Óþörf þjóðaratkvæðagreiðsla

Hagsmunasamtök heimilanna leggja nú hart að þingmönnum að þeir leggi fram þingsályktunartillögu um þjóðaratkvæðagreiðslu um niðurfellingu skulda heimilanna og afnám verðtryggingar á lánum.

Eins og maður er nú fylgjandi auknu lýðræði og þátttöku almennings í stefnumörkun í stærri málum, þá er alveg óhætt að leggja til að þær tvöhundruðmilljónir króna, sem kostar að halda þjóðaratkvæðagreiðslu, verði sparaðar og notaðar frekar til að styrkja heilbrigðiskerfið, sem er í brýnum fjárhagsvanda.

Niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslu um þessi mál er algerlega fyrirséð, þar sem ekki er líklegt að nokkur einasti kjósandi myndi segja nei við því að fá lækkaðar skuldir sínar, hvort sem til þeirra var stofnað af fyrirhyggju, eða algeru fyrirhyggjuleysi og jafnvel ævintýramennsku eins og raunin var í sumum tilfellum.

Svo mikið er búið að útmála og sverta verðtrygginguna, að niðurstaða í því máli er jafn fyrirséð, jafnvel þó vaxtaokrið í landinu yrði í kjölfarið meira en nokkru sinni fyrr, enda ólíklegt að lánastofnanir muni lána fé í stórum stíl með neikvæðum vöxtum til langs tíma, enda færu þær fljótlega á hausinn með því móti.

Kannski myndi það að vísu leysa skuldavandann, því enginn gæti þá tekið lán framar og myndi því aldrei lenda í vandræðum með afborganir, vexti eða verðtryggingu þeirra vegna.


mbl.is Fundað um þjóðaratkvæði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kolbrún Hilmars

Axel, ég held að í rauninni séu þarna tvö hagsmunamál tengd verðtryggingunni en ekki aðeins eitt. 

Hvað varðar hið fyrra af þeim  hefur svo  margt verið skrifað og skrafað um vogunarsjóði og útsölukaup þeirra eftir hrun að ég  get engu við það bætt.

Hið síðara er hins vegar almennara, og  snertir útreikninginn á neysluvísitölunni.  Þar þykir mér þurfa að endurskoða málin.  Það er ekkert vit í því að tengja verðtryggingu húsnæðislána við spákaupmennsku á vörum erlendis, uppskerubresti  hvar sem er í heimi eða geðþótta skattahækkunum innlendra yfirvalda. 

Neytandinn greiðir jafnóðum  allar verðhækkanir á neysluvörum, en það á að vera óþarft að hann þurfi jafnframt að niðurgreiða þessar hækkanir fyrir aðra (s.s. lánveitendur) með hækkun á húsnæðislánum sínum  að auki.  Húsnæðislán eru ekki neyslulán.

Lánveitandinn á ekki að njóta niðurgreiðslna á sinni neyslu á kostnað lántakans.

Kolbrún Hilmars, 4.11.2011 kl. 18:38

2 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Fyrst og fremst þarf almennilega hagstjórn hér á landi sem stuðlar að stöðugu verðlagi og þá verður verðtryggingin ekkert vandamál fyrir skuldara. Afnám verðtryggingar án alvöru hagstjórnar myndi valda því að vextir færu upp úr öllu valdi, eins og alltaf hefur gerst á verðbólgutímum, þannig að skuldavandinn yrði ekkert viðráðanlegri með mikilli verðbólgu og breytilegum vöxtum á húsnæðislánum.

Mest ríður hins vegar á að berjast gegn vaxtaokrinu, sem hefur viðgengist í landinu í áratugi, en a.m.k. mér til mikillar furðu er sáralítið, sem ekkert, rætt um vextina en eingöngu verðtrygginguna. 10-12% vextir (og jafnvel hærri) ofan á verðtryggð lán er náttúrlega óheyrilegt siðleysi og 5-6% vextir ofan á verðtryggð húsnæðislán til allt að fjörutíu ára er hreint okur.

Eðlilegir vextir á verðtryggð langtímalán væru á bilinu 1,5-2,5% og sjá allir hvílíkur munur yrði á greiðslubyrði heimilanna af slíkum lánum, ef vaxtakjörin væru eðlileg.

Gegn þessu okri þarf að berjast með öllum ráðum.

Axel Jóhann Axelsson, 4.11.2011 kl. 19:04

3 identicon

Mikið rosalega er þetta aumkunarvert að sjá  að það skuli vera til fólk sem ber blak af þessari andskotans "verðtryggingu" og réttlætir það með einhverju hagstjórnar kjaftæði. Verðrtygging er ekkert annað þjófnaður af verstu gerð. Varin með lögum. Svona svipað og spila póker, en alltaf með ásinn í erminni til að tryggja þjófnaðinn.  Þessi verðtrygging var tekin svo af launum almennngs,vegna þess að fjármagnseigendur töldu sig ekki hafa nóg. Þrjú ríki í heiminum notast við þetta furðubæri verðtryggingu. Tvö af þeim teljast ekki vera að vestrænni fyrirmynd. Hvar skyldum við vera af þessum þremur...?????

Sigurður Kristján Hjaltested (IP-tala skráð) 4.11.2011 kl. 21:30

4 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Alltaf gaman að sjá svona málefnalegar og innihaldsríkar athugasemdir eins og þessa nr. 3.

Axel Jóhann Axelsson, 4.11.2011 kl. 21:41

5 identicon

@Sigurður

Verðtryggingin er afleiðing veiks gjaldmiðils og hagkerfis með mikla verðbólgu. Upphaflega þegar lagt var af stað með þetta voru bæði lánskjör og launakjör verðtryggð en það kerfi stóðst ekki lengi.

Lífskjör eru í raun tengd verðmætasköpun og eru ekki ákveðin með vísitölum eða á Excel skjali.

Í eðlilegu hagkerfi eru ávalt jákvæðir raunvextir og síðan bætist við vaxtaprósentuna það sem endurspegla þá áhættu sem í því felst að lána viðkomandi. Í flestum hagkerfum eru stýrivextir seðlabankans botninn í vaxtakerfinu og í raun botnlokinn á gjaldmiðlinum. Ef stýrivextir eru lægri en verðbólga (þeas neikvæðir) er það í raun til marks um að verið sé að skrúfa niður gengi viðkomandi gjaldmiðils.

Ef áhættan er mikil eru vextirnir augljóslega háir.

Grundvallarforsenda að einhver láni einhverjum eitthvað er að viðkomandi fái sín verðmæti til baka. Ef það er 10% verðbólga er 10 miljónir í ársbyrjun ekki nema 9 miljónir í árslok það gerir það að verkum að til að leggja upphæðir að líku þarf að núvirða upphæðirnar. Það sem blekti fólk á Íslandi var að raunvirði íbúðarverðs á höfuðborgarsvæðinu 3-4 faldaðist á sama tíma og laun jukust um 20%. Fjölskyldur sem tóku 100% lán á 40 árum á jafngreiðslulánum eru í raun í kaupleigu fyrstu 25-30 árin þar er í raun nær engin eignamyndun.

Auðvitað er hægt að taka burtu verðtrygginguna en það verður ekki gert afturvirkt. Klárlega gæti verðtryggingin orðið hagstæð ef td. verðhrun yrði á húsnæði sem liggur nánast í kortunum enda eru lánastofnanir með á þriðja þúsund íbúða/húseigna og það er ekki hagstætt að leigja, til þess þyrfti leiguverð að tvöfaldast frá því nú er og launakjör standa ekki undir því.

Klárlega væri hægt þjóðnýta íbúðarskuldir landsmanna en það verður þá kostað af skattgreiðslum og eftirlaunagreiðslum landsmanna sjálfra. Raunar þokumst við nær þeim tíma að lífeyrissjóðirnir þurfa að greiða meira út en inn og spurningin verður hver á að greiða þetta þeir sem eru að fara að borga núna eða þeir sem hafa greitt.

Gunnr (IP-tala skráð) 5.11.2011 kl. 04:11

6 identicon

Úr athugasemd nr. 5 kom þetta:

"Raunar þokumst við nær þeim tíma að lífeyrissjóðirnir þurfa að greiða meira út en inn og spurningin verður hver á að greiða þetta þeir sem eru að fara að borga núna eða þeir sem hafa greitt."

Þessi fullyrðing er röng. Hverju ári er gerð tryggingafræðileg úttekt á sjóðunum og ef niðurstaða hennar er sú að viðkomandi sjóður standi ekki undir sér er honum lagalega skylt að skera niður útgreiðslur á þann hátt að reksturinn beri sig.  

Þorgeir Ragnarsson (IP-tala skráð) 7.11.2011 kl. 13:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband