Bloggfærslur mánaðarins, desember 2011

Ákæran er í höndum Alþingis

Lilja Rafney Magnúsdóttir, þingmaður VG, segir að ákæran á hendur Geir H. Haarde sé ekki á höndum Alþingis, heldur Landsdóms. Þetta er auðvitað eintóm blekking, þar sem Alþingi er ákærandi í málinu, saksóknarinn fer með málið fyrir hönd Alþingis og rekur það fyrir Landsdómi í umboði Alþingis.

Þingmenn VG ættu að sjá sóma sinn í því að játa "mistök" sín í þessu máli og viðurkenna að það hafi verið pólitískt ofstæki og hefndarþorsti sem réð gerðum þeirra þegar þeir samþykktu þennan arfavitlausa gjörning.

Virðing Alþingis, sem ekki er beisin um þessar mundir, gæti aukist örlítið yrðu þessi afglöp þingsins leiðrétt núna. Engar líkur eru til annars en að Geir H. Haarde verði sýknaður af öllum ákærum fyrir Landsdómi, enda lætur enginn heiðarlegur dómstóll misnota sig í pólitískum tilgangi.

Þegar þar að kemur verður skömm þeirra þingmanna, sem samþykktu ákæruna, enn meiri en hún þegar er orðin. Með því að draga ákærurnar til baka gætu þeir minnkað skömm sína til mikilla muna.


mbl.is Ákæran í höndum landsdóms
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dragi Landsdómsmálið til baka með afsökunarbeiðni

Samþykkt meirihluta þingmanna á tillögunni um að ákæra Geir H. Haarde, fyrrv. forstætisráðherra, og stefna honum einum manna fyrir Landsdóm var viðkomandi þingmönnum til ævarandi skammar og Alþingi sjálfu til háðungar. Dagurinn sá var mikill sorgardagur í þingsögunni.

Þeir þingmenn, sem settu nöfn sín á spjöld sögunnar sem þingnýðingar með samþykkt ákærunnar, verða að biðja Geir H. Haarde og þjóðina afsökunar á frumhlaupi sínu, ætli þeir sér að draga ákærurnar til baka og fella málið niður.

Geri þeir það ekki verða þeir áfram marklaus ómenni í augum alls þorra almennings, en menn að meiri biðjist þeir fyrirgefningar á misgerð sinni.


mbl.is Málið gegn Geir verði fellt niður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ánægjulegir umskiptingar í ríkisstjórninni

Alger umskipti hafa orðið í afstöðu og framgöngu ríkisstjórnarinnar í Icesavemálinu, því nú keppast ráðherrarnir hver í kapp við annan að lýsa því yfir að aldrei hafi verið gert fyrir ríkisábyrgðum í tilskipunum ESB vegna tryggingasjóða innistæðueigenda og fjárfesta og því séu nánast engar líkur á því að mál tapist fyrir EFTAdómstólnum vegna kæru ESA um ætluð brot Íslands á EES-samningnum.

Þetta er allt annar og nýr tónn úr herbúðum stjórnarinnar, enda muna allir hvernig þessir sömu ráðherrar kepptust um að lýsa stuðningi við kröfur Breta og Hollendinga á hendur íslenskum skattgreiðendum og þurfti tvær þjóðaratkvæðagreiðslur til að reka þjónkunina við Breta, Hollendinga, ESB og AGS öfuga ofan í ráðherrana og koma þeim í skilning um að skattgreiðendur á Íslandi vildu ekki og ætluðu ekki að láta kúga sig til skattaþrælkunar fyrir þessa erlendu herra.

Nú kveður við algerlega annan tón, eins og eftirfarandi setning úr fréttinni ber með sér: "Árni Páll Árnason, efnahags- og viðskiptaráðherra, segir Íslendinga hafa sterk efnisleg rök að byggja á í málarekstrinum gegn ESA. Hann segir Breta og Hollendinga jafnframt ætla sér að gera ástandið á Íslandi að féþúfu en hafi á engum efnislegum rökum að byggja."

Þetta eru sannarlega ánægjuleg umskipti og loksins fara ráðherrarnir að vinna í málinu eins og þeir hefðu átt að gera frá upphafi, þ.e. að verja rétt Íslendinga í málinu og berjast af öllum kröftum með þjóðinni gegn ofríkinu.

Tapist málið fyrir EFTA-dómstólnum verður það líklega vegna þeirrar staðreyndar að íslenska ríkisstjórnin var búin að fallast á sjónarmið andstæðinga sinna í málinu og staðfesta undirgefni sína með undirskrift sinni á þrjá kúgunarsamninga, sem þjóðin neitaði þó að staðfesta. 


mbl.is Eiga sér engin efnisleg rök
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Árásunum á lífeyrisþega verður að hrinda

Fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar og tilheyrandi bandormur eru samfelldar árásir á lífeyrisþega, t.d. með þeirri ætlan að svíkja hækkun lífeyris samkvæmt samningi ríkisstjórnarinnar við verkalýðshreyfinguna, ofursköttum á "umframhagnað" lífeyrissjóðanna, sem valda mun lækkun lifeyris, niðurskurði á möguleikum til sparnaðar í séreignarlífeyrissjóðunum um heil 50% o.fl.

Þetta eru því furðulegri árásir á kjör þeirra sem minnst hafa, þar sem ríkisstjórnin hefur kennt sig við "norræna velferð", þó það heiti sé nú orðið hreint öfugmæli og notað sem háðsyrði um ríkisstjórn Jóhönnu og Steingríms J. Engin "norræn velferðarstjórn" myndi kæra sig um að verða líkt við þá íslensku.

Raunveruleikaskin ráðherranna er orðið svo gjörsamlega brenglað og þeir eru svo gjörsamlega úr sambandi við það sem er að gerast í þjóðfélaginu, sem t.d. sannaðist eftirminnilega með ummælum Jóhönnu Sigurðardóttur um að fólksflóttinn úr landinu væri eintóm ímyndun þó annað eins hafi ekki sést síðan á tímum vesturfaranna fyrir rúmum hundrað árum.

Vonandi fær fólkið í landinu fljótlega nýja ríkisstjórn, sem lifir í sama raunveruleika og þjóðin sjálf.


mbl.is Umræður um bandorminn halda áfram
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skrípamynd og hryllingsmynd af Vantrú

Einn stofnenda Vantrúar segir að kæra félagsins til Siðanefndar Háskóla Íslands vegna umfjöllunar Bjarna Randvers Sigurvinssonar um félagið í kennslu sinni við Guðfræðideild hafi byggst á því að Vantrúarfélagar hafi talið hann dregið upp skrípamynd af félagsskapnum.

Eftir að pistlar Vantrúarmanna af innri vef sínum og öðrum skrifum á netsíður hefðu þeir átt að gleðjast yfir því að einhver drægi eingöngu upp af þeim skrípamynd en ekki þá mynd sem þeir draga upp af sjálfum sér og félagsskap sínum.

Þeirra eigin mynd af Vantrú er alger hryllingsmynd.


mbl.is Málið snúist um útúrsnúninga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ísland í ofbeldissamband?

Framkvæmdastjórn ESB ætlar að beita sér fyrir ofbeldisaðgerðum gegn Íslandi og Færeyjum vegna veiða þjóðanna á makríl innan sinnar eigin fiskveiðilögsögu. Tillagan virðist jafngilda stríðsyfirlýsingu af hendi ESB, enda þurfa slíkar hernaðaraðgerðir sem þessar að hljóta samþykki ráðherraráðs ESB og staðfestingu Evrópuþingsins.

Það hlýtur að vera einsdæmi í veröldinni að stríði, eða jafngildi þess, sé lýst á hendur ríkjum vegna veiða innan sinnar eigin lögsögu, en sýnir í hnotskurn eðli þess verðandi stórríkis sem ESB er að stefna að því að verða undir "tvíræði" Merkels og Sarkozys.

Konur, sem búa við ofbeldi á heimilinu, reyna venjulega að leita allra ráða til að losna úr slíku sambandi og ef ofbeldisseggurinn heldur uppteknum hætti er þrautalendingin að fá ofsækjandann dæmdan í nálgunarbann.

Össur, Jóhanna og aðrir ESBsinnar vilja hins vegar ekkert frekar en að komast í slíkt ofbeldissamband og ef rétt er munað þá kallast slíkt Masokismi, eða sjálfspíningarhvöt.


mbl.is Refsiaðgerðir ef ekki semst í janúar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skattleggja allt sem er "umfram"

"Norræna velferðarstjórnin" hefur margsinnis lofað allt að sjö þúsund störfum við "eitthvað annað" og hefur getað endurnýtt þann frasa með reglulegu millibili, enda hefur störfum ekkert fjölgað og ekki bólar heldur á "einhverju öðru" í atvinnumálunum.

Nú hefur meirihluti Efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis fundið upp á nýju snjallræði í brjálæðislegri leit sinni að nýjum skattstofnum, en það er að ofurskatta allt sem er "umfram". Þetta kemur t.d. fram í breytingartillögum nefndarinnar um skattlagningu fjármálafyrirtækja, eða eins og segir í fréttinni: "Meirihluti nefndarinnar ætlar að breyta álagningu fjársýsluskatts. Upphaflega átti að leggja 10% skatt á launaútgjöld fjármálafyrirtækja, en nefndin leggur til 5% skatt á laun og að restin komi af svokölluðum umframhagnaði bankanna."

Óútskýrt er hvað "umframhagnaður" er, en svona hugmyndaauðgi opnar fyrir ótal möguleika í skattlagningu, því t.d. má leggja ofurskatta á "umframlaun", "umframeignir", "umframeyðslu" og allt sem nöfnum tjáir að nefna og er "umfram".

Hugmyndaauðgi vinstrimanna í skattamálum er svo yfirgengileg að hún er nánast aðdáunarverð. Miklu betra væri þó að hugarflugið væri nýtt til raunverulegrar uppbyggingar þjóðfélagsins og breikkunar skattstofna í stað þess að finna endalaust upp nýja "umframskatta". 


mbl.is Skattalagabreytingar samþykktar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fjölmiðlar skaða rannsóknir á hrungengjunum

Ólafur Þór Hauksson, Sérstakur saksóknari, var í ítarlegu og fróðlegu viðtali um þær rannsóknir sem í gangi eru á banka- og útrásargengjunum varðandi lögbrot í rekstri banka og annarra fyrirtækja í þeirra eigu, peningaþvætti, markaðsmisnotkun og ólöglega lánastarfsemi, svo fáein atriði séu nefnd.

Eins og segir sig sjálft eru þessar rannsóknir afar umfangsmiklar og flóknar og teygja sig vítt og breitt um heiminn, því öll brögð voru notuð til að fela slóð þeirra tuga milljarða króna sem rannsóknirnar snúast um.  Ólafur Þór sagði að nokkur mál væru fullrannsökuð nú þegar og vænta mætti að þau færu til dómstólanna á næstunni, fjölda mála yrði lokið á næsta ári, en væntanlega myndi þó ekki sjá fyrir endann á rannsóknunum fyrr en í fyrsta lagi árið 2014.

Einnig kom fram hjá Ólafi Þór að fjölmiðlar hefðu spillt fyrir embættinu og rannsóknunum með því að skýra frá rannsóknaraðferðum, t.d. símahlerunum og þannig gert saksóknurunum erfiðara fyrir í rannsóknum sínum.  Um þetta atriði sagði hann m.a:  "Þannig að ég held nú að þeir sem hlut áttu hafi nú verið svolítið grandalausir gagnvart því að þetta úrræði kynni hugsanlega að verða notað. Eftir að þetta komst í hámæli þá er þetta nú ekki að nýtast okkur sem úrræði lengur."

Fjölmiðlar verða að fara varlega í umfjöllunum sínum um rannsóknir sakamála og láta nægja að skýra frá því helsta sem í gangi er hverju sinni, án þess að uppljóstra nákvæmlega hvaða aðferðir eru notaðar hverju sinni til að upplýsa glæpina. 


mbl.is Rannsaka peningaþvætti í bönkunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ítrekaðar árásir ríkisstjórnarinnar á kjör lífeyrisþega

"Norræna velferðarstjórnin" hefur margsýnt að henni sé verulega illa við lífeyrisþega, enda skert kjör þeirra jafnt og þétt allan sinn valdatíma, eins og harkaleg gagnrýni formanns Öryrkjabandalagsins, forseta ASÍ og forystumanna samtaka aldraðra undanfarið bera glöggt vitni.

Nýjustu "afrek" stjórnarinnar í þessum efnum er samþykktin um að skerða möguleika landsmanna til sparnaðar í séreignarlífeyrissjóðunum um heil 50%, en verða tvískattaðir ella á efri árum, og svo boðuð skattlagning á sameignarlífeyrissjóðina, sem leiðir ekki til neins annars en skertra lífeyrisgreiðslna til allra rétthafa í almennu lífeyrissjóðunum.

Nafnið sem ríkistjórnin gaf sjálfri sér í upphafi valdatíma síns, þ.e. "Norræn velferðarstjórn" er orðið að algeru háðsyrði og væri landsmönnum hlátur í hug á annað borð, væri stjórnin aðhlátursefnið.


mbl.is Skerðast lífeyrisgreiðslur?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Saksóknari klúðrar ákærum enn á ný

Ekki er ennþá búið að birta dóm héraðsdóms í skattamáli Baugsgengisins, sem á rætur að rekja allt aftur í Baugsmálið fyrsta, en þó er komið fram að sakfellt hefur verið fyrir einhver ákæruatriði, en refsingu frestað haldi sakborningar skilorð í eitt ár.

Skilorðsbinding refsingarinnar á samkvæmt dóminum rætur sínar aðallega í því að rannsókn málsins tók alltof langan og óeðlilegan tíma og þar að auki var ákæran svo illa úr garði gerð af hálfu embættis saksóknara, að dómarar og verjendur áttu fullt í fangi með að ráða í þau gögn sem ákæran byggði á og þar að auki fylgdu með þúsundir skjala, sem komu ekkert við sögu í ákærunni sjálfri.

Dómstóllinn segir m.a. í úrskurði sínum varðandi skjalameðferð ákæruvaldsins: "Virðist hún enda miðuð við þarfir þeirra sem söfnuðu og röðuðu skjölunum undir rannsókninni. Hefur þetta valdið dómendum og verjendum umtalsverðri fyrirhöfn og töfum, allt frá því að farið var að fjalla um réttarfarsatriði í málinu snemma árs 2009."

Í Baugsmálinu fyrsta var aðeins sakfellt fyrir nokkur "minniháttar" brot og ef rétt er munað var einmitt sýknað í "meiriháttar" málunum vegna vanreifunar þeirra og lélegs málatilbúnaðar af hálfu ákæruvaldsins, enda dómarnir í samræmi við þau vinnubrögð.

Saksóknaraembættið verður að bæta vinnubrögð sín verulega ef nokkurt mark á að taka á embættinu framvegis.  Engan þarf að undra að því embætti skuli ekki hafa verið treyst til að rannsaka gerðir gengjanna sem ollu bankahruninu og þeim skelfingum sem yfir þjóðina hafa gengið af þeirra völdum.

Merkilegt er, og þó kannski ekkert merkilegt, að nöfn sömu einstaklinganna skuli tengjast öllum stærstu sakamálarannsóknum tveggja síðustu áratuga. 


mbl.is Hlutu ekki réttláta málsmeðferð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband