Össur upplýsi Fálkaorðumóðgunina í leiðinni

Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, ætlar að kalla bandaríska sendiherrann á sinn fund og mótmæla kröfu yfirboðara hans á hendur Twitter um afhendingu allra gagna Birgittu Jónsdóttur, sem hún setti inn á þann vef í aðdraganda birtingar stolinna skjala og gagna frá bandarískum yfirvöldum.

Auðvitað er meira en sjálfsagt að íslensk yfirvöld styðji eins vel og mögulegt er við bak Íslendinga sem lenda í sakamálarannsóknum erlendis, en í þessu tilfelli er algerlega ótækt að blanda inn í málið að Birgitta sé þingmaður, því málið sem til rannsóknar er kemur þingstörfum hennar ekkert við og ekki einu sinni íslenskum málefnum.

Þar sem þetta mál snýst um upplýsingar úr stjórnkerfi Bandaríkjanna, sem íslenskum ráðherrum, þar á meðal utanríkisráðherranum, þykir sjálfsagt að séu gerðar opinberar fyrir almenningi, jafnvel þó stolnar séu, hljóta íslensk yfirvöld héðan í frá að stjórna landinu fyrir opnum tjöldum og hafi allar upplýsingar um gerðir ráðherranna uppi á borðum, opnum og gagnsæjum hverjum sem hafa vill.

Þannig eiga stjórnvöld auðvitað að haga störfum sínum og ástæða til að hvetja alla til að berjast fyrir opnari stjórnsýslu, hvort heldur sem er hér á landi eða erlendis. Það er heillavænlegra til framtíðar en að haldið verði áfram leynimakkinu og þar með ástæðunum fyrir innbrotum í tölvukerfi og öðrum glæpum.

Össur Skarphéðinsson gæti sýnt gott fordæmi og upplýst bandaríska sendiherrann og íslensku þjóðina um ástæður þess að hann niðurlægði síðasta sendihenna Bandaríkjanna á lokadegi sínum í starfi hérlendis, sem varð til þess að ekki var skipaður nýr sendiherra hérlendis fyrr en eftir nærri heilt ár.

Eftir þessum upplýsingum frá Össuri hefur verið beðið nokkuð lengi.


mbl.is Sendiherrann kallaður á fund
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Axel Jóhann Hallgrímsson

Er það niðurlæging nafni, að bandarískir sendiherrar fái ekki sjálfkrafa Fálkann fyrir að hafa heiðrað landið með nærveru sinni?

Axel Jóhann Hallgrímsson, 8.1.2011 kl. 19:50

2 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Nafni, ég hef bara ekki hugmynd um það hvers vegna sendiherrann var boðaður til Bessastaða, þar sem sæma ætti hann Fálkaorðunni. Enn síður veit ég hvers vegna var hringt í hann, þar sem hann var staddur í bifreið sinni á Bessastaðaafleggjarnum og honum (henni) tilkynnt að búið væri að draga orðuveitinguna til baka, en þó væri heitt á könnunni hjá Dorrit, ef áhugi væri fyrir hendi.

Hvað á bak við þennan ruddaskap lá, hefur aldrei verið upplýst og sjálfsagt ræðir Össur þetta við nýja sendiherrann, þegar hann kallar hann á teppið og upplýsir svo landa sína um hvað þessi dónaskapur snerist.

Axel Jóhann Axelsson, 8.1.2011 kl. 20:18

3 Smámynd: Axel Jóhann Hallgrímsson

Er þetta ruddaskapur? Ég sé ekki fyrir mér sömu áhyggjurnar ef rússneska sendiherranum hefði af sömu ástæðum verið snúið til baka á Bessastaðaafleggjaranum.

Axel Jóhann Hallgrímsson, 8.1.2011 kl. 20:21

4 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Svona framkoma er dóna- og ruddaskapur gagnvart hverjum sem er og þarf ekki sendiherra til.

Hins vegar skil ég ekki þögnina um þessa niðurlægingu gagnvart sendiherranum. Hvað heldur þú að hefði verið sagt á sautjánda júní, ef einhverjum sem búið væri að tilkynna um orðuveitingu yrði snúið við á afleggjaranum?

Þjóðfélagið hefði farið á hvolf vegna slíkrar framkomu og því er furðulegt að ekki skuli hafa verið gert meira úr niðurlægingu þessa fulltrúa erlendrar þjóðar á sínum tíma.

Axel Jóhann Axelsson, 8.1.2011 kl. 20:44

5 Smámynd: Garðar Valur Hallfreðsson

Ég held persónulega það skipta ekki mál frá hvaða landi viðkomandi er, það var þó frekar kjánalegt þegar þetta kom upp á.  Hvort viðkomandi væri bandarískur, rússneskur, spænskur eða einhverrar annarar þjóðar er í raun ekki mikilvægt, ég held að það þætti alveg jafn ruddalegt þótt hann væri rússneskur  ;)

Garðar Valur Hallfreðsson, 8.1.2011 kl. 20:47

6 identicon

Það er alveg rétt hjá Axeli að klúðrið með orðuveitinguna til Carol van Voorst var argasti dónaskapur, og það þarf endilega að upplýsa hvað það var eiginlega sem gerðist.  En að kenna Össuri Skarphéðinssyni um það klúður er vægast sagt afar frumleg hugmynd.  Utanríkisráðherra hefur ekkert með orðuveitingar að gera.  Það er forseti Íslands, í þessu tilfelli Ólafur Ragnar Grímsson, sem veitir orðurnar samkvæmt tillögum þar til gerðrar orðunefndar.  Það er því Ólafur Ragnar sem á að upplýsa þetta mál.

 

Gísli (IP-tala skráð) 8.1.2011 kl. 23:11

7 identicon

Já ég hélt að allt þetta klúður hefði orðið vegna Ólafs Ragnars, var það rangt hjá mér?  Var það Össur sem kom í veg fyrir þetta?

Skúli (IP-tala skráð) 9.1.2011 kl. 02:35

8 Smámynd: Kristján P. Gudmundsson

Getur ekki Wikileaks ekki hjálpað okkur við að upplýsa klúðrið ?

Kveðja, KPG.

Kristján P. Gudmundsson, 9.1.2011 kl. 10:18

9 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Össur fer með samskipti við aðrar þjóðir og fulltrúa þeirra. Hann ætlar t.d. að kalla sendiherrann á teppið vegna Birgittu þó hann annist að öðru leyti ekki nein mál sem falla undir saka- eða dómsmál.

Ólafur Ragnar ákveður ekki hverjir fá Fálkaorðu, hann afhendir þær bara. Þess vegna hlýtur ákvörðunin um svona svívirðilega framkomu gagnvart manneskju sem búið var að tilkynna að heiðra ætti með orðunni að hafa komið frá einhverjum öðrum en Ólafi Ragnari.

Það er einnig stórundarlegt að stjórnarandstaðan skuli ekki hafa krafist upplýsinga um svona furðulegar stjórnarathafnir.

Axel Jóhann Axelsson, 9.1.2011 kl. 11:48

10 identicon

Það er einhver orðunefnd sem ákveður hver fær orðu, hér stendur hverjir sitja í henni: http://forseti.is/Falkaordan/.  Líklega voru þó einhverjir aðrir í henni á þessum tíma.

Skúli (IP-tala skráð) 10.1.2011 kl. 16:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband