Bloggfærslur mánaðarins, júní 2011
21.6.2011 | 16:09
Ríkisstjórnin stendur aldrei við sín loforð
Aðilar vinnumarkaðarins hafa nú staðfest kjarasamningana sem undirritaðir voru þann 5. maí s.l., þrátt fyrir að ríkisstjórnin hafi ekki staðið við loforðin sem hún gaf í tengslum við þá, um ýmsar ráðstafanir til að koma atvinnu- og efnahagslífinu á hreyfingu.
Það, sem ríkisstjórnin lofaði helst að gera, var að hætta að flækjast fyrir þeim möguleikum, sem til skoðunar hafa verið undanfarna mánuði, til uppbyggingar orkufreks iðnaðar, ásamt því að beita sér fyrir sátt um fiskveiðistjórnunarkerfið og jafnframt þóttist stjórnin ætla að beita sér fyrir stórátaki í vegagerð.
Öll þessi loforð voru endurnýtt, en þau voru inni á loforðalista ríkisstjórnarinnar við undirritun Stöðugleikasáttmálans í júní 2009. Líklegra er, en hitt, að enn verði hægt að nýta sama loforðalistann við endurnýjun kjarasamninga árið 2014, nema ríkisstjórnin hrökklist frá völdum fljótlega og ný stjórn taki að sér að efna fyrirheitin.
Svo virðist sem aðilar vinnumarkaðarins hafi gert þá kröfu að vegaframkvæmdir yrðu fjármagnaðar með aukinni skattpíningu, enda var það upphaflega ætlun Ögmundar að fara þá leið, en guggnaði á því vegna eindreginna mótmæla fjörutíuþúsund skattgreiðenda.
Hafi ekki verið um neina baktjaldasamninga um skattpíningu vegna vegagerðar á suðvesturhorni landsins að ræða, er óhætt að fagna staðfestingu kjarasamninganna, enda hefur ríkisstjórnin þá enga afsökun fyrir áframhaldandi ræfildómi í efnahagsstjórnuninni.
Staðfesta kjarasamning | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
21.6.2011 | 07:01
Er SA að heimta aukna skattlagningu?
Getur það verið að Samtök atvinnulífsins og jafnvel ASÍ séu að gera þá kröfu á hendur ríkisstjórninni, að skattar verði hækkaðir til þess að flýta vegaframkvæmdum yfir Hellisheiðina?
Ekki var annað að heyra á fulltrúa SA í sjónvarpsfréttum fyrir nokkrum dögum, en að samtökunum fyndist alveg sjálfsagt að leggja nýja skatta á alla þá, sem leið eiga um suðvesturhorn landsins, enda yrði ekki byrjað að innheimta þá fyrr en eftir tvö til þrjú ár.
SA hafa kvartað mikið yfir þeim skattahækkunum, sem yfir atvinnulífið hafa dunið undanfarin tvö ár og því með ólíkindum ef samtökin leyfa sér að krefjast skattahækkana á almennt launafólk í þeim eina tilgangi að útvega einum til tveim verktökum vinnu við vegaframkvæmdir, sem ekki einu sinni eru mjög mannaflsfrekar.
Almenningur hefur þegar hafnað sérstökum vegasköttum sem kæmu sem viðbót við alla aðra gjaldapíningu sem skattgreiðendur þurfa að þola vegna notkunar á bifreiðum sínum.
Kallað eftir skýrari svörum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.6.2011 | 17:36
Nefnd ofan í nefnd, sem fari yfir nefnd, sem nefnd verði nefndanefnd
Ólína Þorvarðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, hefur farið mikinn undanfarin misseri og haft uppi stór orð um fiskveiðistjórnunarkerfið og talið sig hafa allar lausnir á vanköntum þess á takteinum.
Hún hefur veri ein af fáum, sem stutt hafa frumvörp Jóns Bjarnasonar, sjávarútvegsráðherra, en virðist nú vera farin að efast um ágæti hugmynda Jóns og sinna eigin.
Nefnd sex hagfræðinga, sem Jón fékk til að gera úttekt á frumvörpum sínum eftir að þau voru lögð fram í stað þess að gera það á vinnslutíma þeirra, fann þeim flest til foráttu og kvað nánast upp dauðadóm yfir þeim, enda myndu þau skaða atvinnugreinina í heild og þar með verða þjóðarbúinu til stórtjóns.
Ólína leggur nú til að sett verði á fót enn ein nefnd, skipuð hagfræðingum, samfélagsfræðingum og lögfræðingum, til að fara yfir störf og niðurstöður hagfræðinganna, sem skipuðu nefndina hans Jóns.
Ýmsar nefndir hafa verið skipaðar til að fjalla um og gera tillögur um fiskveiðistjórnunina og má t.d. benda á "Sáttanefndina" sem skilaði samhljóða tillögum í fyrrahaust, sem engin sátt hefur náðst um.
Vinnubrögðin í þessu mesta hagsmunamáli þjóðarinnar er ríkisstjórninni til háborinnar skammar og svo sem ekki að búast við öðru af hennar hálfu.
Vill úttekt á áhrifum núverandi kvótakerfis | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
20.6.2011 | 11:57
Skilar friðunin engu?
Jón Kristjánsson, fiskifræðingur, hefur lengi róið nánast einn á báti með þá skoðun að friðun fiskistofnanna skili engum árangri í stækkun þeirra og vill meina að fæðuframboðið og önnur skilyrði í hafinu ráði úrslitum um vöxt þeirra og viðgang.
Hafró hefur nú birt skýrslu um langtímabreytingar í fæðu þorsksins og þar virðist koma fram að þorskurinn sé langt kominn með að éta upp rækju-, loðnu- og sandsílastofnana, ásamt því að éta allt annað sem að kjafti kemur, þar á meðal smáfisk af eigin tegund, til viðbótar við annan "meðafla" svo sem síld og kolmunna.
Jón segir þetta sanna kenninguna um að það sé ekki veiðin sem hafi áhrif á þorskstofninn, heldur fæðuframboðið.
Það vekur samt upp þá spurningu hvers vegna þorskstofninn stækkar ekki, þrátt fyrir að hann sé langt kominn með að éta aðra stofna upp til agna og veiðin í hann verið eins takmörkuð og raunin hefur verið.
Greinilega verður að fara nákvæmlega ofan í saumana á öllu þessu máli og hleypa inn í umræðuna skoðunum fleiri fræðinga en þeirra sem eru á launum hjá hinu opinbera.
Friðun skilar ekki árangri | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
19.6.2011 | 22:37
Hverju lofaði Ögmundur um vegagerð?
Aðilar vinnumarkaðarins, SA og ASÍ, halda því fram að Ögmundur Jónasson, Innanríkisráðherra, hafi lofað í tengslum við undirritun kjarasamninganna 5. maí s.l, fyrir hönd ríkisstjórnarinnar, að ráðist yrði í flýtiframkvæmdir í vegagerð til að skapa verktökum aukin verkefni og þar með minnkun atvinnuleysis í þeirri atvinnugrein.
Ögmundur hafði áður, þ.e. í fyrrahaust, boðað aukningu vegaframkvæmda í nágrenni Reykjavíkur, sem fjármagnaðar skyldu með sérstökum vegatollum, en þeim fyrirætlunum var mótmælt kröftuglega af skattgreiðendum, sem fengið hafa meira en nóg af skattahækkanabrjálæði ríkisstjórnarinnar.
Vegna þessara mótmæla gegn sífellt nýjum sköttum á bifreiðaeigendur og aðra skattgreiðendur segist Ögmundur vera hættur við alla þá vegagerð, sem hann hafði áður áætlað að láta ráðast í með auknu skattaæði. Nú segir hann að málin "fái að þroskast hægar" og ekkert sé ákveðið um vegagerð á þessu ári og því næsta. Það muni bara koma í ljós með tíð og tíma.
Upplýsa verður hvort og þá hverju Ögmundur og ríkisstjórnin lofuðu varðandi atvinnumál í sambandi við kjarasamningana, bæði um vegagerð og önnur atvinnuskapandi verkefni, sem á könnu ríkisstjórnarinnar eru og eiga að vera.
Ekki geta báðir aðilar, þ.e. aðilar vinnumarkaðarins og ríkisstjórnin, verið að segja þjóðinni ósatt.
Staðreyndirnar hljóta að verða lagðar á borðið áður en ákvörðun um ógildingu þriggja ára kjarasamninga verður tekin á þriðjudaginn kemur.
Hreinskiptinn fundur | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.6.2011 | 12:18
Eru íslensk stjórnvöld að gera eitthvað í þessum málum?
Svíar hafa hrundið af stað rannsókn á þvínguðum, eða fyrirfram ákveðnum hjónaböndum í Svíþjóð og greiðslum fyrir brúðirnar, en því hærri sem heimanmundurinn er, því erfiðara fyrir konurnar að losna úr slíkum hjónaböndum síðar, hversu viljugar sem þær kynnu að vera til þess.
Í fréttinni er t.d. vitnað til orða jafnréttisráðherra Svíþjóðar: "Nyamko Sabuni segir að ríkisstjórnin hafi reynt að berjast gegn heiðursmorðum á þremur sviðum, með upplýsingagjöf, lagasetningu og vernd fyrir fórnarlömbin. 10.000 lögreglumenn hafa verið fræddir um heiðursofbeldi en einnig fólk sem sinnir félagslegri aðstoð eða kemur að skólamálum. Þá hefur ungt fólk fengið fræðslu um réttindi sín."
Erlendum ríkisborgurum og innflytjendum hefur fjölgað mikið hér á landi undanfarin ár, þar á meðal múslimum, en heiðursmorð eru einkum drýgð í nafni þeirrar trúar og því sjálfsagt einungis tímaspursmál hvenær slík mál koma upp hér, sem annarsstaðar.
Þó nú ríki sá pólitíski rétttrúnaður að helst enga trúarbragðafræðslu megi viðhafa í skólum og þá allra síst fræðslu um þá trú, sem iðkuð hefur verið í landinu nánast frá landnámi og siðir, venjur og lög landsins byggja á, verður að vera hægt að ætlast til að lögreglumönnum, kennurum og starfsfólki velferðarþjónustunnar séu kynnt þessi hætta og þá ekki síður hinum erlendu konum um hvert þær geti snúið sér, verði þær fyrir ofbeldi ættingja sinna eða hótunum og áreytni trúarleiðtoga.
Eru íslensk stórnvöld á verði fyrir þessari vá, sem vafalaust mun skjóta upp kolli sínum hér fyrr eða síðar?
Svíar rannsaka þvinguð hjónabönd | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
18.6.2011 | 22:00
Vill Jón Gnarr sem leiðtoga lífs síns
Samkvæmt frétt mbl.is lét Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, þingmaður VG, í ljós þá heitustu ósk sína í viðtali við Guardian, að Besti flokkurinn undir forystu Jóns Gnarrs byði fram í næstu kosningum, til að vinna bug á spillingunni sem grasserar innan núverandi stjórnarflokka, að hennar sögn.
Það verður að teljast með afbrigðum undarlegt að þingmaður skuli hafa slíka ótrú á sjálfum sér, flokksfélögum sínum og öðrum þingmönnum, að gefa í skyn að allt séu þetta eintómir glæpamenn og spillingarbófar, sem uppræta þurfi með öllum tiltækum ráðum.
Jafn furðulegt er að þingmaðurinn skuli ekki sjá neinn annan lausnara í sjónmáli en Jón Gnarr, sem sýnt hefur á borgarstjórnarferli sínum að hann ræður engan veginn við starf sitt og að ekki hafi verið jafn illa stjórnandi meirihluti í Reykjavík, síðan R-listinn var og hét.
Lágkúra íslenskra stjórnmála getur varla orðið miklu meiri en þetta.
Vill Besta á þing | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
18.6.2011 | 11:35
Evran að verða skattgreiðendum dýrkeypt
Hvert evruríkið af öðru stefnir nú í þrot vegna skuldamála, en æ betur sannast að upptaka evru sem gjaldmiðils ætlar að reynast skattgreiðendum í þessum löndum, flestum öðrum en Þýskalandi og ef til vill Frakklandi, afar dýrkeypt þegar öll kurl verða komin til grafar.
Forsætisráðherra Lúxemborgar, Jean-Claude Juncker, telur að evrukreppan eigi eftir að breiðast út til fleiri landa en Grikklands, Portúgal, Spánar og Írlands og nefnir að líklega muni a.m.k. Belgía og Ítalía bætast í hóp gjaldþrota ríkjanna innan ESB. Svo alvarlegt er ástandið í tveim síðastnefndu ríkjunum, að hann telur líklegt að þau muni þurfa að grípa til afdrifaríkra neyðarráðstafana jafnvel á undan Spáni, sem þó er kominn að fótum fram efnahagslega.
Eftirfarandi klausa úr fréttinni er afar athyglisverð: "Hann varar við því að einkaaðilar verði þvingaðir til þess að taka þátt í öðrum björgunarpakka Grikkja sem er verið að undirbúa. Alþjóðlegu lánshæfismatsfyrirtækin myndu ekki líta á slíkt jákvæðum augum og það gæti haft hrikaleg áhrif á evruna."
Þessir "einkaaðilar" sem Juncer talar um eru kallaðar "lánastofnanir" og "bankar" á mannamáli og þeir eiga að sjálfsögðu að bera sjálfir ábyrgð á sínum lánveitingum og taka áhættu af þeim. Kynni þeir sér ekki skuldastöðu og greiðslugetu þeirra sem þeir lána til, eiga þeir að súpa seyðið af því sjálfir og ríkisstjórnum ESBlandanna á hreinlega ekki að líðast að velta greiðslubyrði slíkra lánaskandala yfir á skattgreiðendur.
Íslenskir skattgreiðendur börðust hetjulegri baráttu gegn því að ríkisstjórn Íslands, í samvinnu við þá bresku og hollensku, seldu sig í skattalegan þrældóm fyrir erlenda kúgara vegna Icesaveklúðurs Landsbankans, þó ekki sé útséð um að Steingrímur J. og félagar hans í ríkisstjórn séu algerlega búnir að gefast upp á þeim fyrirætlunum.
Skattgreiðendur ESBlandanna verða að taka baráttu þeirra íslensku sér til fyrirmyndar áður en það verður of seint. Takist þeim það ekki blasa erfiðir tímar við þegnum ESB ríkjanna, en nógir verða erfiðleikarnir samt þegar bankarnir fara að hrynja, einn af öðrum, og evrusamstarfið springur í loft upp.
Vandinn breiðist út | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
17.6.2011 | 15:37
17. júní er áminning um fullveldisbaráttuna
Jón Sigurðsson barðist fyrir fullveldi Íslands, þó hann gengi ekki svo langt að krefjast algers sjálfstæðis frá Dönum, enda trúlega gert sér grein fyrir því að fullveldið yrði fyrsti áfangi að endanlegu sjálfstæði íslensku þjóðarinnar og nýtt upphaf þrotlausrar baráttu þjóðarinnar fyrir sjálsákvörðunarrétti sínum um eigin málefni.
17. júní var valinn sem þjóðhátíðardagur vegna þess að sá dagur var fæðingardagur Jóns og með því var minning hans heiðruð um leið og dagurinn var festur í sessi sem áminning um baráttu hans fyrir fullveldinu og nauðsynjar þess að sú barátta gleymdist ekki og yrði landsmönnum hvatning til að varðveita og berjast fyrir fullveldi landsins til allrar framtíðar.
Sú hefur enda verið raunin fram undir þetta, að þjóðin hefur verið algerlega sammála um að viðhalda fullveldinu og sjálfsákvörðunarrétti sínum, en svo undarlega hefur brugðið við upp á síðkastið að farið er að bera á málflutningi sem algerlega er á skjön við hugsjónir bestu sona og dætra þjóðarinnar um fullveldi og sjálfstæði og er þetta fólk tilbúið til þess að afhenda útlendingum ákvarðanarétt um helstu hagsmunamál lands og þjóðar.
Furðulegast af öllu er, að stjórnmálaflokkur hefur tekið forystuna í baráttunni fyrir afsali fullveldisins, en sú barátta hefur reyndar ekki skilað þeim flokki öðru en fyrirlitningu meirihluta þjóðarinnar og hert hana í afstöðu sinni til viðhalds fullveldis og sjálfákvörðunarréttar.
Okkur öllum er hér með óskað til hamingju með daginn og sú von látin í ljósi að hann verði hvatning til órjúfanlegrar samstöðu þjóðarinnar um viðhald sjálfstæðis síns og fullveldis.
Menningarsetur á Hrafnseyri | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
16.6.2011 | 20:44
Fyrirgefanleg mistök
Karl Sigurbjörnsson, biskup, skýrði mjög vel, í Kastljósi, hvernig hann og kirkjan sem stofnun kom að málum, þegar og eftir að ásakanirnar á hendur Ólafi Skúlasyni, fyrrverandi bispupi, um kynferðisglæpi komu fram á árinu 1996.
Biskup viðurkenndi ýmis mistök og klaufaskap af sinni hálfu og stofnana kirkjunnar við meðferð málsins, en bæði vegna þess að glæpirnir voru framdir nokkrum áratugum áður en frá þeim var skýrt og biskupskjör var framundan, voru allir aðilar í vandræðum með hvernig á málinu skyldi tekið, enda engin fordæmi fyrir ásökunum af þessu tagi innan kirkjunnar, allra síst á hendur einum æðsta manni hennar.
Öll eru þessi mistök mannleg og þar af leiðandi ætti að vera auðvelt að fyrirgefa þau, ef ekkert annað en sanngirni og kærleikur réði för í afstöðu til þeirra.
Verði ekki látið af árásum á Karl Sigurbjörnsson, biskup, og aðra kirkjunnar menn vegna þessa máls, er greinilegt að annarlegar hvatir liggja að baki.
Mistök að taka að sér sáttahlutverkið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (18)