5.1.2010 | 21:05
Nú veltur allt á norðurlöndunum
Enn á ný heldur Mark Flanagan, fulltrúi AGS á Íslandi, því fram að Icesave komi efnahagsáætlun Íslands hjá AGS ekkert við, svo lengi sem fjármögnun áætlunarinnar sé í lagi. Þetta hefur hann sagt áður, en þá kom einnig fram, að það væru norðurlöndin sem settu þau skilyrði fyrir lánveitingum sínum, að Íslendingar gengju Bretum og Hollendingum á hönd, sem þrælar til áratuga.
Norðurlöndin hafa reynt að mótmæla þessu í öðru orðinu, en staðfesta það í hinu, þannig að afstaða þeirra hefur verið frekar óljós. Ríkisstjórn Íslands virðist hins vegar vera ótrúlega áhugasöm um að sannfæra þjóðina um, að allt fari lóðbeint norður og niður hérlendis ef ekki verði gengið að ítrustu kröfum þrælakúgaranna.
Nú þurfa íslensku ráðherrarnir og stuðningsmenn þeirra innan þings og utan, að ganga til liðs við þjóðina og standa með henni í baráttunni fyrir sanngjarnri endurskoðun samninganna við Breta og Hollendinga og hætta að reyna að hræða íslendinga með sífelldu svartnættisrausi.
Samstaða er það sem þarf að sýna inn á við og út á við, ef árangur á að nást til hagsbóta fyrir þjóðina.
Ríkisstjórnarnefnan á að vera þjóðinni til hvatningar, en ekki til óþurftar á örlagatímum.
![]() |
AGS: Icesave ekki skilyrði |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
5.1.2010 | 17:12
Nú reynir á samstöðuna
Strax er byrjað að rigna yfir íslendinga bölbænum og hótunum úr öllum áttum, ekki bara frá Bretum og Hollendingum, heldur frá norðurlöndunum og AGS. Norðurlöndin gáfu strax út þá tilkynningu, að þau myndu hafa samráð við Breta og Hollendinga um framhald lánveitinga til landsins og Berlinske Tidende spáir Íslandi efnahagslegu svartholi og Aftenposten í Noregi segir að nýr kafli í íslensku sorgarsögunni sé að hefjast.
Stjórnarþingmenn í Hollandi krefjast þess að Ísland verði sett í viðskiptabann og breski bankamálaráðherrann gefur út þá yfirlýsingu að felli þjóðin þrælalögin úr gildi í þjóðaratkvæðagreiðslu, muni AGS hætta allri aðstoð við uppbyggingu efnahags Íslands og lánveitingar sjóðsins verði afturkallaðar.
Enginn reiknaði með að Bretar og Hollendingar yrðu ánægðir með synjun forsetans á staðfestingu laganna, en reikna hefði mátt með, að fulltrúar þessara þjóða teldu upp að tíu, áður en þeir færu að ausa úr skálum reiði sinnar og hóta þjóðinni öllu illu, allt að beinum hernaðaraðgerðum.
Næsta skerf í málinu af hálfu Íslendinga hlýtur að vera að skipa nýja samninganefnd, studda af öllum flokkum, til að leiða málið til lykta og jafnvel að fá eitthvern alþjóðlegan sáttasemjara til milligöngu, enda viðsemjendurnir varla viðræðuhæfir, eins og mál standa.
Þegar málið er komið í þennan farveg, verða Íslendingar að standa saman sem einn maður og sýna umheiminum að hún láti ekki kúga sig til að ganga lengra, en lögin frá 28. ágúst s.l. gera ráð fyrir.
![]() |
Segja efnahagslegt svarthol blasa við |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
5.1.2010 | 15:47
Nú kárnar gamanið
Ólafur Ragnar Grímsson fer í opinbera heimsókn til Indlands á morgun í boði Pratibha Patil, forseta Indlands, og indverskra stjórnvalda og samkvæmt fyrri áætlunum ætlaði Össur Skarphéðinsson og embættismenn utanríkisráðuneytis að vera í föruneyti forsetans.
Fram að þessu hefur verið talið að þeim Ólafi Ragnari og Össuri hafi verið vel til vina, en þau vinabönd virðast hafa slitnað í morgun, þegar forsetinn synjaði nýju útgáfunni af þrælalögum vegna skulda Landsbankans, staðfestingar.
Össur er venjulega með allra skrafhreifustu mönnum og hefur ákaflega gaman af því að tala og ekki síst þegar hann heldur að hann sé fyndinn og sniðugur. Nú er hann hinsvegar fámáll, þegar blaðamenn hafa samband við hann og til marks um það, er þessi setning úr fréttinni: "Nei, var svarið þegar blaðamaður mbl.is spurði Össur hvort hann ætlaði með."
Áður og fyrrum ferðuðust konungar og önnur stórmenni um héruð með trúða sér og öðrum til skemmtunar, en Ólafur Ragnar hefur venjulega haft Össur meðferðis í sama tilgangi.
Í þessari ferð verður hópurinn að skemmta sér við Bollywooddansa.
![]() |
Össur fer ekki með Ólafi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
5.1.2010 | 14:12
Kjósa ekki eftir sannfæringu sinni
Þingmenn sverja eið að stjórnarskránni, sem leggur þeim þá skyldu á herðar, að kjósa ávallt eftir sannfæringu sinni.
Við afgreiðslu nýju ríkisábyrgðarlaganna, bar Pétur Blöndal fram tillögu um að lögunum skyldi vísað í þjóðaratkvæðagreiðslu, en sú tillaga var felld, með 33 atkvæðum gegn 30.
Í yfirlýsingu sinni, vegna synjunar staðfestingar þessara sömu laga, segir Ólafu Ragnar Grímsson, að "yfirlýsingar á Alþingi og áskoranir sem forseta hafi borist frá einstökum þingmönnum, sýni að vilji meirihluta alþingismanna sé að fram fari þjóðaratkvæðagreiðsla um lögin."
Það verða að teljast mikil tíðindi frá forsetanum, að hann hafi undir höndum áskoranir nógu margra þingmanna sem greiddu atkvæði á Alþingi gegn þjóðaratkvæði, sem sýni að meirihluti alþingismanna vilji að málið fari í þjóðaratkvæðagreiðslu.
Í anda opinnar og gagnsærrar stjórnsýslu þyrfti að upplýsa hvaða þingmenn þetta eru, sem ekki þora að standa við sannfæringu sína í þinginu, en leita strax á eftir til forsetans með beiðni um að hann ógildi atkvæði þeirra í alvarlegum atkvæðagreiðslum.
Einn slíkur þingmaður, Ásmundur Einar Daðason, skrifaði sig á áskorendalista InDifence, en eftir er að upplýsa hverjir sneru sér beint til forsetnans, með slík aflátsbréf.
![]() |
Segir meirihluta þingmanna vilja þjóðaratkvæði |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
5.1.2010 | 13:34
Merk tíðindi og nokkuð óvænt
Ólafur Ragnar hefur nú synjað staðfestingar á breytingnarlögunum um afnám flestra fyrirvaranna við ríkisábyrgðina á skuldum Landsbankans og kom sú ákvörðun forsetans mörgum á óvart, vegna tengsla hans við ríkisstjórnarnefnuna, en hann er í raun guðfaðir hennar.
Vilji þjóðarinnar varðandi þessa lagasetningu var algerlega skýr, en í öllum skoðanakönnunum hefur komið fram, að 70% landsmanna voru henni algerlega andvígir og tæpur fjórðungur kjósenda hafði undirritað áskorun á forsetann að skjóta þessari lagasetningu til þjóðarinnar til afgreiðslu.
Þrá Ólafs Ragnars eftir virðingu almennings og ekki síður að komast á spjöld sögunnar, sem dáður fulltrúi þjóðarsálarinnar, réði fyrst og fremst afstöðu hans, fremur en umhyggja fyrir ríkisstjórninni, sem hann hefur þó nokkuð örugglega verið búinn að tryggja, að myndi ekki segja af sér í framhaldinu.
Enginn hefur krafist afsaganar stjórnarinnar vegna þessa máls og nú er áríðandi að þjóðin standi saman í þjóðaratkvæðagreiðslunni og felli lögin úr gildi með yfirgnæfandi meirihluta. Það mun sýna Bretum og Hollendingum að þjóðin lætur ekki bjóða sér hvað sem er í þessu máli, en er samt tilbúinn til að taka á sig viðráðanlegar byrðar til þess að leysa hnútinn.
Eftir að þjóðin verður búin að fella lögin úr gildi, er áríðandi að ný samninganefnd, studd af öllum stjórnmálaflokkum, verði skipuð til þess að ljúka málinu endanlega í sátt við þjóðina, sem orðin er fullsödd á þeim yfirgangi, sem henni hefur verið sýnd af hálfu Breta, Hollendinga, Norðurlandanna, ESB og AGS.
Það sem sagt var í sjálfstæðisbaráttunni, er enn í fullu gildi: "Sameinaðir stöndum vér, sundraðir föllum vér."
![]() |
Telur þetta leiða til sáttar meðal þjóðarinnar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.1.2010 | 09:57
Í anda opinnar umræðu
Ólafur Ragnar Grímsson hefur tileinkað sér það sem ríkisstjórnarnefnan kallar opna og gagnsæja stjórnsýslu, en hún felst í því að leyna öllu, sem hægt er að leyna, blekkja um annað og segja ósatt, þegar það hentar.
Ólafur hefur nú steinþagað í fimm sólarhringa um hvað hann er að pukrast með staðfestingu sína eða höfnun á lögunum um að falla frá flestum fyrirvörum ríkisábyrgðarinnar á skuldum Landsbankans, en lætur nú boð út ganga um að hann ætli að opinbera hugsanir sínar í beinni fjölmiðlaútsendingu skömmu fyrir hádegið í dag.
Þar sem forsetinn er frekar gefinn fyrir athyglina, sem honum tekst að beina að sjálfum sér, þá boðar hann alla fjölmiðla veraldar í hlaðið á Bessastöðum til að hlýða á boðskapinn, en gefur samt ekkert upp um það, um hvað prédikunin á að fjalla.
Í anda opinnar umræðu neitar embættið að gefa upp, um hvað blaðamannafundurinn á að fjalla.
Svona ástand þjónar athyglissýki og lund Ólafs Ragnars best og nærir sjálfsálit hans betur en nokkuð annað.
![]() |
Beðið eftir forseta Íslands |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)