Verkföll skipulögð vel og lengi

Sá sem hér slær á lyklaborð hefur haldið því fram frá því á haustdögum að til verkfalla yrði boðað með vorinu, hvað sem boðið yrði fram í kjaraviðræðunum enda væri búið að snúa áherslunni að stéttabaráttu og stjórnmálum.

Allan tímann sem kjaraviðræður hafa staðið yfir hefur formaður Eflingar sagt að félagið muni ekkert gefa eftir af kröfum sínum, hvorki gagnvart vinnuveitendum né ríkissjóði.  VR og verkalýðsfélög Akarness og Grindavíkur hafa látið teyma sig í gegnum viðræðurnar eins og hundar í bandi, þó allir viti að aldrei verður hægt að semja um 60-80% kauphækkun, jafnvel þó henni yrði dreift á þrjú ár.  Ekki getur ríkisstjórnin heldur látið Eflingu taka af sér og Alþingi löggjafarvaldið varðandi fjárlög ríkisins og landsstjórnina yfirleitt.

Formaður Eflingar var í viðræðum við fulltrúa atvinnurekenda í Kastljósi gærkvöldsins og lokaorð hennar þar sanna algerlega það sem haldið hefur verið fram, þ.e. að aldrei hafi staðið til að semja, heldur skyldi öllu stefnt í bál og brand í þjóðfélaginu með verkföllum.

Lokaorð formanns Eflingar í Kastljósinu voru eftirfarandi:  "Ef við vissum hversu miklu máli það skiptir fyrir stétt verka- og láglaunafólks að notfæra sér verkfallsvopnið, ekki aðeins til þess að ná fram sínum kröfum, heldur bara til þess að sýna sjálfum sér og samfélaginu öllu að við erum grunnurinn að því sem hér hefur verið byggt upp.  Við erum bara grunnurinn að því að þetta samféag geti lifað og starfað.  Þá værum við ekki á þessum absúrd stað í umræðunni."

Varla getur tilgangurinn með fyrirhuguðum verkföllum verið skýrari.


mbl.is Verkakonur í verkfall 8. mars
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Auðvitað verða átök.  Og auðvitað snýst verkalýðsbarátta um pólitík. Og það er ekki við formann Eflingar að sakast þótt þetta snúist líka um stéttabaráttu. Ekki skapaði Sólveig Anna grunninn að auðsöfnun á Íslandi. Hún er hins vegar tilbúin til að berjast gegn auðhyggju og meiri jöfnuði.  Og ef verkföll er það vopn sem dugar þá verður það notað.  Ég veit ekki með þig en ég hef þurft að standa í verkfalli til að fá kjarabætur.  Og á þeim tíma voru það launalaus verkfall svo það voru fórnir en engum datt í hug að láta kúga sig.  Svo koma gamlir jálkar eins og þú og hótið heiðarlegu fólki fyrir það eitt að berjast fyrir sínum réttindum.  Réttindum sem hafa smám saman verið tekin af fólki og fært í hendur atvinnurekendum og fjármagnseigendum.

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 22.2.2019 kl. 14:10

2 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Jóhannes, þú þarft greinilega að lesa betur áður en þú svarar, því hvernig í ósköpunum getur þú lesið einhverjar hótanir út úr mínum texta?  Ég er nógu gamall til að hafa gengið í gegn um nokkur verkföll og þá án greiðslna úr verkfallssjóðum og ég hef upplifað margar kreppurnar sem sumar hverjar hafa í raun verið vegna víxlverkana kaupgjalds og verðlags.  Launafólk hefur aldrei grætt eitt eða neitt á slíkum skrípaleik.

Ég setti einungis fram þá skoðun mína, sem ég hef haft lengi, að núverandi forysta Eflingar (og sumra annarra félaga) hafi frá upphafi stefnt á verkföll til að sýna "auðvaldinu" í tvo heimana og engu hefði skipt hvað í boði hefði verið.

Ég er enn þeirrar skoðunar og getur þú bent mér á einhver rök sem gætu komið mér til að skipta um skoðun?

Axel Jóhann Axelsson, 22.2.2019 kl. 17:12

3 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Hótunin er falin, ég viðurkenni það, en það er samt hótum að varpa ábyrgðinni á yfirvofandi verkföllum alfarið á forystu Eflingar en fría mótsemjendur á sama tíma af allri ábyrgð. Ennfremur ert þú hér á þínu bloggi að endurtaka lygina úr Herði Ægissyni sem gengur eins og blár þráður í gegnum málflutning Sjálfstæðismanna frá þeim minnsta og upp í formann flokksins sem var að enda við að endurtaka lygina um 80% kröfuna, sem er náttúrulega grafalvarlegt að menn fari vísvitandi með rangfærslur og ósannindi hjá mönnum í æðstu stöðum en Bjarni er svo sem enginn unnandi sannleikans og hefur verið staðinn að fleiri lygum en nokkur núlifandi stjórnmálamaður, fyrir utan Steingrím Jón Sigfússon.

Svona hótanir og lygar og útúrsnúningur á málflutningi andstæðingsins fer ekki vel í fólk og er ekki til þess fallið að draga úr spennunni á milli viðsemjenda.  Bjarni Ben sér það ekki en fólk er að missa þolinmæðina fyrir hrokanum og skilningsleysinu sem einkennt hafa viðbrögð ríkisstjórnarinnar

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 22.2.2019 kl. 18:56

4 identicon

Ég les enga hótun í þessum pistli. 

Ef einhverjar hótanir hafa verið dagsljósar í þessu ferli öllu eru þær frá forystu Eflingar og fylgihnöttum. Svo augljóst að þessi staða stóð alltaf til og er ískyggilega vel undirbúin og púra pólitísk. Og sumir geta ekki leynt kæti sinni. 

Sólveig Anna talar um frekju alls og allra og talar (hummandi og hikandi) og skrifar í löngu - svakalega löngu máli um arðræningja og þræla!? Oftast klædd dýrri merkjavöru.

Og þá finnst henni við hæfi að kollvarpa stöðugleika og tilveru samlanda sina sem hafa lífsreynslu og seiglu. Og hentar að miða við lægstu laun sem við létum okkur nægja sem ungt fólk á vinnumarkaði og unnum eða menntuðum okkur upp úr. Eða erlendra verkamanna sem eru í langflestum tilfellum alsælir með launin miðað við veruleikann í heimalandinu.

Ég kemst allavega varla að í mínum baka fyrr en seint og um síðir - fyrst fyrir starsmanni sem er í fordyrinu og reynir að losna við að þurfa að þjónusta mig og bíð síðan endalaust í röð. Og fyrir í röðinni er alltaf mest af erlendu verkafólki sem er að senda penininga úr landi.

Það er eitthvað verulega skakkt við þetta.

Sigrún Guðmundsdóttir (IP-tala skráð) 22.2.2019 kl. 21:01

5 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Jóhannes, þú ásakar mig og mann og annan um lygar varðandi kröfugerð verkalýðsfélaganna og í því sambandi má benda á að í Fréttablaðinu í dag er birt athugasemd þar sem fram kemur að blaðið standi fullkomlega við sína útreikninga og fram kemur nánari útskýring á þeim.  Séu þeir útreikningar rangir, að teknu tilliti til þeirra þátta sem þar eru notaðir til viðmiðunar, þá hlýtur þú að koma með leiðréttingar á þeim og nægir þá ekki að endurbirta svör verkalýðsfélaganna, sem byggja alls ekki á sömu forsendum, né taka allar breytur með í útreikningunum.

Þetta skiptir svo sem ekki máli varðandi upphaflega pistilinn, þar sem þar var ekkert fjallað um kröfurnar sem slíkar eða útreikninga á þeim, heldur sagt að nánast engu hefði skipt hvað í boði hefði verið því verkföll hefðu verið ákveðin síðast liðið haust og einungis beðið eftir rétta tímanum til að boða þau.

Að snúa umræðunni upp í eitthvað annað er útúrsnúningur.

Axel Jóhann Axelsson, 23.2.2019 kl. 13:03

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband