Villimennska á báða bóga í Líbíu

Þegar uppreisnarmenn í Líbíu fundu Gaddafi, fyrrum einræðisherra, eftir bardagana um fæðingarbæ hans, virðist hann hafa verið særður en þó með fullri rænu og rólfær.

Ekki er annað að sjá en að harðstjórinn hafi verið beittur miklu harðræði og í raun níðingsskap eftir handtökuna, honum verið misþyrmt og að lokum drepinn og líkið dregið um götur í háðungarskyni.

Gaddafi hafði stjórnað landinu með mikilli hörku og miskunnarleysi gagnvart andstæðingum sínum í áratugi og því byggt upp mikið hatur á sjálfum sér og stuðningsklíku sinni, en eftir sem áður er framferði uppreisnarmannanna eftir handtöku hans algerlega óafsakanlegt og ógeðslegt.

Það miskunnarleysi sem uppreisnarmenn hafa sýnt ýmsum samstarfsmönnum einræðisherrans, hermönnum hans og málaliðum gefur ekki miklar vonir um að stjórnarhættir breytist mikið í landinu á næstunni og raunverulegt lýðræði mun eiga langt í land með að verða að veruleika.

Næstu vikur og mánuðir munu skera úr um hvort bjartari tímar renni í raun og veru upp fyrir almenning í þessu langhrjáða landi, sem ætti að geta átt bjarta framtíð við eðlilegar aðstæður.


mbl.is „Þá sáum við hans loðna höfuð“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: corvus corax

Það er merkilegt að þessar einræðisrottur leita upprunans og skríða inn í holur eins og aðrar rottur þegar syrtir í álinn fyrir þeim. Og í kjölfarið fer fram ósköp eðlileg meindýraeyðing.

corvus corax, 21.10.2011 kl. 11:03

2 Smámynd: Bergljót Gunnarsdóttir

Er það eðlileg meindýraeyðing að hægdrepa, svo kvalirnar verði sem mestar?

Þeim sem finnst það eðlilegt, hlýtur þá líka að finnast eðlilegt að þeir sem þetta stunda taki við, og ekkert breytist, sömu villimannaðferðum verði beitt, og þannig endurtaki sagan sig aftur og aftur.

Bergljót Gunnarsdóttir, 21.10.2011 kl. 11:31

3 Smámynd: corvus corax

Kallast það að hægdrepa þegar "hann fékk skot í höfuðið og lést samstundis"? Hvernig er þá hraðdrepið?

corvus corax, 21.10.2011 kl. 11:45

4 Smámynd: Bergljót Gunnarsdóttir

Fréttum virðist ekki bera öllum saman, en flestar segja að hann hafi verið helsærður í einhvern tíma áður en hann fékk náðarhöggið. Ég ætla svo sem ekkert að karpa um það, en mér finnst þetta allt þannig að það setur að manni kaldan hroll af viðbjóði, um leið og maður óttast að sagan endurtaki sig, hver svo sem næsti harðstjóri og síðan fórnardýr verður.

Bergljót Gunnarsdóttir, 21.10.2011 kl. 11:59

5 Smámynd: corvus corax

Ef veiðimaður særir bráð sína ber honum að aflífa hana á skjótan og öruggan hátt. Það á við um rottur líka þótt manni finnist þær kannski ógeðslegar. Gaddafi lýsti sjálfur yfir að hann myndi berjast til síðasta blóðdropa og hefur líklega verið að tala um blóðsúthellingar á báða bóga en ekki bara síns eigin blóðs. Fyrst svo mörgum er svo umhugað um hvernig Gaddafi drapst hlýtur að verða kertafleyting á Tjörninni. Hann virðist hafa verið svo mörgum Íslendingum svo kær, vonandi jafnkær og Lúkas sem var svo ekki dauður þegar hann fékk kertafleytingu. Staðreyndin er einfaldlega sú að Gaddafi var stútað rétt eins og hann stútaði og lét stúta þúsundum landa sinna.

corvus corax, 21.10.2011 kl. 13:18

6 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Það er auðvitað hárrétt, að Gaddafi var hin mesta skepna, en manni finnst samt ekki að það réttlæti að andstæðingar hans hagi sér á sama hátt. Ef allir hugsa eins og corvus corax um andstæðinga sína, verður aldrei nein breyting til batnaðar í heiminum.

Harðstjóra á að draga fyrir dómstóla eins og aðra glæpamenn. Það er ófögur framtíðarsýn, ef sá hugsunarháttur nær fótfestu, víðar en nú er, að réttlætanlegt sé að taka glæpamenn af lífi, án dóms og laga, hvar sem til þeirra næst.

Axel Jóhann Axelsson, 21.10.2011 kl. 14:35

7 Smámynd: corvus corax

Axel er við sama heygarðshornið og endranær. Ætlar mönnum skoðanir eftir eigin geðþótta eða hvar hefur corvus corax nefnt andstæðinga sína til sögunnar? Hverjir eru andstæðingar hans ef einhverjir eru? Og ef corvus corax á einhverja andstæðinga, hvar og hvað hefur þá komið fram um það hvernig hann hugsar til þeirra? Marklaust blaður hjá Axel eins og stundum áður.

corvus corax, 21.10.2011 kl. 14:58

8 identicon

Sæll Axel.

Ég er nokkuð sasmmála þér og svona villimennsku ber að fordæma á báða vegu.

Best hefði verið að Gaddafi hefði verið handtekinn og fengið rétt að svara til saka gagnvart glæpum sínum gagnvart þjóð sinni og reyndar fleirum.

En þessi brjálæðislegi endir á stríðinu þar sem alger ringulreið og ótti og hrein brjálsemi réð ríkjum, þá er von að ýmislegt hafi farið úrskeiðis og ekki eins allt farið eins og helst hefði verið á kosið.

En við skulum vona að sigurvegararnir reyni nú að sýna umburðarlyndi og sameina þjóðina á ný og sætta og fyrirgefa. Aðeins með auðmýkt og umburðarlyndi gagnvart þjóðinni geta nýjir valdhafar fengið traust og byggt upp nýja og lýðræðislega Líbíu.

Við skulum vona það besta.

Gunnlaugur Ingvarsson (IP-tala skráð) 21.10.2011 kl. 15:16

9 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

corfus, þú skrifaðir sjálfur athugasemd nr. 5 og auðvelt er að draga ályktanir af hugarheiminum á bak við þau skrif.

Axel Jóhann Axelsson, 21.10.2011 kl. 15:17

10 Smámynd: corvus corax

Ályktanir þínar Axel eru úr lausu lofti gripnar, þínum eigin hugarheimi en ekki mínum. Hvergi kemur neitt fram í mínum skrifum um andstæðinga mína enda var Gaddafi ekki andstæðingur minn á nokkurn hátt. Hann var einræðisherra heima hjá sér og gerði mér eða mínum aldrei neitt svo ég viti, hvorki gott né vont. Mér er slétt sama hvort hann er lifandi eða dauður en ég held að andstæðingar hans hafi drepið hann.

corvus corax, 21.10.2011 kl. 16:12

11 Smámynd: Bergljót Gunnarsdóttir

Hvernig nennir fullorðinn maður, sem nennir ekki einu sinni að koma fram undir nafni, að standa í svona útúrsnúningum öllum til leiðinda?

Biðst afsökunar á dónaskapnum, en mér blöskrar bara.

Bergljót Gunnarsdóttir, 21.10.2011 kl. 16:26

12 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Bergljót, mér er löngu hætt að blöskra það sem frá þessum huldumanni kemur.

Axel Jóhann Axelsson, 21.10.2011 kl. 19:07

13 Smámynd: Hafsteinn Björnsson

Það eru því miður nokkrar nafnlausar "bleyður" og aumingjar á blogginu sem skrifa marklaust bull sem ekki nokkur maður á að taka alvarlega. Þetta sama fólk er í mínum augum nokkurs konar "holurottur" bloggsins sem tísta hátt en þora ekki að láta sjá sig!!

Hafsteinn Björnsson, 21.10.2011 kl. 22:15

14 identicon

Veit ekki hvort þetta sé eitthvað grín eða þið séuð svona hæg. Það tók mig um það bil 5 sekúndur að komast að því hver nafnið hans corvus corax er, Ábyrgðarmaður skv. Þjóðskrá: Friðjón Axfjörð Árnason, fyrir fólk sem virðist eiga heima á moggablogginu ættuð þið að vita þetta, nú þegar hann er ekki "bleyða og aumingji" samkvæmt ykkar skilningi eða holurotta, eru þá skrifin hans meira virði fyrir ykkur?

Mikið er mér illa við fólk sem ræðst á persónu í stað þess að ráðast á rökin, barnalegt með meiru!

En það er varla hægt að taka mark á mér þar sem ég skrifaði bara fornafnið mitt, eða er það ekki?

Tryggvi (IP-tala skráð) 22.10.2011 kl. 03:54

15 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Friðjón Axfjörð Árnason skrifar ekki undir eigin nafni hér á blogginu, heldur undir dulnefni, og varla getur það verið af öðrum ásæðum en að hann skammist sín fyrir skoðanir sínar, eins og þú virðist gera sjálfur, Tryggvi.

Vægt til orða tekið, telst það ekki stórmannlegt að stunda iðju sína dulbúinn og þá skiptir ekki máli hvort um er að ræða skartgripaþjófa, konur í eftirlíkingarfatnaði Ku Klux Klan, eða drullumakara á bloggsíðum.

Axel Jóhann Axelsson, 22.10.2011 kl. 08:57

16 identicon

Ég bara skil ekki hvernig athugasemd getur haft minna vægi, rök verið verri við það eina að þið vitið ekki fullt nafn hjá einstaklingi, yfirleitt þegar fólk hérna á moggablogginu spilar þessu "skrifar ekki undir nafni" spili þá er það út af því að það getur ekki svarað þeim málefnalega.

 En nú skil ég ekki alveg, er semsagt Friðjón dulnefni?
En og aftur, hverju skiptir það máli hvort þið vitið fullt nafn hjá manni eða ekki, þið hafið en ekki hugmynd hver hann er, hvað hann gerir þó þið hafið eitthvað nafn fyrir framan ykkur.

Hvernig skammast ég mín fyrir skoðanir mínar?

Tryggvi (IP-tala skráð) 22.10.2011 kl. 11:41

17 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Langalgengast er að þeir sem skifa undir dulnefnum ausi skömmum og skít yfir þá sem þora að standa við skoðanir sínar undir nafni. Miklu sjaldgæfara er að dulnefningarnir leggi eitthvað málefnalegt til umræðunnar. Þá sjalda það gerist, er þeim svarað á sama hátt, þ.e. málefnalega. Í hinum tilfellunum, sem eru miklu fleiri eins og áður sagði, er þeim annaðhvort alls ekki svarað eða þá að svörin eru á því lága plani, sem þeir virðast sjálfir vera á.

Ekki hef ég skýringar á því, hvers vegna menn skammast svo mikið fyrir skoðanir sínar að þeir þori ekki að leggja nafn sitt við þær. Í flestum tilfellum er það þó auðskiljanlegt.

Axel Jóhann Axelsson, 22.10.2011 kl. 12:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband