Kvótakosning, en um hvað?

Flokkstjórnarfundur Samfylkingarinnar samþykkti tillögu í dag sem á að vera einhvers konar hefnd á SA vegna afstöðu samtakanna um að ganga þurfi frá framtíðarskipan kvótamálanna áður en gengið verður frá kjarasamningum á almennum markaði.  Tillaga flokksstjórnarfundarins gengur sem sagt út á það að Jóhanna Sigurðardóttir beiti sér fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu um að aflaheimildir verði innkallaðar á tuttugu árum og þeim síðan endurúthlutað gegn gjaldi.

Það er gott og blessað að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um hin ýmsu málefni, en þá þarf að vera hægt að kjósa um a.m.k. tvo skýra kosti, en ekki eingöngu um hvort þjóðin samþykki hvaða dellu sem ríkisstjórn hverju sinni lætur sér detta í hug að skjóta til þjóðarinnar, án þess að boðið sé upp á annan valkost en einhverja óljósa tillögu, sem enginn veit hvernig á að útfæra.

Á þessu bloggi hefur verið lögð fram tillaga til breytinga á fiskveiðistjórnunarkerfinu og hefur hún fengið ágætar undirtektir þeirra sem tjáð hafa sig um hana.  Til upprifjunar má benda á þessa tillögu, en hana má sjá HÉRNA  Væri gaman að fá um hana meiri umræður og tillögur til frekari útfærslu, en allir sjá að ef vísa á einhverju til þjóðarinnar til endanlegrar ákvörðunartöku, þá verða að vera skýrir valkostir í boði.

Samþykkt Flokkstjórnarfundar Samfylkingarinnar er gerð með haturs- og hefnigirnishuga og því algerlega ómarktæk, a.m.k. þangað til hún verður útfærð nánar og aðrir valkostir kynntir til sögunnar.


mbl.is Tillaga um þjóðaratkvæðagreiðslu samþykkt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Halelújah-kór Samfylkingarinnar þorir ekki að samþykkja annað en það sem foringi þeirra, Járnfrúin Jóhanna, boðar.

Emil K. (IP-tala skráð) 29.1.2011 kl. 20:29

2 Smámynd: Ingibjörg Guðrún Magnúsdóttir

Algjörlega sammála þér Axel, og en ekki hvað Emil, annars væri allt búið....

Ingibjörg Guðrún Magnúsdóttir, 29.1.2011 kl. 21:14

3 identicon

Hvað með að kjósa um Icesave,og ESB.? Nei járnfrúin er búin að ákveða með það. Verður tekið  Túnis aðferðin á Alþingi Íslendinga og hreinsað þar út.? Eina stefnan sem Jóhanna hefur er að koma þjóð sinni inní Hryðjuverkabandalagið ESB.

Númi (IP-tala skráð) 29.1.2011 kl. 22:09

4 Smámynd: Þráinn Jökull Elísson

Var bara ekki gripið í síðasta hálmstráið?

Þráinn Jökull Elísson, 29.1.2011 kl. 22:23

5 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Axel þú auglýsir eftir tillögum og málefnalegum umræðum.
Ég hef reifað málið ítrekað á blogginu mínu. t.d hér og hér
Það eru margir sem tjá sig en ekki margir sem þekkja söguna af eigin raun. LÍÚ hefur afvegaleitt alla umræðu og beitt til þess gífurlegu fjármagni. Þeir fjármögnuðu áróðurinn í Páli Benediktssyni , fréttmanni RUV og núverandi upplýsingafulltrúa skilanefndar Landsbankans og þeir hafa keypt sér ótal álit háskólamanna og stjórnmálamanna og núna beita þeir báðum stóru dagblöðunum af fullu afli í að verja þetta siðlausa kerfi og heilaþveginn lýðurinn strýkur sér spekingslega um enni og muldrar "ja, þetta er besta kerfi sem hefur verið reynt, við verðum náttúrulega að halda í það"  Hvernig á að vera hægt að rétta þennan halla af ef allir eru heilaþvegnir og líka þeir sem þykjast vilja breytingar?

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 30.1.2011 kl. 06:32

6 identicon

kvótann heim það er búið að stela nóg.

gisli (IP-tala skráð) 30.1.2011 kl. 07:47

7 Smámynd: Sindri Karl Sigurðsson

Mikill er máttur LÍÚ, kaupir allar niðurstöður, raðar sjálft á blað skoðanakannanna og heilaþvær venjuleg fólk án hjálpar. Síðasta könnun sem LÍÚ gerði heilaþvoði VG og Samfó þannig að Sjallarnir voru "kórdrengir" í samanburði.

Bullið sem lekur af vörum fólks er líkt og því sé ósjálfrátt.

Sindri Karl Sigurðsson, 30.1.2011 kl. 09:56

8 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Jóhannes, ýmislegt gott er í þínum tillögum að finna, þó deila megi um verndurnaraðferðir, en kvótinn er fyrst og fremst hugsaður til að skipta þeim afla, sem talið er óhætt að veiða, á milli fiskiskipa.

Í mínum tillögum er kvótanum viðhaldið, en algerlega tekið fyrir alla kvótasölu og -leigu.

Ekki er nú málefnaleg innleggin frá Gísla og Sindra og reyndar ber nú á ómálefnalegum staðhæfingum í athugasemd þinni, Jóhannes.

Öll umræða um málefnið er af hinu góða og einn ráðherra, eða einn stjórnmálaflokkur á ekki að ráða stefnunni til framtíðar. Það verður að gera í sátt og samlyndi við hagsmunaaðila.

Axel Jóhann Axelsson, 30.1.2011 kl. 12:51

9 identicon

Við þurfum ekki aðrar verndunaraðferðir en þær, sem debet og kredet stjórna.  ef veitt er of mikið af fiskitegundum þá byrja sumar útgerðir að tapa, þær verða þá að leggja skipum eða fara á hausinn, þá minnkar sóknin í veiðistofnana og veiðin eykst á sóknareiningu eftir einhvern tíma.  Utgerðir sem eftir verða fara að græða og það verður pláss fyrir þá báta sem var lagt, ef Bankar vilja lána í þær útgerðir.

Allur afli á uppboð bæði frosinn og ferskur og 5% gjald rennur til ríkis.

Hallgrímur Gísla (IP-tala skráð) 30.1.2011 kl. 13:19

10 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Axel, þú segir,"en kvótinn er fyrst og fremst hugsaður til að skipta þeim afla, sem talið er óhætt að veiða, á milli fiskiskipa."
Þetta er einfaldlega ekki rétt. Aðeins fáar tegundir eru ofveiddar og þarf að vernda ef einhverjar. Kvótakerfið er í dag tæki til að hindra aðgang að fiskimiðunum. Hugsaðu þér hugtakið þorskígildi, með því hefur tegundum verið breytt fram og aftur allt án tillits til heildarkvóta. Þegar skötuselur var settur í kvóta höfðu engar rannsóknir farið fram á þeim stofni. hann hafði aðeins veiðst sem meðafli á togveiðum. Síðan er hann settur í kvóta og afleiðingin varð stórkostlegt brottkast og löndun fram hjá vigt. Og það er þessi sóun sem felst í brottkastinu og svindlinu sem skekkir allar mælingar á þessum stofnum, ef menn á annað borð vilja taka mark á mælingum sem ég geri ekki. Einfaldlega af því ég veit hvernig þetta er á sjónum. Fiskurinn syndir og það þarf að hitta á hann til að veiða. Það var ekki fyrr en friðunin gekk út í öfga að hægt er að ganga að fiskinum vísum, einfaldlega af því það er svo mikið af honum. Og af hverju er alltaf veitt nákvæmlega útgefinn kvóti? Vegna þess að þetta er bara bókhaldfiff, útgerðamenn stemma kvótabókhaldið í lok hvers árs eftir reglum fiskistofu og allir eru happy. Og kerfið viðurkennir ekki slæma umgengni. Handhafar berjast á móti afnámi kerfisins af því það myndi ekki auka þeirra hlut. Þvert á móti myndi aukningin að mestu ganga til nýliða í greininni og þeir þyrftu ekki að leigja eða kaupa sér aflaheimildir. Þá þyrftu líka kvótakóngar að fara að veiða sinn kvóta og þá gætu þeir ekki beitt atvinnurekenda valdi sínu til að kúga stjórnvöld, kúga eigin starfsmenn og kúga sveitastjórnir út um allt land. Kerfið þarf að leggja niður. Ekkert annað kemur til greina í mínum huga

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 30.1.2011 kl. 14:02

11 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Þá þyrftu útgerðamenn að gera út sér til lífsviðurværis átti það að vera. Ekki veiða sinn kvóta.  Sýnir að heilaþvotturinn hefur haft áhrif og maður þarf að vanda framsetningu  Og einnig vil ég minna á að útgerðamenn eiga fulltrúa í stjórn Hafrannsóknarstofnunar. Finnst ykkur það eðlilegt að hagsmunaaðilar ráði stofnun sem stjórnar kerfinu?  Og fyrst einhver talaði um paranoiu varðandi áróðurinn þá vil ég minna á að LÍÚ greiddi laun Helga Áss grétarssonar hjá Háskólanum. Þið getið svo googlað Helga Áss og kynnt ykkur málflutning hans og myndað ykkur sjálftstæða skoðun. Ég veit að hann var og er leigupenni

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 30.1.2011 kl. 14:14

12 Smámynd: Sindri Karl Sigurðsson

Ómálefnanleg umræða! Það er nú akkúrat vandamálið við þessa einræðu sem nú fer fram Axel. Það sem ég setti inn að ofan get ég fullkomlega staðið við. Það er meira en margur getur í dag...

Sindri Karl Sigurðsson, 30.1.2011 kl. 15:47

13 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Jóhannes, ég er ekki eins sannfærður og þú um að frjálsar veiðar, án allra takmarkana, gætu gengið til lengdar, en t.d. samkvæmt minni tillögu yrði ekki hægt að selja eða leigja kvóta, heldur yrði hvert skip að veiða afla, sem miðaður væri við afla þess sama skips á síðustu þrem árum fyrir hverja úthlutun. Með því móti yrðu útgerðarmenn að reka sín fyrirtæki af aflanum einum saman, en ekki kvótabraski. Einnig hyrfi hugtakið "þorskígildi" algerlega út úr tungumálinu á ný.

Jafnframt opnaðist möguleiki fyrir nýliða að komast inn í kerfið og allar viðbætur við kvóta yrðu boðnar upp og engum dytti í hug að bjóða í hann, nema eiga skip sem gæti veitt hann innan ársins, því ekki yrði heimilt að selja hann, leigja eða flytja milli ára.

Með þessu fengist líka festa í skipútgerðina, því enginn getur gert út með þeirri óvissu sem myndi fylgja því að þurfa að bjóða í og kaupa sér kvóta af ríkinu árlega, enda yrði engin trygging fyrir kvótaúthlutun í slíku kerfi.

Ofan á alt saman yrði greitt auðlindagjald af hverju úthlutuðu fisktonni og þannig yrði þjóðin sæl og kát líka.

Axel Jóhann Axelsson, 30.1.2011 kl. 18:47

14 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Axel, Ég er ekki heldur að tala um alfrjálsar veiðar. Ég er að tala um stýringu í gegnum veiðarfæri og uppstokkun á landhelgislínum og lokuðum svæðum og lokun vegna hrygningar rétt eins og áður. En grundvöllurinn að mínu kerfi felst í því að virðisaukinn verði til í landinu og skiptist milli veiða,vinnslu of ríkis. Ég vil ekki selja veiðileyfi og ég vil tryggja að allir sölusamningar haldi, en ég vil ekki að vinnslan fari fram úti á sjó eða í verksmiðjum í Evrópu eða Bandaríkjunum. Núna reka útgerðarmenn fyrirtækin til að hámarka eiginn gróða. Ég held það þurfi að breyta þeim hugsunarhætti. Það þarf að hafa hagsmuni heildarinnar að leiðarljósi. Ég vil að fiskveiðar standi undir öllum samfélögunum úti á landi aftur og þar verði arðinum af veiðum og vinnslu varið í uppbyggingu samfélagsins og innviði. Arðurinn á ekki að renna til ríkisins eða fara suður í formi gjaldeyristekna eins og viðkvæðið er úti á landi. Skattlagning þarf að minnka og sveitarfélög þurfa að taka yfir meira af þjónustu ríkisins. Í raun ætti öll samfélagsþjónusta að vera í höndum sveitarstjórna. Þetta eru allt þekktar stærðir, það þarf bara að koma á virkri byggðaáætlun. Og auðvitað fellur höfuðborgarsvæðið undir byggðastýringu. Vegna þess að ég lít á fiskveiðar og vinnslu sem undirstöðu byggðar í landinu. Lestu sóknaráætlun og taktu eftir uppgjöf sveitastjórnarmanna þegar þeir lýsa sóknarfærum og styrkleika. Þeir eru hættir að reikna með útgerð og fiskvinnslu. Þeir hafa brennt sig á að reikna með að kvótinn haldist í byggðunum. Þeir vilja frekar treysta á ferðamennsku, iðnað, og matvælavinnslu og þá koma kannski til greina að kaupa fisk á markaði. Þetta er svo dapurleg framtíðarsýn að helst jafnast við arðrán Evrópumanna í nýlendum sínum í Afríku hvernig útgerðarmenn eru búnir að fara með landsbyggðina og fólkið þar

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 31.1.2011 kl. 00:17

15 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Og þegar menn hugsa um fiskveiðistjórnunina sem heildaratvinnu og byggðastefnu þá sést að allar hugmyndir um auðlindagjald eru bara óráðshjal vegna þess að menn sjá ofsjónum yfir velgengni eins þáttar. En velgengnin er á kostnað atvinnusköpunar og byggðar og velsældar. Hér eru gullgrafarar úti um allt að hirða stundargróða án ábyrgðar. Margir segja að frjálsar veiðar leiði til offjárfestingar og ofveiði. Þetta er rangt. Vegna þess að byrjað yrði að stofna vinnslufiritæki og gera sölusamninga, síðan þegar fyrir lægi hver hráefnisþörfin væri þá yrði gerður samningur við sjómenn um veiðar og enginn femgi veiðileyfi nema hafa tryggt sér samning um kaup á aflanum. Sjómenn mættu heldur ekki stunda aðra atvinnu nema að mjög litlu leyti. Sjómannsstarfið yrði gert að lögverndaðri iðngrein.  Hérna áður fyrr fór allt úr böndunum vegna þess að tengslin á milli veiða og vinnslu rofnuðu. Fjárfesting í útgerð fór úr böndunum og aflinn varð svo mikill að hann lá undir skemmdum og sífellt stærri hluti var seldur óunninn úr landi. Þegar gæðamálin voru svona léleg fékkst lágt verð og þetta var aðal ástæða þess að kvótakerfinu var komið á, ekki að um háskalega ofveiði væri að ræða. Og þó ég vilji tengja saman veiðar og vinnslu þarf samt allur afli að fara um uppboðsmarkað. En þann markað mega ekki þeir spenna upp sem senda út ferskan fisk í flugi. Þeim markaði þarf náttúrulega að sinna eins og öðrum en hann má ekki skekkja verðgrundvöll landvinnslunnar. Ég veit að afrakstur fiskstofnanna verður kannski ekki helmingi meiri en er í dag en hann ætti vel að standa undir almennri velsæld allra ef við svo kjósum. Þetta er bara spurning um að skipta kökunni réttlátlega

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 31.1.2011 kl. 00:48

16 Smámynd: Árni Sigurður Pétursson

"Og þó ég vilji tengja saman veiðar og vinnslu þarf samt allur afli að fara um uppboðsmarkað. En þann markað mega ekki þeir spenna upp sem senda út ferskan fisk í flugi. Þeim markaði þarf náttúrulega að sinna eins og öðrum en hann má ekki skekkja verðgrundvöll landvinnslunnar"

 Afhverju má ekki einn kaupandi "spenna upp verð"

þetta er sáraeinfalt, ef að einn fiskkaupandi getur ekki borgað að verð á uppboði sem að annar getur, þá getur hann augljóslega ekki gengið.

Og já, þú talar um að sinna einum markaði, en það megi ekki skekkja verðgrundvöll annars.

afhverju má þá ekki sinna englandsmarkaðinum ?

nú tek ég það fram að ég vinn á fiskmarkaði vestmannaeyja, og það er grátlegt að horfa á allt það magn af fiski fara héðan í burtu í gámum sem að það gerir.

en það eru nokkrar ástæður fyrir því.

verðið er oftar en ekki bara einfaldlega töluvert betra, því er erfitt að neita og fyrir mér er það svo sem næg ástæða fyrir mér.

ef að ég ætti vöru þá mundi ég selja hana hæstbjóðanda, ekki einhverjum öðrum á 20% lægra verði bara vegna þess að hann býr nálægt mér.

en já, síðan er ég nú annsi hræddur um það líka að verð kæmi til með að lækka töluvert á mörkuðunum ef að allur fiskur kæmi á markað.

þar sem að það er um í raun alveg ótrúlegt magn að ræða.

Árni Sigurður Pétursson, 31.1.2011 kl. 08:33

17 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Að sjálfsögðu á að selja þeim fiskinn sem borgar hæsta verðið fyrir hann.  Hins vegar er það svolítið undarlegt að erlendar vinnslustöðvar skuli í sumum tilfellum geta greitt hærra verð fyrir fiskinn en þær íslensku.  Það er rannsóknarefni út af fyrir sig.

Jóhannes, þú virðist ætla að leysa allt of mörg vandamál með því einu að breyta kvótakerfinu.  Það gengur einfaldlega ekki, kerfið verður fyrst og fremst að vera til þess að vernda fiskistofna og ekki annars.  Önnur vandamál verður að leysa á annan hátt, enda er það ekki fyrst og fremst atvinnuleysi sem veldur fólksflótta frá landsbyggðinni, því ekki var minni brottflutningur þaðan áður en kvótakerfið var sett á og erfitt er að fá Íslendinga til að vinna í fiskvinnslu, eins og sannast víða um land, þar sem ennþá er nægan fisk að hafa.

Fólksflutningurinn af landsbyggðinni er annað mál og kemur kvótanum sem slíkum ekki við og því óþarft að flækja umræðuna um fiskveiðistjórnunarkerfið með þeirri umræðu.

Axel Jóhann Axelsson, 31.1.2011 kl. 13:04

18 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Axel, þetta er allt tengt, þú leysir ekki eitt vandamál og lætur þar með hin um að leysa sig sjálf. Hugsaðu svona 30 ár aftur í tímann og reyndu að tengja. En auðvitað þarftu að hafa búið á þessum stöðum sem ég er með í huga og þekki best, Akureyri og Eyjafjarðarsvæðið, Ísafjörð og Vestfirði og Vestmannaeyjar. Stjórnmálamenn sem ekki sjá heildarmyndina geta ekki stjórnað af viti.
Árni Sigurður, að einblína á stundargróðann er nefnilega svo rangt. Heimsæktu síðuna mína og skoðaðu það sem ég hef skrifað undir flokknum sjávarútvegsmál, þá sérðu hugmyndafræðina að baki því sem ég setti hér fram. Fyrst þú ert Vestmannaeyingur þarf ég ekkert að segja þér hve fiskvinnsla er mikilvæg sem undirstöðu atvinnuvegur. Ég bjó lengi í Eyjum og var m.a. 2 ár á Emmunni með Stjána Óskars. Ekki var hann nú hrifinn af þessu kerfi meðan ég var með honum þótt hann seinna seldi sig út úr greininni, en það var ekki honum að kenna, það var það sem kerfið neyddi menn til að gera í boði bankanna

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 31.1.2011 kl. 23:25

19 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

e.s  Og svo gleymdi ég Raufarhöfn. Raufarhöfn hefur kannski farið ver út úr kvótakerfinu og hlutabréfabraskinu en nokkurt annað þorp. En það er enginn að berjast fyrir Raufarhöfn því það eru allir fluttir burtu

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 31.1.2011 kl. 23:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband