Hagkvæmt til skamms tíma

Í meistaraprófsverkefni frá RES-orkuskólanum, sem reyndar er kominn á hausinn, er komist að þeirri niðurstöðu að það marg borgi sig fyrir leigubílstjóra á höfuðborgarsvæðinu að breyta bílum sínum úr því að nota bensín yfir í að nota metan sem eldsneyti.

Breyting bílanna ætti að borga sig upp á einu ári eða svo, vegna þess mikla munar sem er á verði metans miðað við bensín. Af verði hvers bensínlítra tekur ríkissjóður til sín um það bil 110 krónur á lítrann í alls kyns skatta og gjöld, þar með talda vegaskatta.

Engir vegaskattar eru lagðir á metanið núna, en að sjálfsögðu mun ríkissjóður ekki bíða lengi með að jafna þann mun og fara að leggja vegaskatta á metanbílana, enda spurning hvort eitthvert réttlæti sé í því að metanbílar aki um vegi landsins, án þess að leggja nokkuð til kostnaðarins við að leggja þá, eins og eigendur þeirra bíla þurfa að gera, sem nota annað eldsneyti til þess að knýja bíla sína á milli landshluta.

Hafi meistaraprófsverkefnið ekki tekið tillit til þessarar væntanlegu skattheimtu er niðurstaðan algerlega ómarktæk.


mbl.is Metanið margborgar sig
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Í greininni inni í Morgunblaðinu í dag segir: "Metanið er í dag mun ódýrara en bensínið og munar þar meira en 100 krónum á orkueiningu. Mun lægri skattar eru lagðir á metanið. Hannes kemst að því að jafnvel þótt sömu gjöld væru lögð á metan og bensín, þá væri samt sem áður hagstæðara fyrir leigubílstjóra að skipta yfir í metan".

Nafnlaus (IP-tala skráð) 16.2.2011 kl. 07:43

2 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Það er gott mál, en spurning hvað þeir verða þá lengi að vinna upp mismuninn og hverning slík breyting kæmi út fjárhagslega fyrir almenna bíleigendur.

Hins vegar myndi sparast mikill gjaldeyrir við að skipta bílaflotanum yfir á metan og það eitt út af fyrir sig gæti réttlætt breytinguna, ekki kannski fyrir hvern og einn bíleiganda, heldur þjóðarbúið í heild.

Svo er metanið auðvitað "umhverfisvænna" en olía og bensín og það gefur metaninu örugglega forskot inn í framtíðina. En vegaskattarnir munu fyrr eða síðar leggjast á metanið eins og annað bílaeldsneyti, enda er ríkissjóður óseðjandi peningahít.

Axel Jóhann Axelsson, 16.2.2011 kl. 07:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband