25.1.2010 | 23:25
Vammlaus sómamaður
Friðrik Sophusson, fyrrverandi fjármálaráðherra og síðar forstjóri Landsvirkjunar, hefur verið kjörinn formaður stjórnar Íslandsbanka og verður það að teljast vel valið í stöðuna.
Friðrik er einn besti fjármálaráðherra sem því embætti hefur gegnt og stóð hann fyrir miklum breytingum á ríkisreikningum, þ.e. kom þeim í nútímahorf, en uppgjörsaðferð ríkisbókhaldsins var þá algerlega stöðnuð í fornum vinnubrögðum. Einnig beitti hann sér fyrir stórhertu skattaeftirliti, nýjum vinnubrögðum á skattstofunum og hertri innheimtu skatttekna og allt varð þetta til að gera vinnu við tekjuöflun ríkisins mun skilvirkari, en hún hafði áður verið.
Einhugur er um að hann hafi staðið sig afburða vel í starfi forstjóra Landsvirkjunar og jafnvel hörðustu náttúruvendarsinnar viðurkenna, að hann hafi sinnt náttúruvernd, eins vel og mögulegt er í rekstri og uppbyggingu orkumannvirkja.
Í stöðu formanns bankaráðs Íslandsbanka gat varla valist betri og óumdeildari maður.
![]() |
Friðrik Sophusson formaður ÍSB |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
25.1.2010 | 18:25
Ákærurnar standa óhaggaðar
Þrátt fyrir þann klaufaskap Valtýs Sigurðssonar, ríkissaksóknara, að víkja ekki sæti stax, sem saksóknari í málinu gegn óþjóðalýðnum, sem réðst inn í Alþingi, með ofbeldi, í október 2008, standa ákærurnar fyrir sínu og málið fer fyrir dóm, þó Valtýr hafi dregið sitt bréf til baka frá Héraðsdómi.
Lára V. Júlíusdóttir hefur verið skipaður saksóknari í málinu og mun vafalaust ákæra að nýju, enda um mjög alvarleg afbrot að ræða, hjá þessum hópi misindisfólks, sem bæði truflaði störf Alþingis og slasaði þingverði og lögregluþjóna.
Ekki er með nokkru móti hægt að láta eins og ekkert sé, þegar svo alvarleg afbrot eru framin og furðulegt af fólki, að tala um að forgangsröðun sé ekki rétt, fyrst ekki sé búið að ákæra og dæma aðra glæpamenn.
Glæpir annarra réttlæta ekki framferði þessa hóps og verður hann að standa reikningsskap gerða sinna, eins og aðrir, sem fremja glæpi í landinu.
![]() |
Lára settur ríkissaksóknari |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
25.1.2010 | 16:40
Þvílíkt lið - Þvílíkur leikur
Æsispennandi leik Íslendinga og Króata var að ljúka og spenningurinn var slíkur, að jöfnuður er ekki kominn á sálartetrið ennþá.
Baráttan var ótrúleg á báða bóga og bæði lið stóðu sig stórkostlega í þessum ótrúlega baráttuleik, sem því miður fyrir Ísland, endaði með jafntefli.
Síðustu tíu mínútur leiksins virtust tékknesku dómararnir dæma Króötunum einum of oft í vil og ekki alveg útilokað að dómgæslan hafi kostað Íslendinga sigurinn.
Ekki þýðir þó að gráta það, næsti leikur verður við Rússa og sá leikur mun og verður að vinnast.
Strákunum okkar er vel treystandi til þess, eins og liðið er stemmt þessa dagana.
![]() |
Jafntefli gegn Króötum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
25.1.2010 | 13:18
Nefndin fái þann tíma sem hún þarf
Fram er komið frá Rannsóknarnefnd Alþingis, að hún þurfi lengri tíma til þess að ljúka við skýrslu sína um aðdraganda bankahrunsins og þeirra spillingarmála, sem á borð hennar hafa ratað á rannsóknartímanum.
Ummæli Tryggna Gunnarssonar, nefndarmanns, um að það sem hann hafi kynnst í starfi sínu við rannsóknina sé það versta, sem hann hafi séð á sínum rannsóknaraferli, gefur ýmislegt miður gott til kynna um efnið. Eftir því sem hann segir sjálfur, þá hafi hann "oft verið gráti nær og mjög pirraður yfir því sem maður hefur séð.
Páll Hreinsson, formaður nefndarinnar, sagði á blaðamannafundinum í morgun: "Að þau vandamál sem við erum að kryfja og gera þjóðinni grein fyrir skuli vera stærri og umfangsmeiri en gert var ráð fyrir í upphafi er ekki á ábyrgð nefndarinnar. Þetta er vandamál okkar allra. Ég bið því bæðí þing og þjóð, að sýna okkur biðlund og veita okkur færi á að ganga frá skýrslunni.
Ekki er nema sjálfsagt, að gefa nefndinni allan þann tíma, sem hún þarf, til að ljúka rannsókn sinni og frágangi skýrslunnar, sem mun væntanlega verða um 2.000 blaðsíður, áður en yfir lýkur.
Aðalatriðið er, að rannsóknin verði sem mest tæmandi um þá spillingu sem grasseraði í þjóðfélaginu á þessum tíma og hverjir bera þar ábyrgð.
Það er það, sem máli skiptir, vegna þeirrar hreinsunar, sem fram þarf að fara vegna fortíðarinnar og uppbyggingarinnar í kjölfarið.
![]() |
Gráti nær yfir efni skýrslunnar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
25.1.2010 | 11:10
Auðvitað er líf á öðrum hnöttum
Vísindamenn eru loksins farnir að viðurkenna að líklegt sé, að líf finnist á öðrum hnöttum en Jörðinni og að líkur á að finna það, séu sífellt að aukast.
Hingað til hafa flestir haldið því fram að lífið á Jörðinni væri einstakt í algeymnum og annarsstaðar væri ekkert nema auðn og dauði. Vetrarbrautirnar eru óteljandi og líkur á lífi á öðrum stjörnum því meira en líklegt, nánast öruggt, að gífurlegur fjöldi hnatta hýsi lifandi verur í ýmsum myndum og víða sé þróunin miklu lengra komin, en á því sandkorni alheimsins, sem jörðin er.
Að halda því fram, að jörðin og lífið, sem á henni þrífst, sé það merkilegasta í öllum sólkerfum og stjörnuþokum algeymsins, er álíka mikið mikilmennskubrjálæði og hefur lengi þjáð Íslendinga, sem alltaf telja sig mesta, besta, merkilegasta og fallegasta hér á jörð.
Því miður eru Íslendingar ekki meðal þeirra mestu og bestu í heimi, nema í handbolta.
![]() |
Líkur á að finna líf á öðrum hnöttum aukast |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
25.1.2010 | 08:24
Allir leikir eru úrslitaleikir
Í dag keppir íslenska landsliðið í handbolta við það króatíska, sem er geysiöflugt og vant að vinna stóra tiltla, þó það hafi ekki ennþá unnið Evrópumeistaratitilinn. Þar sem Króatar hafa unnið flest, sem hægt er að vinna í handbolta, annað en EM, er alveg víst, að þeir munu mæta ákveðnir til leiks og munu ekki sætta sig við neitt, nema sigur, enda taplausir það sem af er móts.
Ekki er að efa, að íslenska liðið mun mæta ákveðið til leiks, enda búið að setja sér háleit markmið í mótinu. Liðið er taplaust í mótinu og eftir frækinn sigur á Dönum, munu strákarnir koma vel stemmdir í leikinn, ákveðnir í að sigra. Hver leikur sem eftir er í mótinu er í raun úrslitaleikur.
Svona keppni er eitthvert besta sjónvarpsefni sem til er, ásamt ýmsum öðrum íþróttaviðburðum, en nú hefur RÚV boðað, að hætt verði að sýna frá landsleikjum Íslendinga og verður það að teljast mikil skammsýni, ekki síst ef handboltalandsleikir eru þar meðtaldir.
Burt séð frá því hvað RÚV mun gera í framtíðinni, mun þjóðin standa einhuga að baki strákanna í dag og senda þeim alla þá hlýju strauma og orku, sem hægt er að senda úr fjarlægð.
Það verður mikil gleðistund í leikslok, eftir íslenskan sigur.
![]() |
Króatar eru óárennilegir |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)