Bloggfærslur mánaðarins, mars 2011
7.3.2011 | 22:20
Krónan kallar á efnahagsstjórn
Vandamálið í efnahagsmálum þjóðarinnar í gegnum tíðina hefur ekki verið krónan, heldur skortur á efnahagsstjórn. Nánast frá upphafi hefur verið látið reka á reiðanum í peningamálum og treyst á að fella gengið til að rétta kúrsinn af aftur eftir hver mistök sem gerð hafa verið í þeim efnum, t.d. varðandi tuga prósenta kauphækkanir og lengst af var útgerð og fiskvinnsla rekin eins og hver önnur atvinnubótavinna og gengið stillt af eftir kollsteypum á því sviði.
Aðeins í tiltölulega fá ár í forsætisráðherratíð Davíðs Oddsonar, þegar Friðrik Sóphusson og Geir H. Haarde voru fjármálaráðherrar, var sæmileg stjórn á ríkisfjármálunum, en því miður slöknuðu þau tök þegar á leið og fjárglæframenn tóku efnahagsmál þjóðarinnar í gíslingu, sem endaði svo með algeru hruni, eins og allir vita.
Á þeim árum var erlendum lánum ausið inn í landið, jafnt til fyrirtækja og almennings, en mest þó til íslenskra fyrirtækja sem fjárfestu fyrir lánin erlendis, þannig að við hrunið sat þjóðarbúið uppi með þá skuldasúpu til viðbótar við þau erlendu lán, sem notuð voru til fjárfestinga í eignabólu innanlands.
Ef banna á sveitarfélögum að taka erlend lán vegna þess að þau hafa allar sínar tekjur í krónum, ætti það sama að gilda um ríkissjóð og þá ekki síður fyrirtæki og einstaklinga sem eingöngu eru með tekjur í íslenskum krónum.
Þeir sem skildu það ekki fyrir hrun, hljóta að skilja það núna að vitlausata lántaka sem hugsast getur er lántaka í öðrum gjaldmiðli en tekjurnar eru í.
Það á jafnt við um alla, ekki eingöngu sveitarfélög.
![]() |
Krónan kallar á breytilega húsnæðisvexti |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
7.3.2011 | 15:47
Þörf og tímabær vegagerð
Það er fagnaðarefni að nú sé farið að ræða aftur af alvöru um Sundabraut, sem er líklega einhver hagkvæmasta vegagerð sem mögulegt væri að ráðast í um þessar mundir og eins og Guðmundur Gunnarsson, formaður Rafiðnaðarsambandsins, bendir á gefur möguleika á veggjaldi, enda annar valkostur um akstursleið í boði fyrir þá sem ekki vilja greiða vegatollinn.
Hugmyndir Ögmundar Jónassonar um vegatolla á alla vegi út úr Reykjavík er svo arfavitlaus að hún tekur engu tali, enda ekki um aðrar leiðir að ræða fyrir þá sem vilja sleppa við gjaldið, en slíkt er alger grunnforsenda ef ætlunin er að skattleggja einhvern veg sérstaklega.
Í því árferði sem nú er ætti að ráðast í margar smærri framkvæmdir í vegagerð en ekki skipta því litla framkvæmdafé sem fyrir hendi er á einn eða tvo staði, eins og hugmyndir hafa verið uppi um hjá ráðherranum, en nánast allt vegafé næstu ára virðist eiga að fara í Suðurlandsveg og enn stærri upphæð í Vaðlaheiðargöng, sem ekki munu geta staðið undir sér þó gjald verði lagt á umferð um þau.
Sérstakt félag um Sundabraut hefur hins vegar alla burði til að standa undir rekstri brautarinnar, enda yrði þetta umferðarmesti vegur landsins.
![]() |
Aukinn áhugi á Sundabraut |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
7.3.2011 | 10:48
Loksins vitglóra í bankamálum?
Samruni SpKef og Landsbankans virðist við fyrstu sýn vera það fyrsta vitræna sem gert er í bankamálum síðan nýju bankarnir voru stofnaðir eftir bankahrunið, en þá hefði reyndar verið nóg að stofna tvo nýja banka, þ.e. NBI hf. (nýja Landsbankann) og svo sameinaðan Arion- og Íslandsbanka.
Bankakerfið var orðið brjálæðislega stórt fyrir hrun og er það ennþá, með þrjá viðskiptabanka og tuga sparisjóða. SpKef var það stór í sniðum að hann jafngilti í raun helmingi alls sparisjóðakerfisins, þannig að vonlaust verður að halda úti afganginum af kerfinu og væri líklega eðlilegast að sameina alla sparisjóðina nýja Landsbankanum.
Fjármálakerfið eins og það er ennþá, er allt of stórt fyrir íslenska markaðinn og áhættan í því allt of mikil, ekki síst í því ljósi að ríkisstjórnin er með í undirbúningi lög um Tryggingasjóð innistæðueigenda og fjárfesta sem tryggi allar innistæður fyrir að lágmarki 100.000 evrur í stað 20.803 evra, eins og gert er ráð fyrir í dag og Bretar og Hollendingar eru að neyða Íslendinga til að samþykkja ríkisábyrgð fyrir.
Með samþykkt Icesavelaganna yrði sett fordæmi um ríkisábyrgð á innistæðutryggingasjóðinn og þar sem tveir bankanna eru í eigu útlendinga, væri verið að veita þeim ríkisábyrgð til jafns við íslenska banka.
Allt þetta verður að hafa í huga, þegar kjósendur gagan að kjörborðinu 9. apríl n.k.
![]() |
Vonandi síðasta uppstokkunin |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.3.2011 | 00:07
Jón Ásgeir og sannleikurinn
Jón Ásgeir Jóhannesson hefur stefnt Svavari Halldórrsyni, fréttamanni, vegna frétta sem Svavar hefur flutt af málum tengdum Bónusgenginu og harðneitar nú að eiga frekari samskipti við hann, enda sé hann ófær um að segja sannar fréttir af Jóni Ásgeiri sjálfum og öðrum meðlimum Bónusgengisins.
Þessum fréttamanni og sjálfsagt öðrum tekst ekki að segja sannar fréttir af gerðum Bónusgengisins, að mati Jóns Ásgeirs, enda fléttan flókin og bæði skilanefndir bankanna og Sérstakur saksóknari eru að reyna að fá einhvern botn í það gífurlega flókna fyrirtækjanet, sem þessir aðilar komu sér upp á bankaránsárunum og viðskiptum fyrirtækjanna sín á milli í gegnum banka um allan heim og sem sum hver virðast hafa endað á Tortola og öðrum leynireikninglöndum.
Jón Ásgeir ætti að létta öllum þessum aðilum verkið með því að skýra sjálfur frá öllum þáttum málsins og draga ekkert undan og með því móti gæti hann forðast rangan fréttaflutning af sínum málum, að ekki sé nú minnst á hvað rannsóknaraðilar yrðu ánægðir með hann, en hann legði öll sín spil á borðið undanbragðalaust.
Saklaust fólk þarf ekkert að óttast segi það sannleikann, allan sannleikann og ekkert nema sannleikann.
![]() |
Svaraði í öllum fjölmiðlum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
6.3.2011 | 15:04
Ólögvarin krafa fyrir EFTA-dómstólinn?
Allir lögspekingar þjóðarinnar virðast vera sammála um að krafa Breta og Hollendinga á hendur íslenskum skattgreiðendum sé ólögvarin og þarf í sjálfu sér ekki annað en að lesa tilskipun ESB og íslesku lögin um tryggingarsjóði til að sannfærast um að svo sé.
Fulltrúar framkvæmdastjórnar ESB hafa einnig staðfest opinberlega að tilskipun ESB geri ekki ráð fyrir ríkisábyrgðum á tryggingasjóðum innistæðueigenda og fjárfesta, enda væri slík ábyrgð samkeppnisbrot og mismunun milli ríkja á evrópska efnahagssvæðinu.
Með þetta í huga er ótrúlegt að hlutst á ráðherra, þingmenn og fleiri ræða um svokallaða "dómstólaleið" eins og málið sé nánast tapað fyrirfram, þó vanalega sé því bætt við að aldrei sé hægt að segja fyrir með fullri vissu hvernig dómsniðurstaða verði í málinu.
Þó löggjöfum sé afar gjarnt að setja svo óljós og gölluð lög, að enginn geti verið í vissu um hvernig eigi að túlka þau nema Hæstaréttardómarar, þá er ekki að sjá að neinn vafi sé í þessu máli, enda væri þá ekki verið að neyða Alþingi til að samþykkja ríkisábyrgð núna, hafi verið gert ráð fyrir henni frá upphafi.
Alþingi og ríkisstjórn hafa látið undan þvingunum Breta og Hollendinga og samþykkt fyrir sitt leyti óútfylltan víxil með ríkisábyrgð vegna Icesave.
Nú er málið á valdi kjósenda. Þeir ráða því sjálfir hvort þeir láta reyna á "dómstólaleiðina", sem reyndar er nokkuð víst að verði aldrei farin verði lögin um Icesave III felld úr gildi í þjóðaratkvæðagreislunni 9. apríl.
![]() |
Íslenskir dómstólar hafa lokaorð |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
4.3.2011 | 16:15
Vítisenglar í bið
Eftir því sem heimildir mbl.is segja, munu norsk yfirvöld ekki hleypa félögum úr MC Iceland inn í landið, heldur endursenda þá til Íslands og þar af leiðandi mun væntanlega mistakast að gera þá formlega að meðlimum í alheimsglæpasamtökunum Hells Angels að þessu sinni.
Íslensk yfirvöld hafa reynt af femsta megni að endursenda norska félaga glæpasamtakanna þegar þeir hafa reynt að heimsækja glæpafélaga sína hérlendis og nú bregða norsk yfirvöld til sömu ráða til að forða sínu landi frá svona óyndislegum heimsóknum íslenskra krimma.
Vonandi tekst að hamla formlegri vígslu íslensku krimmanna í alþjóðaglæpasamtökin enn um sinn með þessum vöruskiptajöfnuði sem nú hefur komist á milli Noregs og Íslands.
Svona glæpasöfnuði myndu öll lönd verða fegin að losna við, væri það mögulega hægt.
![]() |
Félögum í MC-Iceland vísað frá |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
4.3.2011 | 12:39
Launþegar lýsa ábyrgð á hendur ríkisstjórninni
Starfsgreinasambandið lýtur á baráttu ríkisstjórnarinnar geng atvinnulífinu í landinu og allri nýrri atvinnustarfsemi, sem hugsanlegt væri að koma á fót, sem höfuðvandamálið sem við er að glíma í sambandi við þá kjarasamninga sem í gangi eru.
Sambandið telur ómögulegt að gera samninga, nema til skamms tíma, verði ekki alger stefnubreyting hjá ríkisstjórninni í atvinnumálum, eins og sést af eftirfarandi klausu úr ályktun þess: "Innan Starfsgreinasambandsins og annarra aðildarsambanda ASÍ er nú stefnt að þriggja ára samningi sem byggir m.a. á úrbótum í efnahagsmálum, atvinnumálum og félagsmálum. Sá þáttur snýr að ríkisvaldinu og gæti orðið snúinn viðfangs, einkum umræðan um orkuöflun og virkjanir í tengslum við atvinnuuppbygginguna. Náist ekki fljótlega viðunandi samkomulag við ríkið um haldbæra stefnumörkun í atvinnumálum er vart hægt að tala um annað en kjarasamning til skemmri tíma."
Þess eru fá, ef nokkur, dæmi að samtök launþega hafi látið frá sér jafn harðorða yfirlýsingu um atvinnustefnu nokkurrar ríkisstjórnar og kennir þó sitjandi ríkisstjórn sig við velferð og velvilja í garð vinnandi stétta landsins.
Ríkisstjórnin þyrfti að skilja það sem öllum öðrum hefur verið kunnugt lengi, að án atvinnu verður engin velferð og engar vinnandi stéttir.
![]() |
Atvinnumál lykilatriði í kjaraviðræðum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.3.2011 | 16:26
Vinstri menn kveikja seint á perunni
Þegar Björn Bjarnason, fyrrverandi dómsmálaráðherra, lagði fram tillögur um forvirkar rannsóknarheimildir lögreglunnar ærðust vinstri menn og sögðu að Björn vildi stofna leyniþjónustu til að fylgjast með hverri hreyfingu almennra borgara og helst voru þeir vissir um að fylgjast ætti með þeim sjálfum, enda hefur samviskan ekki verið alveg hrein í öllum tilfellum.
Ögmundur Jónasson, þá í stjórnarandstöðu en núverandi Innanríkisráðherra, beitti sér oft og mikið á Alþingi gegn öllum áformum um forvirkar rannsóknarheimildir, en núna þegar íslenskur ruslaralýður er við það að fá formlega inngöngu í glæpasamtök Vítisengla og búið er að stofna samtök sem tengjast Banditos, þá loksins vakna vinstri menn upp við vondan draum og Ögmundur verður að kyngja þeim beiska bita að þurfa að leggja fram frumvarp til laga gegn þessum ófögnuði.
Það er ekki ofsögum sagt að vinstri menn eru seinir að kveikja á perunni í ýmsum efnum og oft kveiknar alls ekki á henni, en í þetta sinn lifnaði smá týra, en þá auðvitað ekki fyrr en stofnun þessara og annarra glæpaflokka hérlendis er orðin staðreynd.
Vonandi reynist ekki vera orðið of seint að bregðast við þeirri glæpaverkum sem reikna má með þegar Hells Angels og Banditos fara að ganga hér um með vopn, sem þeir munu ekki hika við að nota á almenning og ekki síst í baráttu sín á milli um yfirráðin í undirheimunum.
Fyrst kviknaði á peru vinstri manna varðandi þessi mál á annað borð, er vonandi að týran lifi eitthvað áfram og upplýsi þá jafnvel á fleiri sviðum.
![]() |
Fá fulla aðild að Vítisenglum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
3.3.2011 | 13:04
Sakleysingjarnir tefja upplýsingagjöf
Kaupþingsgengið, með Sigurð Einarsson í fararbroddi, hefur eins og önnur banka- og útrásargengi keppst við að lýsa sakleysi sínu af öllum misgjörðum á bankaránsárunum og ekki síður einlægum áhuga sínum á því að aðstoða við að koma öllum upplýsingum um athafnir sínar upp á yfirborðið og að sjálfsögðu í þeim göfuga tilgangi að sanna sakleysi sitt af öllum áburði um ólöglegar aðgerðir.
Í þessu ljósi verður að teljast meira en undarlegt að þessir sömu aðilar skuli berjast með kjafti og klóm á öllum vígstöðvum gegn því að upplýsingar um þessar saklausu verk komist í hendur þeirra, sem eru að reyna að púsla saman heildarmynd af flóknu fyrirtækjaneti þessara manna, krosseignarhaldi þeirra og hver borgaði hverjum hvenær og fyrir hvað.
Sérstakur saksóknari hefur í tvö ár verið að reyna að ná heildarsýn á þessi flóknu mál og meðal annars reynt að afla upplýsinga erlendir frá, t.d. frá fyrrum miðju köngulóarvefjar þessara banka- og útrásargengja, Lúxemborg, en það tók þó meira en heilt ár að fá þær upplýsingar afhentar vegna mótspyrnu sömu aðila og allt þykjast vilja gera til að sanna sakleysi sitt.
Í fréttinni kemur fram hverjir þetta eru aðallega, en þar segir m.a: "Um er að ræða Ólaf Ólafsson og fjögur félög í hans eigu, Hreiðar Má Sigurðsson, fyrrum forstjóra Kaupþings, Sigurð Einarsson, fyrrum starfandi stjórnarformann Kaupþings, og kaupsýslumennina Skúla Þorvaldsson, Egil Ágústsson og Einar Bjarna Sigurðsson."
Blásaklaus banka- og útrásargengi berjast varla svona hatrammlega gegn því að upplýsingar um sakleysi þeirra komist upp á yfirborðið.
![]() |
Börðust gegn afhendingu gagna |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.3.2011 | 20:12
Fróðlegur fundur um Icesave
VÍB hélt afar fróðlegan fund um Icesave III, þar sem erindi fluttu þeir Jón Bjarki Bentsson, frá Greiningu Íslandsbanka, og Lárus Blöndal hrl., sem var í samninganefndinni um Icesave III, og fóru þeir yfir málið hvor frá sinni hlið, þ.e. Jón Bjarki skýrði kosti og galla þess að samþykkja lögin um Icesave, eða hafna, og Lárus útskýrði samninginn sjálfa, samningsferlið og áhætturnar sem fælust í því að hafna lögunum og hvað gæti gerst tapaðist mál fyrir EFTAdómstólsins í framhaldinu.
Frummælendur mæltu ekki fyrir því sérstaklega að samningurinn yrði samþykktur í þjóðaratkvæðagreiðslunni, heldur skýrðu málið mjög vel út frá báðum hliðum og hvaða kostir væru hugsanlegir í stöunni, eftir því hvernig málið færi þar.
Fyrir eindreginn andstæðing Icesave frá upphafi skýrðust ýmis mál á þessum fundi og það sem stendur uppúr eftir þessa kynningu er, hvílíkan glæp gegn þjóðinni var reynt að fremja með Icesave II, að ekki sé minnst á upphaflega Svavarssamninginn, Icesave I, sem engin orð ná að lýsa hvernig farið hefði með þjóðarbúið, sem aldrei hefði getað staðið undir honum.
Ríkisstjórnin, Svavar Gestsson og aðrir sem reyndu að þröngva Icesave I óséðum i gegnum þingið, ásamt þeim þingmönnum sem studdu málið á sínum tíma, skulda þjóðinni afsökunarbeiðni og ef snefill af sjálfsvirðingu er eftir í hugum þessa fólks, myndi það draga sig út úr allri opinberri þjónustu umsvifalaust og láta lítið á sér bera á næstu árum.
Hvað sem annars er um málið að segja, þá er í raun og veru verið að fjalla um alls óskylda hluti núna eða þá var.
![]() |
Húsfyllir á opnum fundi um Icesave |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)