17.9.2010 | 11:07
Leynilegar ákærur - nýtt þinghneyksli?
Stórundarlegt atburðir virðast vera að gerast á Alþingi, þar sem grundvöllur ákæra á hendur nokkrum ráðherrum í "hrunstjórninni" eru meðhöndlaður eins og ríkisleyndarmál og þingmenn eiga ekki að fá að vita á hvaða rökum ákærurnar eru byggðar. Minnir þetta á pukur Steingríms J. með Icesavesamninginn, sem Alþingi átti að samþykkja óséðan og án þess að vita nokkuð um innihald hans.
Nokkrir þingmenn óskuðu eftir því á Alþingi í morgun að fá að sjá þau gögn, sem Atlanefndin byggði tillögur sínar um kærurnar á, en samkvæmt fréttinni voru viðbrögðin þessi: "Atli Gíslason, formaður þingmannanefndarinnar, sagði hins vegar að þingmannanefndin hefði m.a. sett sér verklagsreglur, þar sem segði að gögn sem varðar ráðherraábyrgð sé bundin trúnaði. Meðal annars hefði verið kallað eftir gögnum frá sérfræðingum og að minnsta kosti tveir þeirra hefðu ekki samþykkt að vinnugögn þeirra yrðu lögð fram opinberlega."
Vinnubrögð Atlanefndarinnar varðandi ákærurnar á ráðherrana er algerlega óviðunandi og bara það, að afgreiða málið með þrem álitum út úr nefndinni, er hneyksli út af fyrir sig. Alþingi getur ekki verið þekkt fyrir svona vinnubrögð hvað eftir annað og verður nú að gera það sem gera þarf, til að bjarga andlitinu varðandi þessar kærur.
Að sjálfsögðu er það svo sjálfsagt og eðlilegt að birta öll gögn varðandi undirbúning málsins, að slíkt ætti ekki einu sinni að þurfa að nefna og úr því sem komið er, verður að vísa málinu til nefndar, þar sem tillögurnar verði samræmdar og a.m.k. tveim ráðherrum bætt á listann þ.e. Jóhönnu Sigurðardóttur og Össuri Skarphéðinssyni, auk þeirra Geirs Haarde, Árna Matt., Ingibjörgu Sólrúnu og Björgvini G.
Úr þessari dellu verður ekki bætt, nema með einróma samþykkt Alþingis um að stefna öllum þessum sex ráðherrum fyrir Landsdóm.
Umræða um ákærur að hefjast | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Þessi ríkistjórn er svo hrifin af trúnaðarmálum að það endar með því að það verður trúnaðarmál hverjir eru í Ríkisstjórn.Kæmi mér ekkert á óvart miðað við allt pukrið hjá þessu ólánsfólki sem myndar ríkisstjórnina í dag
Sigurbjörn Kjartansson (IP-tala skráð) 17.9.2010 kl. 11:18
Í svona stöðu hljóta alþingismenn að hóta að greiða atkvæði á móti nema þeir fái gögnin upp á borð. Mjög einfalt mál.
Magnús Óskar Ingvarsson, 17.9.2010 kl. 11:21
Að sjálfsögðu greiðir enginn heiðvirður Alþingismaður með tillögu um ákærur á ráðherra, nema hann fái öll gögn í hendur sem tillögurnar eru byggðar á. Annað væri hreint hneyksli og það af stærri gráðunni.
Krafan er einföld: Öll spil á borðið og ef einhver grundvöllur er fyrir ákærum, þá verður þingheimur að sameinast um þær og stefna sex manns fyrir Landsdóm, en ekki þrem eða fjórum.
Axel Jóhann Axelsson, 17.9.2010 kl. 11:26
Ég vil meina að formaður þingmannanefndarinnar, sé kolfallinn á prófinu. Hann leggur fram þingsályktunartillögu, um ákærur á fjórum einstaklingum, byggða á upplýsingum sem hann segist ekki geta birt vegna trúnaðar, við þá er upplýsingarnar veittu. Hefði ekki verið gerð athugasemd við það í upphafi þingfundar, þá hefði eflaust verið ætlast til þess að þingmenn ákveddu bara að taka orð Atla trúanleg, þó svo þeir vissu ekki hvaða upplýsingum talar út frá og annað hvort samþykkja, eða synja tillögunni um Landsdóm.
Atla er svo tíðrætt um stjórnarskrárbundna skyldu sína og annarra þingmanna til að taka afstöðu í málinu. Atli skautar hins vegar framhjá því að þingmönnum beri að taka afstöðu, samkvæmt þeim upplýsingum, sem þeir hafa aðgang að. Hvort sem að það heiti sérfræðiálit, eða eitthvað annað, þá geta þingmenn vart túlkað það sem gild rök fyrir til ákvörðunar, eitthvað sem þeir eru ekki upplýstir um.
Svo talar Atli um það, að sökum þess að þingið hafi skammtað nefndinni tíma til starfsins og svo stytt þann tíma um tvo mánuði, þá hafi ekki gefist tími til þess að kanna alla hluti, sem skipt hefðu getað máli. Atli er þar með gefa það í skyn að hann sé að flytja vanbúna þingsályktunartillögu, þar sem nefndin hafi ekki haft tíma til að kynna sér málin út í ystu æsar.
Þingfundi svo slitið eftir þessa fordæmislausu framsögu Atla og fundarhöld þingflokksformanna og þingmannanefndar auk eflaust einhverra bakherbergja funda í einn og hálfan tíma. Alþingi ræður ekki við málið, því það kemur meingallað og vanbúið út úr þingmannanefnd Atla Gíslasonar.
Kristinn Karl Brynjarsson, 17.9.2010 kl. 13:43
Þessi pólitísku hrossakaup um það, hvort og þá hverjum skuli stefnt fyrir Landsdóm er algert hneyksli og hrein móðgun við þjóðina, að ekki sé minnst á sakborningana, sem ekki fá einu sinni að vita ástæður þess, að þeim verði kannski og kannski ekki, stefnt fyrir dóm, vegna þess að Atli vill ekki upplýsa um hvað að baki býr.
Þessi málsverð er Alþingi til háborinnar skammar.
Axel Jóhann Axelsson, 17.9.2010 kl. 13:53
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.