Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2011

Stjórnarandstaða stjórnarþingmanna harðnar

Oft er búið að spá því að ríkisstjórnin hljóti að vera að springa vegna innbyrðis átaka og illinda milli og innan stjórnarflokkanna, en öllum til ama og leiðinda hangir hún enn og ef Jóhanna og Steingrímur fá einhverju ráðið, mun hún lafa fram á haust til þess að reyna að fá samþykktar stjórnarskrárbreytingar, sem nauðsynlegar eru, ef möguleiki á að vera að gera landið að krummaskuðshreppi í ESB.

Fram að þessu hefur "órólega deildin" innan VG verið myllusteinninn um háls ríkisstjórnarinnar, en nú eru þingmenn Samfylkingarinnar byrjaðir að rotta sig saman gegn ráðherrum VG og fara þar fremstir í flokki þeir Róbert Marshall og Björgvin G. Sigurðsson, sem hafa lagt til atlögu geng Ögmundi Jónassyni, Innanríkisráðherra, vegna ákvörðunar hans að hætta við flutning Landhelgisgæslunnar á Suðurnes, þrátt fyrir fyrri loforð ríkisstjórnarinnar.

Björgvin segir m.a. um þetta á heimasíðu sinni: "Við munum því ekki láta útspil innanríkisráðuneytisins stöðva málið. Sérstaklega þar sem svo heppilega háttar að það er komið til þingsins í formi ályktunar okkar þingmannanna tíu. Nú hefst sá þáttur málsins og við skulum spyrja að leikslokum. Alþingi hefur síðasta orðið. Ekki ráðherra. Því er brýnt að hraða vinnu nefndar og þings og leiða málið til lykta á málefnalegum forsendum."

Þarna er fast skotið og gefið í skyn að annarleg sjónarmið ráði afstöðu ráðherrans, því Björgvin segir að  "svo heppilega háttar að það er komið til þingsins í formi ályktunar okkar þingmannanna tíu" og því sé von til að þingið geti fjallað um málið og afgreitt það á "málefnalegum forsendum".

Stjórnarandstaða stjórnarþingmannanna harðnar stöðugt og þættu ýmis ummæli þeirra harkaleg, kæmu þau frá hinni formlegu stjórnarandstöðu. 


mbl.is Segir málið á forræði þingsins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Verkföll til að dýpka og herða kreppuna?

Varla verður því trúað, að forystumenn innan ASÍ taki sjálfir alvarlega eigin hótanir um verkföll þann 25. maí n.k., svo glóru- og ábyrgðarlausar sem þær eru. 

Verkföll hafa aldrei skilað raunverulegum kjarabótum, þar sem með þeim hafa alltaf verið knúnar fram óraunhæfar launahækkanir, sem engin innistæða hefur verið fyrir og einungis leitt til aukinnar verðbólgu og lakari kjara, þegar frá hefur liðið. 

Að boða til verkfalla við þær aðstæður sem nú eru í þjóðfélaginu, þar sem hátt í 15.000 manns eru atvinnulaus og þúsundir hafa flutt úr landi til að leita sér lífsbjargar, ásamt því að allur fjöldinn, sem þó hefur einhverja vinnu ennþá, hefur þurft að taka á sig launalækkanir og vinnutímaskerðingu, er svo algerlega óraunhæft að ekkert bendir til að slíkt sé lagt til af neinni alvöru eða meiningu.

ASÍforkólfarnir hljóta að gera sér grein fyrir þessu sjálfir og ættu því að spara stóryrðin, því eftir því sem þau verða stærri um sig verður erfiðara að þurfa að éta þau ofan í sig aftur.

Fyrr í morgun var skrifað á þessa bloggsíðu um þetta ábyrgðarleysi og til að vera ekki að endurtaka það allt, er þeim sem það nenna geta kíkt á pistilinn HÉRNA


mbl.is Hóta allsherjarverkfalli 25. maí
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ábyrgðarlausir ASÍgasprarar

Í tilefni af 1. maí reynir nú hver ASÍforkólfurinn eftir annan að yfirbjóða hinn með ábyrgðarlausu og innantómu gaspri og slagorðaglamri vegna yfirstandandi kjaraviðræðna og án þess að láta reyna á hvort samningar gætu tekist, er því lýst yfir að nú "verði að nýta verkfallsvopnið" og landsmönnum hótað því, að allt verði lagt í rúst í þjóðfélaginu með verkföllum, sem skuli hefjast þann 25. maí n.k.

Vekföll hafa aldrei skilað öðru en verðbólgu og kjararýrnun, enda verið notuð til að knýja fram launahækkanir sem engin innistæða hefur verið fyrir og að stórum hluta má kenna óábyrgri verkalýðsforystu um þá óðaverðbólgu sem geysaði hér á landi áratugum saman og leiddi að lokum til upptöku verðtryggingar, sem fáir virðast skilja lengur né vegna hvers og af hverra völdum hún var í lög leidd á sínum tíma.

Það er frumskylda ASÍforkólfanna að stuðla að kjarabótum fyrir sína félaga og það verður ekki gert með ábyrgðarlausu gaspri á frídegi launþega, þann 1. maí, eða í undirbúningi hátíðarávarpa, sem aldrei innihalda annað en innantómt blaður og gífuryrði, sem enginn leggur á minnið, enda aðeins einnota og ekki hugsuð til annars, eða yfirleitt mikið hugsuð.

Drög að þriggja ára kjarasamningi lágu á borðinu fyrir tveim vikum og þá sendu verkalýðsleiðtogarnir SA tóninn í fjölmiðlum, fyrir að vilja ekki skrifa undir það, sem ASÍ var þá búið að samþykkja. Nú þegar SA óskar eftir að málið verði klárað, stökkva ASÍgasprararnir í 1. maí haminn og láta öllum illum látum gegn samningsuppkasti, sem þeir sjálfir voru tilbúnir að ganga frá, en láta nú eins og sé ekki einu sinni umræðugrundvöllur nýrra samninga.

Ekkert, nema raunveruleg verðmætasköpun, ný atvinnutækifæri og minnkun atvinnuleysis getur orðið grundvöllur kaupmáttaraukningar í þjóðfélaginu og þetta vita ASÍgasprarnir vel vegna dýrkeyptrar reynslu fyrri tíma og því ætti að vera hægt að gera þá kröfu til þeirra að þeir hætti gasprinu og snúi sér að því að sinna hlutverki sínu, sem er að bæta kjör skjólstæðinga sinna, en ekki eyðileggja þau með algerlega snælduvitlausum verkfallsaðgerðum.

Vonandi verða gaspraranir komnir aftur til jarðar strax eftir helgi.


mbl.is Stál í stál í viðræðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Forseti ASÍ eða hvað?

Ekki er nokkur leið að átta sig á því hvaða hagsmunamat Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, leggur á hlutverk sitt sem talsmanns launþega og forystumanns þeirra í viðræðum um kjör umbjóðenda sinna til lengri tíma litið.

Allt tal hans um að nú sé hann, ASÍ og launþegahreyfingin í fýlu og vilji alls ekki lengur semja til þriggja ára, nánast sama hvað í boði væri frá SA einungis vegna þess að viðræðurnar hafa ekki gengið nákvæmlega eins og fulltrúar ASÍ óskuðu, er algerlega út í hött og rugl hans um að atvinnurekendur geti ekki leyft sér að hugsa um sína hagsmuni í viðræðunum er vægast sagt kjánalegt, enda hlýtur það að vera hlutverk SA að gæta hagsmuna atvinnulífsins í viðræðunum, alveg eins og það er hlutverk ASÍ að gæta hagsmuna launþega.

Líklega skýrist þetta digurbarkalega tal ASÍ-forystunnar núna af því, að stutt er í 1. maí og á þeim degi telur forystan nauðsynlegt að tala fjálglega og digurbarkalega um kröfur sínar og tregðu illmennanna innan SA til að samþykkja þær, enda séu þeir eiginhagsmunaseggir og illmenni, sem stöðugt níðist á launþegum landsins og arðræni þá.

Daginn eftir eldheitar barátturæðurnar má svo reikna með að sest verði niður í karphúsinu og gengið frá þriggja ára kjarasamningi, eins og ekkert hafi ískorist.


mbl.is Ekki hægt að hafa þetta eins og jójó
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Undarleg krafa um verkföll

Guðmundur Gunnarsson, formaður Rafiðnaðarsambandsins, virðist vera harðákveðinn í því að stefna að verkfalli 25. maí n.k. og hafnar algerlega að ganga á ný til samninga til þriggja ára, en krefst þess að nýjir kjarasamningar verði aðeins gerðir til næstu tíu mánaða og þá hefjist þvargið upp á nýtt.

Þessi yfirlýsig Guðmundar kemur áður en samningafundur er boðaður milli deiluaðila og án þess að hann hafi nokkuð í höndunum um viðbrögð SA við lokayfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um aðild hennar að því að stuðla að friði á vinnumarkaði og uppbyggingu atvinnu- og efnahagslífsins á ný.

Náist ekki samningar til skamms tíma, segir Guðmundur m.a. þetta:  "Ef það tekst ekki, þá er bara allsherjarverkfall 25. maí. Það verður allt stoppað; Alcan, RARIK, Landsvirkjun, Síminn og hreinlega allt. Það verða allar viðræður stoppaðar og það munu allir berjast með almenna markaðinum í þessu."

Það er í fyrsta lagi furðulega afstaða að hafna algerlega langtímasamningi fyrirfram, án þess að vita hvað í boði gæti verið og í öðru lagi birtist undarleg afstaða í þessum orðum vegna þeirrar stöðu sem atvinnulífið og þjóðfélagið er í um þessar mundir og hefði mátt ætla að allt yrði reynt til þrautar, sem afstýrt gæti verkföllum, því verði af þessari hótun Guðmundar mun allt fara endanlega á hvolf í þjóðfélaginu og þá verður fyrst hægt að tala um kreppu í landinu og þykir flestum þó ástandið nógu slæmt núna.

Vonandi er þetta allt saman hluti af handriti þess leikrits, sem leikið er í hvert sinn sem kjaraviðræður standa yfir.


mbl.is Hætt að tala um 3 ára samning
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Sparnaður" Ögmundar bitnar hart á almenningi

Ríkisstjórnin hælir sjálfri sér fyrir sparnað og aðhaldssemi í ríkisrekstrinum, sem þó er í raun sáralítill, þegar tillit er tekið til heildarútgjalda ríkissjóðs, en hins vegar hafa tekjur ríkisstjóðs verið auknar með skattahækkanabrjálæði á öllum mögulegum og ómögulegum sviðum.

Dæmigert fyrir vinnubrögð stjórnarinnar er að minnka útgjöld ríkisstjóðs til ákveðinna málaflokka, en hækka þjónustugjöld viðkomandi stofnana í staðinn og velta "sparnaðinum" þannig beint yfir á almenning, til viðbótar við skattabrjálæðið.

Svar Ögmundar Jónassonar, Innanríkisráðherra, við spurningu blaðamanns um 50% hækkun gjaldskrár Icepark/Isavia á Keflavíkurflugvelli, er lýsandi fyrir vinnubrögð stjórnarinnar: "Ég verð því miður að taka afleiðingum eigin gjörða, ég hef skorið niður fjárveitingar til Isavia og þar með þröngvað þessum aðilum til að auka beina gjaldtöku."

Það er hins vegar ekki Ögmundur sjálfur, sem þarf að taka afleiðingum gjörða sinna í þessu máli, frekar en á öðrum, heldur bitna gjörðir hans og hinna ráðherranna grimmilega á almenningi í landinu.

Það er afar djúp gjá á milli ráðherranna og almennings og verður sú gjá varla brúuð úr þessu.


mbl.is Ráðherra gagnrýnir ekki hækkun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Verður Björn Valur dæmdur æruníðingur?

Björn Valur Gíslason, þingmaður VG, sagði á bloggi sínu fyrir skömmu að Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðiflokksins, væri mútuþegi vegna þeirra styrkja sem hann fékk frá einstaklingum og fyrirtækjum til að fjármagna prófkjörsbaráttu sína fyrir síðustu Alþingiskosningar.

Það er gríðarlega alvarlegt að saka þingmann um mútuþægni, liggi ekki haldgóðar sannanir að baki, en að því er virðist hefur Björn Valur ekkert undir höndum, sem rennt gæti stoðum undir fullyrðingar sínar.  Ekki síst er hér um grafalvarlegt mál að ræða, þar sem ásökunin kemur frá Alþingismanni, sem líklega ætlast til að mark sé á sér tekið.

Guðlaugur Þór hefur krafist afsökunarbeiðnar frá Birni Vali og verði hann ekki við þeirri kröfu fyrir mánaðamót hyggst Guðlaugur kæra hann fyrir ærumeiðingar, en fyrstu viðbrögð benda ekki til að Björn Valur ætli að verða við þeirri kröfu, heldur forherðist einungis og heimtar að Guðlaugur Þór afsanni ásakanirnar, þvert á landslög sem gera ráð fyrir að þeir sem ráðast á æru annarra með dólgshætti sanni mál sitt mál og leggi fram gögn til stuðnings ásökununum.

Björn Valur er vanur að svara með hortugheitum og líklegt er að hann dragi orð sín ekki til baka nema eftir að dómstólar dæma hann  til þess.

Dæmdur æruþjófur getur tæplega setið á Alþingi, falli dómar Birni Vali í óhag. 


mbl.is Fékk frest til mánaðamóta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lokatilraun, sem líklega mistekst

Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri SA, segir að fulltrúar samtakanna hafi verið í óformlegum viðræðum við ríkisstjórnina undanfarna daga og að í dag verði gerð lokatilraun til að fá stjórnina til að leggja sitt af mörkum til að mögulegt verði að gera kjarasamninga til þriggja ára.

Bæði fulltrúar SA og ASÍ hafa marg lýst yfir vonbrigðum sínum með tregðu ríkisstjórnarinnar og ráða- og viljaleysi í sambandi við kjaraviðræðurnar, sem staðið hafa yfir allt frá áramótum og allan þann tíma hafa ráðherrarnir lítinn vilja sýnt til að leggjast á eitt með aðilum vinnumarkaðarins í þeim tilgangi að finna lausn  á málinu, sem allir gætu sætt sig við.

Þrjóska forsætisráðherrans, Jóhönnu, er alkunn og nánast engar líkur á því að hún bakki með nokkurn skapaðan hlut sem hún hefur bitið í sig, en hún hefur verið stóryrt í garð SA og sagt að ekki verði hlustað á nokkuð sem sambandið hafi fram að færa og Steingrímur J. hefur einnig sagt að það sé ekki í verkahring ríkisstjórnarinnar að skapa störf í landinu og því komi þessi mál stjórninni lítið við.  Sjávarútvegsráðherrann gefur hinum lítið eftir í þrjóskunni og honum hefur ekki ennþá tekist að böggla saman tillögum um framtíðarskipan fiskveiðistjórnunarinnar, þrátt fyrir að "sáttanefndin" hafi skilað af sér tillögum fyrir átta mánuðum síðan.

Allt bendir því til þess að ríkisstjórnin þrjóskist við áfram, neiti að koma með raunhæfar aðgerðir af sinni hálfu til að liðka fyrir samningum og því muni lokatilraunin sem gerð verður í dag mistakast.

Fari fram sem horfir, munu verkföll skella á seinni hluta maímánaðar, í boði ríkisstjórnarinnar.


mbl.is Lokatilraun í dag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Verðbólga í boði Steingríms J.

Verðbólga er gríðarleg í landinu þrátt fyrir dýpkandi kreppu og gjaldeyrishöftin, en seðlabankinn á að geta stjórnað gegni krónunnar algerlega vegna haftanna, en þrátt fyrir það hefur gegnið lækkað um 5% frá áramótum og innfluttar vörur því hækkað sem því nemur a.m.k.

Þrátt fyrir hvatningu um að lækka álögur á bensín og olíur, hefur Steingrímur J. sagt að ekkert mundi muna um slíkar lækkanir, en bensínlíterinn kostar nú hátt í 240 krónur og rennur helmingur þeirrar upphæðar beint í ríkiskassann.  Samkvæmt upplýsingum Hagstofunnar hækkaði verð á bensíni og olíum í síðasta mánuði um 3,2%, sem hækkaði vísitöluna um 0,19% og myndi flesta muna verulega um að slegið yrði á þessi áhrif.

Athyglisverðustu tíðindin, sem koma fram í viðhangandi frétt er þessi:  "Undanfarna þrjá mánuði hefur vísitala neysluverðs hækkað um 2,9% sem jafngildir 12,3% verðbólgu á ári."

Þessi gríðarlega verðbólga verður að skrifast á vanmátt ríkisstjórnarinnar í stjórn efnahagsmála, enda er kaupgeta almennings algerlega að þurkast út og þeir sem minnst hafa milli handanna eiga ekki orðið fyrir mat og öðrum nauðsynjum, nema í nokkra daga eftir hver mánaðamót.

Ríkisstjórnin hefur algerlega brugðist í þessum málum, sem öðrum, og ætti að leggja gæluverkefnin til hliðar, en snúa sér að því sem máli skiptir, en það er í 1. lagi atvinnuuppbygging, í 2. lagi atvinnuuppbygging og í 3. lagi atvinnuuppbygging.

Kjör almennings munu ekki batna og atvinnuleysi minnka, nema stjórnin fari að sinna þessum málum og það með algerum forgangi.


mbl.is Verðbólgan nú 2,8%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað vill haukurinn Össur gera í Sýrlandsmálum?

Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna hefur ekki getað komist að niðurstöðu um hvort og þá hvað skuli gera vegna grimmdarverka Assads Sýrlandsforseta gegn eigin þegnum, sem nú krefjast aukinna mann- og lýðréttinda með fjöldamótmælum vítt og breytt í borgum landsins.

Rússar og Kínverjar berjast hart gegn hvers kyns afskiptum af mannréttindabaráttu Sýrlendinga, enda hræddir við fordæmið sem slík barátta getur haft í þeirra eigin ríkjum, en Frakkar, Þjóðverjar og Bandaríkjamenn leggja áherslu á og krefjast þess að grimmdarverkunum gegn almenningi í Sýrlandi verði hætt og réttindi íbúanna aukin.

Össur Skarphéðinsson barðist hart fyrir að vestrænar þjóðir skiptu sér af innanlandsátökunum í Líbíu og þótti ekki nóg að gert með loftárásum á hersveitir Gaddafis, heldur vildi að innrás yrði gerð í landið án tafar og harðstjóranum yrði velt úr valdastóli umsvifalaust, með öllum tiltækum ráðum.  Með framgöngu sinni skipaði Össur sér í fremstu röð vestrænna stríðshauka og fór svo að lokum að ekki var farið að hans ráðum, en loftárásir þó hafnar sem ekki hafa þó skilað tilætluðum árangri ennþá.

Svo mikið lá Össuri á í hernaðarbröltinu gegn Líbíu að hann gaf sér ekki einu sinni tíma til að afla sér formlegs umboðs ríkisstjórnarinnar eða Utanríkismálanefndar Alþingis fyrir stríðsyfirlýsingunni, en fékk aðeins óformlegt samþykki Ögmundar, Steingríms J. og annarra VGliða áður en hann lagði upp í herförina, sem að vísu var ekki framkvæmd af þeim krafti sem hann sjálfur óskaði eftir.

Í fréttum frá Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna kemur ekkert fram um hvað íslenski stríðsmaðurinn í ríkisstjórn Íslands vill gera í málefnum Sýrlands. 

Frétta af vilja Össurar er beðið með eftirvæntingu á vesturlöndum, en með skelfingu í herbúðum Assads.


mbl.is Öryggisráðið klofnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband