Bloggfærslur mánaðarins, mars 2011

Skilanefndirnar í rannsókn strax

Nú upplýsist að skila- og slitastjórnarmenn Glitnis hafi að meðaltali fengið greiddar um 70 milljónir króna hver um sig vegna starfa sinna við bankann á árinu 2010 og eru þetta upphæðir sem eru algerlega út úr öllu korti. Jafnvel þó þeir hefðu allir haft þessar tekjur samkvæmt útseldri vinnu með virðisaukaskatti, þá hefði nettóupphæð hvers og eins verið um 55 milljónir króna.

Skilanefndirnar eru skipaðar af Fjámálaeftirlitinu og hljóta því að starfa á ábyrgð þess og undir eftirliti þaðan, ásamt því að FME hlýtur að hafa samið um greiðslur fyrir þessi störf og hljóti því einnig að hafa eftirlit með nefndunum, þar með töldu að yfirfara vinnutímaskýrslur og samþykkja þær. FME verður að svara fyrir sína hlið á þessu máli og einnig verður Viðskiptaráðherra að gera hreint fyrir sínum dyrum vegna þeirrar ábyrgðar sem hann ber á Fjármálaeftirlitinu.

Á þessu bloggi hefur á annað ár verið skrifað um nauðsyn þess að rannsókn fari fram á öllum störfum skilanefnda gömlu bankanna, ásamt því að óháðir rannsóknaraðilar skoði allar gerðir nýju bankanna eftir hrun og með því verði tryggt að allir njóti jafnræðis við afgreiðslu mála hjá þeim og vildarvinum ekki mismunað á kostnað annarra.

Skilanefndirnar virðast hafa hagað sér nákvæmlega eins og bankabófarnir gerðu fyrir hrun og eitthvað verður að reikna með að opinberir aðilar hafi lært af því sem gerðist í gömlu bönkunum fyrir hrun.

Reyndar er ekki nóg að læra af reynslunni. Það þarf að nýta lærdóminn.


mbl.is Með 21 milljón í árslaun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Umskurður kvenna er hroðaleg misþyrming

Mannréttindasamtökin Tostan, sem berjast gegn umskurði kvenna, hafa sent frá sér yfirlýsingu um að nú hafi náðst samþykki 4.771 þorps í Afríku um að banna slíka misþyrmingu á ungum stúlkum, en samtökin settu sér það takmark árið 1997 að ná 5.000 þorpum í lið með sér. 

Þessi hroðalega meðferð á stúlkum hefur verið mjög útbreidd í mörgum ríkjum Afríku og víðar, en hún felst í því að skera burt sníp ungra stúlkna og sauma síðan saman ytri brúnir kynfæranna og loka þeim þannig að aðeins verði eftir smá gat fyrir þvaglát.  Bæði er aðgerðin sjálf hroðaleg misþyrming og getur haft í för með sér miklar sýkingar sem jafnvel leiða til dauða, enda áhöldin oft ekki annað en glerbrot og óhreinar nálar. 

Þetta ótrúlega athæfi er afsprengi aldagamals karlaveldis, enda hugsað í þeirra "þágu", því þegar stúlkurnar eru síðan giftar, oft einhverjum gamlingja eða öðrum af hagkvæmnisástæðum, er ytri börmun kynfæranna sprett upp og með þessu er tryggt að stúlkan sé hrein mey við brúðkaupið.  Með aðgerðinni voru möguleikar stúlkunnar til þess að nóta kynlífs nánast eyðilagðir, en karlaveldið hefur ekki áhyggjur af slíku, enda fær hann væntanlega það sem hann sækist eftir sjálfum sér til fullnægingar og ánægju.

Þessi "siður" hefur fengið allt of litla athygli og of lítið gert til að berjast gegn honum, en svona rótgróin "menningarfyrirbæri" verða ekki upprætt nema með fræðlu til ættbálkahöfðingjanna og meiri menntun almennings, ekki síst kvenna.

Þó Tostansamtökin nái vonandi fljótlega 5.000 þorpa markmiði sínu, er það ekki nema áfangi á langri leið, því svo útbreitt er þetta og ekki einu sinni bannað í lögum allra ríkja Afríku.


mbl.is Skrefi nær útrýmingu umskurnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Brandararnir duga Jóni Gnarr ekki lengur

Jón Gnarr náði að gabba þriðja hvern kjósanda í Reykjavík til þess að kjósa Besta flokkinn í síðustu borgarstjórnarkosningum með fíflagangi, bröndurum og kæruleysislegri framkomu og með því að tala niður stjórnmálin í borginni og gera lítið úr embætti borgarstjóra, sem hann sagðist myndu eiga létt með að gegna, enda væri þetta bara þægileg innivinna og embættismenn sæu hvort sem er um allt sem gera þyrfti.

Nú hefur Jón Gnarr gengið með borgarstjóraembættið venjulegan meðgöngutíma, þ.e. níu mánuði, og nú er alvara lífsins að taka við og brandarnir duga ekki lengur, nú þarf að taka alvöru ákvarðanir um málefni borgarinnar og íbúanna og þegar á reynir sýnir sig að hugsandi fólk hafði hárrétt fyrir sér með viðvörunarorðum sínum um vanhæfni frambjóðenda Besta flokksins til að stjórna borginni og taka skynsamlegar ákvaranir í erfiðum málum.

Ekki bætir samstarfsflokkurinn úr skák, en það var sá flokkur sem mesta rassskellinguna fékk frá borgarbúum í kosningunum, enda hafði Samfylkingin löngu sýnt og sannað að ekki var meira í hana spunnið en reyndist svo vera með Besta flokkinn.

Á fundunum í dag um skólamálin, mættu nokkur hundruð foreldrar skólabarna í Grafarvogi og Breiðholti og hreinlega hrópuðu niður tillögur borgarfulltrúa meirihlutans um "sparnað" og "hagræðingu" í rekstri skólanna í hverfunum og kröfðust vitrænna tillagna um málaflokkinn, sem reyndar verður að teljast nokkuð bjartsýn krafa.

Reikna má með að a.m.k. þriðji hver fundarmaður hafi kosið Jón Gnarr og Besta flokkinn út á grínið og brandarana, en sá hópur er greinilega steinhættur að hlæja.


mbl.is Ósátt við forgangsröðun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Íslenska leiðin gæfulegri en sú evrópska

Í afar óvönduðu viðtali RÚV við Alaistair Darling, fyrrv. fjármálaráðherra Breta, gerðu spyrjandinn og Darling engan greinarmun á einkabönkunum sem voru að fara á hausinn og ríkissjóði Íslands, sem alls ekki var á neinu hengiflugi, þó Darling og sérstaklega Gordon Brown lýstu því yfir í sjónvarpi, við setningu hryðjuverkalaganna á Íslenska efnahagskerfið, að Ísland sem ríki væri orðið gjaldþrota.

Þvælan sem vall upp úr Darling gekk nánast öll út á það að hann og breska ríkisstjórnin hefðu verið tilbúin til að taka þátt í því, ásamt AGS, að bjarga íslenska bankakerfinu og þá væntanlega með lánum til Seðlabanka Íslands, sem hefði svo aftur ausið þeim peningum inn í bankakerfið sem neyðarlánum, enda banki bankanna hér á landi eins og seðlabankar annars staðar.

Hefði þessi "vinsamlega" aðstoð Darlings, Brown og AGS verið þegin á þeim tíma, væri ríkissjóður Íslands skuldugur núna svo næmi tuttuguföldum árlegum þjóðartekjum og þar með auðvitað algerlega gjaldþrota og í ennþá verri málum en Írland er í núna og hefði misst sjálfstæði sitt til erlendra aðila.

Sem betur fer tóku íslenskir ráðamenn ekki þessu "góða" boði Darlings og félaga, heldur völdu það sem nú er kallað í fjármálaheiminum "íslenska leiðin" og allir eru sammála um að mun reynast mun farsælli en "írska leiðin", sem raunar ætti að réttu að vera kölluð "evrópska leiðin".

Það kemur æ betur í ljós að viðbrögð íslenskra ráðamanna við bankahruninu voru rétt og heillavænleg fyrir þjóðina og Ísland væri í hrikalegri stöðu hefði evrópska leiðin verið valin.

Það er mikið þakkarefni fyrir Íslendinga að hafa haft skynsama menn í brúnni þegar bankahrunið varð. Nú naga aðrir sig í handbökin fyrir að hafa ekki valið íslensku leiðina.


mbl.is Erfiðara fyrir Íra en Íslendinga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Icesave í kosningasjóð

Nú er komið í ljós að Icesavepeningarnir fóru ekki allir í einkaneyslu, lúxusíbúðir, skíðaskála og skemmtisnekkjur Jóns Ásgeirs, Tschenguiz-fjölskyldunnar, Ólafs í Samskipum,Hannesar Smárasonar, Pálma í Iceland Express og hvað þeir heita nú allir banka- og útrásar"garparnir" sem fengu lánin út á þessar innistæður.

Hluti fór í kosningasjóði í Bretlandi og samþykki íslenskir skattgreiðendur að taka á sig ábyrgð og greiðslu fjárkúgunarkröfu Breta og Hollendinga geta þeir a.m.k. huggað sig við að hafa tekið þátt í að koma Verkamannaflokknum í Bretlandi frá völdum, eftir að hann beitti hryðjuverkalögum í tilraun sinni til að hjálpa útrásargengjunum við að rústa íslensku efnahagslífi.

Vegir Icesave liggja víða og eru líklega órannsakanlegir eins og fleiri vegir.


mbl.is Gjafmildir Kaupþingskúnnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Evran að verða að þýsku marki

Mikil örvænting hefur ríkt innan ESB undanfarna mánuði og misseri vegna stöðu evrunnar og ruglandans sem hefur verið í efnahagsstjórn þeirra sautján ríkja sem nota evruna sem gjaldmiðil.

Nánast hrun hefur orðið í efnahagsmálum Grikklands og Írlands og miklir erfiðleikar mun víðar á evrusvæðinu og þó ekki sé hægt að kenna evrunni um þau vandræði, þá hefur hún síst verið til að auðvelda lausn vandamálanna sem hlaðist hafa upp hjá flestum þessara ríkja.

Þýskaland er og hefur alltaf verið móðurskip ESB og frá upphafi reiknuðu Þjóðverjar með því að önnur ríki tækju upp þýska festu í efnahagsmálum, en vegna þess að ríkin höfðu nokkuð frjálsar hendur um stjórn efnahagsmála og ekki síður vegna þess að þau hafa ekki farið eftir þeim reglum sem þó voru fyrir hendi, hefur sífellt hallað undan fæti fyrir evrunni, þar til að nú stefnir í alger vandræði.

Samkvæmt síðustu fréttum hafa Þjóðverjar náð að fá samþykktar nýjar reglur um miðstýrðar efnahagsreglur fyrir allar evruþjóðirnar og að sjálfsögðu mun það verða þýski aginn sem þar mun ráða ferðinni.

Þar með verða Þjóðverjar komnir á upphafsreit með gjaldmiðil sinn, nema nú heitir hann evra en ekki mark.

Kannski verður þetta til þess að meira mark verði tekið á evrunni framvegis.


mbl.is Evruríki móta efnahagsstefnu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ofsköttunaræðið í hnotskurn

Steingrími J. hefur gengið afar illa að skilja hvar þolmörk neytenda og skattgreiðenda liggja og heldur að hægt sé að auka tekjur ríkissjóðs út í það óendanlega með ofsköttunaræðinu sem einkennt hefur allan hans fjármálaráðherraferil.

Allir skattar hafa verið hækkaðir í drep og nýjir skattar lagðir á eins og hugmyndaflug ráðherrans og félaga hans hefur dugað til, en tekjur ríkissjóðs aukast að sjálfsögðu ekki í takti við skattabrjálæðið, því þegar fólki ofbýður dregur það úr neyslu á ofsköttunarvörum og reynir að færa alla vinnu sem mögulegt er yfir í svarta hagkerfið.

Skattahækkanirnar á áfengi síðast liðin tvö ár eru alveg dæmigerð fyrir það sem gerist þegar skattheimtan gengur algerlega úr hófi fram og eru orð Emils B. Karlssonar, forstöðumanns Rannsóknaseturs verslunarinnar, lýsandi og tákræn fyrir skattahækkanabrjálæði Steingríms J: „Þannig að þó við höfum varið 29,5% fleiri krónum til áfengiskaupa í janúar 2011 en í janúar 2008 höfum við fengið 16,7% minna magn fyrir peninginn.“

Skattabrjálæðið dregur úr allri neyslu í þjóðfélaginu og hægir þar með á hagkerfinu og líklega er þá tilganginum náð, enda ekki annað séð en að framlenging kreppunnar og dýpkun hennar sé sú stefna sem ríkisstjórnin ætlar að láta minnast sín fyrir. 


mbl.is Velta í áfengissölu minnkaði um 16,7% á þremur árum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mættu ekki í sína eigin veislu

Special Fraud Office í Bretlandi eyðilagði fína veislu fyrir Tchenguiz-bræðrum, en hún var haldin í kvöld um borð í snekkju annars bróðurins í Cannes og þangað hafði verið boðið öllum helstu fasteignabröskurum veraldar, sem þar funda um gagnsókn sína gegn lækkandi fasteignaverði og ráðum til að hagnast á nýrri fasteignabólu.

Gestgjafarir mættu sem sagt ekki í sína eigin veislu þar sem þeir þurfa að sinna sínum málum í Bretlandi, en þau mál snúast reyndar um brask þeirra í fortíðinni og líklega áhyggjur af minni umsvifum í framtíðinni, sérstaklega takist lögfræðingaher þeirra ekki að forða þeim frá langri fangelsisvist.

Ekki er ólíklegt að samtöl manna yfir kokteilglösunum í snekkjuveislunni hafi snúist um ýmislegt annað en fasteignamarkaðinn og framtíð hans.


mbl.is Mættu ekki í veisluna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Góða veislu gjöra skal

Tchenguizbræðurnir sem voru stærstu og mestu skuldarar við Kaupþing og reyndar skulduðu þeir þar svo háar fjárhæðir, að enginn venjulegur maður skilur þær og er það líklega skýringin á því að lánin voru svo mikil, að hvorki þeir né Kaupþingsmenn hafi í raun botnað upp eða niður í því sem þeir voru að gera.

Bræðurnir hafa boðað til mikillar veislu í kvöld um borð í snekkju sinni, ef það orð nær þá yfir farkostinn, sem liggur nú við festar i Cannes í tengslum við mikla ráðstefnu fasteignabraskara víða að úr veröldinni. Breska fjármálasvikalögreglan var að vísu svo ósmekkleg að handtaka bræðurna ásamt fyrrum framámenn í Kaupþingi í tengslum við lánaruglið úr þeim bankanum til bræðranna í gær og setti veisluna góðu þar með í mikið uppnám, en vonandi verður þessi ósvífni löggunnar ekki til þess að eyðileggja ánægjuna alveg fyrir bræðrunum og þeim bröskurum sem til hennar var boðið.

Í fréttinni er vitnað til "fyrrverandi" lögmanns bræðranna, sem út af fyrir sig er athyglisvert, því reikna skyldi með að þeir hefðu einhvern "núverandi" í sinni þjónustu, en burt séð frá því var eftirtektarvert hvað sá fyrrverandi sagði, en það var m.a. þetta: "Sarosh Zaiwalla, fyrrverandi lögmaður Tchenguiz-bræðranna, sagði við Bloomberg að bræðurnir hafi tapað miklu fé á falli Kaupþings. Sagði Zaiwalla, að hefðu bræðurnir gert sér grein fyrir því hvert stefndi hjá Kaupþingi hefðu þeir getað leitað annað um fyrirgreiðslu. Því telji þeir sig eiga skaðabótakröfu á hendur bankanum."

Bankinn ekki síst á hausinn vegna viðskiptanna við bræðurna og rannsóknir íslenskra og breskra saksóknara beinast einmitt ekki síst að þessum viðskiptum og hafi þau ekki verið fullkomlega lögleg, eins og flest bendir til, hljóta það að vera kröfuhafar Kaupþings sem eiga skaðabótakröfu á þá bræður ásamt ráðamönnum Kaupþings, sem lánuðu þeim ótrúlegar upphæðir, jafnvel án nokkurra trygginga.

Samkvæmt þessu eru viðbrögð við rannsóknum, handtökum og skaðabótakröfum vera nákvæmlega eins, hvort sem um íslenska eða breska lánasukkara og bankaþrjóta er að ræða. 


mbl.is Veislunni í Cannes ekki aflýst
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bankastjórar gefa Alþingi langt nef

Viðskiptanefnd Alþingis boðaði bankastjóra viðskiptabankanna á sinn fund í morgun til að ræða ársreikninga bankanna og launakjör banakastjóranna, en allir banastjórarnir þrír gáfu Alþingi langt nef og mættu ekki á fundinn, en sendu lægra launaðar undirtyllur sínar í staðinn.  Greinilegt er að stjórarnir þrír hafa haft samráð sín á milli um að sýna Alþingi þessa lítilsvirðingu og vekur það upp spurningar um hvort samráðið sé jafn náið milli bankanna í öðrum málum þrátt fyrir samkeppnislög.

Hins vegar kom fram á fundinum að fulltrúi Bankasýslunnar í stjórn Arion banka greiddi atkvæði með tillögu um launahækkun bankastjóra bankans en sat hins vegar hjá þegar tillaga um launahækkun til bankastjóra Íslandsbanka var borin undir atkvæði.  Fulltrúinn sagðist telja að laun bankastjóra Arion banka væru sambærileg launum bankastjóra hinna bankanna.

Þetta er að vísu nokkuð sérstök túlkun á því hvað er sambærilegt,  þar sem Steinþór Pálsson, bankastjóri Landsbankans, er með tæplega 1,1 milljón á mánuði,  Höskuldur Ólafsson, bankastjóri Arion, var með 4,3 milljónir á mánuði,  og Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka, var með 2,6 milljónir á mánuði.   Höskuldur er sem sagt með fjórföld laun Steinþórs og væntanlega hefur fulltrúi Bankasýslunnar útskýrt fyrir Viðskiptanefndarmönnum hvernig þessi launakjör séu sambærileg.

Fram hefur komið að skilanefndarmenn gömlu bankanna, sem ráða einnig ferðinni í Arion banka og Íslandsbanka, skammta sjálfum sér margar milljónir í laun á mánuði fyrir sín störf og því finnst þeim sjálfsagt að 3-4 milljónir í mánaðarlaun séu alls ekki of há laun fyrir bankastjórana, þó þau séu ekki í neinum takti við það þjóðfélag sem þessir menn starfa í nú um stundir.

Allt þetta mál sýnir að Alþingi og ríkisstjórn hefur enga stjórn á bönkunum núna, frekar en á árum áður.


mbl.is Bankastjórarnir mættu ekki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband