Ótrúlega góð niðurstaða Borgarsjóðs

Ársreikningur Reykjavíkurborgar var lagður fram í dag og sýnir ótrúlega góðan rekstrarárangur, ekki síst miðað við hvernig efnahagsástandið hefur verið í landinu eftir bankaránshrunið.  Engir skattar voru hækkaðir hjá borginni á árinu og engin þjónustugjöld heldur.

Þessi rekstrarárangur sýnir góða og ábyrga efnahagsstjórn, sem ekki síst er að þakka þeim breyttu vinnubrögðum, sem tekin voru upp við stjórn borgarinnar eftir að Hanna Birna Kristjánsdóttir tók við borgarstjóraembættinu og gjörbreytti öllum vinnubrögðum, bæði með meira og  betra samstarfi við starfsfólk borgarinnar og minnihlutann í borgarstjórn.  Allir muna eftir þeim illdeilum og erfiðleikum sem voru orðin viðvarandi í borgarstjórninni fyrir þann tíma, en nú orðið verður ekkert vart við slíkt og samvinna meiri- og minnihluta með ágætum.

Eins sýnir þessi árangur að rekstur borgarinnar er ekkert grín eða fíflagangur, eins og fólk virðist ætla að kjósa yfir sig í komandi borgarstjórnarkosningum og leggja þannig framtíð borgarinnar á óvissutímum undir í einhverskonar meiningu um, að með slíku verði stjórnmálamönnum kennd einhver lexía í siðvæðingu.

Eina lexían sem myndi lærast á slíku er hvað langdreginn brandari er hræðilega leiðinlegur.


mbl.is Borgarsjóður rekinn með 3,2 milljarða hagnaði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ragnar Gunnlaugsson

Þarna er greinilega vel að verki staðið.

Ragnar Gunnlaugsson, 4.5.2010 kl. 17:54

2 Smámynd: Ólafur Ingi Hrólfsson

Það er von að borgarbúar vilji helflokka ríkisstjórnarinnar og brandarabanka í staðinn fyrir ábyrga stjórn -

grínið gæti reyndar orðið borgarbúum dýrt.

Höldum Hönnu Birnu sem borgarstjóra - það er farsælasta lausnin.

Ólafur Ingi Hrólfsson, 4.5.2010 kl. 18:06

3 identicon

Er þetta eitthvað grín!?

Orkuveitan greiddi fleiri hundruð milljónir í arð til borgarinnar á síðasta ári þrátt fyrir slæma stöðu. Þetta eru ekkert annað en bókhaldssvik af sömu tegund og mörg útrásarfyrirtækin stunduðu! Borgin blóðmjólkar þau fyrirtæki sem eru í eigu borgarbúa til þess eins að fegra stöðu sína.

Og fréttaliðið hefur þetta bara eftir borgarstjórninni án þess að skoða nokkuð hvað er undirliggjandi þessum merka "árangri". Þessi frétt er því líka enn einn áfellisdómurinn yfir íslenskri fréttastétt!

Kristinn (IP-tala skráð) 4.5.2010 kl. 18:54

4 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Kristinn, það er nú ekkert nýtt að Orkuveitan greiði arð í Borgarsjóð, það hefur tíðkast í áratugi og reyndar var arðgreiðslan hækkuð í tíð R-listans. 

Það er sorglegt að sjá fólk berja höfðinu svona við steininn.  Það verður bara til þess að menn fara sér að voða.

Axel Jóhann Axelsson, 4.5.2010 kl. 19:40

5 identicon

Ég sé ekki að ég sé að berja höfðinu við steininn heldur þvert á móti vil ég fá allar upplýsingar upp á borðið. Maður þarf heldur betur að vera fús til þrældóms og undirgefni ef að nú skal kyngja því sem kemur nú frá borgarstjórninni þegjandi og hljóðalaust.

OG Skítt með það hverjir hækkuðu arðgreiðsluna. Hún átti engan rétt á sér! Það hafa nýverið fallið dómar vegna arðgreiðslna frá fyrirtækjum sem eru rekin með tapi. Orkuveitan tapaði 73 milljörðum á árinu 2008 en greiddi samt arð í maí mánuði 2009. Tap ársins 2009 var svo aðeins 2,5 milljarðar.

Þetta er bara gott dæmi um það hvernig þetta lið hugsar sem rekur borgina. Ársreikningur borgarinnar er fegraður á kostnað undirfyrirtækjanna sem á endanum verða að hækka gjaldskrár sínar það mikið að borgarbúar verða étnir frá hinum endanum á sama tíma og borgarstjórnin hrósar sér fyrir það að hækka ekki útsvar.

Þetta er sérlega glæsilegt eða hitt þó heldur.

Kristinn (IP-tala skráð) 4.5.2010 kl. 23:02

6 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Ekki man ég hvað þessi arðgreiðsla var há, en það er varla sú upphæð, að öllu máli skipti um þessa niðurstöðu.  Orkuverð þarf örugglega að hækka á næstunni, enda getur það varla staðið í stað árum saman, þega allt annað hækkar og ég kalla það nú ekki að vera étinn frá hinum endanum, þó raunverð sé greitt fyrir orkuna, sem hér er miklu lægra en nokkursstaðar annarsstaðar þekkist.

Þó það sé nú aukaatriði, þá gilda ekki sömu lög um orkuveitur og gilda um einkahlutafélög, hvað arðgreiðslur varðar, þannig að þessar greiðslur eru ekki ólöglegar.  Það skiptir líklega svona neikvæðan mann eins og þig engu máli, eða hvað?

Axel Jóhann Axelsson, 4.5.2010 kl. 23:57

7 identicon

Neikvæður, alls ekki. Þetta er hins vegar spurning um siðferði og hvernig menn fara að því að "fegra" niðurstöðuna. Þessar aðgerðir borgarstjórnar verða ekki varðar með nokkru móti. Þetta segir sig sjálft.

Ef að þú nennir að kynna þér málin, þá er ársreikningur Orkuveitunnar opinbert gagn og öllum aðgengilegur. Og varðandi orkuverð á Íslandi, þá er lágt orkuverð á Íslandi ein helsta forsenda þess að það sé lifandi á þessu landi. Það er alveg fyrirséð að daginn sem að Landsvirkjun verður einkavædd, þá margfaldast orkuverðið og verður sambærilegt á við það sem það er í nágrannalöndum okkar. Ég hef búið erlendis og veit því aðeins hvernig reikningurinn er þar. Það er hagsmunamál fyrir Íslendinga að orkuverð haldist áfram lágt, en ein af forsendum þess að svo verði áfram er að fólk vinni vinnuna sína raunverulega vel. Ég er ekki sammála þér um að borgarstjórnin hafi unnið vinnuna sína raunverulega vel þar sem að skítnum vara bara mokað undir teppin á öðrum vígstöðvum sem hentar sitjandi borgarstjórn betur, en almenningur fær samt sem áður að borga brúsann rétt eins og ef að engum bókhaldsbrellum hefði verið beitt þar sem þetta kemur að endanum allt frá okkur.

Lög um einkahlutafélög taka á þessu sem og lög um hlutafélög almennt en þau lög ná yfir öll hlutafélög nema um annað sé kveðið í lögum. Þrátt fyrir að ákvæði um arðsúthlutun sé ekki að finna í "lögum um stofnun sameignarfyrirtækis um Orkuveitu Reykjavíkur" þá er að finna í lögum um sameignarfélög grein um úthlutun fjármuna til félagsmanna. Hvað svo sem að löglegu hliðinni kemur, þá er þetta líka spurning um siðferði og starfshætti.

Nú brutu ekki allir sem komu að hruninu lög en er samt getið í skýrslunni. Finnst þér þá "skýrslan góða" bara vera flott rit um góða viðskiptahætti?

Kristinn (IP-tala skráð) 5.5.2010 kl. 12:58

8 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Þú hefur greinilega ekki fylgst vel með mínu bloggi, Kristinn, ef þú heldur að mér finnist skýrslan góða vera rit um góða viðskiptahætti.  Ég hef gagnrýnt þá viðskiptahætti sem tíðkuðust hjá banka- og útrásarglæpamönnunum frá því að ég byrjaði að blogga og reyndar í mörg ár þar á undan og það vita allir sem til mín þekkja, en því miður var ég oftast afgreiddur sem gamaldags og með úreltan hugsunarhátt, enda kominn yfir fertugt, en í "gróðærinu" virtust þeir sem komnir voru yfir þann aldur ónothæfir og þóttu ekki merkilegir pappírar.

Hvað varðar bókhaldsbrellur og arðgreiðslur í borgarkerfinu, þá er ég bara ekki eins trúaður á þær og þú, því sama uppgjörsaðferð hefur verið notuð síðan á tímum R-listans, þannig að samanburður milli ára er vel marktækur og niðurstaða síðasta ársreiknings sýnir verulegan bata í rekstri borgarinnar.  Hvað erlendar lántökur Orkuveitunnar varðar, þá voru þær auðvitað arfavitlausar, eins og hjá öllum öðrum sem tóku slík lán og voru/eru með allar eða mestallar sínar tekjur í íslenskum krónum.

Því miður eru nokkrir mér nátengdir sem ekki tóku slík viðvörunarorð alvarlega, enda þjóðfélagið gegnsýrt af lánaæðinu og í þeirri súpu sitja menn og fyrirtæki í dag.

Axel Jóhann Axelsson, 5.5.2010 kl. 13:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband