29.8.2012 | 10:40
Skógrækt er til mikils skaða sumsstaðar
Gífurlegt átak hefur verið gert í skógrækt hringinn í kringum landið undanfarin ár, ekki síst með svokölluðum "bændaskógum" sem ríkið styrkir og ætlaðir eru til atvinnusköpunar í sveitum landsins.
Þetta er að mörgu leyti ágætis mál, en víða er þessi skógrækt til mikillar óþurftar og jafnvel stórskaða vegna þess landslags sem hún er að kæfa og a.m.k. fela algerlega fyrir þeim sem leið eiga um landið og vilja njóta þeirrar náttúrufegurðar sem ómengað landið hefur upp á að bjóða.
Nægir að benda á Borgarfjörðinn og Fljótsdalshérað, svo aðeins tvö landssvæði séu nefnd sem dæmi um svæði þar sem verið er að fela undurfagrar klettaborgir bak við grenitré sem verða tuga metra há og munu innan fárra ára hverfa algerlega sjónum þeirra sem um landið ferðast.
Flestir þekkja hve leiðigjarnt er að aka um víða erlendis og hafa á tilfinningunni að sífellt sé verið að fara fram hjá sama trénu, jafnvel klukkutímum saman. Bæði Íslendingar og erlendir ferðamenn vilja ferðast um Ísland án þess að stara endalaust á tré sem byrgja allt útsýni.
Þessa þróun verður að stöðva nú þegar, enda verður það bæði dýrt og fyrirhafnarmikið þegar skaðinn verður endanlega orðinn nánast óviðráðandi.
Skógur skyggir á Skógafoss | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
« Síðasta færsla | Næsta færsla »
Höfundur
Áhugamaður um lífið og tilveruna.
Athugasemdir og umræður eru öllum opnar á síðunni, en þess vænst að þær séu hófstilltar og án mikilla stóryrða.
Ruddalegar athugasemdir, sem innihalda lítið sem ekkert annað en skítkast og/eða persónulegar svívirðingar um menn og málefni verða fjarlægðar af þessari síðu, jafnóðum og þær uppgötvast.
Eldri færslur
2021
2020
2019
2018
2017
2016
2015
2014
2013
2012
2011
2010
2009
Færsluflokkar
Tenglar
Mínir tenglar
Bloggvinir
- malacai
- andres
- annabjorghjartardottir
- attilla
- skagstrendingur
- baldvinj
- benediktae
- beggo3
- h2o
- bbg
- bjarnimax
- bookiceland
- siggibragi
- brandarar
- deiglan
- gagnrynandi
- doggpals
- ekg
- elfur
- eeelle
- ellamagg
- elismar
- evaice
- ea
- fannarh
- lillo
- vidhorf
- gerdurpalma112
- gunnargunn
- tilveran-i-esb
- gthg
- gun
- gudbjorng
- zumann
- gudjul
- gp
- hreinn23
- brekkukotsannall
- gustaf
- hallarut
- morgunblogg
- hannesgi
- miniar
- maeglika
- heimssyn
- aanana
- hildurhelgas
- himmalingur
- minos
- atvinnulaus
- daliaa
- ingvarvalgeirs
- jakobk
- fun
- jennystefania
- jonsullenberger
- dondi
- jonsnae
- jonvalurjensson
- jonarni
- jonoskarss
- jorunnfrimannsdottir
- kaffistofuumraedan
- krist
- kristinn-karl
- krissiblo
- kristjan9
- altice
- sleggjudomarinn
- elvira
- mathieu
- morgunbladid
- ninasaem
- pallru
- pallvil
- palmij
- iceland
- ragnar73
- rannsoknarskyrslan
- redlion
- seinars
- fullvalda
- logos
- sigrunzanz
- sigurduringi
- sigurdurkari
- siggisig
- sisi
- siggifrikk
- stebbifr
- stjornuskodun
- stormsker
- saevargudbjornsson
- athena
- susannasvava
- tibsen
- ubk
- vala
- val
- vestarr
- postdoc
- gummih
- asdisran
- thjodarsalin
- mullis
- sumri
- t24
- omarragnarsson
- umbiroy
- thjodarheidur
- thorhallurheimisson
- flinston
- diva73
- thjodarskutan
- lifsrettur
- samstada-thjodar
- fullveldi
Des. 2024 | ||||||
S | M | Þ | M | F | F | L |
---|---|---|---|---|---|---|
1 | 2 | 3 | 4 | 5 | 6 | 7 |
8 | 9 | 10 | 11 | 12 | 13 | 14 |
15 | 16 | 17 | 18 | 19 | 20 | 21 |
22 | 23 | 24 | 25 | 26 | 27 | 28 |
29 | 30 | 31 |
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (3.12.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 20
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 20
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Endilega að höggva tré svo við sjáum eyðimörkina.
Jón Ingi Cæsarsson, 29.8.2012 kl. 14:31
Tré duga ekki til að fela andlega eyðimörk. Það þarf ansi eyðilegan huga til að skilja ekki þennan einfalda pistil.
Axel Jóhann Axelsson, 29.8.2012 kl. 18:04
Tek undir þetta Axel, þessi öfga skógrækt er líka að eyðileggja framtíð ferðaþjónustunnar því erlendir ferðamenn dáðst af víðáttunni og útsýninu sem verið er að eyðileggja með skammtíma hugsun og græðgi þeirra sem planta.
Ríkissjóður er að borga bændum fyrir að planta þessum trjám og greiðir 97% kostnaðar í stað þess að greiða fyrir ræktun á lífmassa til að Íslendingar verði sér sjálfum nægir í framleiðslu á eldsneyti og þurfi ekki að flytja inn eldsneyti.
Þorsteinn Valur Baldvinsson, 29.8.2012 kl. 20:57
Það verður að teljast undarlegt í meira lagi að ekkert skuli heyrast frá náttúruverndarsamtökum um að það skuli vera skipulega unnið að því að girða af stórkostlegar klettaborgir víða um land og jafnvel fossana, eins og dæmið um Skógarfoss sannar.
Axel Jóhann Axelsson, 29.8.2012 kl. 22:26
Sæll Axel,
Ég bý hérna í næsta nágrenni við stærstu og hæstu skóga Bandaríkjanna og hér kemur aragrúi ferðamanna á hverju sumri. Skógar bjóða einfaldlega upp á önnur tækifæri í ferðamannaiðnaði. Ég er samt sammála að það er óþarfi að gróðursetja tré nálægt sérstökum stöðum sem draga að sér ferðamenn, en bendi þó á að með hlýnanadi loftslagi munu tré eiga auðveldara uppdráttar og sjálfsáning og dreifing verður meiri, þannig að á þessum svæðum getur vaxið upp ósáinn skógur. Persónulega finnst mér afskaplega gott að vera í nágrenni við skógana, en það er líka gaman að lyfta sér upp yfir þá og komast upp í fjöllin í kring þar sem skóglendið er aðeins gisnara.
Kveðja,
Arnór Baldvinsson, 29.8.2012 kl. 23:48
Axel, ég get tekið undir margt sem þú segir og ég er líka sammála Arnóri.
Skógrækt á Íslandi er verulega skammsýnt fyrirbæri. En munum líka að stærsti "skógræktandinn" er núna náttúran sjálf, með sjálfsáðu birki og öðrum tegundum í verulegri sókn. Víða um land fá bændur stórfé fyrir að gróðursetja tré. Hugsunin er að þarna verði atvinnusköpun til framtíðar. En reyndin er sú að fjárveitingar til grisjunar eru ekki í samræmi við loforð. Og hvað gerist með skóglendi sem ekki er grisjað?
Ágætis dæmi um þetta er að finna ekki langt frá Reykjavík, upp með Leirá í Borgarfjarðarsveit. Ef keyrt er upp með ánni vestanverðri (sem er fært flestum bílum í góðu árferði) kemur maður að lokum að vaði yfir ána rétt undir fjallshlíðunum, mjög fallegt svæði. Handan árinnar er skógræktarsvæði upp á kannski c.a. tvo hektara (svæðið sést vel á GoogleMaps). Þarna hafa verið sett niður grenitré fyrir nokkrum áratugum og þótt girðingunni hafi verið viðhaldið þá hefur skógurinn ekki verið grisjaður mjög lengi. Enda er hann með öllu ófær gangandi fólki, nema þar sem eigendur hafa beitt vélsög til að saga "göng" gegnum skógarþykknið. Síðast þegar ég var þarna á ferð, fyrir um 6 árum, voru göngin óðum að hverfa. Þetta er villtur grenifrumskógur, svona munu skógræktarsvæðin verða ef ekki er grisjað eins og til var ætlast. (Fyrir nokkrum árum hvarf maður frá bíl þarna rétt hjá. Björgunarsveitir vörðu mörgum dögum í að leita þessa tvo hektara!)
En íslenskur trjágróður verður einnig ófær mönnum ef hann fær að vaxa að vild. Dæmi um þetta er skóglendið ofan við Svínafell í Öræfum. Á Googlemaps sést vel hvernig hlíðin ofan við bæina þarna er þéttvaxin birkikjarri. Þetta birkikjarr er með öllu ófært, einhverju sinni reyndi ég að komast í gegnum það ofanfrá en endaði á floti í birkikjarri, án fótfestu, og þurfti að "synda" til baka.
Ef villtur skógur á að vaxa á Íslandi þarf að grisja hann, eða beita á hann. Hreindýr og jafnvel elgir geta haldið birkiskógum þokkalega opnum, ekkert dugar á þétta greniskóga nema eldur.
En það er varla neitt sem getur spornað við þessari þróun. Danir eru að fást við svipað vandamál. Jósku heiðarnar frægu (og elskuðu, af mörgum) eru einnig eyðimerkurgróður, ónáttúrulegt gróðurfar sem afleiðing ofbeitar. Nú sækir trjágróðurinn stíft inn á heiðarnar. Þar sem heiðarlandslag hefur verið friðað vilja menn halda í gróðurfarið en það er of dýrt að halda uppi því beitarálagi sem þarf til að viðhalda heiðarlandslaginu þ.a. í staðinn eru eftstu 10 - 20 centímetrarnir fjarlægðir með vinnuvélum á nokkurra áratuga fresti - út á það gengur alla vega nýjasta tilraun Dana til að halda í einhverjar smáleifar af því landslagi sem áður þakti um þriðjung Jótlands!
Brynjólfur Þorvarðsson, 30.8.2012 kl. 10:16
Brynjólfur, þú lýsir vandamálinu nákvæmlega og þetta mun auðvitað versna stórlega á næstu áratugum verði ekki gripið í taumana tímanlega. Trjárækt er góð þar sem hún á við, en að fylla landið af erlendum grenitrjám sem verða tuga metra há og þar sem slíkur skógur er verður algerlega ófært fyrir aðra en fuglinn fljúgandi.
Eins og Arnór segir eru skógar fallegir og þarfir, þar sem þeir eiga við, en hinsvegar er algert glapræði að vinna skipulega að því að láta þá kaffæra allt landslag meðfram þjóðvegum landsins og hylja fólki alla sýn til kletta og annarra náttúrumynda, að ekki sé talað um hreinar náttúruperlur.
Land, sem vaxið verður greniskógi svo langt sem auga eygir, verður ekki eftirsóknarvert fyrir ferðamenn, hvorki innlenda né erlenda.
Axel Jóhann Axelsson, 30.8.2012 kl. 13:46
Sæll Axel !
Mig langar að kommenta á nokkur atriði sem mér finnst vera ógrunduð og klisjukennd og þar með ekki vænleg til vandaðrar umræðu:
Þú talar um gríðarlegt átak, öllu má nú nafn gefa þegar ýtrustu áform hljóða upp á að stækka skóga með ræktun úr 1,5% í 3% af flatarmáli landsins á næstu 150 árum. Að vísu hljóðuðu áformin upp á að gera þetta á 40-50 árum en með afköstum sl. 5 ára mun það taka 180 ár.
Víða til mikils óþurftar og skaða vegna útsýnistaps, laukrétt en aðeins ef við metum þann hlut einan og vigtum alls ekki annað á móti. Víða um heim er stórátak í skógrækt gagngert til að fela, fela vegi, hraðbrautir og önnur mannvirki svo þeir sem búa í nágrenni þurfi ekki að hafa það fyir augum - og er þá augljóslega viljandi kastað fyrir róða þeim hagsmunum akenda að geta horft ótruflaðir á landslag líða hjá.
Borgarfjörður - Fljótsdalshérað, jú góð dæmi en aðeins út frá þínum sjónarhóli. Ég vandist Borgagfjarðarakstri með ótruflaða sýn, en dóttir mín ekki. Nú er það hún sem gæti upplýst hvort hún telur að skógarásýndin sem sums staðar blasir við sé truflandi. Ég er næsta viss um að hún mundi skrifa pistil og vara við áformum um að fella þennan skóg -hvort sem hann er nú vaxinn laufi eða barri. Sumir virðast telja að það sem þeir sáu eitt sinn sé það eftirsóknarverðasta - ég er ekki viss um að svo sé, en líklega á það samt við um allar kynslóðir og það sem hver kynslóð sér hverju sinni. Þetta með ferðamennina og skógivaxið ísland finnst mér hálfgerð markleysa og styðst tæpast við annað en það sem þú heldur, ég veit ekki til að ferðamenn sniðgangi Noreg eða önnur skóguð lönd vegna trjáa, enda þar og hér víða það mishæðótt að lítið mál er að finna stað á mikillar fyrirhafna þar sem sjá má nokkuð frá sér.
Þarf að stöðva áður en skaðinn verður óviðráðandi.
Mér finnst gaman að velta þessari klisju fyrir mér og þá í því samhengi að ef þetta væri vilji þjóðar t.d. þá stæði sjú þjóð ein á verðlaunapalli vanþekkingar. Ekki nokkurs staðar í okkar heimshluta eða öðrum næðu slíkar viðvaranir öðru fram en vandræðalegu brosi - a.m.k. ef menn þekktu stöðu og sögu gróðurs og jarðvegs hjá einni þjóð, - láttu ekki nokkurn mann heyra þetta !!
"Vandamálið" að að losna við skóg, telst mjög viðráðanlegt og við höfum bærilega ráðið við það allar götur frá steinöld.
Og eitt skot á Brynjólf í lokin; kynntu þér grisjunarmálin betur, en auðvitað eru til dæmi um skóga sem ekki er sinnt, en náttúran mun sjá um þá -bara síðar, en þú ert nokkuð brattur að kalla skógrækt verulega skammsýnt fyrirbæri þegar rekstrarlotan (í timburskógi) er 60-80 ár og er t.d. 120 ár í frönsku ölpum. Hugtakið "sjálfbærni" var ekki fundið upp í Háskóla Íslands 1990, það er 200-300 ára gamalt skógræktar (rekstrar)hugtak úr mið Evrópu (D&A)
kv. Sæmundur
Sæmundur Þorvaldsson (IP-tala skráð) 30.8.2012 kl. 22:09
Tek undir með Sæmundi – þetta hrokafulla sleggjudómaraus í Axel og félögum er ekki líklegt til að ala af sér vandaða og ígrundaða umræðu. Fetuð er „rökvilla hinnar hálu brautar“ (e. slippery slope fallacy): að með frekari, smávægilegum ríkisstuðningi við skógarbændur á Íslandi muni landið á einni nóttu ummyndast í "hina hræðilegu Svíþjóð".
Þorsteinn Valur Baldvinsson Hjelm mælti í athugasemd hér að ofan: „Ríkissjóður er að borga bændum fyrir að planta þessum trjám og greiðir 97% kostnaðar í stað þess að greiða fyrir ræktun á lífmassa til að Íslendingar verði sér sjálfum nægir í framleiðslu á eldsneyti og þurfi ekki að flytja inn eldsneyti.“
Af einhverjum óskiljanlegum ástæðum hefur það alveg farið framhjá ÞVBH að skógar heimsins eru ein helsta uppspretta lífmassa og eldsneytis: http://www.biomassenergycentre.org.uk/portal/page?_pageid=77,19134&_dad=portal&_schema=PORTAL
Aðalsteinn Sigurgeirsson (IP-tala skráð) 30.8.2012 kl. 23:32
Merkilegt hvað Sæmundur eyðir miklu plássi í að hártoga og mistúlka pistilinn hér að framan. Þar var alls ekki verið að mótmæla skógrækt almennt eða þar sem hún á við, sem er auðvitað víða, en hins vegar var verið að benda á þau skemmdarverk sem verið er að vinna á einstakri og ægifagurri náttúru allvíða, t.d. í Borgarfirði og á Fljótsdalshéraði, þar sem verið er að færa á kaf klettaborgir og náttúruperlur með gríðarlega hávöxnum greniskógi.
Af sjálfu leiðir að hvorki dóttir Sæmundar eða komandi kynslóðir munu sakna þeirrar náttúru sem þau hafa aldrei séð og aldrei vitað að hafi verið til, eftir að hafa alist upp við og vanist að sjá ekkert annað en þéttan greniskóg á þessum stöðum, en þannig mun útlit þessara staða og fleiri verða að nokkrum áratugum liðnum.
Myndi Sæmundur, eða nokkur annar, sætta sig við að Þingvellir og Mývatnssveit yrðu kaffærð í greniskógi, svo aðeins tveir staðir af sitt hvoru horni landsins séu nefndir?
Axel Jóhann Axelsson, 31.8.2012 kl. 06:57
Sæll afur Axel !
Meiningin hjá mér var fyrst og fremst að slá svolítið á notkun "hástigs" orða svo sem að "kaffæra land með gríðarlegum skógræktaráformum", mikill óþurfti og stórskaði o.s.frv. Þetta eru orð sem mér finnst ekki í neinum takti við skógrækt eða skógræktaráform. Víst er það rétt að hægt er að rækta skóg á "röngum" stað en það gefur ekki tilefni til að "banna" skógrækt almennt -svona til öryggis. Ég er persónulega mjög sáttur við grenilundinn á Þingvöllum, finnst hann einfaldlega partur af Þingvallabæjarstæði og kirkjustað en hefur ekki frekar en bær og kirkja neitt með ásýnd Þingvalla fyrir þúsund árum að gera. Það kallast vera "opið land" í landslagsgreiningu(þumlaregla)þegar skógur þekur ekki yfir 1/3 -en samkvæmt fyrri skrifum hér inni þá erum við nokkrar aldir frá því marki
Skógrækt á Íslandi er ekki stunduð á sama hátt og áður þegar eingöngu voru í boði smáspildur innan ferhyrndra girðinga og girðingin formaði skógarjaðarinn. Skógrækt er yfirleitt stunduð á grundvelli vandaðra áætlana þar sem m.a. er horft til útlitshönnunar og aðlögunar á landslagi. Þessi aðferð er ekki mjög gömul líklega aðeins 20 ára en þrátt fyrir ungan aldur eru flestir skógarhönnuðir hérlendis að vinna sínar ræktunaráætlanir á þeim nótum eða a.m.k. þekkja mikilvægi málsins vel. Bendi á til fróðleiks heimasíðu eins aðal höfundar/hugmyndafræðings þessarar nálgunar Simon Bell (læriföður mjög margra þeirra sem nú hanna framtíðarskóga Íslands): http://www.sbell.co.uk/homepage.htm
Sæmundur Þorvaldsson (IP-tala skráð) 31.8.2012 kl. 09:01
Ég vildi óska þess, að hægt væri einhvers staðar á þjóðvegi 1 að aka nokkra km af þessum 1.400 og sjá ekkert nema tré á báðar hliðar, svona rétt til að geta upplifað það á Íslandi. Auðvitað er hægt að gera þetta í útlöndum, en mér finnst við eiga að geta gert þetta á Íslandi. Vonandi verður ræktaður miklu meiri skógur á Íslandi. Með sama áframhaldi mun það taka Ísland minnst 500 ár að verða jafn skógivaxin og Danmörk, þar sem mér skilst að 12% landsins séu skógi vaxin. Í Danmörku eru til svæði, þar sem ekið er samfellt nokkra km með hávaxinn skóg á báðar hliðar. Samt koma meira en 10-falt fleiri ferðamenn til Danmerkur en Íslands. Með fullri virðingu fyrir ferðamönnum, þá finnst mér að við ættum ekki að miða atvinnuuppbyggingu á Íslandi við ímyndaðar óskir ferðamanna, sem hafa verið lokkaðir hingað með loforði um að fá að upplifa endalausar víðáttur í einsemd. Hversu margir ferðamenn geta fengið slíka auðnatilfinningu á einum og sama degi á Íslandi? Mér er nær að halda, að framboðið af slíkri afþreyingu sé uppurið í íslenskri ferðamennsku. Erlendir ferðamenn kvarta sáran undan því, að geta ekki notið þeirra náttúrperlna, sem ferðaþjónustan heldur mest að þeim, nema innan um kraðak af öðrum ferðamönnum. Í skógi vöxnu landi geta miklu fleiri ferðamenn verið einir með sjálfum sér en á berangri. Hvað Borgarfjörðinn varðar, þar sem ég bý, er og verður enn um sinn nóg af klettaborgum og fjöllum með grjóti í hlíðum. Þegar 12% Íslands verða orðin skógi vaxin, munum við öll verða löngu dauð og nýjar kynslóðir ástfangnar af skóginum. Þá mun þjóðin verða orðin sjálfri sér nóg um hvers kyns afurðir skóganna, svo sem dísilolíu, pappír, timbur til bygginga og cellulosa til ýmissa annarra þarfa, sem nú eru uppfylltar með efnaiðnaði byggðum á olíu, sem þá verður ekki lengur í boði. Það er m.a.s. farið að framleiða fataefni úr timbri (cellulosa). Skógurinn skiptir Finna jafnmiklu máli og fiskimiðin Íslendinga. Því er til mikils að vinna og ekki skynsamlegt að láta ímyndaðar óskir ferðamanna ráða í einu og öllu, hvað við tökum okkur fyrir hendur á Íslandi.
Sigvaldi Ásgeirsson (IP-tala skráð) 31.8.2012 kl. 10:35
Ef þetta ótrúlega innlegg Sigvalda á að vera andsvar við þeim skoðunum sem settar hafa verið fram um "skemmdarverk" á ýmsum stöðum með greniskógarækt, þá hlýtur eitthvað að vera brogað við lesskilninginn eða verið er að hártoga málefnið viljandi og það illilega.
Sæmundur er þó málefnalegri í sínum andmælum og virðist gera sér grein fyrir því að skógrækt á alls ekki við hvar sem er, þó hann viðurkenni ekki að verið sé að vinna "skemmdarverk" neinsstaðar með greninu.
Allt verður vitlaust í landinu ef jarðýtur og aðrar vinnuvélar birtast á "eyðimörkum" hálendisins, en þegar "skemmdarverk" eru unnin á láglendi og nátturúfegurð kæfð með grenitrjám, þá segir enginn neitt.
Axel Jóhann Axelsson, 31.8.2012 kl. 11:48
Freysteinn heitinn Sigurðsson jarðfræðingur (skógræktarmaður og til margra ára varaformaður Landverndar) ritaði gagnmerka grein um skógrækt á Íslandi með sérstakri skírskotun til áhrifa skóga á landslagsverðmæti (Freysteinn Sigurðsson. 2000. Sess skógræktar á Íslandi. Skógræktarritið 2000 (1. tbl.): 118-130.).
Niðurstaða hans í greininni eru:
Ennfremur:
Grein þessi verður senn aðgengileg lesendum á vef Skógræktarfélags Íslands (http://www.skog.is/index.php?option=com_content&view=article&id=651&Itemid=100080). Í millitíðinni er vert að rifja hér upp kafla þann úr greininni sem fjallar sérstaklega um áhrif íslenskra skóga á landslagsvíddir:
„Skógarþekjur og landslagsvíddir
Fjarhrif skóganna geta verið mikil og bæði til góðs og ills fyrir nautn landslags og náttúru. Þeir breiða yfir landið, svo að hinir hörðu og skörpu drættir í alopinni nekt þess hverfa. Við taka líðandi ávalar skóglendisins með leik ljóss og skugga í krónum trjánna, en klettar og hamraflug rísa eins og ævintýrakastalar upp úr grænum skógarfeldinum. Það höfðar til ímyndunaraflsins, en samt er eins og blæja sé dregin fyrir andlit, þar sem mikilúðugt eða dráttafagurt landslag er til staðar. Því þarf að gæta hófs og halda landslaginu opnu, þar sem fegurð þess sjálfs er mest. Raunar gildir það líka um mörg svæði og bletti, þar sem áferð landsins er aðlaðandi í gróðurþekju þess, auðn eða yfirborðsmótun. Hér þar því að vega og meta.
Vel er þekkt, að skógarbelti við fjallarætur eða í lághlíðum fjalla lyfta hærri hluta fjallanna upp í ómælishæð handan skógarins. Gott dæmi um þetta er Bjarnarfell yfir Helludal hjá Geysi, en vel má einnig hugsa sér háfjöll Eyjafjarðardals rísa enn hærri yfir skógklæddum lághlíðum og skriðuteygingum. Lágholt verða að háhryggjum undir skógi, með skjóli undir brekkum og bak við sig óvissuna handan skógarins. Skógarlundir, skógarholt og jafnvel víðfeðmar skógarbreiður geta aukið á fjölbreytni landslagsins á rislitlu landi, ef þeim er haganlega fyrir komið.
Skógarnir geta þannig skerpt og eflt landslagsmyndina. Hins vegar geta endalausar skógarþekjur á flatlendi byrgt fyrir sýn, vítt og breitt, og valdið einhæfni og innilokunarkennd. Þar þarf því vel að huga að málum, halda skógunum sem fjölbreyttustum og opna þá vel annað veifið, einkum á góðum útsýnisstöðum og þar sem vel sér til góðra landslagssýna. Þar er einnig á að líta að andstæður skóglukts umhverfis vegfarans og opins víðáttuútsýnis geta hrifið eins og tjöld, sem dregin eru frá sviði. Þetta gildir ekki síst um auðnir og óravíddir landsins. Flestir kannast við þá tilfinningu, þegar útsýni opnast allt í einu til stórfenglegs landslags. Svipað á sér stað, þegar komið er upp úr gróðursældinni og inn á auðnir hálendisins. Því sterkari eru þau hughrif, sem breytingin er sneggri og skarpari, jafnast þar líklega ekkert á við að koma út úr skógi og út í auðnina eða víðáttuna. Bæði auðnarhrifin og auðnarvíddin eflast við slík viðbrigði. Raunar fer saman, að skógur á hálendisjörunum gerir margt annað gang. Hann styrkir jarðveg, hindrar uppblástur, brýtur vind og heftir snjó- og skarafok.
Hér hefur einugis verið drepið á nokkur atriði í samverkan skóga og landslags, sem gefa verður gaum, þegar skógi er valinn staður. Sem heildarhrif má segja, að skógar gera landið hlýlegra, þeir dýpka víddir þess og auka bæði auðnar- og gróðrarhrif. Skógarnir auka því fegurð landsins, ef vel er til staðar vandað, og auka þá á fjölbreytni náttúrulegs, íslensks landslags. Til þess þarf að velja þeim svo stað, að þeir falli að landslaginu og skyggi ekki á þá drætti þess, sem fegurri eru í allri sinni nekt og opnun. Svo að þetta megi verða, þarf að móta almenn viðhorf um skógvæðingu í landslagi, útsýnisvernd, auðnarvernd og landslagsvernd í heild, sem sæmileg sátt er um. Móta þarf svo á þeim grunni verklagsreglur um val á skógarstæðum. Það tekur sinn tíma og er því aðkallandi að hefja það verk.“
Aðalsteinn Sigurgeirsson, 31.8.2012 kl. 12:37
Þetta er greinilega afar góð grein sem Aðalsteinn er þarna að vitna í og segir í raun nákvæmlega það sama og upphaflegi pistillinn, bara miklu ítarlegri og betur orðuð. Þessi úrdráttur úr grein Freysteins sýnir og sannar að sumir skógræktarmenn gera sér fulla grein fyrir því að skógur á alls heima alls staðar í íslensku landslagi og það er nákvæmlega það sem huga þarf að, áður en það verður of seint og "skemmdarverkin" á landinu verða of víðtæk.
Axel Jóhann Axelsson, 31.8.2012 kl. 12:47
Ef Axel, Sæmundur, Sigvaldi - og allir hinir sem hér hafa tjáð sig - geta sæst á þá málamiðlun sem Freysteinn heitinn Sigurðsson lagði til í grein sinni frá árinu 2000 – þá er málið leyst og allur ágreiningur úr sögunni. Ég þori a.m.k. að fullyrða að enginn skógræktarmaður vill vera sakaður um skemmdarverk á landslagi og allir vilja þeir kappkosta að fella skóg sem best að landslagi.
Birti hér alla grein Freysteins (reyndar án ljósmynda og skýringarmynda).
Freysteinn Sigurðsson. 2000. Sess skógræktar á Íslandi. Skógræktarritið 2000 (1. tbl.): 118-130.
Inngangsorð:
Grein þessi er sprottin upp úr viðræðum mínum um skógrækt við son minn, Gunnar Freysteinsson, skógfræðing, sem lést af slysförum 5. júlí 1998. Margt bar á góma í þeim umræðum, en hér skal aðeins fjallað um nokkur grundvallaratriði varðandi skógrækt hérlendis. Þau lúta í meginatriðum að eftirtöldum spurningum:
Svör okkar við þessum spurningum voru einföld:
Fyrir þessum niðurstöðum skal hér gerð nokkur frekari grein.
Gagnsemi skógræktar á Íslandi
Líta þarf til nokkurra kosta þess að rækta skóg á landinu, til þess er gæta þarf við þá rækt og til þess sem fært hefur verið fram gagn skógrækt á landinu.Tvennar meginástæður má telja helstar fyrir því að rækta skóg á landinu:
Tvenns ber sérlega að gæta við skógvæðinguna til að forðast óþarfa röskun á gróðurfari landsins og á annarri iðju þjóðarinnar í landinu:
Tvennt hefur einnig verið einkum fært fram gegn skógrækt á Íslandi:
Þessi framangreindu atriði má draga saman í fjögur umfjöllunarefni. Nytsemi skóga, endurreisn skóglendisins, erlendir skógviðir sem nýbúar og skipuleg skógrækt á landinu.
