Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2011

Guðjón er ÞJÁLFARINN

Guðjón Þórðarson hefur margsannað að hann er besti knattspyrnuþjálfari landsins, enda nær hann nánast undantekningalaust frábærum árangri með þau lið, sem hann þjálfar.

Í sumar tók hann að sér þjálfum ungs liðs BÍ/Bolungavík og hefur á skömmum tíma gert úr því lið, sem enginn getur fyrirfram verið viss um að vinna. Þetta sannaðst eftirminnilega í gær, þegar liðið vann spútniklið ÍA á heimavelli þess, 2-1, en ÍA er lang efst í riðlinum og hefði, með sigri, getað tryggt sér rétt til að leika í efstu deild á næsta ári.

Þetta er sætari sigur fyrir BÍ/Bolungavík fyrir það, að Akranes er heimabær Guðjóns og hann er fyrrverandi þjálfari Skagaliðsins og náði frábærum árangri með liðið á sínum tíma.

Enginn þjálfari landsliðs karla í knattspyrnu hefur náð eins góðum úrslitum í landsleikjum og Guðjón gerði á sínum ferli, sem landsliðsþjálfari, og nú er svo ástatt með landsliðið að enginn reiknar lengur með að það vinni leiki sína. Núna er markið ekki sett hærra en svo, að vonast til að niðurlæging liðsins verði sem minnst í hverjum leik.

Landsliðsþjálfarastaðan losnar í haust og ætti Guðjón Þórðarson að vera sjálfsagður til að taka þar við. Vafalaust tækist honum á skömmum tíma að laga orðspor liðsins umtalsvert.

Fyrsta takmark hans ætti að vera að koma íslenska liðinu upp fyrir það færeyska á heimslistanum.


mbl.is Þórður: Sætt að vinna fyrir Guðjón
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Belgía og Frakkland næst?

Vegna þess hruns sem orðið hefur að undanförnu á hlutabréfamörkuðum heimsins, hafa ríkisstjórnir og seðlabankar gripið til ýmissa ráða til að róa fjárfesta og skapa ró á fjármálamörkuðum.

Nýjasta útspilið í þeim efnum er bann fjögurra Evruríkja við skortsölu hlutabréfa, en það eru Ítalía, Spánn, Belgía og Frakkland. Tvö fyrstnefndu ríkin hafa átt við mikla efnahagserfiðleika að stríða, ekki síst Spánn, Belgía hefur verið nefnd í sambandi við hugsanlega neyðaraðstoð, en að Frakkland skuli vera á þessum lista vekur alveg sérstaka athygli.

Frakkland hefur, ásamt Þýskalandi, verið leiðandi ríki innan ESB og þegar stórar ákvarðanir þarf að taka varðandi evruna og björgun illa staddra evruríkja, setjast ráðamenn í þessum tveim löndum jafnan saman á einkafundum og ráða ráðum ríkjanna og aðrir minni spámenn verða síðan að fylgja þeirri stefnu sem leiðtogar Frakklands og Þýskalands ákveða.

Undanfarið hafa hlutabréf franskra banka hríðfallið á mörkuðum og bannið við skortsölunni því örvæntingarráð til að reyna að koma í veg fyrir frekari lækkanir þeirra.

Aukist efnahagsörðugleikarnir í Frakklandi á næstunni er útséð um hvað verður um evruna sem gjaldmiðil og þá fyrst myndi verulega fara að hrikta í undirstöðum ESB og óvíst að sambandið stæðist slíkt áfall.

Hvenær skyldi "samninganefnd" Íslands um innlimun landsins í þetta ógæfusamband verða kölluð heim?


mbl.is Lækkun þrátt fyrir bann
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

(Enn einn) skrýtinn ársreikningur

Olíufélagið N1 hefur birt ársreikning sinn fyrir árið 2010 og þar kemur fram að bókfært tap félagsins á árinu nam tæpum tólf milljörðum króna, sem verður að teljast með ólíkindum, þar sem rekstrartekjur voru um fjörutíuogsex milljarðar króna.  Tapið var því hátt í 25% af rekstrartekjum og verður það að teljast með nokkuð miklum ólíkindum.

Tvær upphæðir á rekstrarreikningi félagsins vekja sérstaka athygli, en það er að fjármagnskostnaður, umfram fjármagnstekjur, nam um 8,6 milljörðum króna og hafði hækkað um sjö milljarða á milli áranna 2009 og 2010.  Fjármagnskostnaðurinn árið 2010 var 5,4 milljörðum krónum hærri en á hrunárinu mikla, 2008, þegar gegnið hrundi og gengistap fyrirtækja var gríðarlegt.

Hin upphæðin sem athygli vekur er niðurfærsla viðskiptavildar að upphæð 4,5 milljarðar króna, en hún hlýtur að skýrast af því að verið sé að afskrifa kaupverð einhverra fyrirtækja á undanförnum árum, sem keypt hafa verið á allt of háu verði, sem reyndar var venja, frekar en hitt, á árunum fyrir hrun.

Til skýringar fylgja hér með nokkrar tölur úr ársreikningi N1: 

                                               2010                  2009                    2008                       2007

Rekstrarhagnaður              1.079.460           1.974.879             2.092.265              1.317.926

Fjármunat.(-gjöld)       (8.599.230)      ( 1.599.817)      ( 3.366.546)           ( 355.351)

Hagn.(tap) f.skatta           (7.519.770)              375.062          ( 1.274.281)                962.575

Reiknaðir skattar                   226.504              ( 97.656)               163.314               ( 101.682)

Niðurf.viðskiptav.         (4.531.000)

Hagn.(tap) ársins            (11.824.266)              277.406          ( 1.110.967)                860.893

 

Fréttamenn hljóta að leita nánari skýringa á þessari ótrúlegu hækkun fjármagnskostnaðar á milli áranna 2009 og 2010, því jafnvel þó allar skuldir félagsins hefðu verið á dráttarvöxtum allt árið, dugar það varla til að skýra þennan gífurlega fjármagnskostnað.

Ekki síður væri forvitnilegt að vita hvaða viðskiptavild hafi verið niðurfærð á árinu og hvað fyrirtækið reiknar með að þurfa að niðurfæra miklu meira af slíku á næstu árum. 

Ekkert í ársreikningi N1 bendir til þess að stjórnendur félagsins standi undir þeim háu launum, sem þeir hafa þegið fyrir að mæta í vinnuna. 


mbl.is N1 tapaði tæpum 12 milljörðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Norræn "velferð"

Nú er svo komið að 51% Dana stunda ekki vinnu af ýmsum ástæðum svo sem vegna þess að þeir eur atvinnulausir, elli- eða örorkulífeyrisþegar, börn eða námsmenn. Þau 49% sem eru vinnandi verða að skapa verðmætin sem eiga að standa undir sínum eigin lífskjörum, sem og hinna sem ekki eru vinnandi.

Hér á landi mun hlutfall þeirra sem ekki eru virkir á vinnumarkaði vera á bilinu 40-45%, þó erfitt sé að finna nákvæmar tölur um það á netinu, og sjá allir að slíkt kann ekki góðri lukku að stýra, enda Danir komnir algerlega á endastöð í þessu efni og leita nú allra leiða til að snúa þessari þróun við.

Með áframhaldandi stefnu og störfum "Norrænu velferðarstjórnarinnar" á Íslandi verður þess skammt að bíða að Dönum verði náð í þessari öfugþróun "velferðarinnar".

Velferð verður ekki aukin og þróuð með því að fækka stöðugt vinnandi höndum.


mbl.is Fáir Danir á vinnumarkaði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gnarr pride

Óstjórnin virðist vera orðin svo mikil hjá Reykjavíkurborg að meirihlutanum tekst ekki einu sinni að klára sig af helstu skylduverkum sínum, eins og sést best á því að kalla þarf saman aukafund í Borgarstjórn Reykjavíkur, í fyrsta sinn í sögunni, til þess að afgreiða þriggja ára fjárhagsáætlun, sem skylda er að afgreiða í febrúarmánuði ár hvert.

Þessi þriggja ára áætlun er ekki lögð fram vegna frumkvæðis meirihlutans, heldur að kröfu minnihlutans í borgarstjórn og eftir áminningar innanríkisráðuneytisins og fésektir Kauphallarinnar vegna vanskila á ársreikningi.

Engum fréttamanni virðist lengur detta í hug að taka Jón Gnarr tali vegna málefna borgarinnar, enda til lítils að ræða við hann um þau efni, þar sem hann getur aldrei svarað fyrir nokkurt mál, svo vit virðist vera í. Nú orðið ber mest á borgarstjóranum á Gay Pride, þar sem hann sýnir borgarbúum innsýn í kjólasafn sitt og fer fremstur í Gleðigöngunni í þeim tilgangi að beina sem mestri athygli að sjálfum sér, en skyggja í leiðinni á megintilgang göngunnar, sem er að berjast fyrir jafnrétti samkynhneygðra og jafnvel annarra minnihlutahópa.

Ef til vill dreymir borgarstjórann um að breyta nafni dagsins í Gnarr Pride og gera hann að árlegum degi til hyllingar sjálfs sín. Af því tilefni er rétt að benda á orðabókarþýðingu orðsins Pride: "NAFNORÐ: stolt h.; dramb h.; stærilæti h.; hroki k.; mont h.; ofmetnaður k.; mikilmennska kv.; hátindur k.; hápunktur k.; ljónahjörð kv.;"

Þó samkynhneygðir hafi valið þetta nafn vegna fyrstu merkingar orðsins samkvæmt orðabókinni, þ.e. stolt, hvarflar að sú hugsun að þýðingarnar þar á eftir eigi betur við borgarstjórann. 


mbl.is Borgaryfirvöld áminnt þrisvar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stýrivextir Seðlabanka Íslands og alvöru seðlabanka

Már Guðmundsson, seðlabankastjóri, hefur verið kallaður guðfaðir þeirrar peningamálastefnu sem fylgt hefur verið á Íslandi síðustu tuttugu ár, en grunnur að henni var lagður í tíð Más sem aðalhagfræðings bankans.

Már lét þau orð falla nýlega, að afar líklegt væri að stýrivextir seðlabankans yrðu hækkaðir við næstu vaxtaákvörðun, þ.e. nún í ágústmánuði.  Um slíka mögulega vaxtahækkun segir Greiningadeild Arionbanka m.a:  "Slík hækkun myndi hafa neikvæð áhrif á efnahagsuppbyggingu í landinu og þann brothætta bata sem framundan er. Þá yrði vaxtahækkun algjörlega á skjön við það sem er að gerast úti í heimi en biðstaða virðist vera á frekari vaxtahækkunum í Evrópu eftir hrun fjármálamarkaða síðustu daga."

Vaxtastefna Seðlabanka Íslands hefur reyndar verið algerlega á skjön við það sem þekkist í þróðuðum löndum og vextir á Íslandi hafa ekki getað flokkast undir neitt annað en okurstarfsemi.  Þar sem flest lán eru verðtryggð ættu vextir af þeim alls ekki að vera hærri en 1,5-2%, en varla finnast lægri vextir af slíkum lánum sem lægri eru en 4% og upp í 8%, eða jafnvel meira.  Slíkt vaxtaokur þekkist varla á byggðu bóli annarsstaðar en hér á landi.

Seðlabanki Bandaríkjanna lét þau boð út ganga í gær, að stýrivextir bankans yrðu í kringum 0% að minnsta kosti fram á árið 2013 og var sú yfirlýsing gefin til að örva bandaríska hagkerfið, auka fjárfestingu og minnka atvinnuleysi.

Seðlabanki Íslands og peningamálastjórnun Más Guðmundssonar gengur í þveröfuga átt, enda allar ráðstafanir bankans og ríkisstjórnarinnar til þess fallnar að draga úr hagvexti, minnka fjárfestingar og auka atvinnuleysi. 


mbl.is Spá óbreyttum vöxtum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Böðull ríkisstjórnarinnar

Strax, þegar "villikettirnir" yfirgáfu þingflokk Vinstri grænna og lýstu því yfir að þeir væru hættir að styðja ríkisstjórnina, var augljóst að stjórnin myndi einungis lifa þangað til að Þráinn Bertelsson myndi hefja böðulsöxina á loft.

Nú hefur það gerst, sem fyrirséð var, að Þráinn er farinn að hóta ríkisstjórninni að láta axarhöggið ríða, verði ekki farið að vilja hans varðandi fjárveitingar til gæluverkefna sem honum hugnast.

Það er aumt fyrir ríkisstjórnina að eiga líf sitt undir einum misheppnaðasta og duttlungafyllsta stjórnmálamanni þingsögunnar.


mbl.is Setur skilyrði fyrir stuðningi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ísland veitir Grikklandi fjárhagsaðstoð

Hvort sem menn trúa því eða ekki, þá ber Íslandi skylda til að veita ríkjum innan ESB fjárhagsaðstoð ef og þegar þau lenda í efnahagsþrengingum.

Þetta er ekkert sem Íslendingar gera af manngæsku sinni einni saman, heldur er þetta ein af þeim kvöðum sem á landinu hvíla samkvæmt samningnum um evrópska efnahagssvæðið, eða eins og segir í fréttinni:   "Löndin eru ekki í Evrópusambandinu en eru aðilar að EES-samningnum. Í því ljósi ber þeim löndum að veita löndum í Evrópusambandinu fjárhagsaðstoð til að stuðla að jafnvægi innan landa Evrópusambandsins."

Ísland lenti í gífurlegum efnahagsþrengingum í kjölfar bankahrunsins haustið 2008 og enginn hefur heyrt minnst á að þessi kvöð um gagnkvæma fjárhagsaðstoð EESríkja hafi orðið til þess að eitt einasta land innan ESB, né Noregur og Lichtenstein sem eru innan EES, hafi boðist til að styrkja landið um eina einustu krónu vegna þeirra erfiðleika.

Hins vegar þurftu Íslendingar nánast að heyja efnahagslega styrjöld við Breta og Hollendinga í kjölfar þessara efnahagshamfara og ESB studdi dyggilega við bakið á árásarþjóðunum og Noregur stillti sér jafnframt upp með þeim gegn Íslendingum.

Ætli Ísland sé eina landið innan EES sem undanþegið er allri aðstoð, lendi það í efnahagsþrengingum? 


mbl.is Íslendingar veita Grikkjum fjárhagsaðstoð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Viðbót við ákærurnar á hendur Geir H. Haarde

Gígurleg efnahagsleg vandamál blasa nú við heimsbyggðinni vegna skuldavanda ýmissa ríkja, austan hafs og vestan, og evran magnar upp vandamálin þar sem komið er í ljós að sameiginleg mynt hentar ekki hagkerfum hinna ýmsu Evrópuríkja, t.d. Þýskalands og Grikklands, enda eiga þessar þjóðir lítið sameiginlegt í peningalegum hugsunarhætti.

Óttinn við það sem framundan kann að vera í efnahagsmálunum kemur skýrt fram í eftirfarandi setningu úr viðhangandi frétt:  "Leiðtogar 20 stærstu iðnríkja heims annars vegar og sjö stærstu iðnríkja heims hins vegar héldu símafundi í dag og Evrópski seðlabankinn bjó sig undir opnun markaða á Nýja-Sjálandi, fyrsta markaðnum sem opnar í Asíu í kjölfar lækkunar lánshæfseinkunnar Bandaríkjanna á föstudag."

Enginn skyldi láta sér detta í hug að leiðtogar þessara ríkja skelli saman símafundi sín á milli og sumir komi sérstaklega heim úr sumarfríum, án þess að hrein skelfing hafi gripið um sig vegna þeirrar þróunar sem verið hefur á mörkuðum undanfarna daga og þess sem menn vænta á næstunni.  Í fréttinni segir ennfremur:  "Ótti við kreppu á heimsvísu, sem margir telja geta orðið verri en þá sem varð árið 2008, varð til þess að stjórnmálamenn um víða veröld frestuðu sumarleyfum sínum."

Allir á Íslandi vita, a.m.k. vinstri menn, að efnahagskreppan 2008 var Geir H. Haarde að kenna, enda hefur honum verið stefnt fyrir Landsdóm til að svara til saka fyrir að hafa ekki komið í veg fyrir hana.

Þar sem leiða má líkur að því að vandamálin sem nú steðja að efnahagslífi heimsins eigi rætur að rekja aftur fyrir árið 2008, hljóta íslenskir vinstrimenn að bæta ákærum vegna núverandi vandamála við kærurnar sem þegar hefur verið lýst á hendur Geir H. Haarde, strax að loknu réttarhléi. 


mbl.is Erfið vika framundan
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Páll Óskar og "helvítis" eitt og annað

Páll Óskar, stórsnillingur og óskabarn þjóðarinnar, segir a Gay Pride snúist ekki lengur um réttindabaráttu samkynhneigðra, heldur sé dagurinn og Gleðigangan orðin að allherjaráminningu um almenn mannréttindi.

Alveg getur þetta verið rétt hjá Páli Óskari, en hins vegar skýtur hann yfir markið, eða fram hjá því, með því að halda því fram að allir aðrir en hvítir, hægrisinnaðir karlmenn, sem helst eru efnaðir, liggi undir árásum og svívirðingum á netinu og víðar.

Fáir hafa einmitt legið undir öðrum eins árásum, úthrópunum og svívirðingum á ýmsum netsíðum og einmitt hægri sinnað fólk, hvort heldur það erum við, þessir hægri sinnuðu sem eigum litla peninga, eða hinir sem sem eiga meira af þeim.

Það hefur ekkert vantað upp á að þeir hægrisinnuðu hafi verið kallaðir "helvítis" þetta og hitt, rétt eins og aðrir þjóðfélagshópar.

Það eru reyndar einna helst "helvítis" dusilmennin, sem ekki þora að koma fram undir nafni, sem vestir eru í þessu efni a.m.k. í bloggheimum.


mbl.is Mikil umræða um orð Páls Óskars
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband