Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2010
31.7.2010 | 12:51
Lítil ummerki um kreppu í landinu
Allar úti- og bæjarhátíðir, sem haldnar eru um helgina virðast ætla að slá aðsóknarmet, miðað við undanfarin ár og verslun á öllum sviðum tengdum skemmtanahaldinu sjaldan eða aldrei verið meiri. Fátt bendir því til þess að landið hafi verið að glíma við mestu efnahagskreppu, sem yfir hefur dunið frá lýðveldisstofnun, því kostnaður við skemmtanahaldið um helgina er í flestum tilfellum umtalsverður.
Útlendingar og Íslendingar búsettir erlendis, sem hingað hafa komið undanfarið, hafa haft á orði að þeir sjái engin ummerki um kreppu hérlendis, enda aki hér allir um á glæsibílum, veitingastaðir séu þéttsetnir að staðaldri og allar verslanir fullar af fólki, sem versli eins og enginn verði morgundagurinn.
Allt annað er uppi á teningnum í umræðum manna á meðal um ástandið í landinu, því allir keppast um að útmála hve erfitt lífið sé og allt orðið dýrt og endar nái engan veginn saman vegna brýnustu lífsnauðsynja og hvað þá vegna afborgana húsnæðis- og bílalána.
Umsvifin í allri verslun og skemmtanahaldi hlýtur því að endurspegla afar mismunandi kjör landsmanna og að kreppan komi lítið sem ekkert við suma, á meðan hún er að sliga aðra. Um þá verst settu lofaði ríkisstjórnin að reisa skjaldborg, en ekkert hefur orðið úr því ennþá og sýnist ekki ætla að verða á næstunni.
Það virðist ætla að koma í hlut dómstólanna, en ekki stjórnarinnar, að leysa þá allra verst settu undan versta efnahagslega okinu, sem sligað hefur stóran hóp í þjóðfélaginu eftir hrunið.
Telja verður það dómstólunum til tekna, en ríkisstjórninni til vansa.
Stærsta föstudagsbrekkan | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
30.7.2010 | 19:57
Á Jón Ásgeir þá einhverja aura?
Þegar breskur dómstóll kvað upp kyrrsetningarúrskurð vegna eigna Jóna Ásgeirs, sagði hann í fjölmiðlum að hann ætti enga falda peningasjóði og ef rétt er munað benti hann á tiltölulega lítinn ævisparnað sinn, eða aðeins nokkra tugi milljóna króna.
Eins og hjá ríkisstjórninni sagðist Jón Ásgeir vera með allt sitt uppi á borðum og öll hans persónulegu fjármál væru gagsæ og auðskilin og -rakin. Daginn eftir kyrrsetningarúrskurðinn virðist hann þó hafa fundið falið fé í sinni umsjá og flýtt sér að dreifa því til vina og kunningja, væntanlega til að stinga þessum tæpu sexhundruðþúsundum punda, eða 110 milljónum króna, undan klóm réttvísinnar.
Fróðlegt verður að sjá skrif helstu leigupenna Jóns Ásgeirs um þetta mál, t.d. Ólafs Arnarsonar, Jóhanns Haukssonar og Bubba Mortens, en þeir hafa verið óþreytandi í lofskrifum sínum um Jón Ásgeir og aðra braskara innan Baugsveldisins.
Þessi tilraun til undandráttar á peningaeign gefur til kynna að ekki sé allt heilagur sannleikur, sem Jón Ásgeir hefur sagt um persónuleg fjármál sín og jafnvel mætti álykta að ekki séu öll kurl komin til grafar ennþá vegna þessa fyrrum ástmögurs þjóðarinnar.
Samkvæmt tekjuskrá Frjálsrar verslunar virðist Jón Ásgeir hafa ágætar tekjur ennþá, án þess að vitað sé hverjir borgi honum þessi góðu laun, en hann þarf a.m.k. ekki að óttast skort á Diet Coke á næstunni.
585.648 bresk pund kyrrsett | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
29.7.2010 | 14:14
Breytir miklu í grundvallaratriðum
Norski fréttavefurinn ABC Nyheter beindi fyrirspurn til framkvæmdastjórnar ESB um ríkisábyrgð á innistæðutryggingum og í meðfylgjandi frétt segir m.a: "Í svari framkvæmdastjórnarinnar kom fram að engin ríkisábyrgð væri á bankainnistæðum samkvæmt tilskipun ESB um innistæðutryggingar. Hins vegar var því haldið fram að annað gilti um Ísland, m.a. vegna þess að tilskipunin hafi ekki verið innleidd á fullnægjandi hátt hér á landi á sínum tíma."
Steingrímur J. segir að þetta svar framkvæmdastjórnarinnar komi sér ekki á óvart, en segist ekki sjá að þetta breyti stöðunni í neinum grundvallaratriðum. Þetta eru einkennileg viðbrögð hjá ráðherranum, eins og svo mörg önnur varðandi þetta mál, því augljóst er að þessi viðurkenning framkvæmdastjórnar ESB er stórmerkilegt innlegg í málið og sannar málstað þeirra, sem haldið hafa því fram að íslenskum skattborgurum beri ekki að taka á sig svo mikið sem eina evru, eitt pund, eða eina krónu vegna Icesave.
Fullyrðing framkvæmdastjórnarinnar um að sérreglur gildi um Ísland, þar sem tilskipunin hafi ekki verið innleidd á fullnægjandi hátt hérlendis á sínum tíma, er aumur og vesældarlegur málflutningur, enda voru engar athugasemdir gerðar við innleiðingu tilskipunarinnar á sínum tíma og hún þar með samþykkt sem fullgild af hálfu ESB. Þessi hluti svarsins er því að engu hafandi, enda algerlega út í hött.
Játning framkvæmdastjórnarinnar á réttmæti mótmæla íslenskra skattgreiðenda við því að taka á sig skattaþrældóm fyrir erlenda kúgara er merkilegt innlegg í baráttuna gegn fjárkúgurunum bresku og hollensku.
Breytir engu í grundvallaratriðum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
29.7.2010 | 13:32
Vegir Samfylkingarinnar eru fyrirsjáanlegir
Ásta Sigrún Helgadóttir, sem hefur starfað sem forstöðumaður Ráðgjafarstofu heimilanna í sjö ár, var við nafnabreytingu á stofnuninni ekki talin jafn hæf til að gegna nafnabreyttri stöðu sinni áfram, eins og dyggur, en atvinnulaus Samfylkingarmaður, sem þó hafði enga reynslu af sambærilegu starfi.
Runólfur Ágústsson, sem ráðinn var í starfið hafði hins vegar þá reynslu af fjármálum, að afskrifa hefur þurft hálfan milljarð vegna fyrirtækis, sem hann stofnaði og rak um skeið og á meðan hann var rektor Háskólans á Bifröst fóru fjármál skólans verulega úrskeiðis og þurfti Runólfur að fara úr því starfi vegna þeirra mála og reyndar annarra og persónulegra deilumála.
Enga slíka reynslu hafði Ásta Sigrún, en hafði hins vegar mikla reynslu af vinnu í félagslega kerfinu og eins og áður sagði, gengt þessu starfi um sjö ára skeið, áður en nafni stofnunarinnar og titli forstöðumannsins var breytt, til þess að gefa Árna Páli, félagsmálaráðherra, frjálsari hendur til að skipa "sinn" mann í stöðuna.
Þar sem reynsla beggja af skuldamálum virðist hafa verið talin jafnstæð, hafa jafnréttissjónarmið, sem ríkisstjórnin þykist berjast fyrir, áreiðanlega ráðið úrslitum um ráðininguna, enda sjá allir hvílíkt misrétti felst í því, að láta það viðgangast lengur að kona skuli gegna slíku starfi.
Sumir vegir eru órannsakanlegir, en slíkt verður seint sagt um vegi Samfylkingarinnar.
Ætlar að krefjast rökstuðnings | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
29.7.2010 | 10:12
Hjáseta eftir fimmtán ára umræður - hneyksli.
Þó ótrúlegt sé, hefur staðið yfir umræða á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í fimmtán ár um það, hvort aðgagnur að hreinu vatni teljist til mannréttinda. Svo sjálfsagt ætti að vera að fæðuöryggi, aðgangur að vatni og aðstöðu til hreinlætis ætti að teljast til lágmarksmannréttinda, að ekki ætti að þurfa að eyða fimmtán dögum í slíka umræðu og hvað þá fimmtán árum.
Það stórmerkilega eftir þessa fimmtán ára umhugsun um þessi mál, skuli Íslendingar ekki hafa getað tekið afstöðu til málsins og því setið hjá við atkvæðagreiðsluna á allsherjarþinginu. Í fréttinni kemur m.a. fram, að: "Í ályktuninni er áhyggjum lýst af því, að 884 milljónir manna hafi ekki aðgang að öruggu drykkjarvatni og 2,6 milljónir skorti hreinlætisaðstöðu. Allt að 1,5 milljónir barna deyi árlega vegna þess að þau skorti vatn og hreinlætisaðstöðu."
Að eitt þeirra landa, sem við hvað bestan vatnsbúskap býr í veröldinni, skuli ekki geta tekið undir þessa sjálfsögðu ályktun er einfaldlega hneyksli og ekkert annað.
Nú verður ríkisstjórnin að gera grein fyrir þessari ótrúlegu hjásetu og eins gott að fram komi rök, sem halda.
Ísland sat hjá á þingi SÞ | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
28.7.2010 | 18:13
Vextirnir eru vandamálið - ekki verðtryggingin
Nú þegar neysluverðsvísitalan fer lækkandi milli mánaða ætti skilningur að fara að glæðast á því, að verðtrygging lána er ekki neitt vandamál í sjálfu sér, heldur er verðbólgan skaðvaldurinn og gegn henni verður að berjast með öllum ráðum, en því miður hefur verið skortur á alvöru hagstjórn í landinu mest allan lýðveldistímann. Verðbólga hefur nánast alltaf verið miklu hærri hér á landi en í nágrannalöndum og aðeins í fjármálaráðherratíð Friðriks Zophussonar og Geirs Haarde var verðbólga hér viðunandi, enda kvartaði enginn þá undan verðtryggingunni.
Það hefur fyrst og fremst verið frá því að fjármálakreppan skall á, sem farið var að finna verðtryggingunni allt til foráttu, í stað þess að beina sjónum að verðbólgunni og baráttunni gegn henni, en verðbólga ætti ekki að vera fylgifyskur kreppu, heldur þvert á móti ætti verðlag að lækka við slíkar aðstæður og virðist loksins vera byrjað á því núna, þótt rúm tvö ár séu nú liðin frá því að gengið byrjaði að hrynja.
Þessi lækkun neysluverðsvísitölunnar ætti að beina sjónum manna að því vaxtaokri, sem tröllriðið hefur í þjóðfélaginu undanfarna áratugi, en 6-8% vextir umfram verðbólgu eru hreint okur, en raunvextir ættu alls ekki að vera hærri en í mesta lagi 3-4% og nær lagi væri að þeir væru um 2%.
Hagsmunasamtök heimilanna og fleiri aðilar, sem aðallega hafa beint kröftum sínum að misskilinni baráttu gegn verðtryggingu lána ættu að beina spjótum sínum að raunverulega vandamálinu, þ.e.. vaxtaokrinu, en lítil von er til að það minnki á meðan enginn berst gegn þessari féflettingu, sem íslenskar fjármálastofnanir hafa beitt landsmenn allt fram á þennan dag.
Raunveruleg barátta gegn vaxtaokrinu verður að fara af stað núna, því ekki gefst betra tækifæri til þess, en einmitt núna, þegar verðbólgan er á þessari miklu niðurleið.
Mesta lækkun vísitölu frá 1986 | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
27.7.2010 | 18:12
Nagli í líkkistu ríkisstjórnarinnar.
Steingrímur J. segir að ríkið hafi vel efni á því að kaupa hlut Magma í HS orku og það sé alveg möguleiki á því að ríkið geri það. Það hlýtur að kalla á svar við þeirri spurningu, hvers vegna ríkissjóður keypti ekki hlutinn í fyrra, þegar hann var falur og einnig hvers vegna ríkið keypti ekki þann hlut í fyrirtækinu, sem Geysir Green er nú að selja Magma til viðbótað við þann hlut sem Magma hafði áður keypt.
Bæði ríkissjóður og lífeyrissjóðirnir könnuðu hagkvæmni þess að kaupa HS orku í fyrra og komust að þeirri niðurstöðu, að fjárfestingin væri of áhættusöm til að réttlæta kaup og því bentu Iðnaðar- og Utanríkisráðuneytin Magma á að stofna skúffufyrirtæki í Svíþjóð, til þess að geta réttlætt kaup þess á félaginu, en aðeins fyrirtæki á evrópska efnahagssvæðinu mega fjárfesta í orkufyrirtækjum hérlendis.
Nú, þegar ríkisstjórnin er komin í stórkostleg vandræði með málið, þykist hún geta leyst sjálfa sig úr snörunni með því að skipa rannsóknarnefnd til að kanna einkavæðingu HS orku og lögmæti skúffufyrirtækisins í Svíþjóð til kaupa á meirihlutanum í félaginu. Verði niðurstaðan sú, þrátt fyrir tvenn samþykki nefndarinnar um erlenda fjárfestingu, að skúffufyrirtækinu hafi ekki verið heimilt að fjárfesta í orkugeiranum hérlendir, hlýtur slík niðurstaða að kalla á afsögn bæði Katrínar Júlíusdóttur, Iðnaðarráðherra og Össurar Skarphéðinssonar, Utanríkisráðherra, enda voru þau helstu ráðgjafar Magma Energy við stofnum skúffufyrirtækisins og kaup þess á HS orku.
Endi málið með því, að kaup Sænsku skúffunnar á HS orku verði dæmd ólögleg myndast svigrúm til fækkunar ráðuneyta um leið og ráðherrarnir tveir neyðast til að segja af sér, en áform um slíka fækkun hefur ekki gengið eftir, þrátt fyrir ákvæði í stjórnarsáttmálanum, frekar en önnur mál, sem stjórnin hefur haft á stefnuskrá sinni.
Eins gott er einnig, verði endirinn þessi, að Steingrímur J. verði tilbúinn með tékkheftið og kaupi HS orku, því annar fellur fyrirtækið beint í hendur annarra erlendra aðila, þ.e. kröfuhafa Glitnis, en hverjir þeir eru veit nú enginn, nema vera skyldi að ríkisstjórnin hefði þær upplýsingar undir höndum og leyndi þeim, eins og svo mörgu öðru.
Hvað sem öðru líður, er þetta mál enn einn naglinn í líkkistu ríkisstjórnarinnar, sem nú fer að verða fullsmíðuð.
Ríkið gæti keypt hlutinn í HS orku | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
25.7.2010 | 19:20
Ríkisstjórnin komin í öndunarvél
Ríkisstjórnin hefur lengi verið helsjúk og þar af leiðandi nánast óstarfhæf, eins og aðrir langt leiddir sjúklingar. Eftir síðustu yfirlýsingar nokkurra þingmanna VG vegna kaupa Magma á hlut í HS-orku, er orðið alveg ljóst, að stjórnarsamstarfinu er nánast lokið og aðeins orðið spurning um vikur eða mánuði, þangað til gengið verður til þingkosninga.
Eftir þessa uppákomu er ríkisstjórnin komin í öndunarvél og nánast öruggt að sjúklingurinn mun ekki komast á fætur aftur, nema þá skamma stund með súrefniskút á bakinu, en mun aldrei ná fullum starfskröftum aftur, enda aldrei verið burðug, né afkastamikil og alls ekki í erfiðum málum.
Haldi þessar ýfingar áfram á milli stjórnarflokkanna verður ekki hjá því komist, að taka öndunarvélina úr sambandi, því hvorki sjúklingnum né aðstandendum hans væri greiði gerður með því að halda lífi í honum, meðvitundarlausum og lömuðum, án nokkurrar vonar um bata.
Gæti ógnað ríkisstjórninni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
9.7.2010 | 19:44
Jón Ásgeir stýrði engu
Jón Ásgeir mótmælir því að hafa stýrt Lárusi Welding eða Glintni á "útrásartímanum", enda þótt hann hafi aðeins kannast við manninn og fyrir tilviljun vitað tölvupóstfangið hans. Sama má segja um öll önnur fyrirtæki, sem Jón Ásgeir "átti", þó hann hafi kannast við flesta forstjóra sína og getað sent tölvupósta til sumra þeirra.
Allir hljóta nú orðið að vita að saklausari maður fyrirfynnst ekki á Íslandi, a.m.k. þeirra sem skiptu sér eitthvað af viðskiptum, enda hefur hann marglýst því yfir sjálfur og ekki nokkur ástæða til að rengja manninn, þó allt hafi farið norður og niður í hverju einasta fyrirtæki, sem hann hefur komið nálægt á lífsleiðinni, en það hefur auðvitað ekki verið honum að kenna, heldur öllum öðrum en honum, sérstaklega Davíð Oddsyni.
Síst af öllu hafði Jón Ásgeir áhrif á gerðir Lárusar Weldings og þá undarlegu áráttu hans að ausa lánum til fyrirtækja Jóns Ásgeirs og viðskiptafélaga hans og hvað þá að hann skuli hafa laumað einum og einum milljarði inn á einkareikninga þeirra.
Það er kominn tími til að fólk fari að átta sig á því, að hér er um hreinar ofsóknir gegn Jóni Ásgeiri og félogum hans að ræða og kominn tími til að reka Sérstakan saksóknara, Evu Joly, ríkisskattstjóra og aðra slíka, sem aldrei geta látið saklaust fólk í friði.
Vonandi fær Jón Ásgeir frið í sálu sína, þegar aularnir fara að skilja að þeir hafi ekki hundsvit á snilligáfu hans og tærleik sálarinnar.
Ég stýrði ekki Glitni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)