Bloggfærslur mánaðarins, október 2012

Pólitískir framtíðardraumar Steingríms J. eru martröð þjóðarinnar

Steingrímur J. hefur látið það berast til "síns fólks" að það þurfi ekki að hafa áhyggjur af því að stórbreytingar verði á næstunni á hans pólitísku högum fái hann sjálfur einhverju um það ráðið.

Þessi tilkynning hans til "síns fólks" væri hins vegar stórkostlegt áhyggjuefni fyrir allt annað fólk í landinu, ef ekki væri fyrir þá vissu og trú að fylgi Vinstri grænna muni hrynja í vorkosningunum og því lítil hætta á öðru en að stórbreytingar verði á pólitískum högum Steingríms J. og flokks hans að þeim loknum.

Ekki er ólíklegt að Steingrímur J. trúi sjálfur eigin vonum og þrám um áframhaldandi setu sem "allsherjarráðherra" nánast alvaldur í næstu ríkisstjórn, eins og hann hefur verið í þeirri sem nú situr að sögn Björns Vals, en fái kjósendur einhverju ráðið munu þeir dagdraumar félaganna Steingríms J. og Björns Vals ekki rætast.

Fyrir þjóðina eru draumar þeirra félaga hrein martröð, enda mun ekkert gerast að ráði í atvinnu- og öðrum framfaramálum landsins fyrr en eftir stjórnarskipti.


mbl.is „Engar stórbreytingar á mínum högum“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Siðblinda er ekki augnsjúkdómur

Forstjóri og framkvæmdastjórar Eimskips hafa sent frá sér yfirlýsingu þar sem kvartað er yfir því að hvorki lífeyrissjóðir eða aðrir hluthafar félagsins hafi kvartað yfir kaupréttarsamningum þeirra, sem þessir sömu hluthafar samþykktu á aðalfudi árið 2010, fyrr en daginn fyrir hlutafjárútboð félagsins nú á dögunum.

Taka verður undir kvörtun þessara stjórnargreifa í Eimskip að auðvitað áttu fulltrúar hluthafa að hafa meiri og betri siðferðisvitund en þeir sjálfir og hefðu, væru þeir að einhverju leyti minna blindir á siðferði en undirmenn þeirra, umsvifalaust átt að hafna öðrum eins græðgissamningi og þarna hefur greinilega verið samþykktur athugasemdalaust.

Athygli vekur fimmta grein yfirlýsingar græðgisréttlætingar Eimskipsstjórnendanna, sem hljóðar svo: "5. Þegar kaupréttum var úthlutað var það alltaf gert m.v. virði félagsins á hverjum tíma án nokkurs afsláttar. Stjórnendur Eimskips höfðu áunnið sér 1,9% hlut í félaginu og miðað við útboðsgengið 208 krónur á hlut var ávinningur þess hlutar um 135 milljónir króna eftir greiðslu kaupverðs til félagsins og skatta. Sá ávinningur byggist á þeirri aukningu á virði félagsins sem orðið hefur síðastliðin 3 ár. Kaupréttirnir skiptust á sex stjórnendur."

 135 milljónir EFTIR SKATTA jafngilda sjöoghálfrimilljón króna Á ÁRI á hvern og einn þessara stjórnenda, sem sennilega hafa verið á sæmilegum launum við að stjórna fyrirtækinu, EFTIR SKATTA eins og þeir taka fram í yfirlýsingunni og þætti mörgum það afar rífleg þóknun fyrir að vinna vinnuna sína, sem reyndar er greidd með ríflegum ágætis launum að auki. Sjöoghálfamilljóni samsvarar hátt í þreföldum meðallaunum í þjóðfélaginu EFTIR SKATTA og meðaljóninn fær enga bónusa fyrir að mæta í vinnuna og sinna starfi sínu samkvæmt starfslýsingu.

Siðblinda er ekki augnsjúkdómur.  Hún er alvarlegur andlegur sjúkdómur sem líklega er ólæknandi. Að minnsta kosti virðist ekkert hafa slegið á einkennin frá árinu 2007.  


mbl.is Vissu af kaupréttaráætlun Eimskips
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Siðleysið afturkallað, eða frestað?

Nokkrir stórir lífeyrissjóðir lýstu því yfir að þeir myndu ekki taka þátt í hlutafjárútboði Eimskips vegna þess siðleysis stjórnenda fyrirtækisins að ætla sér að græða jafnvel hundruð milljóna króna persónulega á kaupréttarsamningum, sem heimilað hefðu þeim að kaupa hlutabréf í félaginu með 25% afslætti.

Forstjóri Eimskips hefur nú sent út tilkynningu um að hann og aðrir lykilstarfsmenn félagsins hafi afsalað sér kaupréttarsamningum sínum vegna þeirra mótmæla sem í afstöðu lífeyrissjóðanna felst og hneykslun almennings á því siðleysi sem þarna átti að fara fram.

Vonandi þýðir þessi yfirlýsing að algerlega hafi verið hætt við þessa hneykslanlegu fyrirætlun, en ekki að henni hafi einungis verið frestað þangað til betur stæði á og minni eftirtekt vekti.


mbl.is Falla frá kaupréttarsamningum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Verður Umboðsmaður Alþingis settur út í kuldann?

Umboðsmaður Alþingis hefur sent ríkisstjórninni harðorða gagnrýni vegna undarlegra, ómarkvissra og pólitískra aðgerða tengda sölu á hlut ríkisins í Hitaveitu Suðurnesja til Magma Energy á árinu 2010.

Þetta er aðeins eitt af mörgum tilfellum sem ráðherrar ríkisstjórnarinnar verða uppvísir að lélegri stjórnsýslu og í sumum tilfellum lögbrotum, en þar sem brotaviljinn hefur verið afar einbeittur hafa ráðherrarnir einungis orðið hortugri og hortugri eftir því sem brotunum fjölgar.

Hingað til hefur þjónum ríkisins ekki gefist vel að gagnrýna núverandi ráðherra, því slíkt hefur kallað á hörð viðbrögð af hálfu ráðherranna sem í hlut hafa átt, ríkisstjórnarinnar allrar, að ekki sé minnst á Björn Val Gíslason í þessu sambandi, en honum hefur verið beitt í vörninni og skítverkunum og alls ekki leiðst það hlutskipti.

Nýlega lýsti Björn Valur, f.h. ríkisstjórnarinnar, yfir algeru stríði við Ríkisendurskoðanda og mun sjálfsagt ekki láta af þeim hernaði fyrr en hann hefur komið ríkisendurskoðandanum úr starfi og komið þangað þóknanlegri VGliða.

Eftir þessa hörðu ádrepu Umboðsmanns Alþingis má reikna með að hann þurfi að eyða drjúgum tíma á næstunni í að verja sjálfan sig og stofnun sína fyrir ríkisstjórninni og útsendurum hennar.


mbl.is Blanda saman stjórnsýslu og pólitík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lady Gaga og Jón gaga

Söngkonan Lady Gaga, sem heimsótti landið dagpart um daginn, segist eftir það elska "borgarstjóra Íslands" og hlýtur þar að eiga við borgarstjóra Reykjavíkur sem hún hitti við opinbera afhendingu friðarverðlauna Yoko Ono.

Lady Gaga er, eins og allir vita, vinsæl og frábær söngkona sem klæðist alls kyns furðubúningum á tónleikum, en eins og sást við verðlaunaafhendinguna kann hún sig á mannamótum og klæðist við slík tækifæri í venjulegan og smekklegan fatnað og býður af sér góðan þokka.

Munurinn á henni og "borgarstjóra Íslands" er greinilega sá að hún kann að haga sér á mannamótum en hann ekki, því honum þótti sæma að mæta í verðlaunaafhendinguna íklæddur hálfgerðum trúðsbúningi sem átti að líkjast einhverri fyrirmynd borgarstjórans úr einni af uppáhaldsbíómyndinni hans.

Lady Gaga kann greinilega að skilja á milli þess að vera skemmtikraftur og "venjuleg" manneskja, en það á hins vegar ekki við um borgarstjórann elskaða.

Líklega hefur Lady Gaga bara svona gaman af raunverulegum furðufuglum.


mbl.is „Ég elska borgarstjóra Íslands“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Verður Leoncie bjargvættur þjóðarinnar?

Leoncie vandar fyrri ára dómnefndum Söngvakeppni sjónvarpsins ekki kveðjurnar og er það að vonum, sé það rétt sem hún segir að þær hafi með svívirði legum hætti haldið henni frá keppninni og þar með gert sigurvonir þjóðarinnar í Eurovision að engu.

Fram til þessa hefur íslenskt lag aldrei komist ofar en í annað sæti í keppninni, enda hafa dómnefndirnar og þjóðin aldrei valið söngvara af gæðaflokki Leoncie til þátttöku, nema ef vera skyldi um árið þegar Sylvía Nótt var send til að sigra heiminn, sem auðvitað skildi hvorki upp eða niður í þeim snillingi sem íslenska þjóðin elskaði og dáði meira en nokkuð annað á þeim árum.

Vonandi mun bæði dómnefndin og þjóðin nýta tækifærið núna og senda sigurstranglena söngkonu til að halda uppi heiðri þjóðarinnar á alþjóðavettvangi og ekki verður að efa að álit og virðing lands og íbúa mun vaxa að mun á alþjóðavísu eftir keppnina.

Ekki verður verra að söngkonan vill fórna sér fyrir þjóðina á fleiri sviðum í framtíðinni, t.d. með því að taka að sér forsætisráðherraembættið.

Leoncie er verðugur arftaki bæði Sylvíar Nætur og Jóhönnu Sigurðardóttur.


mbl.is Leoncie vill keppa í Evróvisjón
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Meirihluti minnihlutans ræður, eða hvað?

Nú virðist ljóst að minnihluti kosningabærra manna hafi tekið þátt í dýrustu skoðanakönnun Íslandssögunnar, þannig að úrslit hljóta að koma til með að liggja fyrir tiltölulega snemma enda fá atkvæði til að telja.

Hafi meirihluti minnihlutans sagt JÁ við fyrstu spurningunni í skoðanakönnunni munu fylgismenn tillagnanna túlka niðurstöðuna sem stórsigur, en hafi meirihluti minnihlutans sagt NEI við spurningunni mun verða sagt að meirihluti meirihlutans sem sat heima hafi í raun verðið fylgjandi tillögunum, en ekki nennt á kjörstað.

Verði niðurstaðan að meirihluti minnihlutans hafi sagt JÁ, þá verða tillögurnar lagðar fram óbreyttar á Alþingi og veturinn fer þá að mestu í karp um þær og enda í "málþófi" skömmu fyrir kosningarnar í vor.

Ef meirihluti minnihlutans hefur sagt NEI við spurningu nr. 1, mun það líklega ekki skipta neinu máli og tillögurnar verði samt sem áður lagðar óbreyttar fyrir þingið, enda mun Hreyfingin skilyrða áframhaldandi tryggingu fyrir því að verja ríkisstjórnina vantrausti að svo verði gert og tillögunum þröngvað í gegnum þingið og nýja almenna atkvæðagreiðslu samhliða þingkosningunum.

Niðurstaðan mun því í raun ekki skipta neinu máli um framgang málsins á næstunni.


mbl.is Talning atkvæða hafin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

NEI í skoðanakönnunni

Í dag fer fram skoðanakönnun meðal þjóðarinnar um uppkast nefndar að breyttri stjórnarskrá og segast verður að miðað er í lagt til að kanna hug almennings til þessara fyrstu draga að breytingum á stjórnarskránni, þar sem venjuleg Gallupkönnun hefði verið bæði fyrirhafnarminni og ekki kostað nema brot af því sem þessi skoðanakönnun mun kosta.

Drögin hafa legið fyrir á annað ár, en litlar umræður farið fram um þau fyrr en undanfarna daga og eftir því sem fleiri, leikir og lærðir, hafa tjáð sig um málið hafa fleiri og fleiri gallar og annmarkar komið í ljós sem sýna að algerlega er ótækt að byggja á mörgum af tillögum nefndarinnar og mikil réttaróvissa myndi skapast við upptöku þeirra í stjórnarskrá landsins.

Þrátt fyrir að margt megi finna ágætt í tillögum nefndarinnar eru vankantarnir og óvissan um þýðingu margra þeirra slík, að engin leið er að svara fyrstu spurningunni í skoðanakönnunni játandi og miklar efasemdir eru um flestar hinna spurninganna.

Þar sem mikil umræða á eftir að eiga sér stað um breytingar á stjórnarskránni og í ljós hefur komið að fyrirliggjandi tillögur geta ekki nema að litlu leyti orðið grundvöllur slíkra breytina, hlýtur svar flestra í könnunni að verða eitt stórt NEI, sérstaklega við spurningu nr. 1.

Meira að segja Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, hefur sagt að mikil vinna sé framundan við yfirferð og breytingar á tillögunum og að nánast eigi eftir að endursemja þær að hluta og leggja síðan fyrir þjóðina í kosningum næsta vor, vakna enn frekari efasemdir um gagnsemi þeirrar könnunar sem fram fer í dag.

Til að undirstrika þann vilja að miklu nánari umfjöllunar sé þörf um stjórnarskrárbreytingar er ekki hægt að svara á annan hátt í dag en með NEI.


mbl.is Kosning hafin - talningin tímafrek
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Annað bankahrun í Evrópu? Með vinstri stjórn á Íslandi?

Vinstri menn á Íslandi hafa frá hruni rekið þann áróður að bankakreppan á vesturlöndum árið 2008 hafi verið ríkisstjórn Geirs H. Haarde að kenna, reyndar með þátttöku Davíðs Oddssonar, þáverandi seðlabankastjóra. Samkvæmt hefði ekki orðið neitt bankahrun í veröldinni hefði eitthvað verið spunnið í þá kumpána sem leiðtoga. Reyndar þykist enginn muna að Samfylkingin fór með bankamálin í þeirri ríkisstjórn, enda passar það illa inn i áróðurinn.

Í þessu ljósi vekur upphaf fréttar af heimsókn og fyrirlestri hinnar vinstrisinnuðu Evu Joly mikla athygli, en hún hefst á þessum orðum: "Eva Joly hefur áhyggjur af öðru fjármálahruni og segir banka- og fjármálamenn í heiminum ekkert hafa lært af kreppunni og að risavaxnir bónusar séu aftur orðnir að veruleika."  Um þessar mundir er ESB einnig að samþykkja nýja eftirlitsstofnun sem á að fylgjast með bönkum í evrulöndunum og grípa í taumana, fari þeir yfir strikið í fjármálavafstri sínu.

Það hljóta að þykja mikil tíðindi meðal vinstri manna á Íslandi að hvergi í heiminum, nema á meðal þessara sömu íslensku vinstri manna, skuli nokkrum einasta manni detta í hug að fjármála- og bankakreppan árið 2008 hafi verið íslenskum stjórnmálamönnum að kenna og ekki einu sinni íslenska seðlabankanum.

Meira að segja kratar og kommar í öðrum löndum vita hverjir og hvað varð þess valdandi að  kreppan skall á og að svokallaðir útrásarvíkingar, en ekki stjórnmálamenn, urðu þess valdandi  að hún kom illa niður á Íslendingum.

Verði önnur bankakreppa í  Evrópu eða Bandaríkjunum munu íslenskir vinstrimenn líklega seint kenna vinstri stjórn Jóhönnu og Steingríms J. um hana, þótt slíkt væri rökrétt framhald af fyrri áróðri þeirra um bankakreppuna árið 2008.


mbl.is Óttast annað hrun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Athyglin beinist að vaxtaokrinu

Ólafur Darri Andrason, hagfræðingur ASÍ, vakti athygli á vaxtaokrinu sem viðgengist hefur hér á landi undanfarna áratugi, ekki síst á húsnæðislánum og í erindi sínu á þingi ASÍ benti hann á húsnæðislánakerfi Dana sem fyrirmynd sem athugandi væri að sækja fyrirmynd til.

Tími er til kominn að taka upp baráttu gegn vaxtaokrinu, en einblína ekki eingöngu á verðtrygginguna eins og hingað til hefur verið nánast eins og prédikun ofsatrúamanna í umræðunni um lánamál skuldaglaðra Íslendinga.

Ólafur Darri benti til dæmis á að álag Íbúðalánasjóðs á lán sé 1,4% og hafi fjórfaldast frá árinu 2004. Einungis þetta álag hækkar vaxtagreiðslu þess sem skuldar 20 milljóna króna húsnæðislán um 280 þúsund krónur á ári og þar með milljónum yfir lánstímann.

Það er fagnaðarefni ef þessi þarfa ábending Ólafs Darra verður til þess að breyta viðhorfinu til þess hve vaxtaokrið er, og hefur verið, lántakendum hrikalega óhagstætt og að það sé ekki eingöngu verðtryggingin sem valdið hefur greiðsluvandræðum skuldara hér á landi.


mbl.is Vill lækka vexti með aðferð Dana
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband