Besti vinur Steingríms J. í útlöndum

Steingrímur J. barðist hetjulega á síðasta ári fyrir þeim draumi sínum og ríkisstjórnarinnar, að gera Ísland að skattanýlendu fyrir Breta og Hollendinga, með því að ætla að ganga að fjárkúgunarkröfu yfirgangsþjóðanna skilyrðislaus og án tafar.  Steingrímur og hans vinstri hönd, Indriði H. Þorláksson, létu ekkert tækifæri ónotað til að reyna að sannfæra þjóðina um þær hörmungar sem biðu hennar, yrði svo mikið sem eins dags töf á afgreiðslu málsins.

Svo mikið lá við, að þeir félagar og stjórnarmeirihlutinn allur ætlaði að keyra málið í gegnum þingið með flýtimeðferð, án þess að þingmenn fengju að vita hvað fjárkúgurnarkrafan innihélt og hvað þá að þeir ættu að fá að sjá hana útprentaða.  Sem betur fer, tókst stjórnarandstöðunni ásamt nokkrum þingmönnum stjórnarliðsins að koma því til leiðar að undirgefni ríkisstjórnarinnar við fjárkúgarana var opinberuð og að lokum var kröfunni hafnað af þjóðinni í frægri þjóðaratkvæðagreiðslu.

Nú upplýsir Steingrímur J. að hans helsti vinur og bandamaður á þessum tíma hafi verið annar helsti fjárkúgarinn , sjálfur Wouter Bos, þáverandi fjármálaráðherra Hollands, sem Steingrímur segir að hafi verið sér sérstaklega innan handar og afar vinsamlegur í öllum samskiptum.

Vonandi á Steingrímur J. sem allra fæsta vini í útlöndum.  Þjóðin hefur alls ekki efni á fleiri svona vinum.

 


mbl.is Áhyggjur af umskiptum í Hollandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ótrúlega góð niðurstaða Borgarsjóðs

Ársreikningur Reykjavíkurborgar var lagður fram í dag og sýnir ótrúlega góðan rekstrarárangur, ekki síst miðað við hvernig efnahagsástandið hefur verið í landinu eftir bankaránshrunið.  Engir skattar voru hækkaðir hjá borginni á árinu og engin þjónustugjöld heldur.

Þessi rekstrarárangur sýnir góða og ábyrga efnahagsstjórn, sem ekki síst er að þakka þeim breyttu vinnubrögðum, sem tekin voru upp við stjórn borgarinnar eftir að Hanna Birna Kristjánsdóttir tók við borgarstjóraembættinu og gjörbreytti öllum vinnubrögðum, bæði með meira og  betra samstarfi við starfsfólk borgarinnar og minnihlutann í borgarstjórn.  Allir muna eftir þeim illdeilum og erfiðleikum sem voru orðin viðvarandi í borgarstjórninni fyrir þann tíma, en nú orðið verður ekkert vart við slíkt og samvinna meiri- og minnihluta með ágætum.

Eins sýnir þessi árangur að rekstur borgarinnar er ekkert grín eða fíflagangur, eins og fólk virðist ætla að kjósa yfir sig í komandi borgarstjórnarkosningum og leggja þannig framtíð borgarinnar á óvissutímum undir í einhverskonar meiningu um, að með slíku verði stjórnmálamönnum kennd einhver lexía í siðvæðingu.

Eina lexían sem myndi lærast á slíku er hvað langdreginn brandari er hræðilega leiðinlegur.


mbl.is Borgarsjóður rekinn með 3,2 milljarða hagnaði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Frumættleiðingum neytt upp á dönsku ríkisstjórnina

Danska þingið hefur nú tekið Íslendinga til fyrirmyndar varðandi réttindi samkynhneigðra til frumættleiðingar og samþykkt lög þar að lútandi.  Full ástæða er til að óska Dönum til hamingju með þennan áfanga í innleiðingu fullra réttinda samkynhneigðra á við aðra þjóðfélagsþegna.

Það sem vekur hins vegar ekki síður athygli við fréttina er lokamálsgreinin, sem er svona:  "Bæði Lars Løkke Rasmussen, forsætisráðherra, og Lars Barfoed, dómsmálaráðherra, höfðu áður lýst því yfir að það væri ekki stefna ríkisstjórnarinnar að leyfa samkynhneigðum að frumættleiða. En fyrir rúmu ári neyddi meirihluti þingsins ríkisstjórnina til þess að leggja fram lagafrumvarpið sem nú hefur verið samþykkt."

Þetta sýnir að í Danmörku er þingið miklu sjálfstæðara gagnvart framkvæmdavaldinu en Alþingi er hér á landi.  Á Alþingi er alger undantekning að þingmál stjórnarandstöðu séu samþykkt og hvað þá að þingmannafrumvörp fái hljómgrunn og allra síst frá stjórnarandstöðuþingmanni.

Íslenskir þingmenn ættu að taka Dani sér til fyrirmyndar í þessu efni og hætta að vera eingöngu til handauppréttinga fyrir stjórnarfrumvörp, en eins og þróunin hefur orðið hér á landi, eru helst engin lagafrumvörp samþykkt, nema þau séu lögð fram af ráðherrum og samin af starfsmönnum ráðuneytanna.

Nú er einmitt tíminn til að skerpa hressilega á aðgreiningu löggjafavaldsins, framkvæmdavaldisins og dómsvaldsins.

Alþingi á að setja lögin að eigin frumkvæði og ríkisstjórnin á að framfylgja þeim, ekki öfugt.


mbl.is Samkynhneigðum pörum í Danmörku leyft að frumættleiða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ríkisstjórnin heldur uppi verðbólgunni

Verðbólga hefur farið nokkuð lækkandi enda hefur eftirspurn í hagkerfinu verið lítil, sem engin, og allir hafa haldið að sér höndum vegna peningaleysis og algers skorts á bankastarfsemi í landinu þó bankarnir hafi verið endurreistir, en rekstur þeirra minnir meira á litla sveitasparisjóði, en alvöru bankastofnanir.  Ekki hefur vaxtaokrið heldur blásið fólki í atvinnulífinu bjartsýni í brjóst, því engar fjárfestingar standa undir þeim vaxtakjörum sem hérlendis eru í boði af hálfu seðlabankans.

Greining Íslandsbanka spáir aðeins 0,75% stýrivaxtalækkun á morgun og að þeir verði aðeins komnir niður í 6% fyrir áramót, en í öllum vestrænum löndum eru þeir á bilinu 0-2% og þar er þeim haldið svo lágum til að reyna að örva atvinnulífið og berjast gegn atvinnuleysi.

Í greiningu bankans segir m.a:  "Í apríl hjaðnaði verðbólgan úr 8,5% í 8,3% og er frekari hjöðnun verðbólgunnar væntanleg á næstu mánuðum. Spáum við því að verðbólgan verði komin niður í verðbólgumarkmið Seðlabankans í lok næsta árs og mun fyrr, þ.e. snemma á næsta ári, ef miðað er við verðbólgu án áhrifa af óbeinum sköttum."

Áður hafði því verið spáð, að verðbólgumarkmið seðlabankans myndi nást á seinni hluta þessa árs, en skattahækkanabrjálæði ríkisstjórnarinnar hefur tafið það ferli um heilt ár og reyndar hafa ráðherrarnir hótað því, að skattar verði enn hækkaðir um næstu áramót og ekki mun það slá á verðbólguna, heldur þvert á móti.

Það eina sem hægt er að treysta um þessar mundir er að ef efnahagsástandið batnar á næstunni, þá verður það ekki ríkisstjórninni að þakka, heldur þrátt fyrir gerðir hennar og aðgerðarleysi.

 


mbl.is Spá 0,75% lækkun stýrivaxta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stofnfjárbréf og Nígeríubréf

Árum saman hefur fólk verið varað við svokölluðum Nígeríubréfum, en þau eiga það sameiginlegt að lofa viðtakandanum háum áhættulausum gróða, oftast sem næmi tugmilljónum króna, einungis gegn því að gefa upp bankanúmerið sitt og að sjálfsögðu að greiða kostnað vegna millifærslunnar.  Þrátt fyrir ítrekaðar viðvaranir, er alltaf einn og einn sem lætur glepjast af gylliboðunum og tapar í kjölfarið á því, mismunandi miklu, eftir trúgirni sinni.

Núna kemur fjöldi manna fram í dagsljósið og segist hafa litið á hluta- og stofnfjárbréfakaup, sem fjármögnuð voru með lánum, allt upp í nokkur hundruð milljónir króna, sem áhættulaus viðskipti sem ekki væri hægt að tapa á, einungis væri hægt að græða ótrúlegar fúlgur á viðskiptunum og ef illa færi, þá sæti einungis lánveitandinn í súpunni, en lántakandinn væri þar með laus allra mála, með þegar fengnar arðgreiðslur sem bónus fyrir þessi snjöllu viðskipti.

Jakkafataklæddir menn úr Reykjavík eiga að hafa farið um landið og sannfært fólk um áhættuleysi þessara viðskipta og hver sem á vegi þeirra varð stökk á tilboðið, vegna þess að gróðavonin var svo mikil og áhættan engin.  Reglan um að það sem liti út fyrir að vera of gott til að geta verið satt, var algerlega sniðgengin og stokkið á viðskiptin með gróðavonina eina að leiðarljósi.

Hefðu þessir jakkaklæddu menn verið frá Nígeríu, skyldu þá margir hafa stokkið á vagninn? 


mbl.is Sögðu að lán til stofnfjárkaupa væru áhættulaus
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 4. maí 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband