Ritskoðunarstofa ríkisins

Katrín, menntamálaráðherra, boðar ný fjölmiðlalög, og þar með stofnun Fjölmiðlastofu, sem ekki kemur almennilega fram hvað á að gera, annað en að fjölga opinberum stofnunum, með tilheyrandi fjölgun opinberra starfa, nú á tímum niðurskurðar í ríkisrekstrinum.

 Mbl. is hefur eftir ráðherranum:  "Að sögn Katrínar er í frumvarpinu gert ráð fyrir stofnun fjölmiðlastofu sem meðal annars er ætlað að sinna eftirliti með fjölmiðlum."  Inn í lögin á einnig að setja fleira, eða eins og segir:  "Þau ná einnig yfir nýja miðla, svo sem netmiðla, sem ekki voru til þegar eldri lög voru sett."

Ráðherrann ætlar að setja frumvarpið á netið, áður en það verður kynnt þingmönnum, líklega til að kanna viðbrögð við þeim og þar með hlýtur hún að vera að gefa í skyn, að þingmenn kunni ekki að nýta sér netið til upplýsingaröflunar. 

Það vakna margar spurningar um hvað þessi stofa á að gera nákvæmlega.   Á þetta að vera riskoðunarskrifstofa?  Hvernig á að tryggja sjálfstæði ritstjórna gagnvart eigendum fjölmiðla?  Verður bannað að reka ritstjóra og blaðamenn, nema með leyfi Fjölmiðlastofu?  Verður Fjölmiðlastofa með aðsetur og jafnvel deild hjá Ríkislögreglustjóra? 

Þetta eru aðeins nokkrar spurningar, sem vakna við lestur stofnunar á þessari "stofu".

Vonandi verður þeim ekki svarað á netinu, því þá gætu þingmenn kannski ekki kynnt sér þau.

 


mbl.is Fjölmiðlastofa hafi eftirlit
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Áskriftarugl

Vegna hagræðingar í rekstri Alþingis, hefur verið ákveðið að hætta að greiða fyrir heimsend dagblöð til þingmanna og sama á að gilda um héraðsfréttablöð.  Það eru sjálfsagt ný tíðindi fyrir flesta, að þessar áskriftir skuli yfirleitt hafa verið greiddar fyrir þingmennina.

Hvað um aðrar áskriftir, t.d. nefskattinn til RUV og áskrift að Stöð 2?  Hvaða önnur hlunnindi eru greidd fyrir þingmenn, beint frá Alþingi?  Þingmenn fá ákveðna upphæð mánaðarlega til greiðslu á ýmsum ótilgreindum kostnaði, sem þeir skila ekki reikningum fyrir, svo ætla hefði mátt að alls kyns áskriftir væru innifaldar í þeirri greiðslu.

Skyldu vera fleiri vinnustaðir á vegum ríkisins, þar sem t.d. dagblaðaáskrift er greidd fyrir starfsmenn.

Það eru áreiðanlega margir smáir liðir, sem ríkið getur sparað og sem samtals geta orðið að einni risastórri upphæð.


mbl.is Alþingi hætt að greiða fyrir heimsend dagblöð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ómerkilegur

Indriði H. Þorláksson, hægri og vinstri hönd Steingríms J., sem átti allan "heiður" af þrælasamningnum við Breta og Hollendinga í samstafi við félaga Svavar Gestsson, svarar, aðspurður um skrif hans um höfnun þrælapískaranna á fyrirvörum Alþingis við uppgjafarskilmálana á þessa leið:   „Mér finnst það ómerkilegra en svo að það taki því að kommentera á það. Þannig að ég hef ekkert um það að segja.“

Samkvæmt fréttinni virðist honum finnast svona ómerkilegt af þeim sem voru vitni að skrifunum, að segja frá því opinberlega og lýsa undrun á lygum Indriða, Steingríms J. og Jóhönnu, meints forsætisráðherra, í hálfan mánuð, um að ekkert hefði heyrst um viðbrögð þrælahöfðingjanna og enn væri verið að bíða svara þeirra.

Indriði neitar því hins vegar ekki að hann hafi verið að skrifa umrædda skýrslu í flugvélinni, fyrir allra augum og í þessu tilfelli er þögn hans auðvitað sama og samþykki.  Engin tilraun er gerð til að útskýra málið, eða reyna að réttlæta lygarnar.

Það er ómerkilegt af Indriða, en þó ekki svo, að ekki taki því að kommentera á það.

Margt fleira mætti um það segja.


mbl.is Tjáir sig ekki um bloggfærslu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tilhlökkun

Nú eru hinir nýju ritstjórar Moggans komnir til starfa og mun breytinga til góðs að vænta á blaðinu, sem þó hefur lengstum verið besti fjölmiðill landsins, en hafði dalað nokkuð frá því að Styrmir lét af störfum.  Blaðið mun vaxa og dafna við ráðningu þessara öflugu ritstjóra og verða skyldulesning allra, sem áhuga hafa á alvöru umræðu um þjóðfélagsmálin.

Ráðningin hefur valdið ótrúlegum tilfinningahita í þjóðfélaginu, einhverjir hafa sagt upp áskrift að blaðinu og væntanlega munu þeir allir snúa aftur fljótlega og ekki er vafi á því að fjölmargir nýjir áskrifendur munu bætast við á næstu vikum og mánuðum.

Fréttin um fyrstu mætingu hinna nýju ritstjóra endar á þessum orðum:  ""Ég býst við að það sé það sem fyrir þeim sem að ráðningunni standa, vaki, að menn notfæri sér þann forða sem menn hafa aflað sér á langri vegferð og ég hlakka til þess að moða úr því,"  sagði Davíð Oddsson."

Það er tilhlökkunarefni að fá að fylgjast með því, að úr þessum forða verði moðað.


mbl.is Nýir ritstjórar til starfa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Milljarður gufaði upp hjá Stoðum/Glitni

Lögmenn reyna nú að rifta ýmsum gjafagerningum stjórenda Stoða (áður FL-Group), sem framkvæmdir voru síðustu tvö ár fyrir gjaldþrot félagsins.  Þar virðist vera um að ræða allar helstu fyrirtækjasölur félagsins, m.a. á móðurfélagi Iceland Express og eins eru til skounar kaupin á TM, en þau voru "fjármögnuð" með hlutabréfum í Stoðum.

Athyglisvert er að tæpur milljaður króna virðist hafa gufað upp inni í Glitni, eða eins og fram kemur í fréttinni:  "Einnig hafa verið athugaðar tvær millifærslur upp á samtals 984 milljónir króna frá FL Group til Glitnis í byrjun september 2008, sem engar skýringar virðast vera á." 

Þetta er þeim mun furðulegra, þar sem fram kemur einnig að:  "Stoðir eru nú í eigu um 200 kröfuhafa félagsins. Skilanefnd Glitnis er stærsti hluthafinn með um þriðjung hlutafjár og NBI með fjórðungshlut."  Það verður að teljast með ólíkindum, ef hægt er að senda tæpan milljarð króna inn í íslenskan banka, án þess að færslurnar skilji eftir sig nokkra slóð, sem hægt er að rekja.

Skyldu Sérstakur saksóknari og Eva Joly vita af þessu?


mbl.is Rifta gjafagerningum fyrri eigenda FL Group
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 25. september 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband