Útflutningstekjur þjóðarinnar

Í kjölfarið á hruni banka- og útrásarævintýra er þjóðin að verða ónæm fyrir þeim upphæðum, sem menn leyfðu sér að spila með í þeirri óráðsíu allri.  Allar upphæðir sem talað er um, nema hundruðum eða þúsundum milljarða og er skemmst að minnast, að innstu koppar í búri Kaupþings lánuðu sjálfum sér fimm hundruð milljarða króna rétt fyrir bankahrunið.

Með hliðsjón af þeim glæfraskap (eða glæpamennsku) sem viðgekkst í útrásarkerfinu, er fróðlegt að skoða þær upphæðir, sem útflutningsatvinnuvegirnir eru að skapa þjóðinni, eða eins og segir í fréttinni: 

"Fyrstu þrjá mánuðina 2009 voru fluttar út vörur fyrir 100,7 milljarða króna en inn fyrir 86,1 milljarð króna. Afgangur var því á vöruskiptunum við útlönd, reiknað á fob verðmæti, sem nam 14,6 milljörðum en á sama tíma árið áður voru þau óhagstæð um 37,5 milljarða á sama gengi. Vöruskiptajöfnuðurinn var því 52,1 milljarði króna hagstæðari en á sama tíma árið áður." 

Þessir 14,6 milljarðar króna, sem gjaldeyrisafganginum nemur, eiga að duga til að greiða vexti og afborganir af erlendum lánum þjóðarbúsins.  Þetta dugar ekki einu sinni til að endurgreiða bruðl þjóðarinnar fyrstu þrjá mánuði síðasta árs, ekki einu sinni vextina af eyðslufylleríi síðustu ára.  Erlendar skuldir bankanna og útrásarvíkinganna verða aldrei greiddar, þar sem þær sitja eftir í gömlu bönkunum og erlendir lánadrottnar munu tapa þeim að verulegu leyti.

Þessir erlendu lánadrottnar eru stórir bankar og fjármálastofnanir um allan heim og þeir munu ekkert gleyma þessum lánum og hverrar þjóðar lántakendurnir voru, sem hlupu frá skuldum sínum.

Útrásarvíkingunum mun ekki duga að skipta bara um jakkaföt til að öðlast traust aftur og Íslendingum mun ekki heldur takast að skapa sér nýtt lánstraust, eingöngu með því að skipta um nafn á gjaldmiðlinum.

Það mun taka að minnst kosti tíu ár að skapa nýtt traust á Íslandi, sem viðskiptalandi og þangað til verða menn að sætta sig við að lifa á eigin aflafé, því "lánærin" eru liðin tíð.


mbl.is Vöruskiptin hagstæð í mars
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Held að þetta kenni okkur íslendingum að eiga fyrir því sem við kaupum og fara ekki að framkvæma á bjartsýninni einni sama. Harkaleg lexía en lexía engu að síður.

Gestur (IP-tala skráð) 30.4.2009 kl. 10:22

2 Smámynd: Páll Jónsson

"Þessir erlendu lánadrottnar eru stórir bankar og fjármálastofnanir um allan heim og þeir munu ekkert gleyma þessum lánum og hverrar þjóðar lántakendurnir voru, sem hlupu frá skuldum sínum."

Ertu ekki að rugla saman erlendum fjármálastofnunum og moggabloggurum? Ég stórefa að Credit Suisse hugsi "heyrðu, Íslendingar lentu í peningavandræðum, þetta hlýtur að vera í genunum hjá þeim!"

Þegar talað er um að íslensk fyrirtæki eigi eftir að eiga erfitt með að fá lán þá reikna ég með að það sé vegna óvissu lánveitenda um fjárhagsstöðu þeirra í ljósi hrunsins, ekki vegna þess að menn séu búnir að missa traust á "heiðarleika" Íslendinga (getur þjóð yfirleitt búið yfir slíku?). Ég vona a.m.k. að fjármálakerfi heimsins sé ekki mannað af svo barnalegu fólki.

Páll Jónsson, 30.4.2009 kl. 11:58

3 identicon

Allt í einu fínn pistill!  Sammála öllu.

Hólmar (IP-tala skráð) 30.4.2009 kl. 13:02

4 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Páll:  Það var ekkert talað um heiðarleika þjóðarinnar, eingöngu að lánveitendurnir myndu á hverjum þeir hefðu tapað þessum ævintýralegu upphæðum.  Ef þú lánar einhverjum peninga og hann endurgreiðir þá ekki, þá lánar þú væntanlega ekki sama aðila aftur.

Nú er ástandið þannig, að erlendir birgjar krefjast staðgreiðslu af íslenskum fyrirtækjum, jafnvel fyrirtækjum sem hafa verið í skilvísum viðskiptum við þá áratugum saman.  Þannig bitnar ástandið á "þjóðinni", en ekki eingöngu þeim fyrirtækjum, sem orðin eru gjaldþrota hér á landi.

Að tala um, að erlendir aðilar hafi ekki traust á krónunni, er bara fyrirsláttur, því allur innflutningur hefur alltaf verið greiddur með erlendum gjaldeyri, þannig að vantraustið á "þjóðinni" kemur gjaldmiðlinum ekkert við.

Fjármálakerfi heimsins var (er) mannað af svo barnalegu fólki, að það lánaði hverjum sem hafa vildi ódýrt lánsfé, sem nú er að glatast, vegna þess að þetta barnalega fólk hafði engar haldbærar tryggingar fyrir lánsfénu.  Þess vegna er núna fjármálakreppa um allan heim.

Axel Jóhann Axelsson, 30.4.2009 kl. 13:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband