Bloggfærslur mánaðarins, mars 2011
2.3.2011 | 16:00
Valdhroki og yfirgangur Svandísar
Í október s.l. mælti Guðrún Margrét Árnadóttir hrl., fulltrúi ríkislögmanns, með því að dómi undirréttar vegna aðalskipulags Flóahrepps yrði EKKI áfrýjað til Hæstaréttar, enda engar líkur á því að dómi undirréttar yrði snúið við, þar sem engar lagastoðir væru fyrir neitun Svandísar Svavarsdóttur á því að samþykkja skipulagið.
Þrátt fyrir lagalegar ráðleggingar embættis ríkislögmanns ákvað táknmálstúlkurinn Svandís að áfrýja málinu til Hæstaréttar í þeim eina tilgangi að fresta staðfestingu skipulagsins, enda var hún búin að hanga á málinu og tefja það í tvö ár og þrátt fyrir dómu um að hún væri orðin lögbrjótur vegna þessa hélt hún áfram að tefja málið með fyrirfram tapaðri áfrýjun, sem ekkert gerði annað en auka útgjöld ríkissjóðs vegna málsins og tefja þá atvinnuuppbyggingu, sem hugsanlega myndi fylgja frágangi málsins.
Með þessari svívirðilegu framkomu, þvert á ráðleggingar henni viturri manna, hefur Svadís sýnt af sér þvílíkan valdhroka og yfirgang að forsætisráðherra getur ekki annað en vikið henni úr embætti tafarlaust.
Ráðherra í Þýskalandi hefur þurft að segja af sér fyrir ritstuld, sem þó kom stjórnmálastarfi hans eða ráðherradómi ekkert við.
Varla telst það minni sök að stela heilu aðalskipulagi af sveitarfélagi og skila því ekki fyrr en að tveim árum liðnum og þá eingöngu vegna dóms Hæstaréttar landsins um að ráðherrann sé lögbrjótur.
![]() |
Ríkislögmaður mælti gegn áfrýjun |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
2.3.2011 | 13:04
Bónus fyrir að minnka tekjur Símans?
Síminn hefur sagt upp níu starfsmönnum fyrir brot á starfsreglum, en þeir unnu við að hringja í viðskiptavini Símans og bjóða þeim upp á breytingu á áskriftarleiðum. Fyrir hverja breytingu sem þessum starfsmönnum tókst að koma í gegn fengu þeir greiddan bónus, en í fégræðgi sinni slepptu þeir því að hafa samband við viðskiptavinina en breyttu eftir sem áður áskriftarleiðunum og hirtu bónusgreiðslur fyrir.
Venjulega greiða fyrirtæki starfsmönnum bónusa fyrir vel unnin störf sem leiða til aukinna tekna fyrir fyrirtækið og auka þar með hagnað þess. Að vísu mun það hafa tíðkast í bönkunum fyrir hrun að greiða himinháa bónusa, þó starfsmennirnir væru alls ekki að skapa bönkunum meiri tekjur og aukinn hagnað, heldur þvert á móti eintómar loftbólur sem sprungu að lokum með mesta bankahruni sögunnar.
Mjög líklega hafa þeir viðskiptavinir Símans sem fengu símhringingar og boð um breyttar áskriftarleiðir talið að verið væri að bjóða sér hagstæðari kjör og lægri símareikninga og ef það er raunin er Síminn eina fyrirtækið sem heyrst hefur um, sem greiðir starfsfólki sínu bónusa fyrir að lækka tekjur fyrirtækisins og minnka þar með hagnað þess.
Voru þessar úthringingar kannski ekki í þágu viðskiptavinanna, heldur til að hækka reikninga þeirra og þar með auka tekjur og hagnað Símans sjálfs?
![]() |
Sakar starfsmenn að brjóta starfsreglur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
2.3.2011 | 10:07
Sérstakur saksóknari tveggja ára
Um þessar mundir eru tvö ár síðan Sérstakur saksóknari tók til starfa, embættið fór rólega af stað og allir muna eftir myndum í fjölmiðlunum af þeim sérstaka, sitjandi á skrifstofu sinni með galtómar hillur á bak við sig, bíðandi efir gögnum til að vinna úr.
Smátt og smátt óx embættinu fiskur um hrygg og starfsmönnum fjölgaði, Eva Joly var ráðin sem sérstakur ráðgjafi og vegna fyrri starfa hennar gat hún komið á tengslum við ýmsa vana rannsakendur erlendis og samvinna komst á við Special Fraud Office í Bretlandi og ýmsar aðrar stofnanir erlendis, sem sérhæfðar eru í rannsóknum á fjármálasvikum.
Vafalaust er unnið mikið og gott starf hjá embætti þess sérstaka, en þó er farið að gæta óþolinmæði í þjóðfélaginu vegna þess að ekkert er farið að sjást fyrir dómstólum af málum frá embættinu, nema eitt "smámál" þ.e. ákæran á hendur Baldri Guðlaugssyni fyrir að hafa selt hlutabréf sín í Landsbankanum á óheppilegum tíma og snýst málið um það, hvort hann hafi vitað um slæma stöðu bankans eða ekki.
Vonandi heldur saksóknarinn sérstaki upp á tveggja ára afmælið með útgáfu ákæra á hendur þeim sem sannarlega ollu bankahruninu með því að ryksuga allt fjármagn úr bankakerfinu innanfrá og settu með því bankana á hausinn ásamt nánast öllum fyrirtækjum sem þeir komu nálægt, innanlands og utan.
Raunverulegu skúrkarnir ganga allir lausir og senda þjóðinni og réttarkerfinu langt nef úr lúxusvillum sínum í auðmannahverfum nágrannalandanna.
Þjóðin bíður eftir að réttlætinu verði fullnægt vegna þessara mála. Sakfelling Baldurs Guðlaugssonar fyrir hlutabréfasölu dugar ekki.
![]() |
Aðalmeðferð í máli Baldurs hafin |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.3.2011 | 15:40
Enn ein ESBlygi Samfylkingar
Samfylkingin virðist ekki geta stutt áhuga sinn á inngöngu í ESB með einni einustu sannri röksemd, heldur er haldið að almenningi alls kyns hálfsannleika og í mörgum tilfellum hreinum lygum. Lengi hefur Samfylkingin klifað á því að vextir myndu lækka gríðarlega við upptöku evru og halda sér við þá lygasögu, þrátt fyrir að margsinnis hafi verið bent á að vextir eru ekki eins í öllum ESB löndum og fara algerlega eftir trausti á viðkomandi ríki og mörg ár munu líða, ef það verður þá nokkurntíma, sem Ísland mun njóta vaxtakjara eins og Þýskaland.
Þrátt fyrir að Lilja Mósesdóttir hafi sýnt fram á þessar staðreyndir með tilvísun til mismunandi vaxtakjara í Evrópu og þess að erlendar lánastofnanir lána ekki lengur til vandræðalanda, eins og Ísland sannarlega er og verður um mörg ár ennþá og ekki síst á meðan núverandi ríkisstjórn situr, en traust á henni erlendis er minna en ekkert, þá heldur Magnús Orri Schram áfram að falsa staðreyndir varðandi vaxtakjörin í Evrópu og þeirra kjara sem Íslendingum mun koma til með að bjóðast.
Endalaust er klifað á þeirri fölsun að verðtrygging íslenskra lána sé svo skelfileg, að hún ein réttlæti upptöku nýs gjaldmiðils og að verðbólga yrði úr sögunni hérlendis um leið og nýr gjaldmiðill yrði tekinn upp, þrátt fyrir að talsverð verðbólga sé einnig í ESBlöndum og fari vaxandi um þessar mundir. Mismunurinn er sá, að í Evrópu er vaxtastiginu haldið yfir verðbólgunni, þannig að fólk í þeim löndum er ekki að fá neitt gefins frá bönkunum þar, frekar en hér.
Nú er verðbólga lítil á Íslandi og ekki horfur á að hún verði mjög mikil á næstu árum, þannig að ef einhvern tíma er tækifæri til að gera breytingu á lánakerfinu, er það núna. Það verður að teljast undarlegt að andstæðingar verðtryggingarinnar skuli ekki rísa upp og krefjast afnáms verðtryggðra lána, fyrst þeir eru svona sannfærðir um að verðtryggingin sé upphaf og endir alls vanda skuldara.
Hér hefur oft verið bent á að það sé vaxtaokrið, sem sé vandamálið, en ekki verðtryggingin og því vekur það mikla furðu að engin umræða sé nú um afnám verðtryggingar og alls engin um vaxtaokrið, sem hér hefur tíðkast áratugum saman. Jafnvel hefur verðtryggingunni verið kennt um hvað dýrt sé að taka lán þegar vextirnir hafa jafnvel verið 8-10% ofan á verðtrygginguna og í sumum tilfellum ennþá hærri.
Ef einhver vilji er til þess að taka upp alvöru hagstjórn á Íslandi, þá er hægt að gera það núna með krónunni, verðtryggðri eða óverðtryggðri, en að sjálfsögðu kallar slíkt á gjörbreytta hugsun almennings og stjórnmálamanna varðandi eyðslu og lántökur.
Sú hugarfarsbreyting þarf að eiga sér stað hvort sem gengið verður í ESB eða ekki og hvort sem skipt verður um gjaldmiðil eða ekki. Óðaverðbólga með Evru myndi leiða hagkerfið í þrot á örfáum árum og skulduga einstaklinga líka, enda yrðu allir vextir breytilegir og alltaf hærri en verðbólgan.
![]() |
Segir vexti lítið lækka með upptöku evru |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
1.3.2011 | 12:46
Jón Ásgeir lætur ekki bjóða sér neinar almúgagistingar
Fréttir berast nú af því að skilanefnd Landsbankans hafi leyst til sín lúxusíbúð Jóns Ásgeirs í New York og hafi nefndin leyst svítuna til sín á tvo og hálfan milljarð króna. Íbúðin mun vera um 400 fermetrar að stærð og því leggur fermeterinn sig á rúmar sex milljónir króna og má benda á að fermeterinn í lúxusíbúðum hér á landi nær varla 10% af þessari upphæð.
Einnig hefur komið fram, að íbúðin var öll í skuld og fyrst skilanefndin er að hirða hana núna upp í skuldirnar hefur ekki verið greitt af þeim, frekar en af öðrum lánum sem Bónusgengið hefur tekið í gegnum tíðina. Þá vakna líka spurningar um það, hvort Jón Ásgeir hafi greitt skatta af þeim hlunnindum sem hann hefur notið vegna afnota af þessu lúxussloti undanfarin ár, en venjulegir íslenskir skattaþrælar eru miskunnarlaust látnir greiða skatta af öllum hlunnindum sem þeir eru taldir njóta til viðbótar við laun sín.
Hafi lánið, sem hvíldi á íbúðinni verið á tiltölulega góðum vöxtum, t.d. 4%, hafa vaxtagreiðslur verið um eitthundrað milljónir króna á ári og þar sem Jón Ásgeir bjó ekki að staðaldri í þessari íbúð, því fasta búsetu hefur hann í lúxusvillu í London, hefur hver gistinótt kostað ótrúlegar upphæðir. Ef miðað væri við að Bónusgengið hefði gist í íbúðinni í mánuð árlega hefur hver nótt kostað rúmlega 3,3 milljónir króna vegna vaxtanna einna saman og er þá annar rekstrarkostnaður ekki meðtalinn, en hann er án vafa verulegur.
Sem betur fer á Bónusgengið aðra lúxusíbúð í New York, þannig að þó hún sé ef til vill ekki eins dýr og þessi, sem nú var tekin upp í skuldir, verður að reikna með og vona að sæmilega fari um gengið þar, því ekki er hægt að reikna með að fólk sem vant er svona lúxus geti gist á hótelum þegar það á leið um stórborgina, eins og hver annar almenningur.
Að vísu eru til rándýr hótel í New York sem margir raunverulegir auðkýfingar láta sér nægja í heimsóknum sínum til stórborgarinnar, en íslenskar snobbfígúrur láta auðvitað ekki bjóða sér svoleiðis hótelsvítur, þótt rándýrar séu.
Enda ekki ástæða til að láta bjóða sér annað en það flottasta og dýrasta, þegar maður þarf aldrei að borga krónu fyrir það sjálfur, en það er einmitt mottó íslenskra auðróna, eins og þeir hafa verið kallaðir, algerlega að ósekju auðvitað.
![]() |
Íbúð Jóns Ásgeirs í hendur Landsbankans |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)