Margir munu verða fyrir vonbrigðum vegna "gengislána"

Gylfi Magnússon, viðskiptaráðherra, virðist vera orðinn margsaga um gengistryggðu lánin, því stundum telur hann þau mikla búbót fyrir skuldara, annan daginn segir hann lánastofnanirnar muni fara á hausinn, þann þriðja að við millifærslu lánanna til nýju bankanna hafi verið gert ráð fyrir að þau yrðu dæmd ólögleg, en áður hafði hann sagt að þau hefðu verið færð á milli á fullu verði, enda gengistryggingin þá verið talin fullkomlega lögleg.

Á Alþingi fyrir nokkrum dögum datt það upp úr honum, að reiknað hefði verið með að gengistryggingin yrði dæmd ólögleg, en í stað samningsvaxtanna kæmu vextir seðlabankans.  Umfjöllun um þetta má sjá hérna

Annað mál er svo það, að nánast allir sem tóku bílalán, sem tengdust erlendum gjaldmiðlum, telja að þeir muni fá sín lán færð í íslenskar krónur og þau verði uppreiknuð frá útgáfudegi með samningsvöxtunum, en það á þó alls ekki við um öll þessi "gengislán", því orðalag þeirra er mismunandi og hver og einn verður að skoða og rýna vel í orðalag og frágang upphaflega lánaskjalsins.

Sum þeirra, þ.e. þau sem dómur Hæstaréttar nær til, eru þannig frágengin, að höfuðstóll skuldarinnar er tilgreindur í íslenskum krónum, en tekið fram að hann sé verðtryggður með hliðsjón af gengi ákveðinna erlendra gjaldmiðla eða myntkörfu.  Slík gengistrygging var dæmd ólögleg, en sá dómur á ekki við um aðrar útgáfur þessara lána.

Nokkrar útgáfur eru af þessum lánum og í sumum þeirra er höfuðstóllinn skýrt fram settur í erlendum gjaldmiðlum, eða myntkörfu og slík lán virðast standast lög og þau munu því ekkert lækka við dóm Hæstaréttar og því munu margir, sem nú telja sig í góðum málum vegna lána sinna, verða fyrir miklum vonbrigðum, þegar hið sanna kemur í ljós.

Vegna þessa þurfa allir skuldarar að finna til upphaflegt skuldabréf og láta lögfróða menn skera úr um túlkun á lögmæti höfuðstóls þess og tengingar hans við erlenda gjaldmiðla.


mbl.is Afsláttur af eignum dugar ekki til
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Haraldsson

Gylfi er nýi Ragnar Reykás okkar

Sigurður Haraldsson, 27.6.2010 kl. 11:36

2 Smámynd: Klukk

Þessi lán voru ólögleg líkt og um okurlánastarfsemi hefði verið að ræða og því eiga fórnarlömbin rétt á endurgreiðslu + skaðabótum frá viðkomandi lánastofnunum, auk fullra vaxta frá útgáfudegi skuldarinnar.

Það þarf enginn að semja um neitt við neinn. Þetta er alveg skýrt.

Klukk, 27.6.2010 kl. 12:19

3 Smámynd: Sigurður Haraldsson

Einmitt Klukk.

Sigurður Haraldsson, 27.6.2010 kl. 12:38

4 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Það þarf enginn að semja um eitt eða neitt vegna lánanna, þar sem höfuðstóllinn er tilgreindur í íslenskum krónum, en með gengisviðmiðun.  Um þau hefur falli alveg skýr dómur í Hæstarétti.

Hin lánin, þar sem höfuðstóllinn er tilgreindur í erlendum myntum, flokkast væntanlega undir að vera erlend lán og því eru þau væntalnelga lögleg og standa óbreytt eftir Hæstaréttardóminn.  Þeir sem skulda slík lán, munu því ekki fá neina lækkun á þau og engan endurreikning.  Lán í erlendum gjaldeyri hafa alltaf verið talin lögleg, enda viðgengist áratugum saman hér á landi.

Þess vegna var ég nú að hvetja fólk til að rýna vel í sína lánapappíra og vegna mismunandi forma þeirra, að fá lögfróða menn til að segja til um, hvort þau séu sambærileg við þau skuldabréf, sem Hæstiréttur dæmdi um.

Axel Jóhann Axelsson, 27.6.2010 kl. 12:49

5 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Hæstiréttur tilgreindi með nokkrum skýrum hætti hvaða lána dómurinn nær til. Það eru lán þar sem lánsfjárhæð er tilgreind í krónum og greidd út í krónum, og afborganir eru tengdar gengi en greiddar í krónum skv. greiðsluáætlun. Ef orðið "gengistrygging" kemur fram einhversstaðar á samningnum fellur hann klárlega undir þetta.

Guðmundur Ásgeirsson, 27.6.2010 kl. 13:31

6 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Guðmundur, það er rétt að dómurinn er skýr varðandi þau lán sem hann nær til.  Hins vegar eru nokkrar gerðir til af þessum lánum, í sumum tilfellum getur verið vafamál, en öðrum er um hrein erlend lán að ræða.

Ein gerðin hljóðar t.d. upp á svo og svo háa skuld í t.d. jenum og frönkum, sem skuli endurgreiðast í íslenskum krónum.  Greiðsluseðlarnir eru síðan í mynt og umreiknaðir í krónur.  Í þessu tilviki myndi maður telja að lánið teldist erlent, en ef upp kemur ágreiningur um það, getur enginn skorið úr því, nema Hæstiréttur.

Ég ítreka, að ég er að vekja athygli á þessu, vegna þess að ég hef orðið var við það hjá fólki í kringum mig, að það telur dóm hæstaréttar eiga við um nánast öll bílalán, nema þau íslensku sem eru með verðtryggingu miðaða við neysluverðsvísitölu.

Þess vegna má reikna með að margir verði fyrir vonbrigðum, þegar þeir fara að skoða skuldabréfin sín.

Axel Jóhann Axelsson, 27.6.2010 kl. 13:48

7 Smámynd: Kristinn Karl Brynjarsson

Í ljósi þessa alls Axel, er það með ólíkindum, að "skjaldborgarparið" hafi komið í veg fyrir að frumvarp Sigurðar Kára, um flýtimeðferð Hæstaréttar, hafi náð fram að ganga og talið nóg að bíða með þessi vafaatriði til haustsins. 

Maður spyr sig, hvort að nafnið Sigurður Kári, veki upp það mikið hatur hjá parinu, að það lætur hagsmuni fólksins í landinu gjalda þess.

Kristinn Karl Brynjarsson, 27.6.2010 kl. 14:53

8 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Kristinn Karl, mjög líklegt er að nafnið eitt dugi til að skella öllu í baklás hjá þessu pari, en annars er stjórnun þeirra svo ógæfuleg á öllum sviðum, að eins getur verið að almenn vanhæfni til að hugsa rökrétt hafi ráðið ferðinni hjá þeim.

Axel Jóhann Axelsson, 27.6.2010 kl. 14:59

9 identicon

Axel. ég hef séð mikinn fjölda bílalána, þau eru næstum alveg eins, hjá Avant, SP, Glitni fjármögnun og Lýsingu.  Ekkert þeirra gæti flokkast sem erlent lán  m.v. dóminn- en ef þú ert með dæmi um þesskonar lán, myndi ég gjarnan vilja sjá.

pósturinn minn er thordisbs@simnet.is

Þórdís (IP-tala skráð) 27.6.2010 kl. 21:09

10 Smámynd: Sigurður Sigurðsson

Þó að ég sé ekki sérstaklega hrifin af Jóku og Steinka þá er enn minna hrifin af Sigurði Kára og fer baklás og mínus í hvert skipti sem ég heyri á hann minnst.

Þetta með lánin er auðvitað kristaltært ef lánið hefur verið greitt út í kr og greitt af því kr. þá er það ólöglegt að innheimta það eins og um erlent lán væri að ræða. 

Bílalán og húsnæðislán eru smámunir miðað við skuldbindingar atvinnulífsins. Það er meiriháttar klúður í gangi hjá fjármálastofnunum varðandi lán til fyrirtækja líka. 

Samningar SP til tækjakaupa fyrirtækja eru nánast eins uppbyggðir og til bílakaupa einstaklinga. Menn eru í biðröðum á lögfræðistofum með málshöfðanir á hendur þeim og Lýsingu fyrir vörslusviptingar og fyrir að hafa þvingað fyrirtæki í gjaldþrot. 

Sigurður Sigurðsson, 27.6.2010 kl. 22:24

11 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Sigurður: Dómur héraðdóms í máli NBI hf. gegn Þráni ehf. sem hæstiréttur hefur staðfest gefur kannski ákveðna vísbendingu um það sem bankarnir standa frammi fyrir varðandi fyrirtækjalánin. Þar óskaði bankinn eftir að fyrirtækið yrði úrskurðað gjaldþrota á grundvelli 870 milljón króna kröfu. Dómurinn úrskurðaði hinsvegar að svo há krafa byggði á ólögmætri gengistryggingu og í staðinn skyldi endurreikna lánið á nafnvirði í krónum talið ásamt áföllnum vöxtum en upphaflegur höfustóll var 357 milljónir. Við þetta lækkaði upphæðin svo mikið að hún var metin innan marka greiðsluhæfis fyrirtækisins og beiðni um gjaldþrotaskipti var því hafnað.

Það hvíslaði því að mér lítill fugl að 70% allra fyrirtækjalána á Íslandi væru gengistryggð og féllu því líklega undir þetta með sama hætti, ég sel það þó ekki dýrara en ég keypti það en sé þetta rétt erum við mjög líklega að horfa framan í bankahrun #2. Vonandi hafa stjórnvöld vit á því í þetta sinn að hirða nýju bankana með húð og hári upp í útlagðan kostnað skattgreiðenda, í stað þess að standa í einhverju vonlausu hálfkáki til að reyna að friða stjórnlausa græðgi erlendra kröfuhafa sem máttu vita betur en að lána glæpamönnum peninga. Það sem þarf að gerast hérna ef við ætlum einhverntíman að komast frá þessu ósködduð er að láta kerfið hrynja algerlega til grunna og byrja frá grunni, ekki með því að reyna að endurreisa gamla kerfið heldur að byggja upp nýtt og heilbrigðara kerfi sem þjónar hagsmunum almennings í landinu.

Þetta verður vissulega sársaukafullt en eins og gamall illa lyktandi plástur er líklega skárra að rífa hann af sárinu í einum rykk heldur en að framlengja kvölina.

Guðmundur Ásgeirsson, 28.6.2010 kl. 00:18

12 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Sigurður, málið snýst ekkert um hvort lán hafi verið greidd út í krónum og afborganir hafi verið í krónum.  Dómur Hæstaréttar snerist um það, að óheimilt væri að gegnistryggja höfuðstól lána sem tilgreindur væri í íslenskum krónum.  Það var dæmt ólögmætt og önnur gerð lánasamninga kom ekkert við sögu í þeim málaferlum.

Guðmundur, Hæstaréttardómurinn vegna Þráins snerist í raun aðeins um lögmæti gjaldþrotaúrskurðar sýslumanns, það hafa bæði lögmenn Landsbankans og Þráins staðfest í fjölmiðlum.  Þar var ekki verið að áfrýja úrskurði um gengistrygginguna, sem slíka, aðeins gjaldþrotaúrskurðinum.  Þannig hefur sá dómur í sjálfu sér ekki þýðingu varðandi gengislánin, en undirréttur var búinn að úrskurða gengistryggingu lána Þráins ógilda, en þeim Hæstiréttur var ekki að fjalla um þann dóm, eins og áður sagði.

Axel Jóhann Axelsson, 28.6.2010 kl. 07:04

13 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Það er rétt hjá þér Axel að dómurinn í máli Þráinns ehf snerist um lögmæti gjaldþrotaúrskurðar sýslumanns. Sá úrskurður er hinsvegar gefinn út vegna túlkunur sýslumanns á útreikningi skuldarinnar. Ef skuldin var reiknuð með gengistryggingu, var skuld Þráins ehf langt yfir greiðsluhæfi, en án gengistryggingar var greiðsluhæfi fyrirtækisins næg. Því fjallar sá dómur vissulega um gengistrygginguna. Það var hún sem réði því hvort Þráinn ehf væri tekin til gjaldþrotaskipta eða ekki, hæstiréttur staðfesti úrskurð sýslumanns um að greiðsluhæfi Þráinns ehf væri næg.

Gunnar Heiðarsson, 28.6.2010 kl. 09:31

14 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Gunnar, í frétt um dóminn sagði m.a:  "Talið var að sýslumanni hafi brostið heimild til að ljúka kyrrsetningargerðinni án árangurs nema áður yrði staðreynt með virðingu hans eða tilkvaddra sérfræðinga að krafa NBI væri hærri en sem næmi verðmæti fasteigna þeirra er Þráinn ehf. hafði sett til tryggingar skuldum sínum við bankann og þess sem hefði getað staðið utan veðbanda og unnt var að gera kyrrsetningu í. Hefði því verið ástæða til að ætla að árangurslausa kyrrsetningin hefði ekki gefið rétta mynd af fjárhag Þráins ehf."

Hæstiréttur telur þarna, að ekki hafi verið búið að skera úr um verðmæti fasteignanna á móti lánunum og því hafnar hann kyrrsetningarbeiðninni.  Hann er því ekki að taka afstöðu til gengistryggingarinnar þarna, þó það skipti svosem ekki höfuðmáli, þar sem hann gerði einmitt það vegna tveggja annarra mála, sem líklegast mun þá gilda um skuldir Þráins hf., eins og annarra.

Bæði lögmenn NBI og Þráins hf. hafa staðfest það í fjölmiðlum að Hæstiréttur hafi eingöngu verið að fjalla um kyrrsetninguna, en ekki gengistrygginguna og því má ekki vitna í Héraðsdóminn vegna hennar, sem það sé dómur Hæstaréttar, því hann var alls ekki að fjalla um það mál.

Axel Jóhann Axelsson, 28.6.2010 kl. 09:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband