8.7.2015 | 16:28
Forystumenn ESB taka eigin hag umfram hörmungar Grikkja
Össur Skarphéðinsson, fyrrverandi utanríkisráðherra og harðsvíraður baráttumaður fyrir innlimun Íslands í ESB, skrifar á Fésbók um hrossakaupin innan ESB, Alþjóða gjaldeyrissjóðsins og evrópska seðlabankans vegna hörmunganna í Grikklandi.
Ekki síður fjallar Össur um valdabaráttu pólitíkusa ESBlandanna, ekki síst Angelu Merkel kanslara Þýskalands og Wolfgangs Schäuble, fjármálaráðherra í stjórn hennar. Össur, sem ætti manna best að þekkja hrossakaupin og spillinguna innan ESB, viðurkennir að allir innan sem utan ESB hafi vitað að Grikkland uppfyllti ekki skilyrðin fyrir upptöku evru, en forysta ESB hafi tekið þátt í blekkingaleiknum til að troða evrunni uppá Grikki.
Össur segir að ESB hafi aldrei, allt frá árinu 2009, tekið á raunverulegum vanda Grikkja, heldur ávallt verið með smáskammtalækningar sem í raun hafa verið til að friða almenning í ESBlöndunum, ekki síst Þýskalandi, og ekki síður verið hluti af pólitískum skilmingum milli pólitíkusa á svæðinu.
Í pistli Össurar segir m.a: Þessi staða skýrir vaxandi stríðleika síðustu sólarhringa í yfirlýsingum Merkels. Hún þarf að finna einstigi á milli eigin pólitískra þarfa sem felast í að halda Grikkjum innan evrunnar og herskárra skoðana síns eigin fjármálaráðherra sem vill þá út. Milli þeirra eru vaxandi fáleikar og í þýskum stjórnmálum velta menn því fyrir sér hvort Wolfgang Schauble hyggist láta til skarar skríða gegn Merkel í málinu og jafnvel fella hana af stalli.
Að þýskir stjórnmálamenn hafi meiri áhyggjur af eigin hag en af hörmungum grísks almennings er skýring eins helsta ESBsinna landsins. Varla fer hann með fleipur um þann skollaleik.
Pólitíkusar sekir en ekki almenningur | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Eigin hag? Nú hvaða hag hafa þeir persónulega af þessu? Sýnist að allir blæði fyrir þetta! En hvað gerum við Íslendingar fyrir Grikki? Erum við kannski ekki sú þjóð sem ættum að skilja þá og fara fram fyrir skjöldu og lána þeim eins og Færeyjar gerðu fyrir okkur. Geta forystumenn ríkja í Evrusamstarfi sagt við sína kjósendur að þeir ætli að gefa Grikkjum peninga og skrifa niður lán án þess að tryggja að það skili Grikkjum árangri og Grikkir sé að laga til þannig að þeir verði sjálfbært lán aftur.
En Þeir sem gagnrýna Evruríkin ættu að muna að t.d. Færeyjar lánuðu okkur, Pólland og fleiri lönd. Eftir að við settum fram áætlun um hvernig við ætluðum áð koma okkur út úr þessari krísu. Því er spurning hvort að við gætum ekki lánað þeim það sem kröfuhafar ætla að borga fyrir að losna héðan. Ef við trúum því að við fáum það til baka en verði ekki notað í borga fyrir skatta sem innheimtast ekki þar. En við getum ekki skotið á aðrar þjóðir vegna Grikklands ef við erum ekkert að hjálpa þeim sjálf. Veit ekki til þess að við höfum lánað þeim krónu (nema að við eigum smá hluta í AGS)
Magnús Helgi Björgvinsson, 8.7.2015 kl. 17:06
Þú gagnrýnir Össur aldeilis harkalega, þykir mér þó af skrifum þínum megi ráða að þið séuð samherjar í baráttunni um innlimun Íslands í stórríkið væntanlega.
Miðað við þær upphæðir sem verið er að tala um í sambandi við Grikkland er ég hræddur um að þær upphæðir sem Íslendingar gætu séð af yrðu eins og dropi í hafið.
Skuldir íslenska ríkissjóðsins voru algerir smámunir í sambandi við þetta mál og lánin frá Færeyingum og Póllandi, eins þakklátir og við erum vegna hugarfars þeirra í okkar garð, voru auðvitað smáaurar miðað við það sem Grikkirnir þurfa til að koma sér á rétta braut. Við skulum ekki gleyma framkomu ESBlandanna (annarra en Póllands) í okkar garð eftir bankahrunið og þá ekki síst norðurlandanna sem voru hreint út sagt ruddaleg.
Axel Jóhann Axelsson, 8.7.2015 kl. 18:14
Magnús segir að það eigi að lána þeim. Til hvers? Til þess að framlegja harmleikinn? Að lána þeim meiri peninga er eins og að sparka í liggjandi mann. Þessi vandi verður ekki leystur nema með því að afskrifa núverandi lán og með upptöku grísks gjaldmiðils. Ekki með frekari lánum.
Hörður Þórðarson, 8.7.2015 kl. 18:49
Alveg hárrétt hjá þér Hörður.
Kveðja frá Houston
Jóhann Kristinsson, 9.7.2015 kl. 03:30
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.