Óstjórn og klúður á Alþingi

Þingflokksformenn Samfylkingarinnar og VG klúðruðu því að koma frumvörpum um lagabreytingar vegna olíuleitar á Drekasvæðinu inn á lista yfir þau frumvörp sem nauðsynlegt var að afgreidd yrðu fyrir þingslitin um síðustu helgi.

Samstaða hafði náðst milli allra stjórnmálaflokka um málið, þannig að ekki hefði átt að taka langa stund að afgreiða það í gegn um þingið, en vegna óstjórnar og klúðurs við skipulag vinnunnar á þinginu síðustu dagana döguðu frumvörpin uppi og verða ekki afgreidd fyrr en í september n.k., ef ekki gleymist að leggja þau fram þegar þing kemur saman að nýju í haust.

Útboðsgögn hafa þegar verið útbúin og kynnt erlendis og miðuð við að lagabreytingin væri komin til framkvæmda áður en formlegt útboðsferli hæfist, en það átti að gerast þann 1. ágúst n.k.

Vegna þessara dæmigerðu handarbakavinnubragða ríkisstjórnarflokkanna er nú allt útlit að fresta verði útboðinu um olíuleitina.

Þetta mál sker sig svo sem ekkert úr öðrum vinnubrögðum ríkisstjórnarinnar.


mbl.is Olíuleitarútboði frestað?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sá yðar sem syndlaus er......

Kirkjuþing hefur í dag fjallað um skýrslu rannsóknarnefndarinnar sem yfirfór viðbrögð kirkjunnar manna við ásökunum á hendur Ólafi Skúlasyni, fyrrv. biskupi, um kynferðislegt ofbeldi sem hann framdi gagnvart nokkrum konum um það bil þrjátíu árum áður en ásakanirnar voru bornar fram.

Þeir glæpir Ólafs Skúlasonar eru algerlega óafsakanlegir, en hins vegar er hik og vandræðagangur þeirra presta sem að kærumálunum komu skiljanleg í því ljósi að atburðirnir gerðust áratugum áður og beindust gegn æðsta manni kirkjunnar.

Enn er hamast á prestunum, sem að málinu komu og höndluðu það vissulega klaufalega, en í skrifum margra á blogginu er nánast látið eins og þessir prestar hafi verið samsekir um nauðganir, en ekki verið að fjalla um löngu liðna atburði. Margur ómerkingurinn krefst þess að núverandi biskup og jafnvel fleiri, segi af sér embættum vegna aðkomu sinnar að málunum og meira að segja tekur sóknarpresturinn í Grafarholti, Sigríður Guðmarsdóttir, þátt í þessum ljóta leik.

Nú er meira en mál að linni og þó ekki sé í raun hægt að fyrirgefa Ólafi Skúlasyni hans gjörðir, er auðvelt að fyrirgefa þeim sem að málinu komu og reyndu að finna botn í það, þó klaufalega hafi verið að því staðið.

"Sá yðar sem syndlaus er, kasti fyrsta steininum" sagði upphafsmaður kristninnar forðum.

Margur mætti hugsa til þeirra orða núna.


mbl.is Nefnd bregðist við skýrslunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aðgerðaleysi stjórnarinnar festir atvinnuleysið í sessi

Greinilegt er á tölum um skráð atvinnuleysi að stjórnvöld gera ekkert af því sem í þeirra valdi stæði til að liðka fyrir atvinnuuppbyggingu, því samkvæmt áætlun Vinnumálastofnunar mun sáralítið fækka á atvinnuleysisskránni í júní, þó atvinnuástandið sé alltaf best yfir sumarmánuðina.

Í fréttinni segir um spá Vinnumálastofnunar: "Vinnumálastofnun áætlar að atvinnuleysið í júní 2011 minnki m.a. vegna árstíðasveiflu og verði á bilinu 6,7 % ‐ 7,1 %."  Atvinnuleysið í aprílmánuði mældist 8,1%, þannig að ekki mun fækka á atvinnuleysisskránni á þessu tímabili nema um c.a. eitt þúsund manns, eða rúmlega það, og verður það að teljast afar lítil árstíðasveifla.  Þess ber þó að geta að stofnað hefur verið til atvinnubótavinnu fyrir talsverðan hóp námsmanna, en á móti kemur að yngsti árgangurinn hefur verið strikaður út úr Vinnuskóla borgarinnar og reyndar fleiri sveitarfélaga.

Ríkisstjórnin hefur marg lofað að hætta að flækjast fyrir eðlilegri atvinnuþróun í landinu, en því miður hefur verið lítið um efndir þeirra loforða, eins og annarra frá þessari lánlausu stjórn.  Jafnvel þó hún hysjaði upp um sig brækurnar og hætti andstöðu við einhver þeirra fyrirtækja sem áhugi er á að koma á fót í landinu, er nú svo langt liðið á árið að lítið myndi gerast í þeim málum fyrr en í fyrsta lagi á árinu 2012, þannig að atvinnuleysi mun a.m.k. verða mikið út þetta ár og líklegast af öllu mun atvinnuástandið lítið batna fyrr en ríkisstjórn kemst til valda í landinu, sem ekki er staurblinduð af kommúnisma og annarri vinstri villu.

Vonandi rennur sá tími upp áður en allt of langt um líður. 


mbl.is Atvinnuleysi mælist 7,4%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 14. júní 2011

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband