Ekkirannsókn á rannsóknarskýrslu

Háskólinn í Reykjavík hélt í dag stórmerka ráðstefnu um skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis og varð niðurstaða háskólamannanna að vísbendingar væri að finna í skýrslunni um refsiverða háttsemi í rekstri fjármálastofnana og tengdra aðila.

Sigurður Tómas Magnússon, prófessor við HR, var einn frummælenda á ráðstefnunni og flutti viðstöddum þessa niðurstöðu, ásamt fleiri háskólaborgurum, sem legið hafa yfir skýrslunni undanfarnar vikur.

Niðurstaðan hefði vafalaust markað mikil tímamót, hefði nefndin ekki útskýrt þetta atriði mjög skilmerkilega við kynningu á skýrslunni og gat þess um leið, að nefndin hefði sent fjölda ábendinga til Sérstaks saksóknara, vegna gruns um glæpsamleg atriði, sem nefndin hafði rekist á í rannsóknum sínum.

Sami Sigurður Tómas er einmitt ráðgjafi við embætti Sérstaks saksóknara og hefur því auðvitað vitað allt um skjalabunkann, sem rannsóknarnefndin sendi embættinu strax við birtingu skýrslunnar.

Ólafur, sérstakur saksóknari, og Eva Joly höfðu einnig fyrir löngu komið fram í fjölmiðlum og sagt skýrsluna og ábendingar nefndarinnar styrkja rannsókn þeirra mála, sem embættið hefði til rannsóknar og bætti jafnframt nokkrum í safnið.

Háskólasamfélagið sá aldrei neitt athugavert við banka- og útrásarsukkið, og telur sig nú vera að uppgötva nýjungar í skýrslu rannsóknarnefndarinnar. 

Það er sannkölluð ekkirannsókn.

 


mbl.is Vísbendingar um refsiverða háttsemi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hriktir í myntbandalaginu

Þjóðverjar eru farnir að ókyrrast verulega vegna efnahagsástandsins í mörgum löndum evrulöndum, en nú um stundir er ástandið verst í Grikklandi, en þó stefnir í afar erfiða stöðu víðar, svo sem á Spáni, Portúgal, Írlandi, að ekki sé minnst á ástandið í Eystrasaltslöndunum, sem hafa bundið gjaldmiðil sinn við evruna.

Í gær fór fram fjörug umræða hérna á blogginu um hvor yrði langlífari, evran eða krónan og má segja að brestirnir í evrusamstarfinu séu að koma upp á yfirborðið mun fyrr, en ætla hefði mátt, þó ýmsir sérfræðingar hafi alllengi spáð því að evran væri dauðadæmdur gjaldmiðill, nema með einni sameiginlegri efnahagsstjórn á allri Evrópu og að ESB verði gert að einu ríki.

Þýskaland er langsterkasta hagkerfi Evrópu og Þjóðverjar ráða því sem þeir vilja ráða innan ESB og því eru það stórtíðindi, að þeir séu búnir að fá nóg af ýmsum "bræðraþjóðum" sínum og séu á kurteislegan hátt farnir að viðra þá hugmynd að fækka "bræðraþjóðunum" innan myntsamstarfsins.

Niðurlag fréttarinnar sýnir hvern hug Þjóðverjar hafa til þessara mála, en þar segir:  "Þær raddir verða sífellt háværari í Þýskalandi, bæði á meðal stjórnarliða og stjórnarandstöðu, að Grikkir eigi að hugleiða það að segja sig úr evrópska myntsamstarfinu."

Næst má reikna með að slík "beiðni" verði harðorðari af hálfu Þjóðverja.

 


mbl.is Vilja Grikki af evrusvæðinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Grátlega sorgleg tíðindi

Þau ótrúlega sorglegu tíðindi berast nú um heimsbyggðina að Magðalena Svíaprinsessa hafi slitið trúlofun sinni og Jonasar Beregström.  

Þrátt fyrir að maður hafi ekki haft hugmynd um að þessi merka prinsessa hafi yfirleitt verið til og hvað þá að hún hafi verið trúlofuð honum Jónasi, sem enginn vissi heldur að væri til, þá snerta svona sorglegar fréttir viðkvæma strengi í meyru hjarta og tárin fara að streyma ósjálfrátt.

Undanfarið hefur maður heyrt utanaðsér að ýmis sambönd hafi slitnað á milli para hér innanlands, en ekki séð neinar fréttir af því í fjölmiðlum og hvort það sé af því að maður þekkir engar raunverulegar prinsessur, skal ósagt látið, en að minnsta kosti hefur það aldrei fangað athygli heimspressunnar. 

Það er þó mikil huggun harmi gegn á þessum erfiðu tímum að Viktoría krónprinsessa og Daníels Westling ætla að gifta sig 19. júní í sumar.

Þau gleðitíðindi gera það að verkum, að mögulegt verður að brosa gegnum tárin.


mbl.is Sænsk prinsessa slítur trúlofun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gagnaverið má ekki tefja lengur

Iðnaðarnefnd Alþingis hefur haft samningsdrög við Verne Holding til umfjöllunar síðan í desember, en fram til þessa ekki treyst sér til að afgreiða málið vegna þess að nefndin vildi sjá skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og umsögn hennar um Björgólf Thor Björgólfsson, áður en lengra yrði haldið með málið.

Þetta er fáránlegur dráttur á málinu, þar sem fyrir liggur að eignarhlutur Novators, félags Björgólfs, mun ekki eiga nema 5-7% hlut í gagnaverinu eftir að það verður fullfjármagnað, en 15% atvinnuleysi er nú á Suðurnesjum og verið mun væntanlega skapa um 500 störf og munar um minna á því svæði.

Nú ætlar nefndin að þvæla málinu fyrir sér áfram og veltir upp flóknum leiðum til þess að koma í veg fyrir að Novator nýtist sá hagur, sem fælist í fjármögnunarsamningnum við ríkið, en engan veginn er víst, að slíkt geti gengið upp vegna jafnræðissjónarmiða.

Einfalda leiðin, sem nefndarmenn virðast ekki koma auga á, er að setja það sem skilyrði að Novator selji sinn hlut í fyrirtækinu innan einhvers hæfilegs tíma og hverfi þannig úr hluthafahópnum, ef það skiptir þá yfirleitt nokkru máli, hvort Novator verði áfram með þennan hlut, eða ekki.

Atvinnuhagsmunir á Suðurnesjum eru mikilvægari en svo, að viðunandi sé að þingnefnd ýti málinu á undan sér mánuðum saman.


mbl.is Hugmynd uppi um að Novator njóti ekki arðgreiðslna af Verne
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sætt og súrt

Frönsku landsliðsmennirnir í knattspyrnu, Franck Ribery (Bayern Munchen), Karim Benzema (Real Madrid) og Sidney Govou (Lyon) berjast væntanlega hart hver gegn öðrum þegar félagslið þeirra mætast í keppni og deila þá því eina áhugamáli að leggja andsæðinginn að velli.

Hins vegar virðast þeir vera mestu mátar utan vallar og þegar þeir taka þátt í æfingum og leikjum franska landsliðsins, en þá leggja þeir annað að velli, en andstæðinga sína.

Þá deila þeir súru og sætu og eru elskaðir heitt fyrir vikið.


mbl.is „Ég elska þá alla“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 24. apríl 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband