19.1.2010 | 13:18
Aðeins ein skýring
Wouters Bos, fjármálaráðherra Hollands, segir að engin formleg ósk hafi komið frá íslenskum yfirvöldum um nýjar viðræður um Icesave og Hollendingar muni ekki hafa frumkæði að þeim. Hann segist verða að bíða þjóðaratkvæðagreiðslunnar á Íslandi, án þess að fram komi, hvað hann ætli að gera, eftir að lögin verða felld þar, með afgerandi meirihluta.
Íslensk stjórnvöld virðast ekkert vera að gera, eða ætla að gera, til þess að leiða íslensku þjóðina út úr þeirri ánauð, sem hún er búin að semja um að hneppa skattgreiðendur í, og vekur það upp spurningu um hvers vegna það geti verið.
Eiríkur Tómasson, lagaprófessor, hefur skýrt frá því, að hann hafi í störfum sínum fyrir ríkisstjórnina, séð "hliðarsamninga" við sjálfan Icesave samninginn, sem ekki hafi verið birtir og því gat hann ekki tjáð sig um innihald þeirra.
Í þessum "hliðarsamningum" hlýtur skýringin að liggja og það eina, sem skýrt getur hörku Breta og Hollendinga í málinu og undirlægjuhátt ríkisstjórnar Íslands, er að þessi leyniskjöl innihaldi samning um að ESB muni yfirtaka Icesave samninginn, eftir að Íslendingar hafi samþykkt inngöngu í bandalagið. Önnur skýring getur einfaldlega ekki komið til greina, því svo brjálæðislegar klyfjar samþykkir engin ríkisstjórn, fyrir hönd sinnar þjóðar, en að sama skapi eru þetta smáaurar fyrir ESB að yfirtaka.
Sé þetta raunin, verður skiljanlegt, hvers vegna ríkisstjórnin berst svo hatrammlega fyrir þessum samningi, sem allir eru sammála um, að er Íslendingum ofviða.
Það er verðugt rannsóknarefni fyrir alvöru fjölmiðlamenn, að grafast fyrir um það, um hvað þessir "hliðarsamningar" fjalla og upplýsa almenning um það, úr því að ríkisstjórnin sér ekki sóma sinn í að leggja öll spil á borðið fyrir þjóðaratkvæðagreiðsluna.
Engar viðræðuóskir frá Íslandi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Hér með tilkynnist að öll vinna við hagstjórn á Íslandi mun liggja niðri þar til að lokinni þjóðaratkvæðagreiðslunni 6. mars. Þeir, sem þessi störf rækja venjulega, verða í fríi til 8. mars. Þeim, sem vilja koma athugasemdum á framfæri, vegna þessarar tilkynningar, skal bent á skrifstofu forseta Íslands. Þar eru örlög þjóðarinnar í gjörgæslu.
Ursus, 19.1.2010 kl. 14:05
Hagstjórn hefur engin verið á Íslandi síðast liðið ár hvort sem er, og fari stjórnsýslan í frí, þá veldur hún að minnsta kosti engum skaða á meðan.
Það væri betra að gera ekki neitt, heldur en flækjast fyrir atvinnuuppbyggingu í landinu.
Axel Jóhann Axelsson, 19.1.2010 kl. 14:14
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.