því að uppbygging gæti hafist af fullum krafti við að auka atvinnu í landinu og minnkun atvinnuleysisins, en allt frá árinu 2009 hefur ríkisstjórnin svikið öll þau fyrirheit sem gefin hafa verið til ASÍ og SA um atvinnumál.

ASÍ, undir forystu Gylfa Arnbjörnssonar Samfylkingarmanns, hefur margoft mótmælt svikum stjórnarinnar á gerðum samningum og mikið þarf til að jafn dyggur stuðningsmaður beiti sér fyrir jafn harðorðum samþykktum og sambandið hefur ítrekað sent frá sér.

Þegar meira að segja Gylfa ofbýður svik samflokksmannna sinna og þeirra samstarfsmanna er fokið í flest skjól "velferðarstjórnarinnar". 


mbl.is Leynisamkomulag stjórnarflokkanna ólíðandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sósíalismi andskotans

Svíar státa sig af miklum jöfnuði í landi sínu og íslenskir aðdáendur ríkissósíalisma líta jafnan með mikilli aðdáun til Svíþjóðar og láta sig dreyma um að taka upp sem mest af sænskum reglum á Íslandi.

Þegar upp komst að kokkur nokkur í Svíþjóð hafði tekið upp á því að bjóða upp á betri, hollari og næringarríkari mat en gegnur og gerist í skólum landsins, datt skólayfirvöldum landsins ekki í hug að gera kröfur um úrbætur í skólamötuneytum almennt, heldur kröfðust þess að umræddur kokkur dragi úr gæðum síns matar og kæmi honum niður á sama plan og matur væri á í öðrum skólum.

Yfirvöldin töldu það "ósanngjarnt" að börnum í þessum tiltekna skóla væri boðið upp á betri mat en í öðrum skólum og þá skyldi "jafnað" niðurávið til þess að öll börn gætu borðað álíka "vondan og lélegan" mat dags daglega.

Þetta er ágætt dæmi um það sem kallað hefur verið "sósíalismi andskotans".


mbl.is Þótti bjóða upp á of góðan mat
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þingmaðurinn Þór Saari dæmdur lögbrjótur

Ráðherrar hafa, nánast i hrönnum, verið að fá á sig dóma fyrir lagabrot af ýmsum toga og enn bætist í hóp lagabrjóta á Alþingi með dómi Héraðsdóms Reykjaness yfir Þór Saari, þingmanni Hreyfingarinnar, fyrir meiðyrði gegn Ragnari Árnasyni, prófessor við Háskólann.

Þór Saari hafði á prenti haldið fram þeim ósannindum að Ragnar hefði verði á launum til fjölda ára hjá LÍÚ og því væri ekkert að marka rannsóknir hans og skrif um sjávarútvegsmál, enda mútuþegi útgerðarmanna.

Virðing fólks fyrir Alþingi hefur ekki verið mikil upp á síðkastið og ekki bæta meiðyrðadómar vegna orðasóða og ósannindamanna gegn þingmönnum þar úr.


mbl.is Þór Saari dæmdur fyrir meiðyrði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hefndin er sæt

Björn Valur Gíslason, þingmaður VG, hefur undanfarna daga verið í krossferð gegn Sveini Arasyni, ríkisendurskoðanda, og ætlar sér greinilega að bola honum úr starfi.

Tilefnið er skýrsludrög um rannsókn ríkisendurskoðunar á bókhalds- og mannauðskerfi ríkisins, sem greinilega hefur verið meingallað, a.m.k. til að byrja með, sem dagaði uppi hjá ríkisendurskoðun og virðist hafa gleymst í kerfinu, bæði af þeim sem báðu um skýrsluna og hjá ríkisendurskoðun.

Þrátt fyrir að slíkur trassaskapur sé ámælisverður hefur stríð Björns Vals gegn ríkisendurskoðanda vakið furðu og eitthvað þótt byggja að baki annað en trassagangur þings og ríkisendurskoðunar vegna þessarar skýrslu.

Viðhangandi frétt skýrir líklega hvað að baki þessum stríðsrekstri býr, en það er harðorð gagnrýni ríkisendurskoðunar um ýmsar gerðir og starfshætti ráðherra VG á stjórnartíma núverandi ríkisstjórnar.

Allt bendir því til þess að hér sé um að ræða hefndaraðgerðir ráðherra VG og eins og venjulega sé Birni Val beitt í skítverkin.


mbl.is Erfið samskipti við ráðherra VG
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband