10.2.2011 | 11:14
Leikritið um kjarasamninga í nýrri uppfærslu
Enn á ný er leikritið um kjarasamninga komið á fjalirirnar í Karphúsinu og þar leika fulltrúar verkalýðsins góðu gæjana með sanngjörnu kröfurnar, en fulltrúar atvinnurekenda eru í hlutverki vondu gæjanna, sem ekkert vilja fyrir starfsmenn sína gera og allra síst að hækka við þá launin.
Verkalýðsfélögin hafa nú gripið til þess ráðs að láta fámennan hóp bræðslumanna boða verkfall í miðri loðnuvertíð, rétt áður en hrognavinnsla kemst á fullan skrið, til þess að valda þjóðarbúinu sem mestum skaða á sem skemmstum tíma og á að heita að þetta sé gert til að knýja fram tuga prósenta hækkun kjarasamninga þessa hóps, þó allir viti að verið sé að gera tilraun til að setja viðmið fyrir aðra samninga, sem fylgja munu í kjölfarið.
Sum verkalýðsfélög vilja semja um miklu meiri kauphækkanir frá útflutningsatvinnuvegunum en öðrum, með tilvísun til þess að þessar greinar standi betur nú um stundir vegna gengishrunsins og er þetta nýtt útspil í kjaraviðræðum, þar sem hingað til hefur verið litið á það sem sjálfsagðan hlut að aðalkjarasamningar næðu til allra launamanna, en ekki einungis þeirra sem ynnu hjá "bestu" fyrirtækjunum. Í sjálfu sér má segja að ekki sé alsendis órökrétt að fyrirtæki borgi laun eftir getu hvers og eins þeirra, en verði slíkt ofaná í þessum kjaraviðræðum er það alger bylting í launastefnu verkalýðsfélagnanna frá því sem verið hefur frá því fyrir daga Guðmundar Jaka og hans félaga.
Í viðhangandi frétt kemur fram algerlega nýtt hugtak, sem aldrei hefur heyrst áður, en það kemur frá Gylfa Arnbjörnssyni, forseta ASÍ, en það hljóðar svo: "Það eru lagðar ákveðnar skyldur á herðar atvinnurekenda og stéttarfélaga um að gera kjarasamninga. Það er ekki hægt að neita því að gera kjarasamning á grundvelli pólitískra krafna. Þetta má ekki skv. stjórnarskrá vinnumarkaðarins."
Um þetta er það að segja, að verkalýðsfélögin hafa oft og iðulega beitt sér og styrk sínum í pólitískum tilgangi og jafnvel reynt að koma ríkisstjórnum frá völdum og nægir að nefna atlöguna að ríkisstjórn Geirs Hallgrímssonar í því sambandi. Lokasetning Gylfa um "stjórnarskrá vinnumarkaðarins" vekur upp spurningar um hvort allt annað sem hann lét frá sér fara um kjarasamningana sé líka grín og glens sem látið er falla í tilefni frumsýningar leikritsins um samningana.
Að hæfilegum tíma liðnum mun svo ríkisstjórnin setja lög um kjarasamninga og banna verkföll næstu þrjú ár.
Tjaldið fellur, leiksýningunni lýkur og lífið heldur áfram.
Rætt um kjaramál | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Hvert sem litið er, er verið að draga seglin saman, öll þjónusta, skattar og hvað sem það heitir, hækkar og kemur það í mörgum tilvikum hart niður á fólki, enda rekið upp hvert ramakveinið á fætur öðru. Síðan er heimtað, og ótal raddir úr öllum áttum mótmæla þessu og hinu. Fólk vill aukið þetta og ennþá meira hitt, allir vilja sinn bita af kökunni. Það er skiljanlegt, en það sem er ekki skiljanlegt mínu höfði, er að fólk gleymir því að það er engin kaka lengur. Diskurinn stendur tómur og ekki moli eftir.
Þeir einu sem hafa skilning á því, eru þeir sem misstu aleiguna og eiga vart til hnfís og skeiðar, standa í hjónaskilnuðum, jafnvel sjálfsvígum út af ástandinu og eru að upplifa kreppuna sem svo fáir sjá hvernig getur farið með fólk.
Mér finnst verkföll í dag þvílíkt rugl að það tekur engu tali. Fyrst þarf nýja ríkisstjórn, síðan atvinnumálastefnu, uppbyggingu atvinnuveganna og þá fyrst má fara að skoða hvort launin séu of lág. Þá má þá byrja á að líta til gamla fólksins, sem svo vandlega er gætt að fari aldrei yfir 140000 kr. á mánuði.
Verkföll, púff! Þau eru ekkert annað en frekja á Íslandi samtímans. Leikritið um kjarasamningana er því lítill menningarauki í dag.
Bergljót Gunnarsdóttir, 10.2.2011 kl. 12:34
Bergljót, ég get ekki verið meira sammála þér. Þessi uppfærsla af kjarasamningaleikritinu minnir mest á fáránleikhús í anda Dario Fo.
Axel Jóhann Axelsson, 10.2.2011 kl. 13:12
Allt að því gjaldþrota þjóðfélag fyrir 2 árum og nú voga þessir menn og þessar konur sér að vega að grunnstoðum. Fjöldi fólks hefur í dag varla ofan í sig og á eftir útrásar hörmungarnar. Hvernig verður ástandið ef verðbólgan og verðtryggingarnar verða keyrðar upp í 20-30% af því fólki sem nýtur kverkataksins. Því miður eigum við ekki aðeins stórfjárglæframenn heldur og líka fólk sem nær ekki að hugsa út fyrir sitt eigið veski.
Jónas S Ástráðsson, 10.2.2011 kl. 14:06
Og í þessu leikriti fáránleikans vantar trúðinn!!! Ætli Vilhjálmur Egisson tæki sig ekki vel út í því hlutverki? Eða Gylfi?? Eða..........?
Sigurður I B Guðmundsson, 10.2.2011 kl. 16:23
Sigurður, það vantar hreint ekki trúð í þetta leikrit. Það eru trúðar í öllum hlutverkum.
Axel Jóhann Axelsson, 10.2.2011 kl. 16:52
Vel mælt Axel.
Bergljót Gunnarsdóttir, 10.2.2011 kl. 17:58
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.