Nytsemi skóganna
Skógar eru til landbóta á margan hátt. Má þar einkum telja:
Skógvæðingin mun þannig efla og styrkja lífkerfi landsins, auka fjölbreytni þess og stykja með því lífríkið í heild. Með henni er stykara og fjölhæfara landi skilað til komandi kynslóða.
Skógar eru til þjóðnytja á margan hátt, bæði til arðs og ánægju. Þar má telja:
Arðsemi skógræktar til timburvinnslu getur verið mikil hér á landi og aukið atvinnu landsmanna að marki, ekki síst í hinum dreifðu byggðum landsins. Bein og óbein arðsemi skjólskóga, beitarskóga, útivistarskóga og verndarskóga getur einnig verið mikil. Er þá ótalin sú ómælda ánægja, sem þjóðin hefur af skógunum sjálfum og ræktun þeirra.
Endurreisn skógarlandsins
Skógar, skóglendi, kjarr og hrís voru ríkjandi gróðurkerfi og hástig gróðurfars hér á landi fyrir landnám. Þetta breyttist fyrir aðgerðir okkar, sviðningu lands, skógarhögg, hrísrif, og búfjárbeit. Gróðurkerfi landsins gerbreyttust við þessa meðferð og eru nú ekki nema að hluta náttúruleg, heldur manngerð. Skógvæðing landsins er endurreisn hins eðlilega hástigs, eftir því sem núverandi ástand landsins leyfir. Talið er, að við landnám hafi landið verið viði vaxið frá fjalli til fjöru. Óvíst er, hvað í því fólst um útbreiðslu skóga, en tölur hafa verið nefndar fyrir viðiþakið land á bilinu 20.000 – 40.000 km2 að flatarmáli. Telja ýmsir líklegt, að skóglendi hafi þá þakið um 25.000 km2 á láglendi og hálendisjöðrum. Miðhálendið mun að mestu hafa verið skóglaust, eyðisandar við sjó og fúafen á láglendi og hálendi.
Núverandi ástand landsins, skóglaust, blásið og bert, er hvorki upprunalegt né í samræmi við náttúrulegar aðstæður, landslag, jarðgerð og veðurfar. Því er ekki ástæða til að varðveita það sem eitthvað ginnheilagt. Það er manngert að miklu leyti og því „ónáttúrulegt“ , ef afskipti mannsins eru lögð sem mælistigka á hið „náttúrulega“. Núverandi þróun þessa raskaða lands er ekki sú sama og orðið hefði við óraskað ástand, eins og það var fyrir landnám. Nú eru önnur náttúruöfl ráðandi, af okkar völdum, auk þess sem við höfum ekki hætt að hafa áhrif á þessa þróun. Það eru því slök rök fyrir því að vernda þessa röskuðu náttúru sem slíka og lofa rúráðandi öflum, sem nú ráða ferðinni, þá er þessi núverandi staða á engan hátt „náttúrulegri“ en það ástand landsins, sem við reynum að koma á með markvissum aðgerðum og sem mest í samræmi við landkosti.
Skógvæðing landsins er slík meðvituð og marktæk aðgerð. Hún leiðir til endurreisar þess hástigs gróðurfars á landinu, sem landkostir leyfa. Hins vegar getur hún ekki leitt til endurheimtar fyrra ástands, því að hjólum sögunnar verður ekki snúið við né brottfokinn jarðvegur endurskapaður í genginni jarðsögunni. Þessa skógvæðingu má stunda með innlendum viðum einum, þó að víðast séu fornir glæsiviðir horfnir með öllu og þrautseigir krækluviðirnir einir haldi enn velli. Hinir fornu skógar verða því trautt endurreistir í fyrri mynd. Hreinir, innlendir skógar búa yfir fáhæfni til nytja og útlits, eftir að jöklar ísaldar útrýmdu barrviðum og ýmsum laufviðum öðrum hér á landi. Fjölbreytni og fjölhæfni viða við skógvæðinguna má stórauka með því að nýta hentuga, erlenda skógviði.
Erlendir skógviðir sem nýbúar
Erlendir skógviðir eru nýbúar og framandlífverur í hefðbundnu, íslensku vistkerfi. Reynslan sýnir, að varhug verður að gjalda við þeim innfluttu tegundum, sem auðveldlega útrýma, sýkja eða veikja innlendar tegundir, sov að til röskunar horfir. Dæmin eru af minkinum, mesta skaðvaldi íslenskrar náttúru í seinni tíð, sem inn var fluttur upphaflega í misskildu gróðaskyni. Í sama dilk dragast kláðaveikir eða mæðiveikir karakúlhrútar og, að margra mati, norskar kýr. Sumir vilja setja úlfabaunir og erlenda asparstofna í þennan sama vargaflokk. Erlendur skógviðirnir eru hins vegar flestir þeirrar náttúru, að þeir sitja kyrrir á sínum stað og breiðast lítið eða ekki út án mannlegrar hjálpar. Því er mjög auðvelt að stjórna útbreiðslu þeirra, en öxin og sögin geyma þá vel, ef á þarf að halda. Með aðgát og fyrirhyggju á því að vera hægðarleikur að stýra útbreiðslu þeirra, njóta kostanna og sneiða hjá hættunum. Með þessu móti auka þeir á fjölbreytni gróðurfars landsins og styrkja það.
Eftir sem áður eru þeir framandlífverur á landinu. Sú ástæða ein er ekki næg til að gera þá útlæga. Sú framandlífvera sem mestri röskun og mestum skaða hefur valdið á náttúru landsins, er maðurinn sjálfur og fylgisfiskar hans, minkurinn meðtalinn. Ekki viljum við þó fyrir þær sakir útrýma þjóðinni eða flæma hana af landi brott. Sama gildir um hús okkar og mannvirki, að þau eru manngerð og framandhlutir í landinu, en ekkiviljum við samt eyða þeim, né skerða. Við höfum breytt þessu landi okkar, sumu til góðs og öðru til ills, og allt eru það „framandi“ gerðir. Við munum halda því áfram, en við höfum valið milli þess, sem er til landbóta og þjóðnytja í þeim efnum og þess sem er til landsspjalla og þjóðartjóns. Endurreisn skógarlandslagsins er bæði til landbóta og þjóðnytja, en við hana koma nýbúarnir að góðu gagni, ef rétt er með farið.
Skipuleg skógrækt
Ljóst er, að ganga verður skipulega og af fyrirhyggju að skógvæðingu landsins og líta verður til fleira en þarfa hennar einnar. Landið má nýta til margs fleira en skógræktar. Má þar nefna náttúruvernd og landslagsvernd, búsetu og umferð, hefðbundinn landbúnað, efnisnám, orkuvinnslu, ferðamannaútveg og margt fleira. Velja verður þá nýtingu á hverjum stað og í heild landsins, sem þar hæfir best, er til mests gagns og gleði til langframa og best hentar aðstæðum, þannig að ekki sé landi spillt að þarflausu, heldur sé því skilað sem verðmætustu og með sem mestum möguleikum til komandi kynslóða. Þetta verður ekki gert af skynsemi og fyrirhyggju, nema á grundvelli greiningar á landi, náttúrufari og þjóðlífi og mati á nýtingu lands og þörfum þjóðarinnar í nútíð og framtíð, fyrir hvern stað, hvert svæði og landið í heild.
Skógvæðinguna verður því að stilla kerfisbundið saman við aðra landnýtingu og er það aðkallandi nauðsyn að hefja þá vinnu. Skógvæðing er langtímaverkefni og hún þarf að byggja á grunni, sem ekki er sífellt verið að hrófla við. Til þess þarf að þróa greiningar- og matskerfi á landi, skógrækt og annarri landnýtingu, í þessu skyni og fyrir mismunandi mælikvarða eða svæðisstærðir. Með því móti er hægt að meta og vega þann hlut, sem skógrækt eða annarri landnýtingu ber. Miðað við aðra, núverandi nýtingu lands og möguleika til nýtingar þess, þá er það hógvær hugmynd að ætla að skógvæða að nýju 5.000 km2 lands, í stað þeirra 25.000 km2 lands, sem ætla má að hafi verið skógi klæddir við landnám. Þessum skógum verður að velja stað og gerð í samræmi við landkosti og aðrar aðstæður landsins og í samhljómi við landslag og áferð lands.
Fella verður skógana að landslagi
Skógarnir verða þar ræktaðir, sem þeirra er þörf, þeir gera gagn, þeir geta dafnað og önnur landnýting hefur ekki forgang. Timburskógar verða einkum ræktaðir, þar sem aðstæður eru hagkvæmar og vöxtur mikill, sennilega víðast á nokkuð stórum, meira eða minna samfelldum svæðum. Þeir verða að stofni til einkum barrskógar, en laufviðir geta líka verið nytjaviðir. Skjóskógar verða víða, við margs konar aðstæður, margvíslegir að gerð og til margvíslegra nota. Mannabyggð og bústöðum verður víða eða jafnvel víðast skýlt af skógum, en víða verðua skógar og skjólbelti til eflingar öðrum gróðri. Útivistarskógar verða víða og þar verður líklega víða gripið til hinna innlendur skógviða, þó að erlendir skógviðir bjóði þar upp á nýja og fjölbreytta möguleika. Landbótar- og landgræðsluskógar verða afar víða, ekki síst á jöðrum hálendis og uppblásturssvæða, þar sem þeir mynda framvarðarflykingar gróðurlendis gegnt auðninni. Verndarskógar verða víða á vatnsverndarsvæðum, flóðavarnarsvæðum og þar annars staðar sem skógar veita vernd. Þeir geta verið með ýmsu móti, en innlendar og þrautseigar tegundir munu væntanlega hafa þar mikið hlutverk. Yndisskógar einstaklinga og samtaka munu verða afar víða.
Skógar breyta útliti landsins og útsýni um það, en einnig veðurfarsáhrifum og annarri upplifun af landinu. Þar er til margs að líta, en helst skal talið:
Hér mætti einnig telja hina alkunnu dulúð myrkra skóga, sem höfðar til ímyndunarinnar, ekki síður en hellar, hraunþústir, tindar og ótræð gljúfur. Þar togast á, óttinn og ævintýrið. Mestur munur er þó að skjólinu og kyrrðinni á okkar vindbera landi, en áferð skógarfeldsins og upplifun skógarvistarinnar er einnig að miklu leyti nýjung í hérlendri útivist. Sama má segja um landslagsáhrif skóganna og efld gróðurhrif af þeirra völdum.
Skjól í stað berangurs
Með skógunum eykst skjólið en skyggnið þverr. Hér verður ekki bæði haldið og sleppt og verður því að stilla svo til með skógana, að haldið verði því eða bætt við, sem meira er vert, en sleppa megi því, sem minna er vert. Skógaskjólið er það, sem mjög víða er sóst eftir. Skógvæðing garða og lóða í þéttbýli hefur gjörbreytt „örveðurfari“ („míkróklíma“) þéttbýlisins, stórdregið úr næðingi og slagviðrum, aukið „raunhita“, eflt garðagróður, dregið úr húsaskemmdum, skotið loku fyrir forvitna nágranna, dregið úr umferðarhávaða og leitt margt annað gott af sér. Nú býr fólk í skógarskjóli í stórum hverfum á Höfuðborgarsvæðinu, Akureyri, Egilsstöðum, Árborg og Hveragerði, sov nokkrir staðir séu nefndir, þar sem þéttbýlisskógurinn blasir við. Svipuð áhrif hefur skógvæðing sumarbústaðasvæða, þar sem núorðið eru víða ræktaðir skjólskógar á berangri á nýjum svæðum. Nú vildu fæstir án þessa skógarskjóls vera, sem njóta þess.
Þessir skógar eru bundnir við hús og mannabyggð og mynda sem slíkir eyjar, þar sem mannvirki eru umlukin gróðurhjúpi. Útivistarskógar eru önnur skógargerð, sem byggir á hughrifum og veðuráhrifum skóganna. Skjólið, kyrrðin og dulúð skógarfylgsnanna dregur að sér fjölda fólks til útivistar og unaðsstunda. „Lautarferðir“ í landslagsskjól eru aftur að verða „skógarferðir“ í skógarskjól, eins og „picnic“ var upphaflega þýtt. Þekktustu útivistarstaðir landsins hafa verið íslensku birkiskógaleifarnar á Þingvöllum, Húsafelli, Hreðavatni, Vaglaskógi, Ásbyrgi, Atlavík, Þórsvörk, Þjórsárdal og Laugarvatni og víðar. Erlendar tegundir, barrviðir og blaðskógar, bjóða í útivistarskógum upp á miklu meiri fjölbreytni og möguleika, þó að ekki hafi þeir allir upp á vorilm bjarkanna að bjóða. Útivistarskóga með innlendum og erlendum skógviðum þarf að hanna þannig, að þessir möguleikar nýtist sem best, en um leið þarf að fella þá að landslagi hvers staðar, svo að landslagshljómkviðan verði ekki hjáróma. Þannig má nýta skógvæðinguna til að koma upp unaðsreitum fyrir almenning víða um land.
Skógarfeldur og skógarkyrrð
Hér er fyrst og fremst um nærhrif skóganna að ræða, sem felast í skóginum sjálfum, trjám hans og undirgróðri. Umhverfið er allt annað í skóginum en í hefðbundnu, íslensku gróðurhverfi, grasi og lyngi, mosa og strjálingsplöntum. Víðáttan hverfur, skyggnið er skert, en einveran og kyrrðin eru mögnuð upp í staðinn. Opið er til himins, en trén mynda gagnsæja súluveggi, allt frá barokksölum birkiskógarins upp í gotneskar grenikirkjur. Þessi umlúkning skóganna myndar skarpa andstæðu við opnun víðáttunnar, þegar út úr skógunum kemur, svipað og þegar kemur upp yfir klettahjalla eða út úr þröngum giljum. Með því móti magnast bæði kyrrðin og víðáttan, annað í hlýfaðmi skógarins en hitt í alfeðmi óravíddarinnar.
Með skertu skyggni í skógunum hverfa steinar og þúfur, brekkur og balar, nema hið næsta horfandanum. Skógurinn breiðir yfir hina skörpu drætti landslagsins, mýkir þá og mildar og klæðir þá dulúð hins óséða. Skógarskjólið styður og hlífir öðrum skógi í skóginum, svo að gróskan verður meiri í rjóðrum og skógarskotum. Gróðurbreyting of viss gróðurrýrnun verður í þéttum og ógrisjuðum barrskógum, þar sem hljóðgleyp barrnálateppi skapa nýja áferð og nýja uplifun fyrir skóggengilinn. Fjölbreyttir skógar skapa þannig nýja gerð nærhverfis í íslenskri náttúru, sem ekki krefst mikillar útbreiðslu á hverjum stað. Skógaryndisins er því hægt að njóta, þó að skógarnir þeki ekki samfelld risaflæmi, en slíkir skógar geta haft mikil áhrif á landslag og útsýni.
Skógarþekjur og landslagsvíddir
Fjarhrif skóganna geta verið mikil og bæði til góðs og ills fyrir nautn landslags og náttúru. Þeir breiða yfir landið, svo að hinir hörðu og skörpu drættir í alopinni nekt þess hverfa. Við taka líðandi ávalar skóglendisins með leik ljóss og skugga í krónum trjánna, en klettar og hamraflug rísa eins og ævintýrakastalar upp úr grænum skógarfeldinum. Það höfðar til ímyndunaraflsins, en samt er eins og blæja sé dregin fyrir andlit, þar sem mikilúðugt eða dráttafagurt landslag er til staðar. Því þarf að gæta hófs og halda landslaginu opnu, þar sem fegurð þess sjálfs er mest. Raunar gildir það líka um mörg svæði og bletti, þar sem áferð landsins er aðlaðandi í gróðurþekju þess, auðn eða yfirborðsmótun. Hér þar því að vega og meta.
Vel er þekkt, að skógarbelti við fjallarætur eða í lághlíðum fjalla lyfta hærri hluta fjallanna upp í ómælishæð handan skógarins. Gott dæmi um þetta er Bjarnarfell yfir Helludal hjá Geysi, en vel má einnig hugsa sér háfjöll Eyjafjarðardals rísa enn hærri yfir skógklæddum lághlíðum og skriðuteygingum. Lágholt verða að háhryggjum undir skógi, með skjóli undir brekkum og bak við sig óvissuna handan skógarins. Skógarlundir, skógarholt og jafnvel víðfeðmar skógarbreiður geta aukið á fjölbreytni landslagsins á rislitlu landi, ef þeim er haganlega fyrir komið.
Skógarnir geta þannig skerpt og eflt landslagsmyndina. Hins vegar geta endalausar skógarþekjur á flatlendi byrgt fyrir sýn, vítt og breitt, og valdið einhæfni og innilokunarkennd. Þar þarf því vel að huga að málum, halda skógunum sem fjölbreyttustum og opna þá vel annað veifið, einkum á góðum útsýnisstöðum og þar sem vel sér til góðra landslagssýna. Þar er einnig á að líta að andstæður skóglukts umhverfis vegfarans og opins víðáttuútsýnis geta hrifið eins og tjöld, sem dregin eru frá sviði. Þetta gildir ekki síst um auðnir og óravíddir landsins. Flestir kannast við þá tilfinningu, þegar útsýni opnast allt í einu til stórfenglegs landslags. Svipað á sér stað, þegar komið er upp úr gróðursældinni og inn á auðnir hálendisins. Því sterkari eru þau hughrif, sem breytingin er sneggri og skarpari, jafnast þar líklega ekkert á við að koma út úr skógi og út í auðnina eða víðáttuna. Bæði auðnarhrifin og auðnarvíddin eflast við slík viðbrigði. Raunar fer saman, að skógur á hálendisjörunum gerir margt annað gang. Hann styrkir jarðveg, hindrar uppblástur, brýtur vind og heftir snjó- og skarafok.
Hér hefur einugis verið drepið á nokkur atriði í samverkan skóga og landslags, sem gefa verður gaum, þegar skógi er valinn staður. Sem heildarhrif má segja, að skógar gera landið hlýlegra, þeir dýpka víddir þess og auka bæði auðnar- og gróðrarhrif. Skógarnir auka því fegurð landsins, ef vel er til staðar vandað, og auka þá á fjölbreytni náttúrulegs, íslensks landslags. Til þess þarf að velja þeim svo stað, að þeir falli að landslaginu og skyggi ekki á þá drætti þess, sem fegurri eru í allri sinni nekt og opnun. Svo að þetta megi verða, þarf að móta almenn viðhorf um skógvæðingu í landslagi, útsýnisvernd, auðnarvernd og landslagsvernd í heild, sem sæmileg sátt er um. Móta þarf svo á þeim grunni verklagsreglur um val á skógarstæðum. Það tekur sinn tíma og er því aðkallandi að hefja það verk.
Fjölbreytnin gerir skógana fjölhæfari
Skógar verða fjölbreytilegir í tegundavali og tegundasamsetningu í samræmi við tilgang þeirra og not þau, sem af þeim skal hafa. Timburskógar verða líklegast að stofni til barrskógar, en með mismunandi tegundum eftir landshlutum og staðsetningu, auk þess sem þeir geta verið með ívafi ýmissa tegunda. Einræktarskógar („mónókúltúr“) voru lengi í tísku í timburskógum, því að þeir eru einfaldir í plöntun og fellingu auk þess sem flatarnýting er öll til arðs. Efasemdir um ágæti svona skógarfars hafa komið upp í seinni tíð, oft af biturri og illri reynslu ræktenda. Jafnaldra skógar sömu tegundar trjáa hafa í flestum eða öllum trjánum sömu viðbrögð við ofviðrum og óværu og geta alfallið undan slíkum skaðvöldum. Munur í aldri og dreifing í tegundum rýrir að vísu flatararðnýtingu og veldur lítils háttar verkódrýgindum við plöntun, hirðu og fellingu en tilvist skóganna verður tryggari á móti. Timburskógar eru fjárfesting til langs tíma svo að tryggari tilvist og líkur á lengri aldri geta vegið á móti arðskerðingu vegna fjölbreytninnar. Er þá ótalið, hvað fjölbreytnin getur fellt þá betur að landinu og aukið hæfni þeirra til annarra nota.
Skjólskógarnir verða afar mismunandi að tegundavali og samsetningu, allt eftir aðstæðum og markmiðum. Sama er um landgræðslu-, landbóta-, verndar- og útivistarskóga, þó að innlendir birki- og víðiskógar verði þar líklega víða ríkjandi, með ívafi eða uppistöðu erlendra tegunda, þegar það á við. Einstaklinga- og félagsskógar verða svo í allri þeirri fjölbreytni, sem hugurinn girnist og landkostir leyfa. Það þjónar því markmiðum skógvæðingarinnar að hafa skógana fjölbreytta, en það gerir þá líka lífvænlegri. Reynslan virðist sýna að fjölbreytni skóganna auki þol þeirra gegn áföllum, bæði veðurfarslegum og líffræðilegum. Náttúrulegir skógar eru að öðru jöfnu fjölbreytilegir að vissu marki og samsvara þannig náttúrulegu úrvali og hámarksviðnámi gegn áföllum. Gerir þar gæfumuninn á þeim og einræktarskógunum, enda virðast þeir síðartöldur almennt vera á undanhaldi í timburræktarskógum.
Sjálfbær fjölbreytni skóganna
Fjölbreytilegir skógar og fjölbreytni tegunda í skógum gerir skóga landsins í heild miklu tryggari í tilvist einni og þannig stöðugri sem þátt í gróðurfari landsins í heild.
Þessi stöðugleiki er mikilvægur, bæði vegna beinna nytja, hagrænna og hugrænna, og vegna viðhalds og þróunar lífríkis landsins. Stöðugleikinn er einnig forsenda markvissrar bindingar kolefnis í skógum landsins og vegna sjálfbærrar nýtingar þeirra. Sjálfbær nýting lands og fjölbreytni tegunda lífríkisins eru markmið, sem eru almennt viðurkennd um víða veröld og hérlendis á stefnuskrá stjórnvalda.
Fjölbreytni lífvera og búsvæða eru markmið í landnýtingu og viðfangsefni ýmissa alþjóðasáttmála. Skógur er náttúrulegt hástig landsins í stórum hlutum landsins. Ræktun hans með fjölbreyttu tegundavali gerir hann hæfari til að bregðast við síbreytilegum aðstæðum og óvæntum áföllum. Aukin fjölbreytni tegunda og vistkerfa með skógvæðingu styrkir lífræn vistkerfi og búsvæði landsins og stuðlar þar með að styrkari sjálfbærri þróun þeirra. Fjölbreytileg skógvæðing að tegundum og tegundasamsetningu er þannig áfangi að öflugri, sjálfbærri þróun landsins.
Fjölbreytni og tilbreytni skóga:
Fjöltegundaskógar eru tilbreyttari og trufla minna fjöldrátta landslagsmyndina en einhæfir einræktarskógar. Auk þess býður fjölbreytni í skógargerðum og fjölbreytni tegunda í skógunum upp á margs konar nýtingu þeirra í sama skógi: Beitarskóga í grisjuðum timburskógum, útivist í landbótaskógum, vatnsvernd af landgræðsluskógum og svo mætti lengi telja. Þetta skal hér ekki nánar rakið, en möguleikarnir eru margir. Hvað varðar mismunandi möguleika til notkunar skal minnt á viðnámsmun mismunandi ættkvísla íslenska birkisins gegn veðurfari og mismunandi laufgunartíma þess eftir upprunastöðum þess. Þar henta ekki allar ættir alls staðar.
Líklegt má telja, að birkiskógar við landnám lausir við álag mannsins og búsetu hans, hafi víða verið mun hávaxnari og beinvaxnari en kræklubirkiættir þær, sem lifðu af ellefu hundrað ára áníðslu mannsins í bandalagi við illviðraskeið, öskufall og uppblástur. Kræklurnar verðskulda alla virðingu fyrir þrautseigjuna, en annar bragur og rismeir mun þó hafa verið á Bláskógum Þingvalla á söguöld en nú, þrátt fyrir friðun síðustu áratuga. Viðeigandi val á birkiættum til gróðursetningar og viðeigandi samsetning þeirra geta því haft mikil áhrif á döfnun og framgang þeirra skóga, sem endurreisa skal. Svo víða sem mætti með ræktun endurreisa stórskóga gullaldar Íslendinga með íslensku glæsibirki, þá mun enn um sinn ekkert koma í stað íslenska kræklubirkisins og skriðvíðisins á mörkum hins skógvæðilega heims á hálendisjöðrum og annesjum.
Fjölbreytni erlendu tegundanna, sem hér geta þrifist, er að sjálfsögðu til muna meiri en fábreytni innlendra tegunda, og að sama skapi er ræktunarróf þeirra miklu breiðara. Það er þó ekki enn fullreynt, né almenningi víða aðgengilegt. Minnt skal þó á skógarstíga og fræðslulundi á stöðum eins og Stálpastöðum í Skorradal, á Hallormsstað og Tumastöðum í Fljótshlíð. Þessu markmiði tilrauna og kynningar þjónar einnig minningarreitur sá um Gunnar Freysteinsson, sem nú hefur verið gróðursettur í Haukadal hjá Geysi (Gunnarslundur) og er öllum almenningi aðgengilegur. Ekki skal heldur gleyma öllum þeim mörgu tegundum, ættum og kvíslum af trjágróðri, sem áhugafólk um skógrækt hefur í tímans rás gróðursett og hlúð að af alúð og umhyggju víða um land. Þar hefur ómetanleg reynsla og þekking safnast saman. Aðkallandi er að kanna fræðilega og með tilraunum, hvaða tegundir kvæmi og samsetningar dafna best, hvar og hvernig, og hverjar helst má melja til tilætlaðrar nýtingar, hverju sinni og á hvaða stað. Fjölbreytni íslenskra skóga er markmið, sem vinna þarf að með tilraunum og kynningu. Það er óþrjótandi framtíðarverkefni.
Lokaorð
Framangreind atriði hafa verið viðfang hugleiðinganna hér að framan. Niðurstaða þeirra er einföld:
Þessi er boðskapur þessara hugleiðinga til íslenskra skógræktarmanna og landsmanna allra.
Aðalsteinn Sigurgeirsson, 31.8.2012 kl. 14:15
Grein Freysteins er mjög góð og styður vel við þær skoðanir sem fram voru settar í upphaflega pistlinum. Skógrækt er af hinu góða, þar sem hún á við, en alls ekki allsstaðar.
Lokaorð greinar Freysteins draga þetta vel saman og væri skógræktin í samræmi við þau yrðu klettaborgirnar og aðrar fallegar náttúrumyndanir ekki færðar á kaf í greniskóga.
Vonadi verður þessi skynsamlega grein Freysteins til þess að fólk bregðist við áður en skaðinn verður fullu framkvæmdur.
Axel Jóhann Axelsson, 3.9.2012 kl. 13:18
Erlendir ferðamenn koma ekki til Íslands að skoða skóg því heima eiga þeir af honum nóg. Ef á annað borð á að gera landið að söluvöru, þá er tímabært að átta sig á því hvað skapar vörunni sérstöðu: víðerni.
Man þegar ég þurfti að keyra þvert yfir Þýzkaland til að komast til annars lands. Hef enn ekki hugmynd um hvernig umhorfs er í Þýskalandi, nema jú þar er fullt af trjám meðfram hraðbrautinni. Eftirminnilegt? Neibb.
En hver einasta ferð austur sandana með útsýni til jökla, er sem glæný upplifun í hvert einasta skipti. Því á ég bágt með að skilja þegar notuð eru neikvæð orð eins og "eyðimörk" um þessi mestu auðæfi okkar.
Höfum bara skógana á sínum stað og eyðisandana á sínum og jöklana á sínum. Sumstaðar á suðurströndinni má jafnvel finna allt þrennt á sama ferkílómetranum, sem er auðvitað alveg einstakt á heimsvísu.
Guðmundur Ásgeirsson, 8.9.2012 kl. 11:42
„Erlendir ferðamenn koma ekki til Íslands að skoða skóg því heima eiga þeir af honum nóg.“ Hárrétt athugað hjá Guðmundi. En fleira mætti nefna sem nóg er til af í Þýskalandi (og mörgum öðrum útlöndum) sem mætti með sama hætti telja ofaukið hér á Íslandi, því það rýrir okkar „sérstöðu“ og ógnar þar með hugsanlegum vaxtarmöguleikum okkar ferðaþjónustu. Fáein dæmi:
En grínlaust: Eigum við að láta ímyndaðar væntingar erlendra ferðamanna til sérstöðu - í stóru sem smáu - ráða öllu í okkar lífi og í þróun okkar umhverfis? Mega þeir 85% Íslendinga sem skv. viðhorfskönnun vilja meiri skóg á Íslandi ekki njóta þeirra umhverfisgæða sem þeir sækjast eftir í skógum? Við þurfum þrátt fyrir allt að búa allt árið í þessu landi og njóta ávinnings af fleiru en bara ferðaþjónustu. Ferðaþjónusta gæti horfið eins og dögg fyrir sólu, í kjölfar stórfelldra olíuverðhækkana (og fargjaldahækkana) þegar olíulindir heims ganga til þurrðar á næstu fáu áratugum. Hvaða erlendu ferðamenn munu þá fá notið berangursins sem nú þekur yfir 99% af flatarmáli landsins?
En umfram allt: forðumst „svart-hvítu skekkjuna“: fjöll, jöklar og jafnvel svartar basaltsandauðnir munu ekki hverfa þótt hér fjölgi lítið eitt trjám og skógum.
Aðalsteinn Sigurgeirsson, 9.9.2012 kl. 01:38
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.